Skip to main content

Skipsstönd í Suðursveit

Steinþór Þórðarson, Hala

(Skrifað í Jólablað Vísis 1958)

Þegar ég var að alast upp og frameftir mínum fullorðinsárum, var mikið af frönskum fiskiskútum hér með ströndinni. Það mátti telja 60-70 skútur, þegar flest var frá Stemmukrókum, en þeir eru aðeins vestan við hásuður frá Reynivöllum að sjá, að Borgarhafnarhálsum, sem eru klettar fram við sjóinn, stutt austan við Hrekksgerði. Á landi mun þessi vegalengd vera með ströndinni um 20 km. Gaman höfðum við krakkarnir að standa úti í rökkrinu á kvöldin, þegar gott var veður, og horfa á alla ljósadýrðina. Skúturnar heilluðu oft hug þeirra unga, bæði í björtu og dimmu.

 

Skúturnar vöktu vonir

Út úr miðjum þorra var farið að horfa eftir skútum. Talsverður viðburður þótti það, þegar sú fyrsta sást, en sjaldan leið þó á löngu að önnur kom, og svo hver af annarri. Skúturnar vöktu nýtt líf og nýjar vonir. Einkum héldu skúturnar sig hér í marz og apríl, og jafnvel fram í maí. Eftir það var lítið af skútum, að minnsta kosti á grunnmiðum, en við hafsbrún hillti einatt undir nokkrar, og lengst af sumars sáust skútur djúpahallann austan við Hrollaugseyjar, enda gömul munnmæli, að þar væru góð fiskimið. Sagnir voru í munnmælum Breiðabólsstaðarbæjunum, að kallað hefði verið að fara út á Leiru, þegar róið var á þessi mið. Þar átti að vera gengd af flyðrum, enda oft dregizt þar stórar.

Á vertíðinni voru skúturnar oft stutt frá landi, einkum í norðanátt. Þá gátu þær komið það nærri, að ekki sást sjór á milli þeirra og lands, þegar staðið var á stéttinni á Hala. Þá var stutt upp í fjöru. Þá datt víst mörgum í hug strand. Þegar skúta var óvenju nálægt landi, held ég að strand hafi verið efst í huga margra. Svo mikið er víst, að við krakkarnir óskuðum þá að kunna mikið fyrir okkur, að við gætum seitt eina í land. Allir sáu í anda um borð franskbrauð, þennan óviðjafnanlega mat, konjak og flesk. Þá mátti ekki gleyma frönsku kartöflunum, sem mér fannst þær bleiku íslenzku sverja sig svo mjög í ætt við. Þetta allt var gómsætt til áts og drykkjar, og fylgdi meðal annars ströndunum.

 

„Er komið strand?“

Einu sinni var það síðla kvölds á góunni, um eða upp úr 1920, að skúta siglir fullum seglum og stefnir undir Breiðabólstaðafjöru fram af Breiðabólstaðabæjum. Birtu var mikið farið að bregða; sást því ógreinilega til hennar. Þeir sem bezt þóttust sjá, sögðu hana komna upp í fjöru. Aðrir mölduðu í móinn, en sögðu, að líkur væru til að hún væri komin það nálægt, að lítill vafi mundi á því að hún færi í strand.

Nú var uppi fótur og fit á Breiðabólstaðabæjum. Stutt er þaðan fram í fjörinu, og í þetta sinn var greiður vegur, því að Breiðabólstaðarlón var á heldum ís. Allir karlmenn á bæjunum hlupu í skyndi af stað, en þeir voru sjö talsins, með öll nauðsynleg björgunartæki, eftir því sem þá var völ á. Þessi strandfrétt barst til Steins afa míns á Breiðabólstað. Þegar þetta gerðist, var hann búinn að vera blindur í nær þrjá áratugi og hafði orðið litla fótavist. Hann hafði þann sið, að hátta alsber, og eins var í þetta sinn. Nú reis karl upp í rúmi sínu og spyr með mesta ákafa: „Er komið strand?“ Honum var sagt, að líkur væru til þess. „Já, líkur til þess,“ endurtók hann.

Við þessa frétt hreykir afi sér hærra í rúminu, og rær aftur og fram og riðar meir – hann riðar mikið – og ákafar en venjulega. Ýmist tók hann stór föll út á hliðarnar, ekki ólíkt og skúta undir fullum seglum í stórsjó.

 

Ég skelf af hug

Þegar svona hafði gengið um stund, kemur kona hans, Þórunn Þorláksdóttir inn, og segir um leið og hún réttir honum skyrtu: „Hana, farðu nú í skyrtuna, Steinn, finnurðu ekki að þú skelfur?“ Þá svarar hann: „Ég, ég skelf ekki af kulda, ég skelf af hug.“ Þetta dæmi sýnir þann áhuga sem alla greip jafnt nírætt gamalmenni í rúminu sem þá, er yngri voru, ef líkur voru fyrir strandi. Úr strandi varð þó ekkert að þessu sinni. Þegar þeir, sem um var getið og ætluðu að vitja á strandstaðinn komu fram á fjöruna, var ekkert strand og engin skúta sjáanleg fyrri en lengst úti. Þannig urðu vonir afa og fleiri að engu um strand, franskbrauð og koníak.

Fyrsta strandið, sem ég hef greinilegar sagnir af í Suðursveit, er frönsk fiskiskúta, er strandaði á Breiðabólstaðarfjöru 1865-66. Var skipið svo að segja nýtt, og vel útbúið bæði að vistum og seglum. Þegar þetta strand kom, var faðir minn 11-12 ára, og mundi vel strandið. Ekki sagði hann, að neinn asi hefði verið á föður sínum eða öðrum á Breiðabólsstaðabæjum að komast í strandið. Síðan hefur hann og fleiri kynnzt því, hvaða höpp strönd gátu verið, og vel gat verið þess vert að verða ekki sá síðasti þangað. Veðri var þannig farið þennan dag, sem var annar eða þriðji miðvikudagur í góu, að snjókoma var af norðaustri, allhvasst og dimmviðri, þó rofaði það til milli stærstu gusanna, að stundum sást frá Breiðabólsstað grilla fram í fjöruna.

 

Órói við lesturinn

Á Breiðabólstaðarbæjum bjuggu í þetta mund, Steinn Þórðarson, síðar föðurafi minn, á Breiðabólstað, Benedikt Þorleifsson, síðar móðurafi minn á Hala, og Jón Steingrímsson á Gerði. Þessir bæir standa allir á sama túni. Þetta ár var Jón Þorsteinsson, sem um tíma bjó á Brunnum í Suðursveit, og síðar í Krosslandi í Lóni, vinnumaður á Breiðabólstað. Af því að veður var slæmt þennan dag, þá fékk kvenfólkið á Breiðabólstað Jón til að fara upp á eldhúsþakið og hagræða skjóli fyrir strompinum, svo að reykinn leggði betur út. Sýnist honum þá, í einu rofinu milli gusa að skúta sé strönduðu. Hefur hann orð á þessu, þegar hann kemur inn. Fyrst er þessari frétt fálega tekið, en við nánari athugun sýnist fleirum það sama. En af því það var miðvikudagur, þá var lestrardagur, eftir þeirra tíma sið. Miðvikudagslestrarnir í föstunni voru langir, mörgum leiddist að sitja undir þeim. Þeir voru lesnir á heimili foreldra minna eftir að ég mundi. Steinn vildi ekki að strandinu væri sinnt fyrri en lestri væri lokið. Varð það svo að vera.

Þórunn, kona Steins, las húslesturinn á Breiðabólstað, og eins var í þetta sinn. En órótt var okkur Jóni Þorsteinssyni, sagði faðir minn, undir lestrinum – og svo bætti hann við: „Ég held föður mínum hafi verið annað innan brjósts í þetta sinn en sitja undir lestri; svo mikið er víst, að oft þurfti hann að glugganum og líta út meðan á lestri stóð.“ Þegar lestri var lokið, var sent að Hala og Gerði og þeim bæjum gert aðvart um að strand mundi komið á Breiðabólstaðarfjöru, en þá fjöru eiga Breiðabólstaðarbæir allir saman. Þótt veðrið væri vont og frostharka nokkur, dubbuðu karlmennirnir sig af þessum bæjum í skyndi og skunduðu fram á fjöruna, lónið var á haldi og því fljótt að fara.

 

Lítið kom af konjaki

Það var sem sýndist; frönsk fiskiskúta var strönduð. – Þeir síðustu voru að bjargast frá borði, höfðu ekki mikið hrakizt og leið vel eftir atvikum. Strax var farið með þá heim á bæina. Þar voru þeir yfir nóttina, og hresstir á mat og drykk. Daginn eftir var komið upp á skýli á fjörunni, úr timbri, tómum tunnum, og tjaldað yfir með segli. Bjuggu strandmennirnir í þessu skýli við strandið, þar til þeir voru fluttir til Djúpavogs eða Eskifjarðar (hef ekki greinilegar sagnir af því) um hálfan mánuð af sumri. Þennan tíma lifðu þeir að mestu á kosti úr skipinu. Kom því lítið af matvælum fram, þegar strandið var selt, eftir að strandmennirnir voru farnir. Ekki kom teljandi af koníaki til sölu á uppboðinu; höfðu þeir frönsku það til að gæða sér á, og gáfu þeim sem heimsóttu þá. Var þá goldið af næstu bæjum í mjólk, sem strandmönnum féll vel. Þessi viðskipti þóttu hagkvæm fyrir báða, og fór með mestu spekt fram.

Næst þessu strandar frönsk skúta austast á Fellsfjöru. Þá var býlið Fell, sem fjaran er kennd við, komið í eyði fyrir 11-12 árum. Fell átti með lengstu rekafjörum í Skaftafellssýslu, enda á sínum tíma, meðan það var í blóma, talið eitt af höfuðbólum þessa lands. Þegar hér var komið var allt láglendi jarðarinnar komið undir aur og jökul, en beljandi jökulár með sínum eyðileggingarkrafti, herjuðu á því. Nú hafa árnar minnkað, jökullinn bráðnað, og gróður er á ný að færast yfir landareignina. Það mun hafa verið 1886-87 að strand þetta kom, á góunni, eftir því sem mér var sagt. Mennirnir fylgdu ekki skútunni, en voru settir á land af annarri skútu, í svokallaðan Bjarnahraunssand, þar sem helzta útræði Suðursveitar er. Þeir frönsku sáu hvar skútan sigldi upp og leituðu þeir því á strandstaðinn. Næsti bær við strandið var Reynivellir. Þar bjó líka hreppstjórinn, Eyjólfur Röndólfsson. Voru því strandmennirnir ýmist heima á Reynivöllum eða við strandið, unz þeir voru fluttir til Djúpavogs um sumarmálin.

 

Borðbúnaður í sjóinn

Þetta strand var talið mjög auðugt bæði af kosti og öðru. Koníak var þar yfirfljótanlegt, enda mikið fyllirí á strandmönnunum sjálfum. Borðbúnaður var þar meiri og betri en almenningur í Suðursveit hafði þekkt. En ekki var að sjá, að strandmennirnir kærðu sig um að neinn nyti hans. Einn daginn, stuttu eftir að skútan strandaði, kom einn fransmaðurinn með fullt fangið af leirtaui og henti fyrir borð, lenti það allt í mél. Litlu síðar sótti hann aðra og síðan þriðju byrði, og lét allt fara sömu leið. Margir sáu eftir þessum verðmætum, sem víða var svo tilfinnanlega þörf á. Fyrsta daginn, sem bjargað var úr strandinu, voru margir kenndir að kvöldi.

Steinn afi minn og Jón Jónsson á Gerði, báðir slompfullir, fylgdust að heim um kvöldið. Liðið var á vöku, þegar Jón kom heim, og þá kominn nokkur drífumuldringur. Flest fólk var gengið til náða, en ekki bryddi á Steini. Þórunn kona hans spyr Jón: „Hvar er hann Steinn?“ Jón segir, að hann sitji eins og örn vestur á lóni og berji löppunum í ísinn. „Jesús hjálpi mér,“ sagði Þórunn. „Er nú karl-ótugtin orðinn útúrfullur og liggur eins og sletta úti á ísum.“ Synir Steins, Þórður og Þórarinn, brugðust við og fóru að leita föður síns. Fundu þeir hann ekki langt undan. Sat hann þar réttum beinum á ísnum og söng við raust:

„Komin er skúr á kjólinn minn,

kalla ég stórum, stórum,

líður tíminn, lof mér inn,

ljúktu upp, Þórunn, Þórunn.“

 

Ríkmannleg veizla

Þennan vetur sátu börn Steins þrjú af fyrra hjónabandi hans í festum, synir hans tveir Þórður og Þórarinn og dóttir sem Ragnheiður hét, var heitbundin Katli Jónssyni á Gerði, en þeir bræður sinni systurinni hvor, dætrum Benidikts Þorleifssonar á Hala. Þórður heitbundinn Önnu, en Þórarinn Guðleifu. Þessi þrjú kærustupör ætluðu að bindast hjúpskap þetta vor. Þá var margt ungt fólk á Breiðabólstaðarbæjum, og gaman að lifa. Notuðu kærustupörin tækifærið og viðuðu að sér ýmsum veizluföngum af strandinu. Ein tunna af koníaki var keypt, eitthvað af rauðvíni, ein tunna af brauði og önnur af kartöflum. Vel má vera, að mér hafi verið sagt um fleira sem keypt var, þótt mér sé fallið það úr minni.

Ríkmannleg brúðkaupsveisla er haldin um vorið. Slógu þessi pör þá öll saman og buðu mörgu fólki, bæði innan sveitar og utan. Var veislan talin þeim til hinnar mestu sæmdar, sem til hennar stofnuðu. Svona var það á þeim árum að ganga í hjúskap. Þá var ekki verið að tvístíga yfir hlutunum. Hjúskapur var stofnaður, bú voru reist og börnin voru á næstu grösum. Þá var gaman að lifa.

Áður en ég held lengra, vildi ég aðeins drepa á, hvaða kostir voru taldir fylgja því að fá strand.

Við strand féll venjulegast til einhver vinna, bæði við björgun á farmi skipsins og flutning á strandmönnum. Greiðsla fyrir vinnu og flutning á mönnum mun að hafa miðazt við það kaup, sem þá gilti; þó mun þetta hafa verið heldur betur borgað.

 

Aðeins eitt boð

Þegar skipið var selt, farmur þess og annað, sem því fylgdi, komust menn oft að góðum kaupum, t.d. eins og þegar salttunnan var seld á 10 kr. á Sýrenustrandinu sem ég kem að seinna.

Venjulegast var skipið sjálft keypt lágu verði. Einhver búandi sveitarinnar bauð í það. Enginn hækkaði boðið, og það var slegið. Að þessum kaupum stóðu allir búendur í sveitinni, þótt einn gerði boðið. Hver fékk svo sinn hlut, nema þeir efnuðustu tóku venjulegast tvo hluti. Á seinni ströndum var það fellt niður. Þó að utansveitarmenn væru á uppboði , sem oftast var, gerðu þeir aldrei boð í skipið; það var eins og það væri þegjandi samþykkt, að viðkomandi hreppur þar sem strandið kom, fengi að njóta þess. Mikið verk var í því að rífa strandið, eins og það var kallað, það var að rífa skipið. Venjulegast var einn maður frá heimili við það, og tveir frá þeim heimilum, sem tóku tvo hluti. Þetta verk var helzt unnið fyrri hluta vetrar, eða þegar leið á vetur og dagur var orðinn langur. Mikil og góð áhöld þurfti við þetta verk. Sleggjur, járnfleyga og stærri járn, einnig sterka kaðla.

 

Ávinningur að kaupa

Oft var glatt yfir mönnum þegar var verið að rífa ströndin. Það var svo sjaldan að menn hittust, en þarna var tækifærið. Var þá skrafað um landsins gagn og nauðsynjar, en þó einkum um framtíðarmál sveitarinnar, eins og stofnun lestrarfélags U.M.F. og byggingu samkomu og fundarhúss. Á þessum mannfundum var reynt að plægja akurinn; fyrir það var hann mildari, þegar sáðtíminn hófst.

Ströndin gáfu oft mikið í aðra hönd. Þó að sala færi fram á strandgóssinu, þá var verðið venjulegast það lágt, að ávinningur varð alltaf nokkur af að kaupa. Þarna var hægt að fá segl, kaðla, tré, oft einhver matföng, koníak, fisk, salt og ýmislegt fleira. Oft slógu menn sér saman í félag til þess að ekki væri hleypt of háu verði í söluna. Buðu þá ákveðnir menn. Með þessu var hægt að komast að betri kaupum. Að sölu lokinni fóru skipti fram milli manna; fékk þá hver sinn hlut.

 Þegar ég skrifa nú um ströndin, þá verðum við að athuga hvað tímarnir hafa breytzt síðan frönsku fiskiskúturnar flutu hér fyrir landi, og ein og ein varð að hleypa í strand vegna einhverrar bilunar, og þá helzt vegna aldurs og leka. Á þeim tímum, sem ég var að alast upp, var lífsbaráttan enn hörð. Efni margra voru af skornum skammti. Gott þótti þá, ef hægt var að veita sér það allra nauðsynlegasta til að viðhalda lífinu, matinn varð margur að skera við nögl sér handa fólkinu. Einatt kom það fyrir, að margur var þá svangur og óskaði meiri matar. Öll höpp, sem að hendi báru, voru fundinn fengur fyrir fólkið. Það gladdist einlæglega og lofaði guð fyrir fengið happ. Góður aflahlutur á útsjávarbátana, eins og þeir voru kallaðir í Suðursveit, sem róið var þar frá opnum brimsöndunum, hvalreki eða strönd voru stærstu höppin, sem að hendi bar. Frá mannlegu sjónarmiði var því engin fjarstæða þó horft væri eftir strandi, og strönd talin eitt af höppum þess tíma.

 

Hljóp jakkalaus

Þriðja strandið, sem ég heyrði talað um, var hið svo kallaða Steinafjörustrand, - Steinafjara er sama og Sléttaleitisfjara, því að á Sléttaleiti var reist byggð þegar Steinar fóru í eyði, eða með öðrum orðum byggðin frá Steinum er flutt að Sléttaleiti. Hjá eldra fólki í mínu byggðarlagi hafði þetta strand fengið þetta sérnafn af því að það var fyrsta strandið sem kom á þessa fjöru. Fleiri komu þar síðar, eins og frá mun greint.

Þetta strand kom á árunum 1888-92, en hvert árið er ég ekki viss um. Það mun hafa verið síðari hluta góu eða fyrri hluta einmánaðar, að strandið kom. Það var mannalaust og fátækt að vistum. Daginn, sem strandið kom, var blítt veður, logn og sólskin, en með kvöldinu gerði austanbyl og hörkufrost. Breiðabólstaðarbændur, þeir synir Steins á Breiðabólsstað, Þórður, Þórarinn og Björn voru að saga tré þennan dag, sem þeir áttu í félagi, og rekið hafði á fjöru þeirra. Fór sögunin fram á Gerði. Þórður faðir minn hafði farið frá gegningum um morguninn jakkalaus í veðurblíðunni, að söguninni. Þegar skútan sigldi fullum seglum í land, hlupu þeir bræður frá söginni á strandstaðinn sem er 2-3 km. Leiðin var bein í þetta sinn, því að Breiðabólstaðarlón var á haldi. Faðir minn gaf sér ekki tíma til að fara heim, eru það þó ekki nema kringum 200 metrar, til að sækja sér jakka. Fékk hann því lánaðan jakka af Þórarni bróður sínum á Gerði. En mikið sagðist hann haf verð búinn að bölva jakkanum fyrir það hvað hann var þröngur og skjóllaus þegar bylurinn skall á. Það þótti líka dálítill kostur að vera í víðu fati yztu klæða þegar farið var til strands. Vel gátu strandmennirnir skotið einhverju að þeim, sem komu til bjarga; var þá gott að geta skotið því í skyndi á nokkuð öruggan stað, svo hreppstjórinn sæi það ekki, - en hann var venjulegast á vakki yfir það sem björgun á strand-„góssi“ fór fram. Á vorin og matarkreppa í Suðursveit, ef ekki gaf á sjó, eins var með eldsneyti til matarsuðu og ljósa.

 

„Helvítis fátæktin...“

Á Breiðabólstaðarbæjum var orðið olíulaust að þessu sinni. Þeir bræður fundu brúsa með olíu í, sem tók 50-60 lítra. Halda var fest í hann, þar sem hann byrjaði að mjókka upp. Þegar þeir bræður fóru af strandstaðnum um kvöldið, tóku þeir dunkinn með sér, kom það í hlut Þórðar og Björns að bera hann á milli sín á höldunni heim. Ekki höfðu þeir bræður lengi farið, þegar þeir voru orðnir villtir; var það bæði af náttmyrkri og snjóbyl. Þegar svo var komið, ráðguðust þeir um, hvað gera skyldi. Dunkinn vildu þeir ekki skilja við sig fyrr en í fulla hnefa. Héldu þeir því aftur á af stað, en breyttu nokkuð um stefnu eftir veðurstöðu. Fyrr en varði brast ísinn undan fótum þeirra og þeir stóðu í nær mittisdjúpu vatni. En af því mennirnir voru knáir, tókst þeim að brjótast upp á ísinn og bjarga dunknum upp úr. „Helvítis fátæktin hefur margan ætlað að drepa,“ varð Þórði föður mínum að orði um leið og hann vatt mestu bleytuna úr vettlingum sínum og hagræddi dunknum á ísnum.

Nú þóttust þeir sannfærðir um, að vindstaða hefði breyzt. Lyftu þeir nú dunknum á milli sín, og héldu í öfuga átt við það, sem áður var. Sóttu þeir nú nær beint móti veðri, í stað þess sem þeir höfðu áður haldið sniðhallt undan því. Þegar þeir höfðu svona haldið um sinn, sáu þeir grilla í dekkju fram undan. Við nánari athugun sást, að þeir voru að nálgast Hamarsbakka, eru þeir nær miðja vega frá strandinu og heim.

 

„Bíttu við nögl“

Héldu þeir nú upp undir bakkana og tylltu sér niður í skjóli þeirra. Björn þreif til vestisvasa síns, dró þar upp væna tóbaksrullu og mátaði hóflega frá enda hans að nögl sér og sagði við föður minn um leið og hann stakk endanum í munn hans: „Bíttu við nögl.“ „Æ, guðlaun“ hraut út úr föður mínum. Nú tóku þeir það ráð, í snjóhengju, í snjóhengju. Frost var nú tekið að vægja og snjókoman að verða bleytukenndari. Þegar þeir stóðu upp, voru þeir nokkuð vissir á stefnunni heim. Út úr miðnætti náðu þeir heilir á húfi húsum. Höfðu þeir þá verið að villast með brúsann á milli sín í meira en 5 klukkutíma á Breiðabólstaðarlóni. Daginn eftir var dunkurinn sóttur. Lengi var hann við líði á Breiðabólstað eftir að ég mundi. Of stór þótti hann að hafa til að kaupa olíu á til vetrarins. (Þá fóru olíukaup á heimilum víða ekki yfir 20-25 potta yfir árið). Stóð dunkurinn því lengst af í smiðjunni á Breiðabólstað á þrepi, sem var þar inn við stafninn.

 

Konur á ráðstefnu

Árið 1901, á byrjuðum engjaslætti, kom næsta strand á Steinafjöru, beint fram af Sléttaleitisbænum. Frá Sléttaleiti fram á fjöruna er tæpur kílómetri. Þetta ár bjó Björn Klemenzson á Sléttaleiti. Ég var átta ára, þegar þetta strand kom, en man þó heldur lítið frá því að segja. Ég fékk ekki að koma á strandið fyrri en uppboðsdaginn. Það man ég, að kvenfólkið á Breiðbólstaðarbæjum var aðallega við heyskapinn meðan á björgun stóð úr strandinu, því karlmennirnir voru við það. Í minni er mér (sérstaklega) einn þurrkdagur með á björgun stóð, og þá sérstaklega fyrir það, að ráðstefnu var skotið á meðal kvenna á Breiðabólstaðarbæjum, sem voru í samvinnu við heyskapinn meðan á því stóð að bjarga var ýmsu, sem tilheyrði strandinu, hver þeirra ætti að binda heybaggana og láta þá til klakks. Dæmdist það á Þóreyju Þorláksdóttur, sem þá var á Breiðabólstað, tuttugu og fjögra ára gömul. Líka kom það í hennar hlut, að fara upp á baggann og binda hann. Næst Þóreyju með alla þrekraun við þurrheyið gekk Auðbjörg móðursystir mín. Strandmennirnir höfðust sumri við á Reynivöllum hjá Eyjólfi Runólfssyni hreppstjóra, en sumir í tjaldi á fjörunni. Oft lágu leiðir þeirra um milli strandsins og Reynivalla, (sá vegur er um 5-6 km). Fóru þeir þá um þjóðveginn fyrir ofan túnið á Breiðabólstaðarbæjum. Heldur var kvenfólkinu illa við þessar ferðir þeirra og létu sem minnst á sér bera, þegar þeir fóru á milli.

 

Frakkar nálgast

Einn daginn komu nokkrir strandmenn vaðandi upp í Breiðabólstaðarlón, miðju vega milli Breiðbólstaðar og Sléttaleitis, og stefndu upp í Breiðabólstaðateiga. Þegar kvenfólkið sá til ferða þeirra, fór að koma kurr í liðið. Orð fór af því, að útlendingar gætu verð djarfteknir til kvenna, og skollinn mátti vita hvað þessir strandamenn tækju fyrir, ef þeir kæmust í kvennahóp. Þennan dag voru konurnar að slá á svokölluðu Innra-Rofi, stutt vestan við Hala-bæinn, þar sem nátthaginn var síðar og nú matjurtargarðar.

Ráðstefnu var skotið á, hvað til bragðs skyldi taka, ef þeir frönsku kæmu. Bezt var að halda hópinn, hafa barefli í höndum og ógna þeim frönsku með, ef þeir ætluðu að sýna sig, lagði einhver til. Þetta þótti snjallræði. Önnur benti á selakeppi, sem voru þar á hverjum bæ og notaðir voru við seladráp á Hrollaugseyjum vor og haust. Þetta voru tilvalin barefli fannst henni. Allar urðu þær á sama máli um það. Nú voru þeir frönsku að nálgast dýpsta nesið í lóninu. Þar snéru þeir við. Fögnuði sló yfir kvennahópinn. Þær blessuðu Álnesið, sem vel gat hafa ráðið úrslitum um örlög þeirra, og happ var, að þurfa ekki að beita keppunum, enginn vissi hvað af því gat hlotist.

 

Náið honum hins veginn

Daginn eftir uppboðið kom Eyjólfur hreppstjóri í einhverjum erindum að Hala. Hann kom í stofuhúsið, sem þá var óþiljað, en lausum fjölum var raðað ofan á bitana. Milli eins bitans og fjala var stungið frönskum flatningshníf. Eyjólfur kemur auga á hnífinn og segir við Benedikt afa minn, sem staddur var þarna inni. „Þú hefur svo sem keypt þér þarna flatningshníf á strandinu.“ „Ó, nei“ sagði afi. „Ég náði honum rétt hins veginn.“ „Þú þorir að segja mér þetta,“ sagði Eyjólfur. „Ég er nú ekki hræddur við þig, kallurinn,“ svaraði afi. „Ja, mér er andskotans sama, þó menn nái sér einhverjum hlut, ef ég er ekki látinn sjá hann.“

Ekki komu teljandi vistir til sölu af þessu strandi, eitthvað af fiski, en ekkert konjak. Stutt var þangað til átti að halda heim. Þorleifur Jónsson hreppstjóri í Hólum seldi strandið í umboði sýslumanns. Strandmennirnir munu hafa verið fluttir hrepp frá hrepp til Djúpavogs.

1906 strandar þriðja skútan á Steinafjöru á sömu slóðum og þær fyrri, um mánaðarmótin apríl-maí. Dagana áður en strandið kom geisaði hið mesta stórviðri, sem þátíðarmenn mundu, og stóð nær tvo sólarhringa með sama ofsa. Þá voru húsin á Hala og víðast í þessu héraði með torfþökum. Öll bæjarhúsin á Hala, og sum eins og stofuhúsið með áföstu búri og inngöngubæ með geymslulofti yfir, féllu alveg niður í rúst.

Þilin, sem voru framan á þessum húsum, kurluðust og sperrur féllu. Það átti að heita að baðstofan héngi uppi, en þak af tveimur hlöðum reif meir og minna, og eins eldhúsið. Í þessu veðri sló fé í innfjöllum til dauða.

 

Hrútsi kom heim

Daginn fyrir veðrið eða næstu daga áður rak Eyjólfur á Reynivöllum gemsa sína, eða mikinn hluta af þeim, út í svokallaðan Ytri-Sand, það er sandurinn milli Jökulsár og Stemmu. Flesta þeirra hrakti í Stemmulónið og drápust þar, um 20 að tölu. Þetta ár átti faðir minn tvævetran hrút, sem fóðraður var í eldhúsinu um veturinn. Hann var styggur og móðir hans með forustueðli. Búið var að sleppa hrútsa frá húsi og hann kominn til fjalls meira en viku fyrir veðrið. Kvöldið áður en veðrið skall á, í mestu blíðu, kom hrútsi að eldhúsdyrunum og jarmaði hátt. Hann var hýstur og gefin góð tugga. Þegar móðir mín kom úr eldhúsinu um kvöldið (þá voru enn hlóðareldhús), varð henni að orði: „Eitthvað leggst nú ekki gott í hrútinn, að vilja drífa sig inn í þessu veðri.“

Í þessu ofsaveðri voru nokkrar skútur að reyna að halda sér við undir Steina- og Breiðabólstaðarfjalli, en það gekk illa. Vafalaust hafa þær fengið mörg áföll og stór. Hvort sú hefur verið úr þeim hóp, sem strandaði á Steinafjöru daginn eftir veðrið, skal ég ekki fullyrða. En skipsmenn töldu að skútan hefði laskast í veðrinu, leki komið að henni, og af þeim ástæðum hefði henni verið hleypt í strand. Það mun hafa verið um eða upp úr hádegi, að skútan hleypti í strand. Þetta var skonnorta af stærstu gerð og hét Sýrena. Smátt var í sjó, þegar strandið kom, mennirnir björguðust allir með góðu. Flestir karlmanna úr sveitinni og eitthvað af unglingum þustu á strandstaðinn. Nú var nokkur nýjung að fá strand í Suðursveit. Þess vegna þurftu sem flestir að sjá það, og njóta einhvers góðs ef tækifæri gæfist.

 

Reki kom víða

Fljótlega eftir að skipið varð landfast byrjaði það að brotna. Leið þá ekki á löngu að ýmislegt færi að reka úr því af farminum, sem var mikill. Rak það vestur um Steinafjöru, Breiðabólstaðar- og jafnvel Reynivallarfjöru. Til dæmis rak tvær konjakstunnur á Breiðabólstaðarfjöru, eina eða fleiri brauðtunnur og margt fleira. Mikið var af fiski í strandinu – allur í tunnum, eins og salt. Þetta rak mest í kringum strandið og nokkru var bjargað af mönnum úr skipinu sjálfu.

Reist var skýli á fjörunni, ar sem strandmennirnir höfðust við þar til þeir voru fluttir til Hornafjarðar nokkrum dögum eftir strandið. Sú var venja að hreppstjóri tilnefndi tvo til fjóra menn til að gæta strandsins bæði nótt og dag, unz sala hafði farið fram, en það gat dregizt í tvær til þrjár vikur. Langt var að sækja sýslumann og mörg og stór vötn á leiðinni. Það var hann, sem framkvæmdi söluna eða skipaði einhvern í sinn stað til þess. Þó mátti hreppstjóri selja það af matvælum eða öðru, sem lá fyrir sjáanlegum skemmdum. En sjaldan mun hreppstjóri hafa notað þennan rétt. Þeir, sem gættu strandsins, voru kallaðir vökumenn. Var þeim búið skýli við strandið. Þar höfðust þeir við.

 

Dóu ekki ráðalausir

Þeir Suðursveitungar, sem á strandið fóru að þessu sinni, urðu margir kenndir, og sumir vel það. Nóg var að fá af víni, bæði sem þeir frönsku veittu, og sem menn gátu náð sér á annan hátt. Þegar björgun var lokið þennan dag, hélt hver heim til sín og voru glaðir í skapi. Ragnar Þórarinsson frændi minn, nú trésmíðameistari í Reykjavík, en þá á Breiðbólstað, var einn af þeim, sem var við björgun á strandinu. Hann var í nýjum leðurstígvélum, sem ekki var algengt í þá daga. Fylgdust þeir að heim um kvöldið hann og Stefán Jónsson þá á Reynivöllum, tengdasonur Eyjólfs hreppstjóra, sem áður hefur verið nefndur. Leið þeirra lá eftir fjörunni, þar sem ýmislegt rekald var úr skipinu, þar þarna fáförult, því leið flestra lá í aðra átt. Komu þeir þá að konjakstunnu, sem lak niður innhaldinu. Þetta fannst þeim félögum ótækt, að láta þennan dýrmæta vökva renna í sandinn. Fann Ragnar þá upp á því snjallræði að fara úr stígvélunum og fylla þau af konjaki, en gekk berfættur heim. Góðglaðir komust þeir heim um kvöldið með þennan feng sinn.

Stuttu eftir að það gerðist, sem nú hefur verið frá sagt, bar þrjá Suðursveitunga að sömu tunnu og þá Ragnar og Stefán. Þetta voru Þórður faðir minn, Bjarni Runólfsson bóndi á Kálfafelli, og Þorsteinn Jónsson sama stað. Nú fóru þeir að bera ráð sín saman, hvort ekki væri hægt að bjarga einhverju úr tunnunni áður hún læki öll niður. Faðir minn benti á kút sem var þar nokkru austar á fjörunni. Bezt var að biðja Þorstein að hlaupa eftir honum því hann var fráastur þeirra félaga. Ekki stóð á Þorsteini, og áður löng stund leið var hann kominn aftur og þá með kútinn og væna seglpjötlu til að binda yfir hann því enginn hlemmur var þar nálægt. Nú var helt úr tunnunni í kútinn. Hann tók 40-50 potta. Síðan tóku þeir gröf í sandinn jafn djúpa og kúturinn var hár, bundu seglið ramlega yfir og létu hann niður. Síðan fylltu þeir sandi að kútnum en létu ekkert ofna á seglið.

 

Kútur í hættu

Nokkrum dögum seinna fór faðir minn að vitja um kútinn. Allt var í lagi með hann, hann sat þarna á kafi í fjörunni. Eyjólfur hreppstjóri á Reynivöllum fór daglega um fjöruna til að líta eftir strandgóssinu, og var þá venjulega ríðandi því honum var farið að daprast sjón. Þegar faðir minn sagði okkur síðar frá hvað kúturinn hefði verið kominn hætt fórust honum orð á þess leið:

„Helvítis karlinn á Reynivöllum var alltaf að slaga um fjöruna. Í einni þessari ferð sinni hafði hann lagt leið sína um þar sem kúturinn var og lá brautin eftir hestinn yfir kútinn og svo litlu munaði, að afturhófur hestsins hafði skroppið niður með kútsbarminum utan. En það lán,“bætti faðir minn við, „að hann skyldi ekki lenda ofan í kútinn.“

 

Konjakinu skipt

Það var vestarlega á Breiðabólstaðarfjöru, að kúturinn var grafinn nærri í hásuður frá Hala. Nú var eftir að ná kútnum. Það hafði faðir minn gengizt undir að gera, af því hann átti stytzta leið til þess. En hér var ekki hægt um vik. Hann var í fleirbýli. Þó hann færi á bát yfir Breiðabólstaðarlón, sem var auðvelt, því uppistaða var í því, þá var hættan á, að Þórarinn bróðir hans á Breiðabólstað færi á hnotuskóg, kæmi til skips og sæi kútinn. Dettur föður mínum þá það snjallræði í hug að segja Þórarni frá kútnum og innihaldi hans, og fá hann sem fjórða hluthafa í honum. Þetta var auðsótt mál við Þórarin. Fóru þeir svo eina bjarta vornótt í þokuúða og sóttu kútinn. Þegar heim kom gengu þeir vandlega frá honum í heystabba í Langabænum á Breiðabólstað. Um Jónsmessuleytið var skiptafundur haldinn á Hala. Komu þeir þá vestur Bjarni og Þorsteinn að taka á móti sínum hlut úr innihaldi kútsins. Þann dag voru karlarnir góðglaðir. Faðir minn var ílátalítill undir sinn hlut. Til var blikkskjóla á Hala, sem keypt var á togara sem strandaði vestan við Jökulsá á Breiðamerkursandi veturinn áður. Hún var það frábrugðin venjulegum skjólum, að stútur eða vör var á henni svo gott var að tæma af henni. Í þessa skjólu lét faðir minn nokkuð af því víni, sem kom í hans hlut, setti hana svo ofan í ólæsta kistu, sem hann átti og geymdi tóbak og fleira í. Þar stóð hún loklaus lengi sumars. Einhverjum hefði þótt girnilegt nú á tímum að rétta höndina undir lokið og ná sé í lögg. Aldrei snertum við Benedikt bróðir (Þórbergur var þá farinn) á þessum feng föður okkar.

 

Konjak í smáskömmtum

Ekki leið langt frá strandi til uppboðs. – Á uppboðið kom mikill fjöldi manns bæði úr A – Skaftafellssýslu og nokkrir úr V – Skaftafellssýslu. Þarna var selt konjak, fiskur, lítils háttar af brauði, kaðlar, segl, trjáviður og fleira. Þó menn væru víða að komnir, var samt myndað félag um fiskinn. Ekki voru það allir, sem óskuðu eftir að fá fisk. Ég held það hafi verið tunna af fiski sem kom í hlut, og var boðið í hana 10 kr. Margir voru góðglaðir á þessu uppboði. Konjakið var selt í smáskömmtum, minnir mig 2 pottar í boði, og potturinn komst yfir 2 krónur. Ekki var uppboði lokið fyrr en um miðnætti. Þá áttu sumir fullt í fangi með að bjarga sér heim, en engin urðu af því vandræði, og öll skipti á því sem félag var myndað, fóru fram í bróðerni.

1912 strandar enn skúta á Steinafjöru, hún hét „Magdalena“. Þann dag var norðaustan strekkingur og kalt í veðri. – Þetta var í byrjun maí. Ég man vel eftir deginum þeim. Við feðgarnir, ég, Benedikt bróðir og faðir okkar, vorum að stækka kálgarðinn framan við bæinn. Þá var ekki mikill stórhugur í garðrækt, enda ekki rækta nema til heimilsþarfa. Við færðum garðinn fram í túnið kringum þrjá faðma. Mun hann hafa stækkað kringum 30 – 40 ferfaðma. Þegar leið á daginn veitum við því eftirtekt að skúta kemur siglandi fullum seglum utan úr hafi og stefnir undir Steinafjöru. Þegar hún er komin á tvítugt, veitum við því eftirtekt að undir hafísrönd hillir við hafsbrún. Bæði skútan og ísinn nálgast land – ísinn jafnvel með meiri hraða. Hvað vill skútan með þessari siglingu sniðhallt undan vindi, vorum við að bollaleggja. Líklega er hún að flýja ísinn og ætlar að setja í strand.

 

Strand og tóbak

Sú tilgáta fannst föður okkar; sem reyndum sjómanna af Austfjörðum frá fyrri tíð, ekki líkleg. Hún mundi heldur setja undan vindi og halda vestur með landi í blásandi austan byr. Nú fór byggingin að ganga hægt hjá okkur bræðrum, augun voru stöðugt á skútunni. Faðir okkar fór líka að gefa henni hornauga. „Jú, hún ætlar í strand, pabbi,“ sagði ég. Faðir okkar lagði rekuna frá sér upp við túngarðinn og steininn sem hann hafði til að berja snidduna með, lagði hann á garðinn. Hann þreif ofan í vestisvasa sinn að leita eftir tóbaki. (Hann var mikill tóbaksmaður) En vasinn var tómur og var lengi búinn að vera það, því ekkert tóbak fékkst í verzluninni. „Ef skútan strandar,“ sagði ég, „færðu nóg tóbak, pabbi.“ Hann þagði en fór að tvístíga fram með garðinum og bretta upp á burulafið eins og hans var einatt vani, þegar honum var mikið í hug. Öll vinna var úti hjá okkur feðgum. Athyglin beindist að skútunni, Nú hvarf hún undir fjöruna. Þá þurfti ekki neinar ágizkanir hvað hún vildi. Hún ætlaði að setja í strand.

 

Tveir menn drukkna

Við bræður hentum moldarvettlingunum á garðinn, hlupum inn á baðstofu, fengum okkur hálsklút og vettlinga, gripum hnakka og beizli í bænum, tókum sitt hrossið hvor við túntótinn og riðum sem af tók á strandstaðinn. Ekki vorum yfir tuttugu mínútur að komast þangað. Faðir okkar bjó sig líka í snatri, en varð eitthvað á eftir okkur. Þegar á strandstaðinn kom, er þar kominn slæðingur af mönnum, sem áttu stytztu leið á strandið, en brátt drifu menn að hvaðanæfa. Það var verið að bjarga síðustu mönnunum í land, þegar við bræður komum. Af einhverjum mistökum þeirra, sem í landi voru, en þó einkum skipsmanna sjálfra, drukknuðu tveir af skipverjum. Þetta þótti öllum leiðinlegt, slíkt hafði ekki áður komið fyrir við björgun á strandmönnum í Suðursveit.

Þegar nú var búið að bjarga mönnunum úr skipinu, rak hafísinn að landi og þrýsti sér að skipinu. Nú var ekki mikil hætta á ferðum. Sjórinn lá eins og tjörn og skipið hreyfist ekki. Ef strandmennirnir hefðu aðeins beðið litla stund í skipinu þar til ísinn kom hefði allt farið vel. En það var ísinn, sem þeir óttuðust, þess vegna var meira fum á þeim að komast í land en annars hefði verið.

 

Illa farið með konjak

Eftir sögusögn skipsmanna rakst skútan á hafísjaka, leki kom að henni og af þeim ástæðum sögðust þeir hafa hleypt henni í strand. Nú var gengið að því að koma upp bráðabirgðaskýli í fjörunni fyrir strandmennina. En aðrir gengu í það ásamt strandmönnunum sjálfum að ná rúmfatnaði og öðrum nauðsynlegu dóti þeirra úr skipinu. Brátt byrjuðu þeir frönsku að veita konjak. Var það af flestum vel þegið. Margir urðu kenndir, en engir út úr. Annars var lítið konjak á þessu strandi og þeir frönsku fóru illa með það, helltu því niður í sandinn og jafnvel báru það í sjóinn. Fiskur var ekki teljandi, en mikið af salti. Það keypti Þórhallur Daníelsson þáverandi kaupmaður á Hornafirði. Seinna um sumarið sótti hann það á mótorbát að sandinum.

Það fór eins og ég sagði föður mínum, hann fékk talsvert af tóbaki hjá þeim frönsku. Muldi hann úr því þar til tóbak kom síðar um vorið í verzlun. Nokkuð var það misjafnt hvað strandmenn voru gjöfulir. Þeir, sem gátu sprokað við þá, voru nógu einarðir og slógu um sig, fengu einatt smávegis hjá þeim. Einn hlutur var lengi til minja um þetta strand. Maður er nefndur Björn Arason, var fæddur og uppalinn og ól allan sinn aldur á Reynivöllum hjá Þorsteini bróður sínum. Það var nú góður karl og gerði mörg um glatt í sinni. Hann var svo viss að taka lag á brimlendingu, að aldrei þurfti að afturkalla það. Steinn afi minn sagði um Björn: „Hann var enginn ræðari, en var góður að taka lag“. Og svo sagði hann langa sögu af snilld Björns í þessu efni, er hann fól honum (Steinn var formaður á róðrabát) að taka lag í land í foraðsbrimi, og ekki sýndist lands leitandi, en sú saga verður ekki sögð hér. En allt bjargaðist, bæði skip og menn. Ekki fór Björn altént alfaraleið með orð og orðmyndanir. Bjó hann sjálfur til orð og nýnefni á ýmsa hluti bæði lifandi og dauða.

 

Skrýtnar nafngiftir

Bleik hryssa var á Reynivöllum, sem hét Bleik. Hana kallaði hann Mörfleiginn. Jarpur hestur var þar, sem hét Jarpur, hann kallaði hann Sardínusíldina. Skjóttan hest kallaði hann Skinuna. Jarpan hest, sem hann átti sjálfur og hét Blakkur, kallaði hann Blankúruna. Vinnukona var á Reynivöllum sem hét Ástríður. Hana kallaði hann Álakerfi, einkum í spaugi. Á þessu strandi gaf einn fransmaðurinn honum pening, áletraðan, sem gat líkst minnispening, og var hægt að festa hann á sig, því svoleiðis umbúnaður var á honum. Björn stóð í þeirri meiningu, að þetta væri dýrindis gjöf, sem hann yrði að láta fylgja ættinni. Kvöldið, sem hann kom heim af strandinu eftir að hann eignaðist gjöfina, gekk hann vandlega frá honum vafði um hann silki og læsti hann niður í kistu sinni.

Þegar Björn fór að eldast fór hann að skyggnast eftir einhverjum úr ættinni til að gefa peninginn og varðveita hann. Svo liðu ár og áratugir, að engan fann hann, sem hann treysti að bera peninginn og geyma hann.

 

Það var vörumerki

Nú var það einu sinni sem oftar að við hjónin fórum í heimsókn að Reynivöllum og Torfi sonur okkar 11-13 ára með okkur (kona mín var systurdóttir Björns og alin upp á Reynivöllum). Afhendir Björn þá Torfa peninginn með löngum formála. Lagði hann ríkt á við hann að bera peninginn að innsta kosti við öll hátíðleg tækifæri, en þó umfram allt að lóga honum ekki, en láta hann fylgja ættinni. Þeir, sem gátu lesið á peninginn, - en á hann var letrað á frönsku, - sögðu, að þetta væri hvorki minnispeningur né medalía, heldur vörumerki úr eir eða kopar. Svona fór með minnispening þann.

Mennirnir, sem drukknuðu, voru jarðsettir í suðaustur horninu í kirkjugarðinum á Kálfafellsstað. Ég var einn, sem var líkmaður að þeim. Sonur annars hins látna var einn af skipshöfninni, drengur um fermingu. Tók hann lát föður síns sér mjög nærri. Við Íslendingarnir skildum vel söknuð hins unga manns, þótt ekki skildum við málið, sem hann talaði. Séra Pétur, þáverandi prestur á Kálfafellsstað, hélt ágæta ræðu yfir þeim dánu, í kirkjunni. Hann talaði um sjómennina, og þá hættu, sem þeir legðu sig í og hvaða örlögum þeir yrðu einatt að sæta. Þessir tveir útlendingar, sem í kistunum hvíldu, hefðu látizt fjarri ættjörð sinni og nánustu vinum, þar sem enginn hefði skilið þeirra mál, en fleiri skilið lífsbaráttuna, sem þeir hefðu orðið að heyja. Allir strandmennirnir voru viðstaddir jarðaförina. Djúp alvara ríkti hjá þeim og þeir drjúptu höfðum.

 

Tekinn með valdi

Skipstjórinn á þessu strandi þótti heldur leiðinlegur. Vel gat það stafað af því , að hann missti háseta sína í sjóinn. Hann var mjög drukkinn, daginn sem strandið kom, og vildi ekki yfirgefa skipið, hvernig sem reynt var með góðu að fá hann frá borði. Síðast um kvöldið réðust tveir röskir Suðursveitungar, þeir Bjarni Runólfsson á Kálfafelli og Björn Steinsson á Breiðabólstað inn í káetuna til hans. Þegar hann varð mannanna var, atti hann stórum hundi, sem var hjá honum, á þá. Hvutti ætlaði ekki að láta standa á sér og bjóst til að stökkva á þá. Björn gaf honum vel útlátið hnefahögg í hausinn; riðaði hvutti við og lagði ekki til atlögu aftur. Þeir Bjarni og Björn tóku sinn undir hvora hönd skipstjóra og leiddu hann upp á dekk og út að öldustokk skipsins. Bjarni fór þar niður á kaðli, sem lá niður með hlið skipsins. Björn gaf skipstjóra bendingu að fara á eftir. Hann virtist ekki alveg á því, og ætlaði að ráðast á Björn. Þreif Björn þá í bringu hans af afli miklu og benti honum á kaðalinn. Sá skipstjóri, að hér var við ofurefli að etja og gaf upp alla vörn, en renndi sér léttilega niður kaðalinn. Þegar niður kom, tók Bjarni hann og leiddi inn í skýlið, sem strandmönnunum var búið á fjörunni. Inni í skýlinu voru nokkrir Suðursveitungar að sproka við þá frönsku og fá smávegis hressingu hjá þeim. Þar á meðal var fullvaxinn piltur, Bjarni Þorleifsson að nafni, þá vinnumaður hjá Sigfúsi Skúlasyni á Leiti við Kálfafellsstað. Þegar kapteinn kom inn í skýlið réðst hann strax að Bjarna. Var þá gengið á milli þeirra. En það nægði ekki. Kapteinninn mátti ekki sjá Bjarna, hvorki úti eða inni. Hér horfði til vandræða. Bjarni röskur og eitthvað kenndur vildi ógjarnan láta sinn hlut, en kapteinninn fokillur. Þegar deilan stóð sem hæst milli Bjarna og skipstjóra, kom maður við aldur hlaupandi í hópinn, þar sem menn höfðu fylkt sér um deiluaðilana, og sagði „Fleiri stela hér en ég.“ En þannig var mál með vexti, að þessi aldraði bóndi hafði fundið öxi mikla og biturlega og gengið frá henni á nokkuð öruggum stað, að honum fannst. En þegar hann ætlaði að taka til axarinnar um kvöldið. Þegar hann var að halda heim, var hún horfin. Þá varð honum þetta að orði: „Fleiri stela hér en ég.“

 

Glímt í glensi

Enn harðnaði árás skipstjóra á Bjarna. Var þá það ráð tekið að þeir Þórhallur og Runólfur, synir Bjarna á Kálfafelli, og Benedikt bróðir minn slógu sér í félag og fóru með Bjarna heim að Leiti. Það var hressilegt, að horfa á eftir þessum ungu, vösku mönnum, þegar þeir héldu af stað frá strandinu, allir hýrir, þó að Bjarni væri þeirra hýrastur. Nú var fólk háttað, þegar þeir komu að Leiti. Verður Sigfús þó var mannaferða, því að stutt var frá því hann kom af strandinu, eitthvað kenndur. Drífur hann sig léttklæddur út og slær upp glensi við þá pilta. Lendir þá í glímu með honum og Bjarna, en allt í bróðerni. Þegar Guðrún, kona Sigfúsar verur þess vör, að hann er horfinn úr rúminu, snarast hún fram í bæjardyr og sér hvar þeir Sigfús og Bjarni glíma af kappi í kálgarðinum framan við bæinn. Verður henni þá að orði: „Nú held ég að hann Fúsi sé orðinn vitlaus.“

Þegar samfylgdamenn Bjarna sáu, að öllu var óhætt, og allt var í bróðerni, héldu þeir að Kálfafelli, þar sem þeir bræður áttu heima, og háttuðu þar allir í sama rúmi. En svefnsamt varð þeim ekki; rúmið var lítið, en mennirnir í stærra lagi.

Kringum viku eftir strandið voru mennirnir af því fluttir til Hornafjarðar, en þar sem þeir fóru á skip. Ekki löngu síðar var uppboðið haldið og strandið selt.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 93
Gestir þennan mánuð: ... 5515
Gestir á þessu ári: ... 13555