Skip to main content

Lambayfirsetur í Staðarfjalli .

Frásögn Þorsteins Guðmundssonar hreppstjóra frá Reynivöllum í Suðursveit:

Fráfærurnar voru hátíðisdagar fyrir unga fólkið, eða svo fannst okkur unglingunum fyrir vestan Steinasand. Bæirnir þar eru sex, á Reynivöllum er tvíbýli, Breiðabólsstaðarbæirnir eru þrír, Breiðabólsstaður, Hali og Gerði og svo Sléttaleiti. Þessir bæir höfðu alltaf samfélag um fráfærur og lambayfirsetur.
Lömbin voru tekin frá ánum seinnipart dags og rekin ásamt geldfé því sem fyrirfannst í heimahögum inn í Staðarfjall og fylgdu margir af bæjunum fjárrekstrinum. Þegar þangað kom var féð rekið í rétt, geldfé dregið úr og rekið vestur í svonefnda höfða svo það yrði ekki á vegi fráfærnalambanna, en þau voru því næst rekin inn í Rannveigarhelli og geymd þar yfir nóttina og steinum hlaðið í hellismunnann.

Rekstrarfólkið hélt svo heimleiðis, nema þeir sem sitja áttu lömbin, þ.e. einn frá hverjum bæ eða sex talsins. Flestir voru þarna ungir að árum, en þó var þarna maður sem farinn var að reskjast, Þórarinn Steinsson á Breiðabólsstað. Hann var vanur að sitja yfir fráfærnalömbum í Staðarfjalli og hafði umsjón með því að lambayfirsetan færi vel úr hendi.
Lambayfirsetan var skemmtileg og heillaði marga og það fengu færri en vildu að gegna því starfi. Í Staðarfjalli er fallegt, þrír tindar gnæfa við himin og mynda reglulegar bæjarburstir og dalirnir á milli skörp bæjarsund. Neðra er fjallið allt skógi vaxið niður á slétt og sumsstaðar eru valllendisfletir hið neðra með skógarrunnum á stangli. Í suðvestri er Steinafjallið og sýnist allt iðjagrænt um sólarlagið. Hið neðra er Steinadalurinn allur skógi vaxinn og í suðri sér út á sjóinn himinbláan eða silfurhvítan, speglast í heiðum júlídeginum. Í austri sér yfir nokkurn hluta sveitarinnar eða Miðþorpsbæina og Borgarhöfn eða allt austur til Hestgerðiskambs. Og þegar reykurinn á bæjunum stígur hátt til lofts í kvöldkyrrðinni þá finnst okkur unglingunum að þar heima ríki hin eina og sanna sveitasæla.
Það er margs að minnast frá lambayfirsetunni í Staðarfjalli. Þar var oft glatt á hjalla. Eftir að lömbin höfðu verið byrgð í Rannveigarhelli var mál að taka á sig náðir, en fyrst þurfti að tjalda og ýmislegt fleira. Skipt var með sér verkum, einhverjir hreinsuðu til í gömlu hlóðunum frá því í fyrra og aðrir öfluðu eldiviðar, það voru helst birkisprek sem tínd voru í moldflögum, þau voru þurrari en nýr viður úr skóginum og loguðu betur. Eftir að tók að loga í hlóðunum var tekinn fram sérstakur pottketill og í honum hitað vatn. Annar samskonar var notaður fyrir kaffikönnu. Á meðan beðið var eftir kaffinu var sest inn í tjaldið og tekið til malpokanna. Þar var vel útilátinn matur og eftir að hafa snætt úr malnum og drukkið kaffi valdi hver sér rúm í tjaldinu og bjó þar um sig eftir föngum. Rekkjuklæðin voru aðeins lyng og víðiviðarlauf ásamt pokum og gæruskinnum.
Eftir að allir höfðu komið sér fyrir var skrafað og hlegið, sögur sagðar frá lambayfirsetum, sagt frá skessunum í Klukkugili, en það var skammt frá tjaldinu og svo hófust sögur af tröllunum í Hvannadal. Talað var líka um grenjaleitir og grenjalegur og þegar síðasta tófan var unnin í Miðfelli í Hvannadal, en eftir það var tófu ekki vart um margra ára skeið.
Langt var liðið á nótt þegar öllu þessu tali lauk og farið að sofa, var þá ekki trútt um að geigur væri í þeim yngstu eftir allar sögurnar og þótti vissara að rétta ekki fæturnar út undan tjaldskörinni. Þetta gat haldið vöku fyrir þeim yngstu og óreyndustu og svo dundi líka vel í Hellisárfossinum sem þarna var nærri, en samt sigraði svefninn að lokum.
Það var komið langt fram á morgun þegar Þórarinn kallaði, að nú væri mál að vakna, kaffið væri heitt á katlinum og mál að koma lömbunum á haga.
Þórarinn var nokkuð við aldur og hafði m.a. á hendi að hita morgunkaffið. Hann kunni vel að vera í hópi unglinga, en þegar hann  kallaði til starfa þustu allir út í sólina með geispum, drukku síðan kaffið í hasti og fengu sér hveitibrauðssneið með. Það veitti ekki af að hraða sér, sólin komin vestur á Klifatanga og klukkan því orðin tíu.
Gengið var til hellisins, steinarnir tíndir frá hellismunnanum og lömbin rekin út. Vissara þótti að sendaeinn í afhelli sem gekk inn úr aðalhellinum, svonefnda baðstofu og gá hvort þar kynnu að vera lömb. Fyrir mörgum árum höfðu þrjú lömb orðið þar eftir, þau höfðu troðið sér út undir bergið og ekki getað staðið á fætur. Þau fundust dauð um haustið. Dyrnar að afhellinum eru lágar svo skríða verður þangað inn en nokkurt rými er þar fyrir innan. Mikil skán er komin í hellinn, en víti liggja við ef út er mokað.
Lömbin eru nokkuð rásgjörn fyrst í stað. Það þarf mikið að ganga í kringum þau og láta þá hvína vel í viðartágunum svo þau haldi sem best hópinn. Þau eru rekin út á Langaklett, austur á Rauðarárfleti eða uppá Hellisklett. Á þessum stöðum er þeim haldið til beitar. Þau spekjast er á daginn líður og þá er hægt að fá sér matarbita. Einn er sendur í tjaldið að sækja malpokana og hita kaffi. Dagurinn líður með dýrðlegu sólarlagi. Léttur vindblær fer um skóginn og ber angan skógarblóma að vitum manns.
Hver dagur er öðrum líkur, lömbin spekjast og við höldum meira hópinn og getum þessvegna skrafað meira saman um alla heima og geima. Stundum les einhver upphátt sögu eða fer með ljóð og taki lömbin á rás er skipst á að fara fyrir þau. Einhver stígur upp á stóran stein og heldur ræðu og hinir láta sitt ekki eftir liggja. Ræðuefnið er einkum úr daglega lífinu en þó slæddust þar með ýmis háfleygari efni hjá þeim sem snjallastir voru. Ekki tók Þórarinn þátt í ræðuhöldunum. Hann fór fyrir lömbin á meðan en kom þó gjarnan aftur, hlustaði á og brosti í kampinn.
Að morgni hins fjórða dags er lambayfirsetunni lokið og lömbunum ætlað að sjá um sig sjálf í sumarhögunum. Það er lagt af stað með þau inn í Hvannadal. Farið er rólega af stað og lömbin látin bíta við fót. Í Garðhvammi er áð og lömbin hvíld. Þar á bakkabrún stendur lítill trékross nokkuð gamall. Eitthvað hefur verið skorið á krossinn en orðið óglöggt. Þó má lesa ártalið 1904. Kross þessi er handarverk Þórbergs Þórðarsonar. Þennan kross hafði hann neglt saman við tjaldið eitt sinn er hann sat yfir lömbum í Staðarfjalli. Við horfðum með lotningu á krossinn. Hugsað var til frænda og bróður, sem lengi hefur dvalið í höfuðstaðnum, farið út í heim, tekið þátt í alþjóðlegum mótum og  menningarsamkomum og er nú dáður af
mörgum sem rithöfundur.
Lömbin eru rekin síðasta áfangann niður í Hvannadal og skilið við þau með bestu óskum. Haldið er til baka. Í Garðhvammi er gerður stuttur stans og gengið að fossi sem þar er til að skoða gull sem einhverjir töldu sig hafa fundið þar, en svo var þetta bara brennisteinskísill í grjótinu við fossinn.
Þegar að tjaldinu er komið er þar fyrir maður að heiman með hesta til að flytja okkur heim ásamt dóti því sem við höfðum meðferðis. Kaffi er hitað í síðasta sinn og snætt af nestinu, tjaldið fellt og dótið sett á hestana og haldið síðan heim. Þar taka við hin hversdagslegu störf s.s. heyannir, en minningin um lambayfirseturnar og skógarilminn í Staðarfjalli gleymist aldrei, hver veit nema náttúrufegurðin og hin magnþrungna stemning hafi átt þátt í að móta okkur og gera suma að þeim mönnum sem þeir nú eru.
Skráð eftir uppkasti Þorsteins Guðmundssonar á Reynivöllum.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463