Að loknu ári 2017
Starfsskýrsla Þórbergsseturs fyrir starfsárið 2017
Árið 2017 er liðið í aldanna skaut. Á margan hátt var árið gjöfult, veðurfar gott, - og mannlífið á Hala einkenndist af miklum straumi ferðamanna alls staðar að úr heiminum. Sjá má í gistiskýrslum á Hala að markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu nær nú orðið í auknum mæli til alls heimsins, Asíubúum og Bandaríkjamönnum fjölgar mjög, en einnig kemur fólk frá Suður Ameríku, frá Afríku, og frá ýmsum fjarlægum löndum, sem ekki hafa áður verið merkt inn á skýrslurnar. Gestakomur á teljara við aðaldyr Þórbergssetur voru þó færri eða 187.620 árið 2017 á móti 191.681 á árinu 2016. Munar þar mestu að færri gestir komu á háönn yfir sumartímann og mátti vel greina það í rólegri dögum en áður. Engu að síður var árið gott ferðaár og mikið um að vera í Þórbergssetri alla daga. Mikil aukning var í janúar en þó mest í marsmánuði og ræðst það af góðu veðurfari sem hefur óneitanlega mikil áhrif á ferðamannastraum yfir veturinn. Fleiri erlendir ferðamenn nýta sér nú aðgang að sýningu Þórbergsseturs eftir að hljóðleiðsögn með 9 tungumálum er til staðar og mælist það sérstaklega vel fyrir.