Skip to main content

Kveðja til Þórbergsseturs og þó sérstaklega til aðstandenda setursins á Hala.

 

skjal 2 copy

Eftirfarandi bréf barst inn á bókmenntahátíð Þórbergsseturs  frá Þresti Óskarssyni safnafræðingi ásamt skemmtilegu handskrifuðu handriti sem ber heitið Spakmæli Sigurðar Jónassonar

Þegar eitt af áhugamálunum eru gamlar bækur og gamalt íslenskt prent þá hittir maður gjarnan einhverja sem hafa svipuð áhugamál eða standa frammi fyrir þeirri kvöð að þurfa að losa sig við blöð og bækur sem síður eru söluvara í seinni tíð. Fyrir nokkrum árum hitti ég gamlan prentara á höfuðborgarsvæðinu sem hefur lagt sig eftir prentverki frá síðustu öld og ýmiskonar sérprentunum eins og tölusettar bækur, áritaðar, prentaðar í takmörkuðu upplagi, á annan pappír með fábrugðinni titilsíðu og svo framvegis. Hjá honum sá ég t.d. þrjár útgáfur af Skaftfellskum þjóðsögum skráðum eftir Guðmundi Jónssyni Hoffell og þá erum við ekki að tala um nýjustu endurprentunina.
Nýlega þegar ég var í heimsókn hjá þessum vini mínum dróg hann upp arkir þær sem hér verða afhentar Þórbergssetri til eignar. Um er að ræða Spakmæli Sigurðar Jónassonar, alls 13 spakmæli handskrifuð af Þórbergi á örk. Sagðist eigandinn vilja koma þeim í mínar hendur og ég réði svo hvað um þetta yrði. Ég spurði hann um sögu handritsins sem hann sagðist þekkja en þvertók fyrir að fylgdi því, þar sem hann vildi ekki koma fram undir nafni en staðfesti að hann hafði fengið það gefið hjá öðrum enn eldri prentara sem þekkti Þórberg persónulega á fyrri hluta síðustu aldar. Hann taldi að Þórbergur hafi nýtt sér þessi spakmæli eða getið þeirra í einhverri af ritum sínum en það hefur ekki verið sannreynt. Ég tel að þessu sé hvergi betur fyrirkomið en á setri Þórbergs á æskuslóðum hans heima á Hala í Suðursveit.

 

Til hamingju með bókmenntahátíðina 2023.     
Kópavogi 1. apríl 2023 
Þröstur Óskarsson

Bókmenntir og söngur í Þórbergssetri

kórinnBókmenntahátíð Þórbergsseturs sem var í gær á pálmasunnudag var sú fjölmennasta sem haldin hefur verið. Um 80 manns  sóttu hátíðina og þröngt máttu sáttir sitja. Mest munaði um að kór eldri borgara á Hornafirði fylkti liði á hátíðina, og komu með marga fylgisveina og meyjar sem fylltu heila rútu. Kórinn söng sig inn í hjörtu okkar með bomsa dasy, sjómannavalsinum og fleiri lögum í byrjun hátíðar. Síðan hófst dagskráin og var fjölbreytt, Gísli Sverrir Árnason fjallaði um vesturferðir Skaftfellinga og fylgdi ferð hjónanna Eymundar Jónssonar frá Dilksnesi og Halldóru Stefánsdóttur til Vesturheims og aftur heim á árunum 1902 - 1907 , en koma víða við á leiðinni og vitnaði í ótal heimildir og heimildamenn. Sannarleg merkileg samtímalýsing um liðna tíð og lífshætti fólks um aldamótin 1900.
Skúli Sigurðsson flutti fræðilegt erindi um glæpasöguritun og tilurð verðlaunabókarinnar, Stóri bróðir. Greinilegt er að það var ekki tilviljun að fyrsta bók hans var verðlaunabók  því hann hafði mikla þekkingu á glæpasögum og höfundum þeirra og hafði frá unga aldri lesið mikið af þekktum reyfurum þess tíma. Hann lýsti því hvernig hann kaus að fara ekki troðnar slóðir í glæpasöguritun sinni, og lætur lesandann takast á við hvað er réttlát hefnd eða glæpur við lestur bókarinnar.
Haukur Þorvaldsson harmonikkuleikari flutti frumsamið tónverk og færði Þórbergssetri að gjöf. Kallaði hann það Þórbergsvalsinn og segja má að þar hafi verið dillandi vals, fluttur af miklum lipurleika á harmonikkuna.
Í lokin fjallaði Kristín Helga Gunnarsdóttir um bók sína Fjallaverksmiðjuna sem fjallar um jöklaveröld okkar Skaftfellinga og hvernig nútíminn hefur á vissan hátt breytt þessu landvæði í söluvöru sem gjarnan er nú kallað ,,hakkavélin" og svo spurði hún,, Hvenær verður uppselt á landið Ísland?" Sögupersónurnar eru ungt hugsjónafólk sem býr í bragganum á Breiðamerkursandi og berst á móti straumnum en mega sín ekki mikils og verða jafnvel að söluvöru þegar Auðólfur ekur um sveitir og kaupir upp fjöll og dali, jarðir og fyrirtæki. Umhverfismálin eru í brennidepli í bók Kristínar og ótal spurningar vakna um framtíð Íslands og alls heimsins.
Kaffiveitingar voru í lok dagskrá og var þá margt spjallað yfir kaffibollunum. Aðstandendur Þórbergsseturs þakka öllum fyrir komuna á þessum fallega degi í sveit sólar.
Upptaka af hátíðinni er á you tube síðu Þórbergsseturs.   https://www.youtube.com/watch?v=OizqxfBtHmQ
 
 
 
 
 
SkúligísliKristín
 
 

Hrossakjötsveisla og bridgemót á Hala í Suðursveit

 Hið árlega hrossakjötsmót verður haldið helgina 14. - 16 apríl næstkomandi. Óformlegt  bjórmót verður haldið á föstudagskvöldinu en byrjað verður að spila tvímenning kl 13:00 á laugardegi. Hrossakjötsátið er í hléi um kvöldmatarleytið en  haldið verður áfram spilamennsku fram eftir kvöldi. Á sunnudeginum hefst spilamennskan klukkan 10 og verður lokið eigi síðar en 15:00.

Hægt er að fá frekari upplýsingar og skrá þátttöku í síma 623 7973 eða senda skilaboð á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Mótsgjald er krónur 5000.
 
Vegna fjölda fyrirspurna setjum við hér inn verðskrá fyrir mótið. Panta þarf gistingu en nægur tími að panta máltíðir þegar komið er á staðinn.
Gisting í tveggja manna herbergi í tvær nætur 15000 á mann.
Gisting í tveggja manna herbergi í eina nótt 10.000 á mann.
Gisting í eins manns herbergi í tvær nætur 18000 á mann.
Gisting í eins manns herbergi í eina nótt 14000 á mann.
 
Halahangikjöt á föstudagskvöldinu er 2500 krónur á mann.
Kjötsúpa í hádeginu á laugardag 2400 krónur á mann.
Kvöldmatur hrossakjötsveisla og  bleikjuhlaðborð í sunnudagshádegi krónur 9000 á mann.
Kaffi og annar viðurgjörningu er innifalinn í mótsgjaldi.
 
Einnig er hægt að panta gistingu á Gerði í síma 4781905 og Skyrhúsinu 8998384 og gildir önnur verðskrá þar.
Þátttaka í mótinu reiknast til silfurstiga hjá Bridgesambandi ÍslandsAllir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Draumakastalar fátæks fólks

 
Gæti verið mynd af náttúra
 
Eystra
Eyðibýlin í Hornafirði eru það næsta sem við komumst því að hafa kastalarústir. Mörg þessara húsa voru draumakastalar fátæks fólk, en nú er þetta það eina sem eftir er af draumnum. Í rigningu, þegar ekið er framhjá, verða þessir hálfhrundu kastalar undarlega tignarlegir, það er óvænt og jafnvel hjartnæmt, og rigningin á rúðunni er einsog tár sem falla yfir liðinn tíma.
Gyrðir ElíassonMyndlýsing ekki til staðar.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
                                                                                                                                                                                                           Ljósmynd Þórhallur Pálsson
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Fréttir af haustþingi Þórbergsseturs um Fell í Suðursveit

imageMálþing Þórbergssetur sem haldið var í lok október var afar áhugavert. Þar var fjallað um endlok byggðar á höfuðbýlinu Felli í Suðursveit sem stóð undir Fellsfjalli á austanverðum Breiðamerkursandi, landsvæði sem nú tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Jafnframt var rætt um framgang og síðar hop Breiðamerkurjökuls , landmótun og hvað það var sem varð ,,Felli að falli", eins og Snævarr Guðmundsson fjallaði um í erindi sínu. Mikill áhugi er nú hjá heimamönnum að gera einnig skil fornri menningar- og búsetusögu innan þjóðgarðsins og vonir standa til að fjármunir fáist í slíkt verkefni á næstu árum. Því miður var mikið um að vera þessa helgi og frekar fáir sóttu málþingið og ekki tókst heldur að fá neinn til að senda viðburðinn út í beinu streymi vegna anna. Umfjöllunin var þó afar gagnleg fyrir þá sem koma að rannsóknarstörfum og uppbyggingu innan þjóðgarðsins, þar sem þarna kom fram mikil þverfagleg þekking á svæðinu þar sem fræðimenn og heimamenn er gerst þekkja til  fjölluðu um sögu, búsetu og staðhætti í samhengi við gríðarlegar breytingar á náttúrufari og landslagi allt frá tímum litlu ísaldar til okkar daga. Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs voru mættir og auk þess starfsfólk á vegum hinna ýmsu stofnana sem koma að rannsóknum á svæðinu auk áhugafólks um sögu og fornar minjar til að fræðast um staðinn. Dagskráin var löng og stóð til klukkan 5 síðdegis með góðu matar og kaffihléi. 

Lesa meira

FELL í Suðursveit, saga þess í fortíð, nútíð og framtíð ,,.að fletta í albúmum lífsins"

Fell forsíðaHaustþing Þórbergsseturs verður haldið laugardaginn 29. október og hefst klukkan 11:00. Fjallað verður um forna frægð jarðarinnar Fells í Suðursveit, landmótun, jöklabreytingar og lífsstríð ábúenda uns byggð lagðist þar af vegna ágangs jökuls og jökuláa á seinni hluta 19.aldar. Einnig reifaðar hugmyndir að samstarfsverkefni um sjóngervingu menningar- og náttúruarfs með tilliti til nýjustu tækni í formi merkinga innan þjóðgarðsins og e.t.v. sýndarveruleika.
 
Dagskrá
11:00  Málþing sett
11:05  Hvað varð Felli að falli? Landmótun og jöklabreytingar á Breiðamerkursandi á síðustu öldum.  Snævarr Guðmundsson jöklafræðingur
11:35  Horfinn Eden; Fell í skrifum Þórbergs Þórðarsonar; Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur
12:05  Hádegisverður
13:00  Mannvist á Felli - skráning búsetuminja; Sigríður Guðny Björgvinsdóttir landfræðingur
13: 35  Lífsstríð og sambýli við jökul og jökulár - Sögur af ábúendum Þorbjörg Arnórsdóttir
14:10  Sögur af Rannveigu á Felli og mannlífi sunnan Steinasands; Fjölnir Torfason
15:00  Endurbygging Fells, - sjóngerving menningar- og náttúruarfs, Þorvarður Árnason náttúrufræðingur
15:30  Kaffihlé
15:55  Ævintýri og líf í Kanada. Kynning á bók um Guðjón R Sigurðsson;  Þórður Sævar Jónsson.
16:30  Lok málþings

Ólafsvaka í Kálfafellsstaðarkirkju 2022

tónleikar 1Tónleikar á Ólafsvöku í Kálfafellsstaðarkirkju  29. júlí 2022   voru fjölsóttir þetta árið enda heimsfrægt tónlistarfólk mætt á staðinn. Það voru þau Eyþór Gunnarsson og  Ellen Kristjánsdóttir, systurnar Sigga og Beta og bróðir þeirra Eyþór, en þau systkinin höfðu gert garðinn frægan í  Eurovisionkeppni vorsins 2022. Kálfafellsstaðarkirkja er einstaklega hentug til tónleikahalds og samstarf við kirkjuna um þennan einstæða atburð ár hvert ánægjulegt. Um leið er rifjuð upp sagan um dýrlinginn Ólaf helga en kirkjan var helguð honum í kaþólskum sið. Líkneski af Ólafi helga var gefið  í kirkjuna laust eftir aldamótin 1700 til að hrinda fornum álögum sem völva lagði á staðinn í frumkristni. Því miður rigndi hressilega þetta árið svo ekki var hægt að heimsækja leiði völvunnar undir Hellaklettum en viðburðurinn hefur einnig þann tilgang að halda á lífi fornum sögum og vitneskju um þær minjar í landslagi sem enn eru greinilegar og tengjast þessum forna ákvæði um örlög völvunnar á Kálfafellsstað.
Stórkostlegan flutning fjölskyldunnar á sálminum forna Heyr himnasmiður má heyra hér: https://www.youtube.com/watch?v=xJZKSwsYUeA

Sunnudagskaffi og bókakynning í Þórbergssetri

GaribaldiÞað var fámennt en góðmennt á bókakynningu skáldsins Garibalda í Þórbergssetri á miðju sumri.  Garibaldi las þar úr bók sinni ,,Drauminn dvelur" . Boðið var upp á kaffiveitingar að sveitasvið á eftir og spjallað saman. Garðar dvaldi þessa viku á Sléttaleiti sem að er hús í eigu Rithöfundasambands Íslands. Nágrannar Þórbergsseturs í skáldastétt sem búa á Sléttaleiti tímabundið koma því oft við í Þórbergssetri. Segja má að umhverfi Sléttaleitis sé kyngimagnað og hefur án efa haft áhrif á einhverja höfunda sem þar hafa dvalið við ritstörf undanfarin ár. 
 
Garibaldi er skáldanafn Garðars Baldvinssonar. Hann er fæddur 1954 og hefur starfað sem rithöfundur frá árinu 1982, en hann endurfæddist til nýs lífs eftir sviplegt fráfall tveggja bræðra sinna vorið 1980 og fór þá að elta drauma sína um menntun og ritstörf. Garibaldi fjallar í bókinni um æsku sína á afar nýstárlegan hátt. Textinn er að mestu frá sjónarhóli lítils drengs sem horfir á og heyrir það sem gerist fyrir augum hans. Einnig lesum við um hugsanir þessa drengs eins og þær koma fram í huga hans. Þessi aðferð kann að vera einsdæmi í íslenskum bókmenntum og jafnvel þótt víðar væri leitað. Inn á milli eru fáeinir kaflar þar sem fullorðni maðurinn fjallar um tiltekin mál eins og heimsókn barnaverndarnefndar. Einnig skrifar fullorðni maðurinn nokkur bréf til litla drengsins, móður sinnar og að lokum til föður síns. Þessi bréf varpa sjaldgæfu ljósi á upplifun og reynslu lítils barns. sjá nánar https://garibaldi.is

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 152
Gestir þennan mánuð: ... 5945
Gestir á þessu ári: ... 23969