Jólakveðja frá Þórbergssetri

Út er komið 2. tölublað af tímariti Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, Ritið og er það í vefútgáfu.Þar er meðal efnis greinar sem eru afrakstur af málþingi í Þórbergssetri í október 2018 og öflugs rannsóknarstarfs innan Háskóla Íslands undir forystu Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur. Fjallað er um verk Þórbergs Þórðarsonar og tengsl þeirra við þekkingu hans á austurlenskum fræðum, sem hann aðhylltist mjög snemma á rithöfundaferli sínum.
Í heftinu er stefnt saman umfjöllun um bókmenntir frá því snemma á 20. öld og samtímaverkum. Það er fyrri hlutinn sem er helgaður Þórbergi Þórðarsyni og er í ritstjórn gestaritstjóranna Benedikts Hjartarsonar og Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur en þar birtast þrjár ritrýndar greinar auk tveggja þýðinga. Fyrstu tvær greinarnar eru um dulspekina í skrifum Þórbergs en undir hana heyra þau þrjú svið sem rithöfundurinn tilgreinir jafnan sérstaklega í verkum sínum: guðspeki, spíritismi og indversk speki, einkum yoga. Stefán Ágústsson fjallar um náttúrutrú og dulspeki í bókinni Steinarnir tala en Álfdís Þorleifsdóttir beinir sjónum sínum að Íslenzkum aðli og ræðir verkið ekki síst í ljósi skrifa Krishnamurtis og hugmyndarinnar um „blekkinguna“ eða maya. Aðalsteinn Eyþórsson og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir skrifa hinsvegar um málvísindi og táknfræði Þórbergs en þau varpa ljósi á margbrotin tengsl skrifa hans við vísindakenningar samtímans. Þá tilheyra þessum hluta þemans tvær þýðingar, önnur þeirra er þýðing Jóns Bjarna Atlasonar á bókarkafla eftir Jakob von Uexküll, sem var einn af brautryðjendum svokallaðrar líftáknfræði, en hin er þýðing Kristjáns Eiríkssonar á bréfi eftir Eúgeno Lanti, sem þýtt er úr esperanto og veitir forvitnilega innsýn í mikla umrótatíma í sögu alþjóðamálsins.
Seinni hlutinn er í ritstjórn Guðrúnar Steinþórsdóttur og Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur, en þar eru nýleg verk þriggja íslenskra höfunda til umfjöllunar auk þess sem samtímabókaútgáfa á Norðurlöndum er greind. Það má kallast skemmtilegt að enn í dag þykja verk Þórbergs Þórðarsonar nýstárleg í heimi fræðasamfélags íslenskra bókmennta Eftirtektarvert er að höfundur sem kvaddi sér hljóðs á öðrum tug tuttugustu aldarinnar skuli enn vera að birtast okkur með svo nútímalega og fræðilega nálgun, og tali til okkar í tæknivæddri og upplýstri veröld nútímans, m.a. um hugrækt og ,,lífslindirnar innra með okkur". Bergljót Soffía Kristjánsdóttir á þakkir skilið fyrir að skyggnast um í hugarheimi verka Þórbergs og opna þannig á nýja og forvitnilega rannsóknarvídd á verkum hans, sem að reyndar varð nokkuð augljós þegar að verkin voru loks krufin út frá ,,ljósinu í austri".og sjónum okkar beint í þá átt.
Hinir árlegu sumartónleikar Þórbergsseturs og Kálfafellsstaðarkirkju voru haldnir á Ólafsmessu að kvöldi 29. júli að vanda. Það voru Skaftefllingar þær Þórdís Sævarsdóttir frá Rauðabergi á Mýrum og dóttir hennar Tara Mobee sem skemmtu gestum með fallegum söng.
Tara Mobee er ung og upprennandi söngkona og lagahöfundur og þykir vænt um hornfirskar rætur sínar. Tara er menntuð frá Tónlistarskólanum í Kópavogi, auk fjölda söng- og tónlistarverkefna, m.a. Í upptökutækni og raftónlist. Tara vakti snemma athygli fyrir tón- og lagasmíðar sínar og hefur gefið út eigin lög frá 16 ára aldri. Tara tók þátt í Eurovision 2019 með laginu ,,Betri án þín“ og átti þar góðu gengi að fagna auk þess sem hún hefur gefið út eigin lög á íslandi, verið í toppsætum íslenska vinsældarlistans og er í erlendu tónlistarsamstarfi í Sviss og Bandaríkjunum.
Þórdís Sævarsdóttir söngkona, kórstjóri og verkefnastjóri er menntuð frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, FÍH, Complete Vocal Technique og Tónskóla þjóðkirkjunnar auk þess að vera MA í Menningarstjórnun. Þórdís hefur starfað sem sóló-söngkona samhliða öðrum verkefnum, sungið með fjölda sönghópa, haldið tónleika, tekið að sér bakraddasöng á geislaplötum og verið viðburða- og verkefnastjóri á sviði lista, fræðslu og menningar.
Vignir Þór Stefánsson píanóleikari er menntaður tónmenntakennari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og með mastersgráðu í djasspíanóleik frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Haag í Hollandi.
Hann hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi og leikið sem píanó - og hljómborðsleikari með söngvurum, sönghópum og kórum og hljómsveitum af öllum stærðum og gerðum. Hann hefur komið fram á geislaplötum og í sjónvarpi og leikið á hljómborð í fjölmörgum söngleikjum sem sýndir hafa verið í stærstu leikhúsum.
Að tónleikum loknum fóru gestir að Völvuleiðinu neðan við Hellakletta og rifjuðu upp hina fornu sögu um völvuna á Kálfafellsstað og völvuleiðið.
,,Lífið er alltaf að verða öðruvísi og öðruvísi", segir Þórbergur á einum stað. Það á sannarlega við árið 2020, þegar heimsfaraldur geisar og Íslendingar eins og aðrar þjóðir þurfa að takast á við nýjan veruleika. Þórbergssetur lokaði í fyrsta skipti síðan árið 2006 frá 20. mars til 1. júní. Starfsmenn Þórbergssetur nýttu kraftana í svokallað ,,eyðibýlaverkefni" sem að er skráning á fornum búsetuminjum í landslagi í Suðursveit. Verkefnið er unnið í samvinnu við Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir landfræðingur átti veg og vanda að faglegri vinnu við mælingar og skráningu í samvinnu við Önnu Soffíu Ingólfsdóttur fornleifafræðinema.Margt afar merkilegt og fróðlegt kom í ljós og verður skilað inn nánari skýrslu um verkefnið að lokinni lokaskráningu og uppsetningu. Sækja á um styrk í menningarsjóð Suðurlands til að koma verkefninu í það form að hægt sé að kynna það almenningi á sýningum og í rafrænu formi á netinu. Halda á áfram í vetur og næsta sumar og taka þá fyrir fornar rústir á Mýrum.
Eftir fádæma rólegan júní fór að lifna yfir gestakomum í Þórbergssetur í júlí og mjög gaman var að taka á móti fjölda Íslendinga sem ekki höfðu komið áður í Þórbergssetur eða voru að rifja upp fyrri heimsóknir. Í júlí og ágúst komu um 16000 gestir í Þórbergssetur að njóta veitinga eða fara inn á sýninguna.Það er vitanlega mikil fækkun frá fyrri árum og engir hádegishópar lögðu leið sína á staðinn eins og áður. Í lok ágúst varð mjög rólegt á ný og nú er ákveðið að loka í 3 mánuði í vetur frá 1. nóvember til 1. febrúar. Einnig hefur daglegur opnunartími verið styttur og er nú bara opið frá klukkan 12 - 16 alla daga vikunnar. Æskilegt er að hópar hafi samband með fyrirvara ef þeir hyggja á heimsókn eða veitingar í október.
Ársreikningur 2019 og skýrsla starfsársins eru komin á vefinn.
Líkönin af burstabæjunum eru með þremur og fjórum burstum. Á þakið er límt viðarkurl og á framhliðina er límdur grófgerður sandur og litlir steinar. Inn í bæjunum eru ljósaperur sem lýsa þá upp Annað líkanið er gert í mars 1968 vegna þáttanna um Krumma, frægrar persónu úr Stundinni okkar í sjónvarpinu. sem Rannveig Guðmundsdóttir stjórnaði, en Þorsteinn var mikill aðdáandi Krumma. Gaman er að eiga þessa fallegu bóndabæi í Þórbergsstri til minningar um mætan hagleiksmann, sem átti uppruna sinn í Suðursveit og færum við Margréti miklar þakkir fyrir.
Það er aldrei tíðindalaust í kringum Þórberg Þórðarson og hans verk.
12 mars síðastliðinn á afmælisdegi skáldsins kom út bók með þýðingum á verkum hans á esperantó. Bókin ber heitið Lifandi mál, lifandi manna.
Í bókinni er fjallað um alþjóðamálið esperantó, fyrstu kynni Þórbergs af málinu og orðabók sem hann vann að árum saman. Það er Kristján Eiríksson íslenskufræðingur sem hefur unnið að þessu mikla verki. Hann hefur þýtt ótal greinar, bréf og leskafla sem Þórbergur skrifaði á esperantó og er að koma fyrir augu íslenskra lesenda í fyrsta sinn.
Hér er á ferðinni mjög áhugaverð bók sem enginn áhugamaður um Þórberg eða heimsmálin á að láta fram hjá sér fara.
Bókin er til sölu í bókabúðum og í Þórbergssetri.