Skip to main content

Þórbergur og Proust

Pétur Gunnarsson skrifar:

Fyrstu kynni mín af Þórbergi Þórðarsyni voru þegar ég var ellefu ára. Mér hafði boðist íhlaupavinna við að bera út Kennaratalið sem þau misserin var að koma út í heftum. Það var að sjálfsögðu bæði skemmtilegt og fróðlegt að koma inn á gafl hjá öllu þessu fólki, kaupendur voru skeptískir í fyrstu, eins og kaupenda er siður, en satt að segja með ólíkindum hvað léttist á fólki brúnin þegar það hafði flett upp á sjálfu sér og við blasti mynd með svolitlu æviágripi.


Og  nú var stafrófsröðin komin að  Þórbergi Þórðarsyni á Hringbraut 45. Ég sé enn fyrir mér málverkið á hurðinni á meðan ég beið eftir fótataki. Það var kona sem lauk upp og á  bak  við hana grillti í mann sem nálgaðist eftir ganginum. Ég hef ugglaust ekki haft grun um hver Þórbergur Þórðarson var, áreiðanlega gefið mér að hann væri gamall kennari.
Og nú stóð hann þarna þessi sjötugi höfundur á hátindi ferils síns, nýbúinn að ljúka við bálkinn mikla: Í Suðursveit, þessa einstæðu tilraun til að endurskapa veröld æsku sinnar og minnir um svo margt á leit Marcel Proust að glötuðum tíma. Sem kann að hljóma annarlega, á ekki Proust einmitt að vera sá höfundur sem Þórbergi var hvað uppsigaðst við, samanber eftirfarandi frásögn í Sjömeistarasögu Halldórs Laxness:


"Það var eitt kvöld í Garðastræti að Þórbergur hafði látið ganga leppinn og þvöguna útaf Proust, og farið háklassískum orðum um flottræfilshátt þeirra íslendínga sem þættust vera að
lesa bækur eftir þennan mann, þá sagði Þórður (vinur Proust í Unuhúsi, innskot PG): "Vertu óhræddur Þórbergur, sá dagur kemur aldrei að íslendíngar fari að lesa Proust.
Íslendíngar mundu ekki einusinni fara að lesa Proust þó þeir feingju hann á dönsku."


En það er ekki nóg með að fyrirtækjum þessara höfunda svipi saman hvað markmiðið varðar, það koma jafnvel sprettir þar sem þeir eru nánast samferða. t.a.m. hinn súrrealíski kafli í  Steinarnir tala þegar Þórbergur rekur hrifin sem orðin kölluðu fram í hugann, einatt allt önnur en þau sem orðunum var ætlað að vekja og samskonar viðleitni hjá
Proust í  Leiðinni til Swann, þegar hann útleggur kenndirnar sem  tiltekin staðarnöfn vöktu með honum.
Að sjálfsögðu þarf ekki að taka fram  að það er himinn og haf sem skilur þessarveraldir að: annarsvegar úrsérsprottin auðsæld franskrar háborgarastéttar og hinsvegar hið nauma líf Íslands í blábyrjun þeirrar aldar sem nú er að berja nestið.
Og samt- var ekki Suðursveit frönskust allra sveita á Íslandi með skúturnar svífandi við sjónarrönd? Þær hinar sömu og Þórbergur sagði að hefðu rofið hinn lokaða heim æskustöðvanna og  seitt sig  á braut. Að ekki sé talað um  hátíðina þegar þær strönduðu og fjaran breyttist í allsnægtaborð flóandi í koníaki. Já, meira að segja franski fáninn blakti við hún í annáluðu brúðkaupi foreldra Þórbergs og börnin í Suðursveit böbbluðu á frönsku í leikjum sínum.
Báðir eru Proust og Þórbergur að lýsa Paradís sem þeir hafa glatað. Reyndar fullyrðir Proust að það sé ekki til önnur paradís en sú sem maður hefur misst. Og viðskilnaður Þórbergs við sína paradís er allur í biblíustærð, sextán ára neytir hann hins forboðna ávaxtar þegar hann drekkur sig drukkinn í sjóreknu koníaki, frönsku, og fer daginn eftir að heiman og á ekki afturkvæmt nema sem stopull gestur. En æ síðan er Suðursveit honum lifandi brunnur hins einfalda og upprunalega lífs, samanber þegar hann hrópar upp yfir sig á viðkvæmri stundu í Ofvitanum: "Ó blessuð Suðursveit! Aldrei hefðir þú gert svona!"  - og fargar svo sveindómi sínum.
Viðbrögðum við ævisögum Þórbergs og Proust svipar saman: eitt af því sem íslenskum gagnrýnendum ofbauð var lýsingin á húsakynnum á Hala sem tók yfir rúmlega hundrað síður í  Steinunum. Og Proust var mjög legið á hálsi fyrir að spandera hundrað síðum í það eitt að festa blund, og öðru eins í það að vakna. En eftirtektarverðasta samsvörunin þykir mér felast í bragðvísi höfundanna: báðir látast vera að rekja kórrétta ævisögu og sefja lesandann til skilyrðislauss fylgilags, en skálda svo óhikað þegar þeim býður svo við að horfa. Eða eins og Þórbergur segir sjálfur:
"Í  frásagnarsnilli er aðeins einn  erfiðleiki. Það  er að  gera  staðleysur að  staðreyndum, sem áheyrandinn trúir. Þess vegna kemur snillingurinn fram fyrir hlustendur sína saklaus í framan eins og nýfæddur kálfur."
Báðir létust höfundarnir síðan frá óloknu verki. Dauðinn hrifsaði pennann úr hendi Proust í miðjum klíðum, en Þórbergur kvaddi lesendur sína í hálfgerðum styttingi í óendaðri Fjórðu bók. Samtímamenn hans virðast ekki hafa áttað sig á þessari viðleitni að bjarga yfir í bók veröld  sem  sveif þeim  enn  fyrir hugarsjónum  og  vissu ekki að  hún  átti í vændum  að úreldast svo gersamlega, að í dag eimir ekki eftir af henni nema örfáir leikmunir á byggðasöfnum. En sjálft leikritið er læst í verki Þórbergs þar sem  það endurnýjar sig  við hvern lestur. Og þá sakar ekki að geta þess að Suðursveitarbækurnar  haldast í hendur við fyrri ævisögur höfundarins:  Íslenskan Aðal,  Ofvitann  og  Sálminn um  blómið  - saman dansa þær í hring  - sjö  titlar eins og  í ævisögu  Proust og  heildarlengd  verkanna  beggja  er meira að segja áþekk: á þriðja þúsund síður.
Og nú, góðir áheyrendur, stend ég aftur á stigapallinum á Hringbraut 45, fyrir fjörutíu árum  og rétti Þórbergi  Kennaratalið. Mig  minnir fastlega að hann hafi afþakkað boðið, kannski hefur hann flett upp á sjálfum sér og gengið úr skugga um að hans var að engu getið í ritinu. En það kemur út á eitt: í verkum sínu mun hann kenna og benda yfir ókomnar aldir Íslands - sem vonandi verða margar.
Ég þakka fyrir mig.


(Ávarp við móttöku Stílverðlauna Þórbergs Þórðarsonar, 12. mars 1999)

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 4520
Gestir á þessu ári: ... 22543