Skip to main content

Ávarp við afhjúpun minningarskjaldar um Þórberg Þórðarson - Þórbergur og skáldsagan

Pétur Gunnarsson skrifar:

Í Ofvitanum talar Þórbergur um listina að "lesa hús". Að lesa hús var að kunna að skynja þá fortíð sem húsið bjó yfir, hvert hús átti sögu sem móttakandinn þurfti þekkingu til að njóta.  Þetta hét á máli Þórbergs að lesa hús.  Orðrétt segir Þórbergur:  
"...  ég vildi vekja athygli lesenda minna á því, hvílíkir þekkingar- og stemninga-brunnar eru byrgðir því fólki sem alla sína æfi hefur verið svo önnum kafið í  yfirborðssmámunum lífsins, að það hefur aldrei gefið sér tíma til að læra að lesa hús."

Með þessum skildi viljum við minna á að í þessu húsi lifði og starfaði rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson um þrjátíu ára skeið.
Þau hjónin Þórbergur Þórðarson og Margrét Jónsdóttir fluttu hér inn í nýbyggða blokk árið 1943 og eignuðust þar sína fyrstu íbúð og hér bjó Þórbergur til æfiloka árið 1974 en Margrét litlu lengur, eða til ársins 1976.
Í þessu húsi skrifaði Þórbergur nokkur af sínum helstu verkum, svo sem æfisögu Árna prófasts Þórarinssonar, Sálminn um blómið og Suðursveitarbækurnar.
Ég man aðeins eftir einu húsi hér í borg með minningarskildi um skáld og það var Dillons hús sem lengi stóð við Túngötu en var á sjöunda áratugnum flutt upp að Árbæ.
Í Dillonshúsi hafði Jónas Hallgrímsson búið um skeið.
Ég á ekki von á því að Hringbraut 45 verði nokkurn tímann flutt upp að Árbæ, en ef ætti að slá á það hvort endast muni lengur þau verk sem Þórbergur reit í þessu húsi eða húsið sjálft - þá myndi ég ekki treysta mér til þess nema eftir vandlega úttekt sérfræðinga á endingarmætti steypunnar. En hvað bækur Þórbergs varðar þá telja sumir að þær muni enn verða lesnar um langa hríð og ekki er ólíklegt að sú bók sem hafði þetta hús gagngert að sögusviði, Sálmurinn um blómið,  muni verða höfð um hönd eftir þúsund ár - ef almættið lofar og tungan heldur.
Það er okkur því sérstök ánægja að biðja aðalpersónu  Sálmsins, Helgu Jónu Ásbjarnardóttur að svipta hulunni af minningarskildi um Þórberg Þórðarson.

(Tala haldin fyrir hönd Félags áhugamanna um bókmenntir, Máls og menningar og Minningarsjóðs Þórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur - við afhjúpun minningarskjaldar á Hringbraut 45, 1.júní 1989)

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 118
Gestir þennan mánuð: ... 5668
Gestir á þessu ári: ... 23691