Skip to main content

Slys í Suðursveit

Ragnar Ægir Fjölnisson og Fjölnir Torfason skrifa:
Birt í skólablaði Hrollaugsstaðaskóla vorið 2002
Faðir minn Fjölnir Torfason, sagði mér þessa sögu einu sinni þegar við vorum á ferð meðfram Mjósundarárgljúfrinu í Hólmafjalli. Afi hans, Steinþór Þórðarson sagði honum frá þessum atburði oftog mörgum sinnum þegar þeir áttu leið þarna um.
Þann 21.júlí 1890 varð sviplegt slys í Suðursveit. Þeir bræður Gísli, 25 ára og Runólfur, 12 ára Eyjólfssynir á Reynivöllum  höfðu farið að bjarga kind úr svelti fremst í Mjósundarárgljúfrinu. Mjósundarárgljúfur liggur á milli  Fellsfjalls og Hólmafjalls og sést af þjóðveginum þegar ekið er neðan við Reynivelli.

Þannig hagaði til að þeir bræður þurftu að fara upp á brúnina á gljúfrinu fremra megin, örskammt frá Brúsahelli sem margir þekkja. Þaðan þurfti að príla niður mjóar  klettarákar og  stalla en  síðast þurfti að síga niður neðsta klettinn. Þar niður við ána er allstór skriðubás, þar sem kindin stóð. Það komí hlut Gísla eldribróðurins að síga niður í básinn.  
Hvernig slysið vildi nákvæmlega til hefur aldrei verið upplýst, en talið er að reipið sem  bundið var utan um kindina þegar hún var dregin upp, hafi flækst um stóran stein sem lá þarna tæpt á neðstu rákinni þannig að steinninn hrapaði fram af og svo illa vildi til að hann lenti beint í höfuð Gísla, sem að rotaðist við  höggið.  Runólfur hljóp strax heim eftir  hjálp, en það var  of seint því að meiðsli Gísla voru  meiri en svo að  tækist  að  bjarga honum. Þegar að var komið lá hann að hálfu út í ánni og var orðinn kaldur af árvatninu til
viðbótar við höfuðmeiðslin sem hann hafði hlotið.
Þórbergur Þórðarson segir eftirfarandi sögu í bók sinni Rökkuróperunni um Gísla.,, Ég var snemma hrifin af fögrum skrifstöfum. Út í norðausturhorninu í skemmunni á Gerði stóð grafskrift á fæti í umbúnaði undir gleri. Hún hafði verið gerð yfir Gísla Eyjólfsson á Reynivöllum, mætan mann,  sem hrapaði til bana í Fellsgljúfrinu. En hún hafði aldrei verið sett á leiði Gísla,  hvernig sem  á því hefur staðið, og þarna var hún búin að  velkjast í skemmunni í mörg  ár. Grafskriftin mun hafa verið samin og skrifuð af Sveini syni Oddnýjar á Gerði, síðast bónda í Fagradal í Vopnafirði, fremur en Steini kennara bróður hans, en þeir voru báðir vel hagorðir og snilldarskrifarar, og Sveinn auk þess lipur sönglagasmiður. Mér varð  oft stansað fyrir framan  þessa grafskrift og starði hugfanginn á stafagerðina. Mér fannst hún svo unaðslega fögur. Það  var sálarhreinsun að horfa á hana. En grafskriftin var svona: Sofinn undir leiði þessu liggur,
líf hans allt var falið dýrri von,
-sá fær laun sem verk sín vinnur dyggur
valinkunnur Gísli Eyjólfsson.
Fyrir mörgum árum fór ég (Fjölnir) ásamt fleiri mönnum að taka kind úr svelti á þessum sama stað. Það var sérkennileg tilfinning að standa í sporum Gísla niður í skriðubásnum og atburðirnir og slysið frá fyrri tíð voru afar skýrir og ljóslifandi í huganum, og virkuðu sterkt á mennina sem nú voru þöglir við að bjarga kindinni úr sveltinu, þó að allt gengi það nú vel að þessu sinni.
Eyjólfur Runólfsson,  faðir  Gísla  harmaði son sinn mjög og ásakaði sjálfan sig að hluta um þetta slys að því leyti til, að hann hafði lengi vitað um steininn þarna á rákinni, en hafði ekki komið því í verk að hrinda honum fram af, sem hann hafði þó af eigin sögn lengi ætlað sér að gera.
Ingunn Gísladóttir, móðir Gísla tók sonarmissinn afar nærri sér enda orðið fyrir mörgum áföllum í lífinu. Þessi atburður ýfði upp gömul sár og minningar, en Ingunn hafði misst þrjá bræður sína með sviplegum hætti. Þeir voru Þorsteinn Gíslason bóndi á Reynivöllum sem varð úti á Breiðamerkursandi 16. nóvember 1865, þá 36 ára að aldri.
Meðal afkomenda hans í Suðursveit eru Lilja Karen og Símon Rafn  í Hestgerði. Annar bróðir Ingunnar var Sigurður Gíslason, bóndi í Hestgerði en hann drukknaði í Hestgerðislóni 1884, þá 49 ára gamall. Þriðji bróðirinn Bjarni Gíslason bóndi á Uppsölum drukknaði í Hálsós 1887, þá 55 ára gamall. Meðal afkomenda hans hér í Suðursveit er Bjarni Malmquist á Jaðri og margir fleiri.
Systkini Gísla Eyjólfssonar sem fórst með svo sviplegum hætti í Mjósundarárgljúfrinu, bjuggu mörg hér í Suðursveit Þau voru Guðrún yngri húsfreyja á Neðribænum á Reynivöllum, Guðrún eldri, húsfreyja á Kálfafelli, meðal afkomenda hennar er Aðalbjörg á Kálfafelli, Kristín húsfreyja á Kálfafelli, meðal af komenda hennar eru Pálmar Hreinsson sem kenndi í Hrollaugstaðaskóla í nokkrar vikur fyrir fáum árum og Gísli Marteinn Baldursson sem allir þekkja úr sjónvarpinu og Guðný húsfreyja á Uppsölum sem er amma Geirs í Sunnuhlíð. Einnig  bjó hér Vilborg  Eyjólfsdóttir, hálfsystir Gísla í Lækjarhúsum í Borgarhöfn.

Ragnar Ægir Fjölnisson og Fjölnir Torfason skráðu.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 105
Gestir þennan mánuð: ... 5528
Gestir á þessu ári: ... 13568