Skip to main content

Að koma við í Steinum

Þorbjörg Arnórsdóttir skrifar:

Það er gaman að staldra við undir Steinafjalli í Suðursveit, nánar tiltekið undir austurhlíðum Steinafjalls spölkorn frá Sléttaleiti. Þar eru greinilegar búsetuminjar frá öndverðri 19. öld, gamlar tættur og hleðslur sem vekja undrun og eftirtekt. Þær eru flestar á þeim slóðum þar sem hlíðin mætir sléttlendinu, innan um eða neðan undir steinum og stórbjörgum sem hrapað hafa úr klettunum fyrir ofan hlíðina. Þar eru tættur bæjarins í Steinum í Suðursveit sem lagðist í eyði 1829, og fluttist ári síðar vestur með hlíðinni að Sléttaleiti. Örskammt frá tættunum er stór stakstæður steinn, steinninn Prestastóll, stórvitur og margfróður, segir Þórbergur.

Í Steinum gæti verið skemmtilegur áningarstaður fyrir ferðafólk, þar sem skyggnst er inn í liðna tíð en jafnframt hægt að njóta hrikaleika náttúrunnar og upplifa sterkt hvernig fólkið í landinu hefur orðið að berjast fyrir tilveru sinni við óvægin náttúruöfl og sérkennilegar aðstæður. Hér birtist hluti af grein um eyðibýlið Steina, en innan Þórbergsseturs hefur verið unnið að því að safna saman heimildum um Steina og skrá þær búsetuminjar sem þar eru sýnilegar.

Það má undrum sæta að í Steinum hafi fólk búið öldum saman. Vitað er með vissu um byggð þar á 16. öld, en þá er jörðin talin með eignum Þykkvabæjarklausturs. Jörðin var lengst af í eigu eða nytjuð af Kálfafellsstaðarkirkju og þar sátu gjarnan uppgjafa prestar eða prestekkjur. Heimildir eru þó slitróttar um ábúendur í Steinum fram undir 1735. Til vitnis um hve jörðin hafi verið góð sauðajörð hafa varðveist sagnir um Þorvarð ríka Björnsson stúdent Þorleifssonar lögréttumanns á Reynivöllum, sem er skráður bóndi í Steinum 1735 og talinn fjárríkasti bóndi sem sögur fara af í Suðursveit og þó víða væri leitað. Átti hann Gleypuréttina fulla af fé út á Ystaklett, er haft eftir Steinþóri Þórðarsyni á Hala. En ekki var allt sem sýndist því vitað er að ekki var búið í Steinum um 1742 vegna skriðufalla og undrar það engan þegar horft er til fjallsins fyrir ofan og þeirra hrikalegu bjarga og stórurða sem steypst hafa ofan úr klettunum niður á láglendið.

Undirrituð hefur leitað upplýsinga um þær búsetuminjar sem enn má greina undir austurhlíðum Steinafjalls og reynt að staðfæra sagnir sem lifað hafa og verið skráðar af þeim sem best þekkja staðhætti í Steinum og inn í Hlíð, eins og brekkan fyrir austan Steina og austur úr var kölluð. Ljóst er að alltof seint er af stað farið og glatast hefur mikil vitneskja um staðhætti og búsetuminjar í Steinum enda nú árið 2004 orðin 175 ár síðan byggð lagðist þar niður vegna náttúruhamfara, þ.e. grjóthruns úr fjallinu og flóðs úr Steinavötnum sem brutu sér leið í farveg Köldukvíslar og runnu vestur með fjallshlíð Steinafjalls. Hér verða sýndar á myndum þær tættur og hleðslur sem enn sjást örugglega í landslagi og reynt að heimfæra þær við þekktar sagnir eftir bestu getu. Guðrún Sveinsdóttir, og Jóhanna Þorsteinsdóttir sem báðar ólust upp á Sléttaleiti, fóru með undirritaðri um svæðið, leitað var heimilda í örnefnaskrám, og leitað fanga í skráðum heimildum um Steina.

Þórbergur Þórðarson segir í bók sinni Steinarnir tala um Hlíðina. ,,Þar var einmanaleg fegurð og kyrrð og dýpt, og það var eins og þar væri eitthvað á bak við það, sem maður sá. Mér fannst ég mundi verða afskaplega vitur, ef ég hefði tíma til að sitja nógu lengi í Hlíðinni aleinn. En ég var alltaf að flýta mér og missti af viskunni.” ( Þórbergur Þórðarson, Í Suðursveit bls 122. 1975)

Vitað er með vissu hvar bæjarhúsin í Steinum voru. Bæjarstæðið er á milli tveggja lækja austan undir Steinafjalli og sér þar greinilega til bæjarrústanna. Steinar stóðu lágt og aðeins sást í mjóa rönd af sjónum ofar fjörukambsins, segir Þórbergur, en nú skyggir upphækkaður vegur á Steinabala á útsýni til suðurs. Fast að bænum liggur stórgrýtisurð mikil, sums staðar með heljarstórum stökum björgum, en víða með þéttum stórsteinadyngjum sem ekki er einu sinni hægt að þræða á milli. Hvergi hefur hrapað jafn mikið úr klettunum og í grennd við Steina og bera fjallið, sandurinn og bærinn nafn af steinunum. Fast við vesturvegginn á bæjartóttinni rennur Steinalækurinn. Silungsgengd var sögð þar mikil og sagt var að fólkið í Steinum hefði gripið silunginn með höndunum og sett hann beint í pottinn í hlóðaeldhúsinu sem var fast við bæjarlækinn. Guðrún Sveinsdóttir mundi eftir að hafa séð hlóðirnar sem voru í vestustu tóttinni, en faðir hennar Sveinn Einarsson endurhlóð tætturnar og hafði þar sauðahús. Sjást þess greinilega merki, en einnig sést vel að eystri hluti tóttanna eru eldri og ekki ósennilegt að þar hafi verið fjós, eða einhver útihús sem gengið er inn í frá austri.
Í austurátt frá aðaltóttunum eru einhver merki um tættur og gamall hlaðinn garður úr mosavöxnum steinum liggur í austur frá bænum. Framan við bæinn er Steinabali og í norðaustur af honum Steinaaurinn. Austar og niður við Lónið eru Steinaeyjar.

Vestan við Steinalækinn er stakstæð gömul og gróin tótt. Þar er einnig stór steinn vestar og neðar en bæjartætturnar og sýnist hann vera ofan í tótt, þó er ekki hægt að fullyrða það. Ofan og vestan við bæinn er stór steinn. Sagan hermir að þegar bærinn í Steinum fór í eyði 1829 hafi stórt bjarg hrapað ofan úr fjallinu og stöðvast ofan í smiðjunni. Þar voru matarbirgðir heimilisins geymdar, þar á meðal hákarl og hangikjöt og grófst allt undir steininum. Steinninn gengur undir nafninu Smiðjusteinn. Jóhanna Þorsteinsdóttir þekkti Smiðjusteininn og taldi það vera steininn fyrir ofan og vestan bæinn, en ekki er alger vissa fyrir því nú hvar staðsetja eigi Smiðjusteininn.

Síðasti ábúandi í Steinum var Ingimundur Þorsteinsson frá Felli (f.1794 d. 1846) og kona hans Helga Bjarnadóttir( f 1799) frá Skaftafelli, ein af ellefu Skaftafellssystrum. Ingimundur virti að vettugi álög á jörðinni um að þar mætti ekki bæta við húsakost eða hreyfa við heygarðinum. Bætti hann húsakost á jörðinni og skopaðist að hjátrúnni. Það urðu örlög hans og fjölskyldu hans að þurfa að flýja bæinn eina óveðursnótt í júli vegna vatnavaxta, hlaups og grjóthruns úr fjallinu. Sagan segir að þá hafi Helga fætt soninn Sigurð Ingimundarson undir steini í hlíðinni. Sigurður varð síðar hreppstjóri og bjó á Fagurhólsmýri í Öræfum og á marga afkomendur í Öræfum. M.a. eru Kvískerjasystkinin komin út af tveimur dætrum Sigurðar, sem báðar hétu Guðrún. Enginn veit nú hvar steinninn er sem Sigurður fæddist undir, en ef gengið er um hlíðina á milli stórgrýtissteinanna má víða sjá skjólgóða staði og skúta sem hægt hefur verið að skýla sér undir rétt eins og í húsi væri. Á a.m.k.. tveimur stöðum mátti greinilega sjá hleðslur fyrir framan slík skjól, en ekki gott að átta síg á hvaða tilgangi þær þjónuðu. Tvennar sögur fara af staðsetningu steinsins. Eldra fólk hefur sagt og skráð í heimildir að fólkið hafi flúið inn með hlíðinni, en Guðný Svavarsdóttir frá Höfn sagði undirritaðri að afi hennar Hálfdán Arason frá Fagurhólsmýri hafi sýnt sér steininn, og hafi hann verið vestar en bæjartætturnar. Treysti hún sér ekki til að þekkja steininn aftur enda langt um liðið. Hálfdan var dóttursonur Sigurðar Ingimundarsonar og hafði vitneskjuna eftir afa sínum.

Erfitt er að meta sannleiksgildi þessarar sögu. Einar Bragi bendir á það að í kirkjubókum komi það fram að Sigurður var skírður í kirkju 8. júlí, daginn eftir að hann fæddist. Telur hann ótrúlegt að farið hafi verið með hvítvoðung upp yfir Steinasand strax eftir slíkar hamfarir og vatnavexti, jafnvel þó að það hafi verið siður og nánast algild regla að börn voru færð til skírnar strax eftir fæðingu. Á miðju sumri skipast þó oft fljótt veður í lofti og austanveðrin ganga fljótt niður. Ef um hlaup í Steinavötnum hefur verið að ræða innan úr Vatnsdal á Kálfafellsdal getur það hafa sett fljótt niður. Vera má að grjóthrunið og vatnavextina hafi ekki borið upp á sama dag, þó að hvoru tveggja hafi síðan leitt það af sér að óbyggilegt varð í Steinum og bærinn fluttur að Sléttaleiti. Oddný Sveinsdóttir á Gerði, sú mikla fróðleikskona er fædd árið 1821, og hefur þessi atburður því verið samtímaatburður í uppvexti hennar og í fersku minni fólksins þegar hún flytur aftur í Suðursveit á Breiðabólsstaðarbæi rétt fyrir miðja öldina. Þórbergur vitnar til Oddnýjar þegar hann skrifar um þessa atburði í bókinni Steinarnir tala.

Þorsteinn Guðmundsson frá Reynivöllum segir í handrituðu skjali að Ingimundur hafi verið síðasti bóndinn sem hafði búsmala í seli inn á Steinadal. Þar eru sagnir og örnefni sem benda til þess, svo sem Selmýri, Sellækur og Seltorfa, segir hann. Ingimundur og Helga byggðu síðan upp á Sléttaleiti 1830, en Ingimundur hafði búsmalann í Steinum 1829 – 1830 og vitjaði hans frá Breiðabólsstaðarbæjum, en Helga kona hans er sögð á Reynivöllum þennan vetur. Þau bjuggu síðan á Sléttaleiti til 1833. Sú saga var sögð um Ingimund að hann hafi verið smiður mikill og alls staðar þar sem hann hafi búið hafi hann umbylt og endurbyggt húsakost. Hann bjó m.a. í Butru sem var hjáleiga undir Butruklettum beint fram af Kálfafellsstað. Sér þar til mikilla húsatótta, sem ekki er ólíklegt að hendur hans hafi einnig farið um.

Í norðaustur frá bæjartóttunum í Steinum er hlaðin rétt, Steinaréttin. Hana hlóð Sveinn Einarsson síðasti ábúandinn á Sléttaleiti. Jóhanna Þorsteinsdóttir man eftir að réttað var í réttinni við Gleypu, en sú rétt hefur verið lögð niður þegar Sveinn hlóð Steinaréttina. Greinilega sést að tvö op hafa verið á réttinni í suðvestur og suður. Einkennileg hleðsla er í austurveggnum, einhvers konar hólf, lögulega hlaðið af hellulaga steinum. Vissi Guðrún ekki í hvaða tilgangi það hafði verið gert. Sögur fara af því að illa hafi gengið að reka inn í réttina við Gleypu. Þórbergur segir frá frænda sínum, sem búið hafði á Sléttaleiti í ungdæmi hans, hann hafi sagt sér að hann hafi eitt sinn séð einhverja veru bak við réttarstafinn, þegar var verið að reka fé í réttina við Gleypu. Betur gekk að reka í Steinaréttina, en ekki var það þó alltaf vandræðalaust. Ef til vill hefur veran bak við réttarstafinn bara fært sig um set þegar farið var að nota nýju réttina.

Ef haldið er áfram inn með hlíðinni blasir við hlaðinn garður, kallaður Nátthagi. Garðurinn er 100x61metri, hlaðinn úr torfi að sunnanverðu, en grjóti að norðan og austanverðu, 13 metra kafli í suðausturhorninu og 9 metra kafli á vesturkantinum eru hlaðnir úr torfi en að öðru leyti markast vesturkanturinn af stórum björgum sem hlaðið er á milli ýmist úr torfi eða grjóti. Inn í nátthaganum eru rústir af fjárhúsi og hlöðu. Jóhanna sagði að faðir sinn hefði haft þarna sauðahús þegar hann bjó á Sléttaleiti, þó ekki seinni árin. Hún mundi eftir að hann fór með hey í poka austur með fjalli til að gefa á sauðahúsin þegar þess þurfti. Einnig mundi Jóhanna eftir að fjárhúsin hefðu verið nýtt frá Hala við fráfærur. Í norðausturkantinum á garðinum er forn rúst , sem ekki er hægt að segja til um til hvaða nota hefur verið né hve gömul er.

Lengra inn með hlíðinni eru fleiri tættur sem ekkert er vitað um hvaða tilgangi þjónuðu eða hversu gamlar eru í raun. Voru þær ekki nýttar eftir að þær Guðrún Sveinsdóttir og Jóhanna Þorsteinsdóttir mundu eftir sér. Hægt er að lesa í þær búsetuminjar sér til ánægju , hlusta á nið liðinna alda og velta fyrir sér hvernig hagleiksmenn hlóðu mannvirkin af eigin afli. Við eina stærstu tóttina er hlaðinn garður sem líkur eru á að sé heygarður og er e.t.v. handverk Ingimundar í Steinum frá því á öndverðri 19. öld. Þar getur aðeins hugur nútímamannsins gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn og séð sögu og slóð forfeðranna en jafnframt notið skemmtunar af sögunni um örlög byggðar í Steinum. Sú saga birtist okkur sem örlagasaga fólks þar sem þráðurinn var spunnin í takt við hjátrú og þekkingu fólksins sem háði lífsbaráttuna í sambýli við náttúruöflin og átti engra kosta völ nema berjast áfram af eigin mætti.

Ef gengið er lengra inn eftir Hlíðinni er komið að Mosakletti, þar sem ýmislegt dulafullt hafði sést og fljótlega sést kletturinn Gleypa, sem sprengdur var að mestu til að fá grjót til að varna vatnagangi um vestanverðan Steinasand. Hann gæti sagt okkur margar sögur ef hann fengi mál. Innan við hann er fjárréttin í Gleypu sem getið hefur verið áður. Fyrirhugað er að skrá betur lýsingu á þessum minjum síðar og geta örnefna í kring. 
Þorbjörg Arnórsdóttir

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 75
Gestir þennan mánuð: ... 5497
Gestir á þessu ári: ... 13537