Skip to main content

Fornleifaskráning í landi Breiðabólsstaðarbæja í Suðursveit

CleanShot 2022 12 13 at 11.17.522xFyrir nokkru síðan var lokið fornleifaskráningu á Breiðabólsstaðarbæjum jafnframt deiliskipulagsvinnu á svæðinu. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir landfræðingur vann að skráningunni í samvinnu við heimamenn. Ljóst er að þarna var um mjög mikilvæga vinnu að ræða til að bjarga þekkingu frá eldri kynslóðum og miðla þeim síðan áfram til ókominna ára.

Sigríður gaf leyfi til að birta fornleifaskráninguna á Þórbergsvefnum, en mjög víða er einmitt vitnað í og stuðst við frásögur þeirra bræðra Þórbergs Þórðarsonar og Steinþórs Þórðarsonar enda má segja að svæðið sem unnið var á sé sögusvið Suðursveitabóka Þórbergs. 

Því er ljóst að þarna er komin víðtæk þekking á húsaskipan og landnýtingu á Breiðabólsstaðartorfunni frá þeim tíma er þeir bræður voru að alast upp í lok 19. aldar, en jafnframt vitnað til eldri vitneskju þar sem það á við.

Fornleifaskráningin er því birt hér í heild sinni.

Leitin að því liðna

Stutt málþing verður haldið í Þórbergssetri laugardaginn 23. nóvember og hefst kl 13:30. Fjallað verður um rannsóknir sem unnið hefur verið að á liðnum árum í samstarfi við Þórbergssetur. 

20191119Fornar sagnir um sjóróðra í Suðursveit hafa vakið forvitni vísindamanna og fundist hafa heimildir um tengingu Skriðuklausturs við Borgarhöfn í Suðursveit og ferðir vermanna yfir jökul  fyrr á öldum. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur sendi  enskt rannsóknarteymi í Kambstún í september í haust með jarðsjá til að reyna að finna minjar um vetursetu vermanna þar. Einnig  hefur Skúli Gunnarsson forstöðumaður Skriðuklausturs  unnið að rannsóknum á leiðinni úr Fljótsdal yfir jökul. Hann hefur m.a. starfað með skoskum háskóla og nýtt nýjustu tækni svo sem drónamyndatöku til að freista þess að finna göturnar við Hálsatind, sem sagt er frá í bók Guðmundar J Hoffell og voru þar vel sýnilegar um aldamótin 1900. Hann hefur einnig verið í samstarfi við Jarðvísindastofnun varðandi stærð og legu Vatnajökuls á árunum 1000 - 1500.  Það verður því forvitnilegt að hlýða á fyrirlestur Skúla og hvers hann hefur orðið vísari í leit sinni um tengsl Skriðuklausturs við Suðursveit fyrr á öldum.

Vísindamenn fortíðar voru gjarnan þeir sem byggðu þetta land á öldum áður, bændur sem þekktu vel umhverfi sitt og lásu  af mikilli nákvæmni í landið, náttúrufar og breytingar á umhverfi.  Snævarr Guðmundsson jöklafræðingur á Náttúrustofu Suðausturlands og Fjölnir Torfason á Hala hafa undanfarið leitað að vörðum jöklamælingamanna  sem fóru ár hvert út á Breiðamerkursand á árunum 1932 og fram yfir 1950 og mældu hop Breiðamerkurjökuls. Snævarr mun á málþinginu segja frá þessari leit þeirra félaga á Sandinum og minnast þeirra manna er þarna lögðu vísindunum lið svo og sýna niðurstöður þeirra með nútíma tækni. Þessar rannsóknir birtast nú sem mikilvægar upplýsingar um hopun Breiðamerkurjökuls á tuttugustu öldinni.

Þórbergssetur er staðsett í landnámi Hrollaugs Rögnvaldssonar og það má teljast merkilegt á heimsvísu að eiga skráða sögu fyrsta mannsins sem bjó í landi Breiðabólsstaðar og settist hér að fyrir meira en 1100 árum síðan. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir rölti um  hluta af landnámi  Hrollaugs síðast liðið sumar og skráði niður örnefni og líklegar fornleifar og menningarminjar sem tengjast þessari 1100 ára búsetu á Breiðabólsstaðartorfunni. Hún ætlar að segja okkur frá þessari vinnu sinni sem að er reyndar ekki að fullu lokið, en gefur okkur samt hugmynd um hversu mikil auðlegð felst í staðbundinni þekkingu heimamanna, sem okkur ber sannarlega skylda til að varðveita sem hluta af sögu okkar sem þjóðar.

Ragnhildur Jónsdóttir og Grétar Vilbergsson komu fyrr á þessu ári færandi hendi í Þórbergssetur, er þau komu með að gjöf gömul blöð Eystrahorns innbundin í fallegar bækur. Þar má finna margar skemmtilegar frásögur frá liðinni tíð. Í lok málþingsins verður gluggað í gömul blöð Eystrahorns og lesnar upp stuttar greinar sem varpa ljósi á mannlíf  í Suðursveit fyrir ekki svo löngu síðan. Þannig er líf okkar orðið að sögu áður en við vitum af, hver mannsævi skammlifuð stund, hvert og eitt mörkum við okkar spor sem vonandi hverfa ekki öll í gleymskunnar dá í framtíðarlandinu, því þá um leið glötum við menningu okkar og sögu sem þjóðar.

Allir eru velkomnir að koma og eyða dagstund í Þórbergssetri 

Þorbjörg Arnórsdóttir

,,Að hlusta á nið aldanna", málþing í Þórbergssetri

á haldi 125Haustþing Þórbergsseturs verður haldið 25.október kl 11:00 og verður að þessu sinni helgað sögu, náttúrufræði og fornleifafræðirannsóknum í Skaftafellssýslu. Fornleifafræðingarnir Vala Garðarsdóttir, Bjarni F. Einarsson og Steinunn Kristjánsdóttir verða með erindi er tengjast rannsóknum þeirra hér í sýslu, og Helgi Björnsson jöklafræðingur fjallar um Breiðamerkurjökul og jöklafræði. Bjarni F. Einarsson mun kynna nýútkomna bók sem hann er að gefa út, þar sem fjallað er um rannsóknir hans á fornleifum hér í sýslunni. Vala Garðarsdóttir hefur unnið að rannsóknarverkefni sem hún kallar Útræði í Hornafirði frá öndverðu og Steinunn Kristjánsdóttir fjallar um rannsóknir sínar tengdar uppgreftri á Skriðuklaustri og sögnum um ferðir vermanna og fiskveiðar frá hinni fornu Hálsahöfn og dvöl þeirra í Borgarhöfn á öldum áður Í lok málþings verður farið í heimsókn í Kambtún og skyggnst um. Gluggað verður í þjóðsögur og gamlar sagnir á milli erinda fræðimannanna m.a. lesið upp úr þjóðsögum Torfhildar Hólm og Suðursveitarbókum Þórbergs.

Lesa meira

Málþing í Þórbergssetri 25. okt. 2015

,, Að hlusta á nið aldanna " 

Fornleifafræðingar mæla sér mót í Þórbergssetri sunnudaginn 25. október. Málþingið hefst kl 11:00 og stendur til kl 17:00. Fjallað verður um náttúrufar, sögu og fornleifarannsóknir í Austur- Skaftafellssýslu. Rifjaðar verða upp gamlar þjóðsögur tengdar Kambtúni og Hálsahöfn. Fornleifafræðingarnir Vala Garðarsdóttir, Bjarni F. Einarsson og Steinunn Kristjánsdóttir verða með erindi og Helgi Björnsson jöklafræðingur miðlar af þekkingu sinni um landslagsbreytingar og jökla. Farið verður í Kambtún að skoða fornar verbúðartættur í lok málþingsins ef að veður leyfir.

Nánari dagskrá auglýst síðar

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 6
Gestir þennan mánuð: ... 22
Gestir á þessu ári: ... 104544