Skip to main content

Höfðingleg gjöf

Á síðast liðnum vetri hringdi Ragnar Imsland þúsundþjalasmiður á Höfn í Hornafirði í forstöðumann Þórbergsseturs og kvaðst vera með svolítinn hlut sem hann langaði til að færa setrinu að gjöf. Þetta var þá ræðupúlt, smíðað af honum sjálfum, mikil listasmíð,  þar sem hann notaði stafagerð Þórbergs til að skrifa og skera út svo fallega nafn setursins á framhlið. Að baki liggja án efa ótal vinnustundir og er gripurinn hannaður af listamanninum þar sem hann nýtir greinilega  smekkvísi og hæfileika sína í þetta einstaka listaverk. Aðstandendur Þórbergssetur þakka af alhug þessa höfðinglegu gjöf og þann góða hug sem liggur að baki. Gefendur eru  hjónin Ragnar Imsland og Júlía Imsland, ræðupúltið kom í góðar þarfir og er nú skartað með því á öllum samkomum Þórbergsseturs

Kínverskir vasar og rússnesk sælgætisskál með töngum

Eftirfarandi bréf og gjafir bárust Þórbergssetri á síðasta ári. Aðstandendur Þórbergssetur þakka kærlega fyrir þann góða hug sem fylgir gjöfum þessum. Hér á eftir verður sá siður Mömmugöggu í heiðri hafður að skenkja gestum konfektmola úr sælgætisskálinni hvenær sem merkileg bjóð verða í Þórbergssetri.  Þess má geta að kínversku vasarnir eru merktir Qianloong 6. keisara sem var uppi 1735 – 1796 í Kína.

Eftirfarandi gjafabréf fylgdi með gjöfinni.
Þórbergur keypti þá á Kínaförinni 1952 og gaf þá Margréti konu sinni þegar heim var komið.

Um árabil var starfrækt fornverslun í Reykjavík sem nefndist Stokkur. Var hún fyrst til húsa að Vesturgötu 3 og síðar á Skólavörðustíg 21. Eigandi hennar var Marsibil Bernharðsdóttir (1912-1996) og gegndi bæði hún og verslunin merkilegu hlutverki í verslunarlífi borgarinnar. Stokkur var vettvangur margs konar viðskipta. Þangað komu menn til að selja, kaupa og eiga vöruskipti og var varningurinn oftast forngripir eða notaðir munir á sanngjörnu verði. Eigandi sá hins vegar til þess að verslunin var eitthvað annað og meira. Hún var lifandi partur af mannlífi og íslenskri þjóðmenningu. Iðulega sat Marsibil og prjónaði lopapeysur sem hún seldi erlendum ferðamönnum í verslun sinni og sjaldan var hún svo önnum kafin að hún gæfi sér ekki tíma til þess að spjalla við viðskiptavini og bar þá oft margt í góma auk umræðna um þá hluti sem falir voru. Ættfræði, pólitískar væringar, almennt siðferði og vangaveltur um lífið og tilveruna voru gjarnan á dagskrá. Af fundi Marsibilar fóru menn ósjaldan með góðan grip í farteskinu og hressir í bragði eftir upplífgandi samræður.

Bróðir minn Ólafur Pétursson (1939-2012) menntaskólakennari  og undirritaður nutum þessara heimsókna í Stokk og þegar verslunin hvarf af sjónarsviðinu, söknuðum við hennar mjög og gerðum okkur ljóst að það skarð sem myndaðist yrði aldrei að fullu bætt þótt margar aðrar góðar verslanir hafi sett sinn svip á antikmarkaðinn í Reykjavík bæði fyrr og síðar.

Eitt sinn sem oftar leit bróðir minn inn til Marsibilar og var verslunin þá komin á Skólavörðustíg að mig minnir. Sá hann þá tvo handmálaða hágæða kínverska skrautvasa úr næfurþunnu postulíni í sýningarkassa gerðum af miklum hagleik. Bróðir minn unni mjög fögrum postulínsmunum og gerðust kaup fljótt og án málalenginga. Fylgdi það sögu þessara gripa að þeir væru komnir úr búi Þórbergs Þórðarsonar (1889-1974) og hann hefði fengið þá þegar hann var á ferð í Kína. Margrét Jónsdóttir ekkja hans væri að minnka við sig og frá henni væru hlutirnir komnir. Það fylgdi og sögunni að rússnesk sælgætisskál með töngum væri þar einnig til sölu og væri hún komin sömu leið úr sama búi. Hafði Þórbergur hlotið hana að gjöf þegar hann var á ferð í Rússlandi. Þessar fréttir bar bróðir minn mér eins fljótt og hann gat. Þar sem ég hafði ætíð verið mikill áhugamaður um silfur beið ég ekki boðanna og keypti skálina undireins. Eftir lát bróður míns eignaðist ég vasana tvo og þannig eru þessir merku og fallegu gripir komnir í mína eigu.

Oft hef ég velt því fyrir mér hvernig best væri að varðveita þessa hluti og um leið þá sögu sem tengist þeim. Þá vildi svo til að frænka mín Sigrún Sigurðardóttir og maður hennar Halldór Gunnarsson sögðu mér frá Þórbergssetri og hversu vel og smekklegt það væri úr garði gert. Sú hugmynd fæddist fljótt með mér að gaman væri að koma hlutunum þangað til varðveislu og bað ég Sigrúnu og Halldór að vera mér innan handar við það verkefni. Það er því algerlega þeirra verk að þoka þessu máli áfram þannig að nú virðist innan seilingar að hlutirnir komist á bestan varðveislustað. Til að ganga sem best úr skugga um að hlutirnir væru komnir úr búi Þórbergs Þórðarsonar og konu hans Margrétar Jónsdóttur heimsóttu Sigrún, Halldór og ég frænku Margrétar, Helgu Jónu Ásbjarnardóttur (Lillu-Heggu) sem þekkti heimili þeirra manna best og sýndum henni gripina. Áttum við einkar skemmtilega stund í sumarbústað Helgu þar sem við nutum stakrar gestrisni hennar og kvaðst hún þekkja gripina vel. Að mínum dómi er þetta hinn besti mögulegi vottur um sannleiksgildi frásagnar Marsibilar í Stokk.

Á grundvelli þessa teljum við, Sigrún, Halldór og ég, að saga þessara hluta varðveitist best á Þórbergssetri og vonum að setrið vilji veita þeim viðtöku til eignar og varðveislu í minningu bróður míns Ólafs Péturssonar en án hans þáttar er óvíst hver afdrif listmuna Þórbergs frá Kína og Rússlandi hefðu orðið.

Sé það góðu heilli gjört.

Seltjarnarnesi, 29. apríl 2016

Sigurður Pétursson

Á nýju ári 2017

Það berast nýárskveðjur frá Þórbergssetri á Hala í Suðursveit með þakklæti frá okkur öllum á Hala fyrir vinarhug og stuðning við starfsemi Þórbergsseturs nú í áratug. Sá mikli heiður hlotnaðist Þórbergssetri og forstöðumanni þess Þorbjörgu Arnórsdóttur að hljóta riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum á nýársdag. Lífið er stundum eins og ævintýri sem við trúum ekki einu sinni sjálf og samferðamennirnir eru allir þáttakendur. Það á enginn einn heiður af því starfi sem fram fer í Þórbergssetri.      Fjölni Torfasyni og Þorbjörgu Arnórsdóttur er því efst í huga þakklæti til allra þeirra sem lagt hafa fram krafta sína til að láta drauminn verða að veruleika. Hugurinn hvarflar ekki síst til Jóns heitins Þórissonar leikmyndahönnuðar og Sveins Ívarssonar arkitekts sem eiga heiðurinn að einstakri hönnun hússins og sýningarinnar. Á 10 ára afmæli Þórbergsseturs,- árið 2016 var ráðist í það stórvirki að gera hljóðleiðsögn um sýninguna á 9 tungumálum, því er hún nú orðin aðgengileg erlendum ferðamönnum sem vilja fræðast um lífið í Suðursveit, Þórberg Þórðarson og verk hans. Gleðilegt nýár, kæru vinir - og okkar einlæga ósk er að framundan séu ár friðar og jafnréttis um alla veröld, - að dimmir skuggar stríðs og hryðjuverka víki fyrir hækkandi sól og hlýjum hugsunum lítillar þjóðar í norðri.

Sjá frétt á ruv.is

Á meðan straumarnir sungu

http://www.pressan.is/Assets/bls4_adrirstraumar.jpgÁ meðan straumarnir sungu eftir Sváfni Sveinbjarnarson
Á meðan straumarnir sungu er endurminningabók séra Sváfnis Sveinbjarnarsonar frá fyrri hluta ævi hans. Höfundur sem er fæddur 1928 segir hér frá Fljótshlíð bernskuáranna og síðar námsárum við MA og syðra. En meginhluti bókarinnar fjallar um Öræfi, Suðursveit og Mýrar þar sem Sváfnir þjónaði sem prestur frá 1952 til 1963.
Þegar fjölskyldan settist að á Kálfafellsstað voru þjóðhættir þar um margt með afar fornu sniði. Samgöngur enn eins verið höfðu um aldir enda jökulföllin eystra óbrúuð. Hinn ungi prestur var jafnframt bóndi og sjómaður frá hafnlausri strönd.
Höfundur lýsir því þegar honum er falið að vera kollubandsmaður á Vagninum, árabát sem skipaður er bændum úr Borgarhöfn og Miðþorpi. Lifandi lýsing á sjósókn Suðursveitunga eru í senn skemmtileg aflestrar og mikilvæg heimild um síðustu ár sjósóknar á þessum slóðum.
Sama á við um þá sögulegu þjóðlífsmynd sem hér dregin upp af afskekktum sveitum þar sem samheldni og menningarlíf er í blóma. Einstök stílgáfa og kímni gera bókina alla að listaverki.
Á meðan straumarnir sungu er ekki sjálfsævisaga í venjulegum skilningi þess orðs enda gerir sunnlensk frásagnarhefð höfundi ókleift að hefja upp eigin afrek og ævistarf. Þess í stað er hér á ferðinni merk heimild um sunnlenska sveitamenningu sem lýst er af nærfærni og ást á viðfangsefninu.
Á meðan straumarnir sungu er harðspjalda bók, 346 síður í stóru broti. ISBN 978-9935-465-54-2. Leiðbeinandi verð kr. 6.990,-

Afmælisþing

Megas og MöggurAfmælisþing Þórbergsseturs sem haldið var laugardaginn 8. október var einn af hátindum í starfsemi Þórbergsseturs. Þessi dagur gleymist aldrei, - okkur  sem vorum á Hala þennan dag og nutum skemmtilegrar dagskrá. Erindi fyrirlesara um stjörnurnar, himingeiminn fyrr og nú, norðurljósin, Þórberg, ástina og lífið fönguðu hugann og í lokin komu svo tónlistarmennirnir, listaskáldin og myndlistarkonan Magga Stína, Megas og Margrét Blöndal ásamt Kristjáni Árnasyni og lyftu huganum upp til skýjanna, með skemmtilegum hugsveiflum frá myndlist til skáldskapar og tónaflæðis. Megas frumflutti ný ljóð m.a. við þekkt lag sósusöngvanna hans Þórbergs og gaf hann okkur góðfúslegt leyfi til að birta textana á heimasíðu Þórbergsseturs.
Þessi dagstund jók okkur kjark og þor og hugmyndir til að halda áfram þroskandi menningarstarfsemi næstu 10 árin  og þá í takt við breytta tíma, aðra samfélagsgerð, -  þar sem nútíminn hefur flogið til okkar utan úr heimi í formi fjölda ferðamanna alls staðar að úr veröldinni. Kínverjar, Japanir og fjölmargir Evrópubúar eiga þess nú kost að fræðast um Þórberg á sínu eigin tungumáli í gegnum hljóðleiðsögn, -  þar sem hægt er að velja um 9 tungumál, verkefni sem lokið var á afmælisári.

Hali í Suðursveit, bærinn hans Þórbergs er nú orðinn þekktur um allan heim og fólkið streymir að til að heyra sögurnar um það sem ,,gerðist í henni Glompu" njóta umhverfisins, hlusta á óperur Veraldarhafsins og hlusta á söng stjarnanna á næturhimninum.

Halatextar Megasar eru birtir hér, síðar ef til vill meira efni af málþinginu.

Hljóðleiðsögn í Þórbergssetri

kinahopur smallNú á 10 ára afmæli Þórbergsseturs hefur verið tekin í notkun hljóðleiðsögn um sýningarnar á Þórbergssetrir á níu  tungumálum. Það eru íslenska, enska, sænska, þýska, franska, spænska, kínverska, japanska og esperantó. Fjölmargir erlendir ferðamenn hafa nýtt sér hljóðleiðsögnina og fá þeir þar með tækifæri til að kynnast Þórbergi og verkum hans betur en áður.  Hljóðleiðsögnin opinberar einnig  sögu íslensku þjóðarinnar frá því að fólkið bjó við frumstæð kjör í fjósbaðstofum til nútímalegri búskaparhátta og þá í gegnum fjölskyldusögu Þórbergs og lýsingum á uppeldi hans í æsku. Kínverskir og japanskir ferðamenn eru oft á ferðinni í Þórbergssetri og á myndunum sem fylgja þessari frétt má sjá níu manna hóp Kínverja sem voru glaðir með að fá að njóta þessarar einstöku sýningar og fræðast um umhverfið. Öll tungumálin hafa verið notuð og m.a. kom esperantistinn Kristján Eiríksson sem sá um þýðingu og lestur á esperantótextunum með þekktan erlendan esperantista sem gest til að vígja leiðsögnina á esperantó.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 635
Gestir á þessu ári: ... 25636