Skip to main content

Breiðamerkursandur, landmótun og byggðaþróun

Fjölnir Torfason skrifar:

Það var í byrjun maí 1962 að við krakkarnir á Hala áttum að fá að fara í ferðalag og ferðinni var heitið út að Jökulsá á Breiðamerkursandi. Farartækið var Chevrolet, vörubíll sem Bjarni Þórhallsson á Breiðabólsstað átti,  til stóð að fara með nokkra gemlinga og sleppa þeim í sumarhaga út við Jökulsá. Þeir sem fóru voru, Þorbergur Bjarnason bóndi á Hala sem var bílstjóri í þessari ferð, Þórhallur Bjarnason bóndi á Breiðabólsstað  og svo við systkinin á Hala, Fjölnir 9 ára, Steinunn 9 ára, Þórbergur 8 ára og Zophonías yngstur, bráðum að verða sex ára,

Ferðin út að Jökulsá gekk vel, lítið vatn var í Fellsá og ágætt brot í Hólaskarðinu sem betur fór, því bíllinn sem við ferðuðumst á var ekki til stórræða þegar sandbleytur voru í ánni. Þegar búið var að hleypa fénu á beit við Sæluhúsið við Jökulsá og skoða nánasta umhverfi átti að halda heim á leið, en  hvað sem reynt var fór bíllinn ekki í gang. Nú voru málin rædd fram og til baka og í framhaldi af því ákvað Þorbergur að ganga þegar í stað heim á leið til að  ná í aðstoð við að koma bílnum í gang. Við krakkarnir vissum að þetta var löng leið, nærri 14 kílómetrar eða tveggja og hálfs tíma gangur og ekki var laust við að vottaði fyrir skelfingu í svip okkar fyrst í stað.

Við krakkarnir fórum inn í Sæluhúsið með Þórhalli, töldum okkur best borgið þar meðan beðið var björgunar. Þegar inn var komið leggst Þórhallur upp í rúmbálka sem þar var,  en við krakkarnir setjumst við borð sem stóð á miðju gólfi og grípum spil sem voru á borðinu og töluðum um að spila til að drepa tímann meðan við biðum. Nú tók nokkra stund að koma sér saman um hvað ætti að spila, um það sýndist sitt hverjum og upphófust nokkrar rökræður um kosti og galla ýmissa spila sem við kunnum. Áður en nokkur niðurstaða fékkst í það mál sló allt í einu þögn á hópinn. Þórhallur hafði ekkert lagt til málanna um spilamennskuna, ekki þótt taka því að blanda sér í umræðurnar, en ekki leiðst þær tiltakanlega mikið heldur, því nú bárust háværar hrotur frá rúmi Þórhalls, hann hafði sofnað út frá samræðuklið okkar, þreyttur eftir annir liðinna daga.

Okkur krökkunum þótti svo hlægilegt að heyra hroturnar þarna í Sæluhúsinu að við máttum til með að fara út svo Þórhallur vaknaði ekki við hlátrasköll okkar.

Þegar út var komið áttuðum við okkur á að sól skein í heiði, veður var hlýtt og þægilegt og ekki ástæða til að óttast að við yrðum úti þarna á Sandinum í blíðunni. Það var því ákveðið að við skyldum nota tækifærið og kanna nú vel alla leyndardóma Jökulsár og næsta nágrennis. Við gengum af stað vestur vegaslóðann frá Sæluhúsinu og í  átt að ánni. Þannig hagaði til að vegaslóðinn var skáskorinn til suðurs niður sandölduna vestan við húsið og lá því beint við þegar niður var komið að byrja á því að fara út að sjó. Við hlupum í fyrstu, en fljótlega dró úr hraðanum, við að skoða öll þau undur sem fyrir augu bar. Meðfram allri háöldunni sem Sæluhúsið stóð á var ein samfeld röst af reka, stórum og smáum, svo langt sem við sáum, í átt til sjávar og ekki síður inn með allri öldunni inn að Jökulsárlóni. Þar sem við komum niður af öldunni var á þessum tíma upp undir einn kílómetri fram að sjó og þar sem við sáum rekaröstina ná lengst inn var meira enn einn og hálfur kílómetri frá sjó. Á leið okkar til sjávar könnuðum við rekann og sáum þar meðal annars mikið af rússakorki sem á þeim tíma var munaðarvara sunnan við Steinasand, en hann var notaður til að halda uppi efri fellingunni á silunganetunum í Breiðabólsstaðarlóni. Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að tína kork á leiðinni til baka. Þegar út á fjöruna var komið var hins vegar afar snautlegt yfir að líta, nánast engan reka var að sjá og fjaran sandorpin langt upp. Við gengum síðan fjöruna vestur að Jökulsá og síðan nokkuð upp með ánni.  Svolítið austan við ána voru nokkrar smátjarnir og viti menn, þessar tjarnir iðuðu af lífi, silfurbjartir smáfiskar syntu um í hópum í tæru vatninu og virtust ekkert verða varir við okkur krakkana þegar við komum þarna að. Þetta var meira en veiðigenin í okkur þoldu, við vorum vön að veiða hornsíli í smátjörnum niður við Breiðabólsstaðarlón og alveg útfarin í því að veiða smáfisk í Gerðislæknum, sérstaklega í Bensapytti, þar veiddum við sama fiskinn stundum oft á dag með berum höndunum. Engir bakkar voru við þessar tjarnir heldur aflíðandi sandur á alla vegu og urðum við því að vaða út í til að handsama þennan bjarta og fallega fisk. Fótabúnaður veiðimanna var misgóður og þegar veiðitilraunum lauk voru allir rennblautir hvort sem við vorum í gúmmískóm eða stígvélum. Veiðihugurinn aftraði okkur ekki frá því að vaða svo langt sem þurfa þótti, bara að passa að fljóta ekki upp. Það var sama hvaða veiðibrellum við beittum, við náðum engum fiski. Síðar lærðum við það að þessir silfurbjörtu fiskar voru sandsíli og trönusíli.

Við veiðiskap sem þennan líður tíminn fljótt og fyrr en varir sjáum við að komin er bíll með aðstoðarmann við að gangsetja vörubílinn. Við skokkuðum strax í átt að Sæluhúsinu, tíndum nokkra rússakorka á rautt trollgarn sem við fundum í rekaröstinni og viti menn, þegar við komum að bílunum, þá var Þórhallur vaknaður og kominn út, vörubíllinn kominn í gang og allt tilbúið til heimferðar. Heimferðin gekk örugglega vel því ég man ekkert eftir henni, en sviðið við Jökulsá á Breiðamerkursandi greyptist í huga mér og þá strax hjá tæplega tíu ára stráknum vöknuðu spurningar sem ég þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékk ekki fullnægjandi svör við. Ég spurði afa og pabba af hverju allur þessi reki væri inn með öldunni hjá Sæluhúsinu við Jökulsá?, Hvernig gæti svo mikið af reka borist svo langt frá sjó sem hér væri raunin á? Spurningar mínar fengu ekki miklar undirtektir, en þeir töldu að best væri að tala við Þorstein á Reynivöllum, hann vissi manna best um allar aðstæður við Jökulsá. Nokkru síðar var Þorsteinn Guðmundsson, ömmubróðir minn á Reynivöllum á ferð á Hala og þá notaði ég tækifærið og spurði hann um þennan reka sem nú væri langt upp á landi austan við Jökulsá. Fullorðna fólkið bar saman bækur sínar í nokkra stund og niðurstaða þess varð sú að mikið hlaup í Jökulsá hefði hækkað svo vatnsborð árinnar að hún hefði borið rekann allt austur að öldunni við Sæluhúsið.

Þrátt fyrir þessa skýringu hjá fullorðna fólkinu var ég ekki sannfærður um að flóð í Jökulsá gæti valdið rekanum, vatnið úr ánni hefði frekar átt að bera allt lauslegt til sjávar en ekki öfugt. Nokkrum árum síðar barst þetta mál í tal milli okkar Þorsteins og þá var hann nokkuð viss um að sjávarflóð hefði valdið þessari rekaröst, hann hafði kannað aðstæður og taldi ummerki öll benda til þess. Nú vitum við að í nóvember 1961 kom hér upp að landinu leifar af fellibyl sem sótti í sig veðrið aftur sunnan við landið og virðist hafa dregið með sér nokkra flóðbylgju upp að Suðausturlandi, sem samfara lágum loftþrýsingi olli verulegri sjávarhækkun, ef til vill í eina eða tvær klukkustundir að kvöldi dags eftir að komið var myrkur og menn ekki veitt þessum hamförum neina sérstaka athygli eða jafnvel ekki vitað af þeim.

Hvað það var sem þarna hafði átt sér stað verður ef til vill ekki upplýst að fullu, en sjónarspilið greyptist svo í huga mér og vakti með mér slíkan áhuga að ég hef ekkert tækifæri látið ónotað til að afla mér upplýsinga og þekkingar á náttúraðstæðum og landmótun á svæðinu.

Það var stór stund í lífi Öræfinga og Suðursveitunga þegar brúin yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi var vígð 2. september 1967. Jökulsá hafði um langt skeið verið farartálmi milli þessara byggðarlaga, hve lengi og hversu mikill rauverulegur farartálmi hún hafði verið vissi þó enginn. Í heimildum má sjá að samskipti fólks milli þessara byggðarlaga voru allmikil og náin á átjándu öld og nokkuð fram eftir nítjándu öldinni, en upp úr því fer mjög að draga úr þessum samskiptum. Ungir piltar úr Suðursveit sóttu sér konuefni í Öræfin og öfugt, skemmst er að minnast að þrír synir Þorsteins Vigfússonar á Felli sóttu sínar konur í Skaftafell, þeir Brynjólfur, Ingimundur og Gísli Þorsteinssynir kvæntust systrunum í Skaftafelli í sömu röð, Þuríði, Helgu og Guðrúnu Bjarnadætrum. Gísli og Guðrún bjuggu í nokkur ár á Felli, en fluttu síðan að Uppsölum og voru jafnan kennd við þann bæ. Ingimundur og Helga bjuggu á Seljalandi í Fljótshverfi 1821-24, á Hofi í Öræfum 24-26, í Steinum í Suðursveit 26-29, á Sléttaleiti 30-32, á Reynivöllum 33-37 og í Butru 38-41. Ingimundur er síðan vinnumaður í Svínafelli í Öræfum og deyr þar 8. september 1846. Ingimundur og Helga voru foreldrar Guðlaugar Ingimundardóttur sem bjó í Skaftafelli í nærri hálfa öld, eða frá 1851-1900. Ingimundur og Helga voru einnig foreldrar Sigurðar Ingimundarsonar sem bjó á Kvískerjum 1864-83 og síðar á Fagurhólmsmýri frá 83 til dauðadagsm 5. nóvember 1891. Sigurður var langafi Kvískerjasystkina. Brynjólfur og Þuríður bjuggu lengi á Reynivöllum en flytja að Skaftafelli 1833, en þar dó Brynjólfur 16. mars 1836, aðeins rúmlega fertugur að aldri.

Ungir menn í Öræfum virðast ekki hafa látið Jökulsá trufla sig við konuleit á nítjándu öldinni, þannig sótti Magnús Þorsteinsson frá Kvískerjum sína konu Sigríði Þorsteinsdóttur að Felli og bróðir hans Bjarni Þorsteinsson sótti sína konu Kristínu Þorsteinsdóttur einnig að Felli, Magnús og Sigríður bjuggu fyrst nokkur ár á Hala, en fluttu 1819 að Hnappavöllum. Bjarni og Kristín bjuggu allan sinn búskap á Kvískerjum. Fólk flutti milli Öræfa og Suðursveitar, einnig milli Öræfa og annara byggðarlaga á þessum tíma, þannig urðu til sterk fjölskyldu- og vinatengsl milli sveitanna sem virðast rofna að miklu leyti í byrjun 20 aldar. 

Af hverju slaknaði svo mjög á samskiptum og fjölskyldutengslum milli Öræfa og Suðursveitar á þessum tíma, var það vegna þess að fólk hafði það svo gott að það nennti ekki eða vildi ekki hafa samskipti, eða höfðu jökulvötnin á Breiðamerkursandi aukist svo mjög frá fyrri tíð að samgöngur væru erfiðari en áður var. Síðari skýringin er líklegri, hlýnandi veðurfar hefur orðið til þess að fólk gat ekki átt samskipti jafvel mánuðum saman vegna ókyrrðar og óstöðugleika vatnsfalla á Breiðamerkursandi, einkum þó Jökulsár. Um allnokkur ár taldist áin ófær yfirferðar mestan hluta ársins, þá var tekið það ráð að fara yfir jökulinn sjálfan. Það varð oft á tíðum seinfarið vegna þess að jökullinn breytti sífellt munstri sínu vegna hreyfinga sem í honum voru. Það eitt að komast upp á jökulinn sinn hvoru megin og síðan að komast niður af honum aftur gat verið breytingum háð með nokkurra daga millibili. Jökulsprungur opnuðust og lokuðust aftur við yfirborð og gerðist það jafnvel daglega að sumarlagi. Það sem þó var líklega langerfiðast viðureignar var óstöðugleiki á útfalli árinnar, en áin færði útfall sitt undan jöklinum fram og til baka um nokkurt árabil.  Ferðir yfir jökulinn leggjast síðan af þegar hann hörfar meira og þá er farið að ferja fólk á bátum yfir Jökulsá, stundum rann áin í tveimur álum og þá þurftu ferjumenn að mætast á réttum tíma, sá sem kom að austan ferjaði þá yfir eystri álinn og sá sem kom að vestan ferjaði yfir þann vestri. Um nokkurt árabil rann Jökulsá í einum ál og um 1950 fór Jökulsárlón að taka á sig það form til suðurs sem það er enn í dag.

Fljótlega eftir að samgöngur verða tíðari yfir Breiðamerkursand eða upp úr 1967, töldu athugulir vegfarendur sig greina að ekki væri allt eins og það ætti að vera þarna við Jökulsá, margir staðhæfðu að sífellt styttist bilið milli þjóðvegar og sjávar, aðrir staðhæfðu að ekkert slíkt ætti sér stað og allt væri í föstum skorðum. Þessi breyting á sjávarstöðu við Jökulsá var oft til umræðu við matarborðið á Hala á þessum árum, umræða sú varð til þess að síðsumars 1978 tók Torfi Steinþórsson á Hala sig til og lagfærði verulega mælistiku sem um árabil hafði verið notuð til að mæla afrek íþróttafólks á svæði USÚ og víðar. Það var síðan 29. september 1978 að við feðgar ráðumst í það stórvirki að sannreyna það í eitt skipti fyrir öll hvort einhverjar breytingar væru á fjörunni þarna við Jökulsá. Merktir voru þrír mælistaðir sem mælt skyldi frá. Sá austasti var í suður frá Sæluhúsinu upp á öldunni, fastur mælipunktur við brún þjóðvegar, næsti var 150 metrum vestar og sá þriðji var vestur við Jökulsána sjálfa. Ætíð var mælt fram á brún sjávarkambs í sem beinastri línu sem verða mátti. Í stuttu máli, þá kom það í ljós strax eftir fyrsta ár að nokkuð hafði styttst bilið milli þjóðvegar og sjávar, misjafnt þó eftir mælistöðum. Þessar mælingar endurtókum við feðgar í ein fjórtán ár, ekki alltaf á hverju ári en kom þó fyrir að við mældum tvisvar sum árin þegar okkur þótti ástæða til. Niðurstaða okkar varð sú að verulegt landbrot var að eiga sér stað við Jökulsá á Breiðamerkursandi, stundum liðu nokkur ár án þess mælanleg breyting yrði, en það kom fyrir að breyting væri mæld í tugum metra á einum mánuði. Að jafnaði mældist okkur að á hverjum degi brotnuðu 1,5-2,5 sentimetrar af landi austan við Jökulsá. Síðar bættum við inn mælistöðum vestan við ána, landbrot þar var sveiflukennt milli ára eins og austanmegin, en þó alltaf stöðugt þegar litið var til lengri tíma.

Til gamans er rétt að upplýsa það hér að þessar mælingar okkar feðga voru aðeins fyrir okkur sjálfa, til gamans og fróðleiks.  Þegar okkur varð ljóst eftir 13 ára mælingar, að landrof var í raun mun meira en okkur hafði áður órað fyrir, þá sáum við okkur tilneydda til að senda til Vegagerðarinnar og Landsvirkjunar yfirlit yfir mælingar okkar og jafnframt viðvaranir okkar um að hættuástand gæti skapast ef ekki væri gripið til viðeigandi varna. Hér voru áhugamenn um náttúrufar og landmótun að sinna sínu áhugamáli, ekki að vinna fyrir opinbera aðila eða sinna verkefnum sem við höfðum verið ráðnir til að inna af hendi af þriðja aðila. Fljótlega eftir að mælingar okkar urðu opinberar skiptust menn í flokka, annars vegar þeir sem töldu sig sjá eyðinguna með eigin augum og mælingar okkar staðfestu því það sem þeir höfðu lengi talið sig vita, aðrir hins vegar réðust að okkur með dylgjum og skömmum og skildu ekkert í því hvað við værum að skipta okkur af hlutum sem okkur kæmi ekkert við og hefðum enga þekkingu til að sinna. Hér er rétt að fram komi að annar okkar feðga hafði af sérstakri samviskusemi mælt bak og brjóstmál sauðkinda í sveit sinni um áratuga skeið og einnig mælt afrek íþróttafólks í héraðinu svo lengi sem elstu menn mundu, hinn okkar feðga  hafði lært landmælingar og kortagerð í búnaðarnámi og hafði reyndar próf upp á vasann í þessari grein.

Þó eyðing lands vegna ágangs sjávar við Jökulsá sé áhygguefni þá eru fleiri atriði á þessum stað sem hafa ber í huga varðandi landmótun og landbreytingar. Ekkert eitt atriði vegur þar eins þungt og eðlisþungur Atlantshafssjórinn þegar hann fossar inn Jökulsána á flóði. Hvað vitum við um áhrif hlýsjávarins á bráðnun jökulsins í Lóninu, getur verið að þessi eðlisþungi sjór sé að brjóta upp gamla sjávarsetið í fremri hluta lónsins? Sumarið 1998 tókum við okkur til nokkrir starfsmenn við Jökulsárlón undir forystu Torfa Birkis Jóhannssonar rafeindavirkja og settum út síritandi hitamælir í Lónið um það bil einn kílómetra innan við brú austur með landinu á 8 metra dýpi, mælirinn var hafður 2 metra frá botni eða 6 metra frá yfirborði. Mælirinn mældi hitastig á tíu mínútna fresti allann sólahringinn og hófst mæling um miðnætti aðfararnótt 16. júlí 1998. Í júlí mældi mælirinn 2304 sinnum, lægstur hiti í júlí mældist 16. júlí 1998 kl. 00:30, - 5,77 gráður, mesti hiti mældist 24. júlí 1998 kl. 18:30, - 8,60 gráður.  Meðalhiti í Jökulsárlóni þennan síðari hluta júlí 1998 mældist 7,61 gráða. Áfram var mælt til kvölds 17. ágúst, alls 2448 mælingar í ágúst. Lægstur mældist hitinn 15. ágúst 1998 kl: 12:10, - 1,30 gráður, mesti hiti mældist 1. ágúst 1998, kl. 23:10  8,80 gráður. Meðalhiti mældist í ágúst 5,45 gráður. Þegar þessar hitatölur í Jökulsárlóni eru lesnar saman við lofthita og skýjafar kemur margt merkilegt í ljós.  Sem dæmi má nefna að þegar ótruflaður lofthiti sólahringsins er lægri, þ.e. þegar sól er og gott veður þá mælist hitastig vatnsins hærra, á næturnar í heiðskíru veðri er hiti við Jökulsárlón gjarnan 1-2 gráður og frýs lónið þá oft rétt fyrir sólarupprás. Hér ræður kuldinn sem flæðir af jöklinum niður á lægsta punkt sem er lónið sjálft, lofthiti í sól fer sjaldan yfir 4 gráður á lóninu sjálfu þegar heiðskírt er, jafnvel ekki um miðjan daginn. Þegar hins vegar er skýjað, jafnvel rigning og vindur þá hækkar lofthiti oft verulega við Jökulsárlón og einnig yfir jöklinum sjálfum, þá byrjar jökullinn að bráðna og á nokkrum klukkustundum kólnar vatnið í Lóninu um margar gráður, sem dæmi má nefna að 9. ágúst kl. 12:30 er vatnshiti 6,80 gráður, kl. 17:30 sama dag er vatnshiti kominn niður í 1,60 gráður.  Um morguninn þennan dag fór að rigna með austan kalda, miklar sveiflur komu strax fram í hitamælingum og á örfáum klukkustundum hafði jökulbráðnunin orðið svo mikil að hún náði að kæla allt lónið um meira en 5 gráður. Þetta sagði okkur það sem síðar var staðfest af vísindamönnum að hreinir jöklar endurkasta sólarljósinu að mestu leyti aftur út í geiminn og bráðna því óverulega í sólskini og logni, en fyrir rigningu og vindi hafa jöklarnir minni vörn og bráðna því oft mjög mikið við þær aðstæður. Með öðrum orðum, með því að lesa saman veðurfar og hitastig í Jökulsárlóni er hægt að afla mikilvægra upplýsinga um hvaða veðurfarsþættir það eru sem helst valda rýrnun jöklanna í nánustu framtíð.

Annað sem lesa má úr hitamælingunni er áhrif sjávar á hitastig í Lóninu. Þegar sólríkt er gætir ekki bráðnunar frá jöklinum, allt að 14 gráðu heitur sjórinn að sumarlagi, sem fossar inn Jökulsá á hverju flóði, ræður mestu um hitastig vatnsins í Lóninu. Ísjakarnir sem fljóta þarna um megna ekki að kæla frá sér nema óverulega, þeir bráðna bara og leysast upp með miklum hraða, það á líka við um jökulinn sjálfan þar sem hann nær út í Lónið, volgur sjórinn fossar inn botn Lónsins vegna eðliþungamunar og skellur á jöklinum með miklum krafti, streymir síðan upp með jökulkantinum og beljar stundum með boðaföllum aftur frá jöklinum í átt til sjávar á yfirborði, fellur síðan aftur niður á botn vegna eðlisþungans 5-600 metra frá jöklinum. Í þessu bakstreymi sjávar frá jöklinum hef ég mælt yfir 9 gráðu hita í Lóninu inn við jökul, sem er ótrúlegt, því þarna á samkvæmt kenningunni að vera 0-1 gráðu hiti í vatninu, .

Innstreymi sjávar um Jökulsá á flóði, kann að hafa enn víðtækari og jafnframt alvarlegri afleiðingar en að bræða ísjakana og jökulkantinn í Lóninu. Árið 1975 var Jökulsárlón dýptarmælt af nokkurri nákvæmni, til er kort af þessari mælingu, þá mælist meðaldýpi lónsins um 64 metrar. Árið 1992 er Jökulsárlón aftur dýptarmælt að hluta, sú mæling kemur vel saman við mælinguna frá 1975 að öllu leyti nema á einum stað, það er innan við útfall árinnar í Lóninu. Hér ber engan veginn saman dýptartölum 1975 og 1992, miklar breytingar virðast hafa átt sér stað, þar sem mældist 5 metra dýpi 1975 er dýpi mælt í tugum metra 1992.  Það er ekki ofsagt að nú árið 2005 sé dýpi við affall Jökulsár fremst í Lóninu 30-90 metrar þar sem áður var mælt dýpi samkvæmt korti frá 1975 aðeins 5 metrar. Hvernig má þetta vera, hefur straumur árinnar borið þetta efni út á sjó eða hvaða skýringar gæti verið að finna? Er hugsanlegt að dýptarkortið frá 1975 sé ekki allskostar rétt á þessum stað sem breytingarnar virðast hafa átt sér stað? Um það er ekkert hægt að segja nema frumgögn mælinganna frá 1975 liggi fyrir og hægt verði að endurskoða kortið með tilliti til ,,nýrra,, upplýsinga. Líklegasta skýringin er þó sú, að feiknar innstreymi sjávar um Jökulsá, einkum á stórstreymi kunni að valda rofi á sjávarseti fremst í Lóninu, þungur sjórinn beljar inn árbotninn, hraðar við botn en á yfirborði staðfesta mælingar, fellur síðan niður á lónbotninn, ýtir gjarnan ísjökum á undan sér inn ána og inn í lónið og þeir berast síðan aftur fram og stranda fremst í lóninu á útfalli.  Margir þeirra eru tugir þúsunda tonna á þyngd  og skrapa lónbotninn (sjávarsetið) á útfallinu og skrapa hann síðan aftur þegar þeir færast inn Lónið á næsta flóði og þannig koll af kolli. Hér er líklegasta skýringin á verulegri dýpkun Jökulsárlóns við affall Jökulsár.  Það virðist líklegt að hyldýpis gjá, allt að 90 metra djúp sé að færast nær og nær brúnni yfir Jökulsá lónmegin frá. Eðlilegt er að spyrja hvar liggja þolmörk þessa litla sandhafts sem brúin stendur á, er hætta á að við mikil sjávarflóð (líkt og virðist hafa verið 1961) gæti þetta mjóa haft sprungið inn í lónið, hvað mikið er sjórinn og ísinn að brjóta upp af botni lónsins á hverju ári, hvað langan tíma gæti það tekið sjóinn og ísinn að færa þetta mikla dýpi allt fram að brúnni,  þó ekki verði neinar sérstakar náttúruhamfarir?

Hér er mikið og djarft spurt en eðlilega lítið um svör, sá er þetta ritar hefur ekki treyst sér til að ráðst í það stórvirki að mæla breytingar á dýpi Jökulsárlóns við affall árinnar frá ári til árs, stalst samt stundum á hjólabát með dýptarmæli í gangi fyrirfram ákveðna leið þegar engin sá til, (svæðið er stórhættulegt) en hin síðari ár látið sjónmat nægja.

Það þyrfti að verða forgangsverkefni að stöðva innstreymi sjávar um Jökulsá á Breiðamerkursandi.  Gríðarleg flóð í Jökulsárlóni sem koma frá jöklinum á nokkurra ára fresti valda því að þetta verk er ekki eins einfalt og það kann að virðast í fljótu bragði. Ef til vill þarf að gera ráð fyrir að hleypa flóðvatni einnig um annan farveg en þann sem nú er ef við eigum að hafa fulla stjórn á atburðarásinni, aðeins nákvæmar rannsóknir geta leitt það í ljós. Hversu stór og með hvað löngu millibili koma þessi flóð, er einhver sem vaktar þau eða fylgist með þeim frá degi til dags meðan þau ganga yfir, er einhver viðbúnaður eða tækni sem getur varað við þessum hlaupum þannig að vísindamönnum gefst ráðrúm til að koma á staðinn og reyna að átta sig á hvað hugsanlega veldur? Koma þau frekar við einhverjar tilteknar aðstæður, hafa þau verið skráð og tímasett? 

 Það er enginn vafi í mínum huga að landbreytingar og landmótun við Jökulsárlón er eitthvert merkilegasta og mest spennandi verkefni fyrir vísindamenn að fást við af öllu merkilegu í íslenskri náttúru. Það hefur lengi vakið furðu mína hvað vísindamenn okkar hafa lítið sinnt þessu verkefni, á hverju ári koma hér hópar erlendra vísindamanna bæði nemar í starfsnámi og einnig gamalreyndir vísindamenn og fylgjast náið með hverri minnstu breytingu sem verður við Jökulsárlón. Þetta fólk dvelur oft vikum eða jafnvel mánuðum saman við rannsóknir við frumstæð og erfið skilyrði, allt fyrir vísindin. Dvölin er einnig vöktun á svæðinu, þ.e.  að fylgjast með einstökum atriðum dag frá degi til að hafa betri og nákvæmari yfirsýn yfir hugsanlegar breytingar sem kunna að verða. Það er mín skoðun að helgarferð vísindamanna úr Reykjarvík dugi skammt til rannsóknar á því náttúrufyrirbrigði sem Jökulsárlón er, samfelld og langtíma vöktun og rannsóknir eru forsenda þess að rétt verði brugðist við ef vá ber að höndum vegna samgangna við Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Hvað vitum við um þróun byggðar, breytingar á rennsli ánna, frammskriði jökla, gróðurfar, samgöngur og ekki síst mannlífið sjálft á þessu landsvæði sem nú nefnist Breiðamerkursandur. Er hægt að nota hin ýmsu brot úr sögunni til að búa til skýrari mynd af þeim aðstæðum sem hér ríktu fyrr meir, jafnvel að fá samhengi í söguna með því að tengja hana betur náttúrufarsaðstæðum en gert hefur verið hingað til?

Samkvæmt Landnámubók hét Breiðársandur þar sem Þórður illugi braut skip sitt, Breiðársandur er í landnámi Hrollaugs Rögnvaldssonar, landnám Hrollaugs takmarkaðist að austan frá Horni til Kvíár í vestri, Ari fróði segir í Islendingabók að þetta landnám Hrollaugs nefnist Síða. Hrollaugur átti samkvæmt einni frásögn Landnámabókar að hafa gefið Þórði illuga land milli Jökulsár og Kvíár, en í annari frásögn sömu bókar er staðhæft að Hrollaugur hafi ekki látið af hendi land milli Hestgerðiskambs og Kvíár meðan hann lifði.  Landnámabók segir að Þórður illugi hafi búið undir Felli við Breiðá, seinna vilja menn meina að hér hafi eitthvað misfarist í sögunni, hér hljóti að vera átt við Fjall en ekki Fell. Hvað sem því líður þá koma hér strax fram tvö atriði sem sagan er ekki samhljóma í og þegar sagan er rakin áfram koma ítrekað fram mótsagnir í sögnum, örnefnum og fleiru.

Sú kenning að Þórður illugi hafi búið undir Fjalli við Breiðá eins og margir seinni tíma fræðimenn hafa haldið fram hafa hvergi fundist samtíma eða síðari tíma heimildir um, heldur þvert á móti, sífellt fleiri vísbendingar hafa fram komið sem styðja þá frásögn Landnámubókar að bær Þórðar illuga hafi staðið undir Felli, lítum á dæmi þar um. Förum í Landnámabók og kynnum okkur hvað sagt er um landnámsmenn í öðrum landhlutum sem tengdust Þórði illuga.

‘'Hrólfr inn digri son Eyvindar eikikropps, bróðir Illuga Fellsgoða austan af Síðu, nam land frá Lýsu til Hraunhafnarár,, tilvitnun lýkur. Þá vitum við það, hér er vitnað í Þórð Illuga í öðrum landsfjórðungi, hér er hann sagður Fellsgoði og býr austur á Síðu, Þórður Illugi hefur að því er hér má sjá forframast skjótt í þessu nýja umhverfi og fer nú með goðorð byggðalagsins sem hér er kennt við Fell, hér kemur Fellsnafnið aftur fyrir.  Telja verður með öllu útilokað að nafnið hafi misritast tvisvar eða breyst í endurritun, hefði slíkt átt sér stað er líklegt að athugasemdir væru löngu fram komnar , en hefðu ekki allt í einu komið fram á nítjándu öldinni.  Ekki er hægt að útiloka, miðað við breytingar sem orðið hafa á aðstæðum, að Fell hafi verið flutt austur yfir sandinn, hafi í upphafi verið þar sem Breiðamerkurfjall er, en síðan færst þangað sem það er nú. Bær með þessu nafni kemur ekki fyrir í heimildum fyrr en á sextándu öld og læðist að manni sá grunur að Fellsnafnið komi fyrst fram þegar bærinn Fjall var aflagður. Ef svo er þá hefur ekki orðið misritun á Landnámu og eðlilegar skýringar fram komnar í málinu.   

Nú hafa komið fram nöfn á öllum kennileitum sem enn halda upprunalegum nöfnum og sannarlega er getið í eldri heimildum, þ.e. kennileiti í nálægð Breiðamerkurjökuls. Þessi kennileiti eru, Kvíá, Jökulsá og Fell eða Fellsfjall eins og það er stundum nefnt. Öll önnur kennileiti eða örnefni eru frá síðari tíma, flest frá 19. og 20. öldinni og er því lítið hægt að notast við þau nema til gamans. Tökum nokkur dæmi, Öræfajökull hét áður Knappafellsjökull, Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson staðhæfa að Jökulsá hét fyrr meir Breiðá, Breiðamerkursandur hét Breiðársandur, af flestu má greina að Vatnajökull hét fyrr meir Klofajökull að talið er, en þar sem fram hafa komið skráðar heimildir um gos í  Síðujökli á 14 öld þá verður að telja líklegast að það hafi verið upprunalegt nafn þessa jökuls., Esjufjöll þau sem við þekkjum nú fengu sína nafngift um aldamótin 1900, Norðlingalægð um svipað leyti eða síðar,  Prestfell er skírt í höfuðið á séra Þorsteini Einarssyni á Kálfafellsstað 1852, Þuríðartindur skírður í höfuð Þuríðar Bjarnadóttur frá Skaftafelli, Hrútá, Fjallsá, Breiðá og Nýgræðakvíslar nefndust Grannakvíslar 1753 þegar Eggert og Bjarni voru hér á ferð, í skjali um landamerki jarðarinnar Fells í Hornafirði frá 1851 er Breiðamerkurá nefnd sem vesturmörk Fellsjarðar, hvorki fyrr né síðar hefi ég rekist á þessa á í heimildum og að síðustu er vert að geta þess að byggðalagið Breiðamörk eða Breiðármörk kemur hvegi fram beint í heimildum fyrir 1600. Í gömlum máldaga kemur fyrir nafnið Breiðamerkurmúli, af því hefur nafngift byggðalagsins Breiðamerkur ef til vill verið dregin, byggðalag sem því miður verður að telja harla ólíklegt að hafi nokkru sinni verið til sem heild nema þá sem þjóðsaga. Við vitum nú að Jökulsá hét ,,fyrr meir Breiðá,, samanber Eggert og Bjarni,  athugasemdir vegna tilvísunar byggðar Þórðar illuga gefa fullt tilefni til að ætla að Fell sem við þekkjum gæti tæpast verið sama Fell og Landnáma talar um.  

Nú kann einhver að segja, er þá ekkert að marka söguna, hafa menn búið hana til sér til skemmtunar, aðrir segja, hvernig má það vera að sagan haldi svo lengi áfram sem raun ber vitni án þess nokkrar athugasemdir hafi áður fram komið. Veruleikinn er sá að menn bjuggu söguna ekki til sér til skemmtunar, heldur hliðruðu til einstökum atriðum eða atvikum sem betur máttu fara og hentuðu betur. Um athugasemdirnar er það að segja að sjaldan hefi ég lesið efni sem tengist Síðu hinni fornu öðuvísi en fleiri eða færri athugasemdir kæmu fram eða þá menn einfaldlega breyttu upprunalegri heimild án þess að efni málsins væri rannsakað gaumgæfilega. Hvernig getur sagan tekið slíkum breytingum án þess kallaðar verða fram nánari skýringar þar um? Við skulum byrja á byrjuninni.  

Þegar ísaldarjökullinn sleppti klóm  sínum af landinu fyrir tíu til ellefu þúsund árum má gera ráð fyrir því að landið hafi verið gróðurlítið og um sunnanvert landið hafi sjór gengið mun lengra inn á land en nú er. Vitað er að fyrir u.þ.b. 5400 árum lá tiltölulega hlýr sjór yfir landinu þar sem Jökulsárlón er nú, um það vitna steingerðir kuðungar (vængbarði) sem finnast við Lónið. Á sama tíma sýnist að hraunin í Borgarhöfn í Suðursveit hafi verið skerjagarður og um líkt leyti hefur sjór náð inn í mynni Laxárdals í Nesjum. Eitt til tvö þúsund árum síðar lá enn sjór yfir landinu þar sem Breiðabólsstaðarbæirnir standa nú, um það vitnar fjörulag sem liggur frá Helghól og austur að Gerði. Annað fjörulag liggur skammt frá fjallsrótum milli Reynivalla og Breiðabólsstaðarbæja. Því miður hafa ekki verið gerðar neinar samanburðarrannsóknir á þessum fjörulögum eða öðrum slíkum, hvorki nákvæmar aldursgreiningar né mismunandi hæð yfir núverandi sjávarmáli, síðast en ekki síst væri afar forvitnilegt að kanna af hverju sum þessara fjörulaga hafa ekki sama innbyrðis halla og jarðlagahallin er á sama svæði. Þegar landið byggðist fyrst af norrænum mönnum fyrir rúmum ellefuhundrað árum er landið enn í mótun, doktor Sigurður Þórarinsson telur til dæmis ekki útilokað að land í Austur-Skaftafellssýslu hafi sigið nokkuð frá landnámi og fram á 16 öld og tekur dæmi af ætluðum landbreytingum við Borgarhafnarhálsa og við Skarðsfjörð, hvorugt þessara atriða hafa verið rannsökuð nánar. Hér er ef til vill komin skýring að hluta hvernig órannsökuð tilgáta verður að sögu sem síðar verður hinn eini og sanni sannleikur. Í  Austur-Skaftafellssýslu eru mjög virkar eldstöðvar svo sem í og við Grímsvötn og vestan við Breiðamerkursand rís snarbrattur og mikilúðlegur Öræfajökull, eitt af hættulegustu eldfjöllum jarðar, hversu oft hann hefur gosið frá því land byggðist eru menn ekki á eitt sáttir, skráðar sagnir um gos í Öræfajökli eru nokkuð fleiri en okkur hefur verið kennt í barnaskóla, en lítið sem ekkert verir rannsakað. Ebeneser Hendesrson enskur maður var á ferð um Öræfin 1814 og las dagbækur prestins í Sandfelli sem haldnar voru þegar Öræfajökull gaus 1727, eftir lesturinn spyr  Hendersson spurningar sem enn er ósvarað nærri tvö hundruð árum síðar. ,, Hversu oft hefur Öræfajökull gosið án þess að aðalgýgurinn gysi,,? Hendersson komst að því að gosið 1727 var ekki í aðalgýgnum heldur í sprungu sem lá niður að Sandfellsheiði.

Esjufjöll teljast virk eldstöð, talin hafa gosið síðast 1927.

Eldgosasaga Austur-Skaftafellssýslu hefur því miður lítið sem ekkert verið rannsökuð,  ef til vill fylgdt lítillega eftir með rannsóknum á öðrum svæðum. Þessi saga er ekki með öllu ókunn þó hún hafi ekki verið færð til bókar, hún er skráð í jarðlögum víða um héraðið, sumstaðar einföld og auðlæsileg fyrir þá sem kunna rúnaletur jarðlaganna, á einstaka stað er sagan þó flókin og ef til vill illskiljanleg. Í  jarðlögunum má finna vísbendingar um að í okkar næsta nágrenni sé að finna eldstöð sem er að því er virðist mun stórtækari og hættulegri en þær hinar sem hér hafa verið taldar, þessi eldstöð hefur nokkuð reglubundið ferli, gýs með rúmlega tvöþúsund ára millibili, stórgosum sem hafa mikil áhrif á veðurfar í landinu áratugum saman. Mörg okkar hafa rekið upp stór augu þegar við komum að nýgröfnum skurði sem er tveggja eða þriggja metra djúpur og sjáum lítt skaddaða trjáboli í uppgreftrinum, hvað er nú þetta segjum við, hvernig geta trjábolir geymst svo lengi nær óskemmdir í jarðveginum. Merki er um gríðarlegt eldgos með tilheyrandi gjóskufalli sem varð til þess að súrefnissnauð gjóskan lagist í þykkt lag yfir landið, misþykkt þó eftir aðstæðum, í mýrlendi blotnaði gjóskan upp og varð eins og steypulag yfir allt og í efri mörkum gjóskunnar er eins og skógarhöggsmaður hafi farið um skóginn og höggvið hann allan niður, nákvæmlega í sömu hæð á stórum svæðum.  Þar sem trén virðast hafa verið höggvin öll í sömu hæð hafa þau staðið ber og líflaus upp úr gjóskunni og veður og vindar hafa brotið þau niður nákvæmlega öll eins, í sömu línu við efri mörk goslagsins. Ef við hins vegar gröfum varlega niður með svona trjádrumb finnum við allvíða rótarkerfið alheilt, rótarkerfi sem er einn til tveir fermetrar að flatarmáli og nær meira en einn metra niður fyrir gjóskulagið.

Þegar fyrstu norrænu víkingarnir komu til landsins var að því er margir telja sæmilega hlýtt og búsældarlegt í landinu, en samkvæmt frásögn Landnámu varð veruleg kólnun  fljótlega eftir að landið tók að byggjast, Landnáma segir að slík hallæri hafi ekki orðið eftir það (Landnáma talin rituð um 1120), hér er trúlega verið að lýsa áhrifum gossins í Eldgjá 934.

Hvað kemur þessi umfjöllun mannlífi og byggð á Breiðamerkursandi við, jú hér er verið að lýsa náttúrufari héraðsins fram í landnámið en fljótlega eftir það tekur alvaran við.                    

Þrjú stórgos á þrjátíu árum segir sagan, fyrsta um 1330, næsta um 1340 og það stærsta og síðasta er ársett 1362, öll í og við Öræfajökul (Knappafellsjökul). Strax í fyrsta gosinu hefur orðið  óbúandi í Öræfum og Suðursveit.  Svört gjóska, gróf og þung, límdist við allt sem hún snerti, huldi allt láglendi og breytti gróðurlendi í svarta eyðimörk á stuttri stundu, ( ef til á einum degi). Vegna eðlisþunga þessarar gjósku fauk hún ekki í skafla eða á haf út og hún virðist ekki hafa runnið til að neinu ráði í rigningum. Eftir næsta gos um 1340 er nær útilokað að nokkur maður hafi búið í Öræfum og Suðursveit þegar stóra gosið verður 1362, (heimildir ársetja þetta gos nákvæmlega 1355), Ástæða þess að ég segi slíkt er sú að ekki verður greint við skoðun að gróður hafi náð að lifna milli þessara eldgosa í vestanverðri Suðursveit (sjá meðfylgjandi mynd.) Í gosinu 1362 (1355)  lagðist allt að eins metra þykkt gjóskulag, ljós vikur yfir mestan hluta Öræfa og allt að hálfs metra þykkt gjóskulag í Suðursveit.

Árið 1402 gekk Svartidauði yfir landið, úr þessari pest féll stór hluti Íslendinga, en laust fyrir 1500 kom þessi sama pest aftur til landsins og þá er talið að einmitt Austfirðingafjórðungur hafi orðið verst úti.

Um 1477 verður mikið eldgos skammt frá Landmannalaugum að talið er og skildi eftir sig 10 cm. svart gjóskulag í Suðursveit. (Sjá mynd.)

Miðað við allt það sem á undan var gengið og síðan bráðdrepandi pestina í ofanálag er ekki ofætlað að minna en einn tugur manna hafi verið á lífi í Öræfum og Suðursveit rétt fyrir aldamótin 1500. Skal því engan undra þó eitthvað færi úrskeiðis í sagnfræðinni hjá þeim sem eftir lifðu, þeir hafa haft í nógu að snúast að hafa í sig og á og ekki haft tíma til að sinna uppfræðslu og ólíklegt má telja miðað við síðari tíma að nokkur þeirra sem lifðu af hörmungar þessar hafi verið læs eða skrifandi.  Af þeim sökum er ekki undarlegt að lítið fari fyrir heimildum úr héraðinu ef undan er skilið kirknamáldagar sem flestir eða allir hafa verið skráðir í Skálholti og svo ýkjukenndar sögur af Teiti ríka í Bjarnanesi um jarðabrask og hetjudáðir, sem hann ef til vill var einn til frásagnar um.

Hvert stórgosið eftir annað víða um landið á 14. og 15. öld hefur án efa haft umtalsverð áhrif á veðurfar til hins verra, stór svæði sem fyrr meir voru jökullaus hér inn af byggðunum fylltust smám saman af skriðjöklum sem flæddu af hálendinu við Bárðabungu, Öræfajökul, Breiðubungu og Esjufjöll. Svæði sem áður voru jökullaus verða á skömmum tíma að ákomusvæði Vatnajökuls, þannig má gera ráð fyrir því að ákomusvæði jökulsins hafi allt að þrefaldast frá því í upphafi þjóðveldistímans um 930 og fram til 1500. Hámarki nær vöxtur hájöklanna um eða uppúr 1650,  en eftir það dregur verulega úr stækkun þeirra. Líklegt má telja að litlu hafi munað að hér hefði orðið algjör ísöld, jöklarnir voru um það bil að verða sjálfbærir til áframhaldandi vaxtar, þ.e. ákomusvæðin voru orðin svo hálend að í árum sem voru í kaldara lagi hlóðst ákoma á jöklana svo um munaði, í meðalári hefur ákoma verið nokkur umfram bráðnun, en í hlýjum árum hefur orðið bráðnun á lægri svæðum.Áhrif þessara aðstæðna mátti greina allt fram að 1890, en þá tóku hájöklarnir að rýrna, áhrifa þeirrar rýrnunar fór síðan að gæta í Breiðamerkurjökli og Skeiðarárjökli um og eftir 1920.

Til er sögn um að 1720-30 hafi Breiðamerkurjökull verið eins og drýla framan við Fellsfjall séð frá Reynivöllum, og gera má ráð fyrir að árið 2010 verði Breiðamerkurjökull aftur eins og drýla framan við Fellsfjall frá Reynivöllum séð. Svo hár var Breiðamerkurjökull fyrir aldamótin 1900 að Esjufjöll sáust ekki af sandinum eða frá láglendinu í kring og þau sáust ekki heldur af sjónum framan við Breiðamerkursand.

Eitt sinn þegar Sunnsendingar fóru til Hrollaugseyja upp úr aldamótunum, sáu þeir fjallstind bera við himinn yfir Breiðamerkurjökul, eftir nokkrar umræður taldi Sigurður Arason bóndi á Reynivöllum að þetta gætu verið Esjufjöll sem hann hafði heyrt eldra fólk tala um. Bendir það til óljósra sagna um þessi fjöll, en ekki hafi verið vitað hvar þau voru. Ekki er ólíklegt að Breiðamerkurjökull hafi þá verið 8-900 metra hár yfir sjávarmáli framan við þessi fjöll þegar hann varð hæstur.

Þann 25.  september 1985 fór ég ásamt fleiri mönnum upp Breiðamerkurjökul úr Þröng áleiðis í Prestfell, Prestfell er í Veðurárdalsfjöllum austan jökulsins, 12-13 km frá Þrönginni, nokkuð framar en Esjufjöll. Það vakti athygli okkar að þegar við áttum skammt eftir ófarið í land við Prestfell þá gengum við út á snjóinn sem var ákoma frá vetrinum áður, þó þótti sumarið 1985 óvenju hlýtt og menn sem fóru háfjöll þetta haust veittu því athygli að fannir sem verið höfðu óbráðnaðar í mörg ár voru nú margar horfnar, en aðrar höfðu mjög rýrnað. Þegar komið var í dalinn sem liggur austan við Prestfell mátti sjá á allstórum svæðum að snjófannir höfðu bráðnað þá um sumarið og undan þeim kom land sem fyrrum hafði verið algróið, en nú lágu sprek og morkið gras pressað niður í hálf steingerðan grámosann, hér hefur ekki þiðnað fönnin frá því í köldu árunum 1967-69. Þrátt fyrir hlýtt sumar var vetrarákoman enn óbráðin á jöklinum í minna en 500 m hæð.      

Þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust um Öræfi og Suðursveit 1753 þá telja þeir að héraðið sé aðeins byggt að einum þriðja hluta. Í orðunum má greina undrun og spurningu hvers vegna?, en ekkert svar eða líkleg skýring kemur fram heldur aðeins þessi áleitna staðhæfing. Ef til var nærtæk skýring á strjálbýlinu, skýringar sem allir þekktu, það var því óþarfi að vera eyða bleki á frekari málalengingar.  Heimildir koma og fara, þær ýmist eru þessar eða hinar, þær eru í nánast engu tilfelli rekjanlegar, þær eru bara svona og eiga að vera svona, hér er komin grunnurinn sem við byggjum söguna um Breiðurmörk.

Hvað vitum við um mannlífið og byggðina að þessu öllu slepptu, hvaða mynd fáum við ef við reynum að tengja saman allar þessar sögur og sagnir.

Þekktir bæir á svæðinu frá Kvíá og austur að Fellsá eru eftirtaldir byrjað að vestan og haldið til austurs:

Bakki við Kvíá, sögð hafa einhver tengsl við Fell.

Kvísker,  enn í byggð.

Fjall óljós sögn.

Breiðamörk, nafn á bæ sem ekki virðist samkvæmt samtíma heimildum vera alveg á hreinu, ef til vill er Fjall og Breiðamörk sami bærinn. Um 1600 úrskurðaði Alþingi að bær þessi væri vísast til Breiðamörk, en þá um nokkurt skeið höfðu fleir nöfn komið til álita, þar á meðal Breiðá. Hinn 24. júní 1851 ákváðu þáverandi eigendur jarðarinnar Fells í Hornafirði með löggjörningi, að Breiðamörk væri hluti Fellsjarðar og færðu landamerki Fells einhliða vestar á Breiðamerkursand eða allt vestur að Breiðamerkurá eins og skráð er í skjölum, þrátt fyrir öflug mótmæli Öræfinga

Staður, kirkjustaður samkvæmt frásögn séra Vigfúsar Benediktssonar á Kálfafellsstað í bréfi til Sveins Pálssonar 1793-4. Íslandskort miðalda m.a. kort Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups sýnir kirkjustað nálægt fremri hluta Esjufjalla, engar skýringar fundist aðrar en frásögn séra Vigfúsar, verða að teljast trúverðugar að öðru leyti en því að nafninu ber ekki saman.

Breiðá, kirkjustaður og stórbýli samkvæmt heimildum. ( Njála, sjá einnig máldaga kirkjunnar að Breiðá.) Hér bjó um skamma hríð Kári Sölmundarson eftir sættir við Flosa í Svínafelli, með síðari konu sinni sem hann þáði að gjöf frá Flosa, Hildigunni Starkaðardóttir. Að Breiðá bjó einnig Össur Hróaldsson, sonur hans Hróaldur Össurarson er þekktastur fyrir þær sakir að vera síðastur manna er nafngreindur er sem Skarphéðinn Njálsson átti að hafa vegið, sjá Njálu. Telja má alveg fullvíst að Breiðá hafi ekki byggst að nýju eftir Öræfjökulsgosið 1362, engar heimildir eru þar um og til viðbótar má geta þess að fljótlega eftir að byggðin hófst að nýju eða um 1570 voru allar eignir Breiðárkirkju færðar til kirkjunnar að Breiðabólsstað í Fellshverfi (Suðursveit).

Brennhólar efri og Brennhólar neðri, 12 hundraða jörð hvor, segir Sveinn Pálsson í Ferðabók sinni, Brennhólar voru austan Jökulsár og sást kletturinn enn sumarið 1793, en var horfinn undir jökul 1794. Brennhólar eru taldir hafa farið í eyði 1707. 

Borgarhóll, hjáleiga frá Felli, bær undir vestanverðu Fellsfjalli, í manntali frá 1816 eru börn sögð fædd á Borgarhól eftir 1800, þrátt fyrir það er staðhæft  í seinni tíma umfjöllun að Borgarhóll hafi farið í eyði nokkru fyrir aldamótin 1800, þörf á frekari athugun.

Fell í Hornafirði, sagt stórbýli og sýslumannssetur, þar sat Ísleifur Einarsson sýslumaður Austur - Skaftafellssýslu 1688 til dauðadags 30 mars,1720 . Fell finnst fyrst í heimildum um 1520, á ekki sögu fyrir þann tíma og þar var einnig Jón sonur hans fá misseri 1721 - 1726, hann missti embætti fyrir afglöp. Byggð lagðist af á Felli 1869 eftir stórhlaup í Veðurá, rústir sjást enn greinilega. Húsmannsbýli var í byggð í fá ár austan undir fjallinu en lagðist af 1873.

Antasel, sagt hjáleiga frá Felli, stóð í eða við Hrollaugshóla. Húsarústir norðan á Hrollaugshólum alveg vestast gætu verið umrætt býli.

Bakki við Fellsá, hjáleiga frá Felli, rústir eru enn mjög greinilegar austur við Fellsána í austnorðaustur frá höfuðbólinu.

Hólar, bær sem víða kemur við í eldri heimildum, ef til vill eitthvað tengdur Brennhólum, Hólaland og Hólafjara koma víð í fjölmörgum frumheimildum allt frá því um 1300 og fram yfir 1800. Í Byggðasögu talar Þorsteinn Guðmundsson um engjablett í Hólalandi, segir hann vera frá Breiðabólsstað, þar er eina samtímatilvitnun sem ég hefi fundið um þetta býli eða jörð. Hólaland er í dag þekkt örnefni eða stytting, kennt við Sævarhóla í Suðursveit, bær austan við Kolgrímu alveg út við fjöruna, byggð lagðist af í Sævarhólum 1892 vegna vatnaágangs og grjótfoks. Hólaland kennt við Sævarhóla er ekkert tengt því Hólalandi sem heimildir tengja Kálfafelli og Breiðabólsstað.

Um héraðaskipan er það að segja að Síða náði frá Horni að Kvíá eins og áður sagði, Ingólfshöfðahverfi frá Kvíá að Jökulsá á Lómagnúpsandi, en þar vestan við tók við Skógarhverfi. Jökulsá á Lómagnúpsandi heitir nú Skeiðará, virðist hafa fengið nýtt nafn þegar Breiðá fékk nafnið Jökulsá. Héraðaskipting sem þessi virðist samkvæmt máldaga Rauðalækjarkirkju hafa staðið um margra alda skeið. Þar hefur Breiðársandur allt frá Kvíá tilheyrt Fellshverfi hinu forna og hefur það náð austur að Staðará, Kálfafell er í Fellshverfi, en Borgarhöfn er í Hornafirði segir Njála. Í dag er það orðið þannig að skipting lands eftir hreppum eða sveitarfélögum tekur slíkum breytingum að það sem var í gildi í gær er orðið úrelt á morgun. Héraðaskipting fyrri tíma er eitthvað sem heyrir sögunni til og er löngu orðið úrelt og því eðlilegt að fáir hafi áhuga á því, af þeim sökum verður ekki frekar um það fjallað hér.

Samgöngur milli héraða Suðaustanlands hafa eflaust verið torsóttar allt frá landnámi, stórfljót og sviptivindar undir þessum háu fjöllum hafa eflaust gert ferðlög erfið og jafnvel hættuleg. Fleiri faratálmar voru á leið fyrstu íbúa héraðsins en áður hefur verið talað um. Ljóst er af heimildum að skógar miklir hafa verið um austanverðan Breiðársand og allt austur á Steinasand, samanber réttindi Kálfafellskirkju um skógarhögg í Hólalandi hinu forna. Hvernig fyrstu íbúar héraðsins fóru um þetta svæði eru ekki heimildir um, en miðað við hvernig nú er að fara um skóginn í Staðarfjalli og Steinadal í Suðursveit  má telja að nær ófært hafi verið að komast með búfénað um láglendi Suðaustanlands um það leyti sem Hrollaugur var að flytja af Faxaflóasvæðinu til Hornafjarðar hér fyrrum. Reynsla segir okkur að þegar höggvið er skarð eða gönguleið í birkiskóga hér á svæðinu þá sækir gulvíðir  fljótt í eyðuna og ef leiðin er ekki því fjölfarnari strax í upphafi þá lokar víðirinn leiðinni á einu til tveimur sumrum, þannig að leiðin verður alófær til dæmis með hesta eða nautgripi. Af þeim sökum má telja líklegt að fljótlega eftir landnám hafi menn brennt skóga þá er mest voru í alfaraleið. Ekki er þó hægt að útiloka að  menn hafi kosið að fara til fjalla til að losna við ófærur skóganna, þannig er líklegt að hálendisferðir fyrstu kynslóða Íslendinga hafi verið farnar af þremur ástæðum, að stytta leiðir milli staða, til að komast hjá stórfljótum en einnig til að losna við þá ófærð og vandræði sem skógurinn olli á ferðalögum.

Stórfljót sunnanlands hafa og torveldað mjög samgöngur á fyrri tíð líkt og þau gerðu mörg hver allt fram á 20 öldina, þar til tókst að koma á vegasambandi sunnan jökla. Þó skal á það bent að í Landnámu er þess getið að hafnleysi og slæm veður hafi valdið því að hluti Austfirðingafjóðungs byggðist seint á landnámstíma, þar er ekki talað um stórfljót eða jökulár.  Voru árnar vatnsminni við landnám en þær urðu síðar, voru árnar færri eða runnu þær á öðrum stað en þær gera nú?.

Um árnar á Breiðamerkursandi er það að segja að þær hafa í gegnum tíðina komið og farið, það eru greinilega einkenni þessara áa að þær breyta afrennsli sínu eftir eigin geðþótta án samráðs við okkur mennina.  Nær öruggt má telja að við landnám hafi aðeins ein á runnið alla leið til sjávar á Breiðársandi, þ.e. Breiðá, nú Jökulsá. Allar aðrar stærri ár að Kvíá undanskilinni hafa runnið til Breiðár og sameinast henni nokkuð inni í landinu. Þegar austurstraumur Breiðamerkurjökuls gefur eftir á næstu árum þá mun þrýstingur frá skriðjöklum austur úr Öræfajökli aukast, þeir munu leitast við að falla í beinni línu frá fjallinu miðað við skriðstefnu.  Þannig eiga skriðjöklarnir norðan Breiðamerkurfjalls eftir að falla í austnorðaustur og teygja sig í átt að Jökulsárlóni, árnar frá þeim eiga allar eftir að renna í Jökulsá líkt og hefur verið á öldum áður. Árið 1990 breytti Stemma rennsli sínu , hafði áður runnið til sjávar nokkuð austar. Nokkru áður hafði Veðurá breytt sínu rennsli eða á fjórða áratugnum, Veðurá og Fellsá runnu til sjávar skammt austan Jökulsár 1793, um 1820 áttu þær ekki lengur færa leið þarna um vegna framskriðs Breiðamerkurjökuls og fóru að renna til austurs neðan við Reynivelli og Breiðabólsstaðarbæina og runnu um tíma út um Hálsaós austan við Hestgerði. Þegar Breiðamerkurjökull fór að ganga til baka þá runnu undan honum smákvíslar sem nefndust Brennhólakvíslar til austurs milli Stemmu og Veðurár. Sameinaðar Stemma, Brennhólakvíslar og Veðurá renna nú vestur í Jökulsá og skammt er í að núverandi Breiðá komi austur í Jökulsárlón. Hin forna Breiðá sem Landnáma greinir hefur eflaust borið nafn með renntu, rann á hallalausu landi , hefur breytt úr sér, af því fengið nafnið, hefur að líkindum lónað á milli allstórra uppistöðulóna líkt og Stemmulónið var fyrrum, eflaust hafa verið góð brot við afrennsli lónanna líkt og nú má sjá við Veðurá og áin því ekki verið umtalsverður faratálmi nema í stórrigningum líkt og aðrar ár í þessu byggðalagi. Á vetrum hafa lónin verið ísi lögð og þá ekki amalegt að fara um byggðina.

 Fyrsta heimild um vandræði ferðamanna í baráttu við stórfljótin Suðaustanlands er frásögn Sturlungu af viðskiptum Guðmundar góða Hólabiskups af Lómagnúpsá.  Guðmundar góði ferðaðist samkvæmt Sturlungu um þetta hérað 1197 og aftur 1203. Frásagnir um viðskipti Guðmundar góða við Lómagnúpsá og Virkisá í Öræfum eru um margt merkilegar. Lómagnúpsá sem talað er um í Sturlungu er að öllum líkindum Núpsvötn, hlaup í Núpsvötnum um aldamótin 1200 hafa af ýmsum talin vera hlaup úr Grænalóni, miðað við núverandi legu Grænalóns og áætlaða stöðu jökla á þeim tíma er slík kenning vart trúanleg nema fyrir henni verði færð vísindaleg rök.  Virkisá í Öræfum sótti mjög á engjalönd og bithaga í Svínafelli, Guðmundur biskup var fengin til að fá ána til að hætta þessu áreiti á gróið land, eftir nokkrar fortölur tókst biskupi að fá ána til að renna í sinn fyrri farveg og þá segir Sturlunga að Virkisá hafi eftir þetta runnið austur sandana eins og hún gerði fyrrum.  Hér kemur stórt spurningamerki, austur hvaða sanda rann Virkisá eftir að biskupi tókst að leiða hana til betri vegar?. Eftir því sem ég best veit átti land í Öræfum að vera algróið allt fram að gosinu mikla í Knappafellsjökli 150 árum síðar.  Mörg býli voru dreifð um láglendið frá Skeiðarársandi og austur alla sveitina, ólíklegt þykir mér að þau hafi staðið á berum söndum, allra síst þó stórbýlið og kirkjustaðurinn Rauðilækur sem átti samkvæmt bestra manna vitund að hafa staðið skammt frá  Svínafelli.

Ég segi oft við fólk, engin saga eða frásögn er svo ótrúleg eða fráleit að við tökum ekki mark á henni, geymum hana í minninu eða skráum hana og bíðum eftir því að hún falli í þann ramma sem hún er sprottin úr, staðreyndin er sú að fjölmargar sögur og sagnir líkjast hver annari, ýmist milli byggðalaga, milli héraða eða jafnvel milli landa. Þannig eru nokkrar af sögum sem við þekkjum úr okkar næsta nágrenni einnig til í næstu sveit eða öðrum landshluta jafnvel öðru landi, sagan um köttinn sem fór inn í Brúsahelli á Felli og kom út um Rannveigarhelli í Staðarfjalli er þekkt allvíða, bæði hérlendis og erlendis, ýmist er það köttur eða eitthvað annað dýr sem ferðast neðanjarðar milli tveggja staða. Frásagnir Sturlungu af baráttu Guðmundar góða við jökulvötnin í Skógarhverfi og Ingólfshöfðahverfi ber ekki með sér að vera samtímafrásögn, heldur skráð löngu síðar og þá staðfærð að þeirra tíma aðstæðum, þessi kenning mín byggir á þeirri vitneskju sem lesa má úr máldögum kirkna í Öræfum frá þessum tíma t.d. Rauðalækjarkirkju.

Þessi dæmi eru hér tekin til þess að bregða ljósi á þá staðreynd að heimildir sem við höfum úr að moða eru ekki bara missaga í Fellshverfi hinu forna heldur víðar úr héraðinu. Líklegt má telja þegar allt kemur til alls að tíðarandi ævintýra og frásagnargleði hafi sveimað yfir vötnum hér um byggðir, veruleikinn og ímyndin hafi átt í baráttu innbyrðis og af þeim sökum orðið til sagnir um víðlend og frjósöm héruð eins og til dæmis Breiðumörk eða önnur slík án þess nokkur fótur væri fyrir því í veruleikanum. Vandamál okkar nútímafólks er að moða úr allri þessari frásagnargleði, hvað er líklegt til að vera nálægt veruleikanum og hvað gæti verið skáldskapur.

Til gamans get ég greint frá því að um nokkurra ára skeið vann ég á svæði því sem fyrrum átti að hafa verið byggðalagið Breiðármörk eða Breiðamörk. Niðurstaðan er þessi, ef Breiðármörk hefur verið til sem byggðarlag fyrr meir  og verið vestan við svæðið þar sem Jökulsárlón er nú, þá get ég með góðri vissu og áralangri vöktun upplýst það að yfir sumartímann hefur verið nánast útilokað að þurrka hey á svæðinu frá Jökulsárlóni og vestur að Breiðamerkurfjalli. Þó stafalogn væri bæði við Jökulsárlón og austur á Breiðbólsstaðarbæjum þá var oft vindnæðingur á  milli Jökulsár og Fjallsár  Í norðanáttum verður mjög hvasst á þessu svæði þannig að allt hey hefði fokið hefði það legið flatt á túnum eða engjum. Samanburður á vindstyrk fram við núverandi þjóðveg og aftur inn við jökulröndina sýnir að vindstyrkur er að jafnaði umtalsvert meiri inn við jökulinn en frammi við þjóðveg. Þegar ég hef farið um þetta svæði að hausti eða vetri verður mér oft hugsað til þess fólks sem hér átti að hafa búið fyrr meir, hugsun mín leiðir alltaf til sömu niðurstöðu, vegna vindnæðings og kulda af þeim sökum, hefði ég flúið samdægurs í skjól við eitthvert fjallið í nágrenninu.

Í greinakorni sem þessu er aðeins hægt að tæpa á einstökum atriðum, fjölmörg áhugaverð mál eru hér enn ótalin, svo sem tengsl Síðu-Halls við Fellshverfi hið forna, segja betur frá öðru fólki á svæðinu sem setti svip sinn á söguna, segja frá harmsögu Þorsteins Gíslasonar á Reynivöllum sem varð úti á Breiðamerkursandi 16 nóvember 1865, slysförum í ungaveiði á Sandinum, munnmælum um fjölda slysa í Jökulsá á Breiðamerkursandi og Ingólfshöfða, meintan sauðaþjófnað Suðursveitunga úr fjöllum í Breiðamerkurjökli, útilegumannabyggðinni í Eyjólfsfjalli og ferðum  norðlenskra vermanna á þeim slóðum, rannsóknarleiðangur á vegum séra Þorsteins Einarssonar á Kálfafellsstað 1852 er hann sendi þrjá menn inn Breiðamerkurjökul til að freista þess að finna innri endann á Kálfafellsdal og svona má áfram telja.

Fá byggðalög fengu jafn mikla og ýtarlega umfjöllun í Landnámu og núverandi Öræfi og Suðursveit, þrátt fyrir það er minna vitað um söguna á þessum slóðum en víðast hvar í öðrum héruðum. Ef til vill er ástæða þess að hér gerðist engin Íslendingasaga. Geta má þó þess að hefði ekki verið byggð á þessu landsvæði  í kringum árið 1000, þá hefði engin Njálssaga verið skráð. Það hefði engin dramatík átt sér stað hefði Flosi í Svínafelli ekki brennt bæinn á Bergþórshvoli, þá hefði Þangbrandur ekki verið skráður á spjöld sögunnar og engin vitað aðdraganda þess að Íslendingar urðu kristin þjóð.  Stórt skarð er í sögunni, hvað gerðist hér í þessum byggðalögum frá því að þeir sættust, Flosi í Svínafelli og Kári Sölmundarson og allt til þess að Jón biskup Arason  reið í Bjarnanes um miðja sextándu öld?

Höfðu eldgosin þau áhrif að það varð óbyggilegt í þessum sveitum vegna náttúruhamfara? Seig undirstaða héraðsins eins og dr. Sigurður Þórarinsson taldi líklegt? Ef svo var gerðist það þá smátt og smátt með vaxandi jökulfargi á Vatnajökul eins og margir telja, eða seig landið í einni svipan líkt og gerðist á Þingvöllum, fylgdu þessu jarðskjálftar og aðrar hamfarir líkt og við Öræfajökulsgos, eða urðu landbreytingarnar einmitt  vegna stóru eldgosana í Öræfajökli á 14 öld ?

 Eins má spyrja, hvaða áhrif kann landrek Evrópu og Ameríkuflekana að hafa, hver er uppspretta þeirrar orku sem veldur því landreki, er ólíklegt að misþrýstingur einmitt vegna landreksins kunni að hafa áhrif hér, sum tímabil rísi landið vegna þrýstings, en önnur tímabil sígur það eða fellur þegar þrýstingur léttist af eins og við stórhamfarir þegar Öræfajökull gýs. Afar forvitnilegar rannsóknir eru nú stundaðar hér í héraði um landris við Vatnajökul, vísindamenn telja að hér sé landris umtalsvert vegna minnkandi jökla og léttingu lands af þeim sökum. Ef til vill er ekki allt þetta landris vegna bráðnun jöklanna, ekki er hægt að útiloka að hér sé einnig verið að greina landris vegna aukins þrýstings frá landrekinu.

Allar þessar stóru spurningar brenna á okkur, en lítið er um svör.

Gaman væri að þverfaglegur hópur vísindamanna tæki höndum saman og rannsakaði þessi mál nánar, af nógu er að taka. Sagnfræðingar, jarðfræðingar, náttúrufræðingar, landfræðingar, skógfræðingar, fornleifafræðingar, líffræðingar og fleiri vísindagreinar eiga hér óplægðan akur. Ekki er ólíklegt að slíkur hópur vísindamanna gæti með nákvæmum rannsóknum til að mynda gefið nokkuð skýra mynd af ferli Öræfajökulsgoss ársettu 1362, nánast frá degi til dags eða jafnvel enn nánar. Hvaða eldfjöll eru það sem skilja eftir sig öll þessi ósköp af gosefnum í jarðlögunum, hvaða áhrif höfðu þessi eldgos eftir að land byggðist, hversu langan tíma tók gróðurlendið að jafna sig eftir hvert tiltekið gos, hvernig er líklegt að lífsbarátta fólksins hafi verið með tilliti til nátúruaðstæðna á hverjum tíma, og síðast en ekki síðst, er hætta á að efnamengun t.d. flúor hafi stórskaðað lífríki hafsins við landið í Öræfajökulsgosinu 1362 ? 

Fyrir fáum vikum skoðaði ég jarðfræðisafn á Nýfundalandi, þar gat að líta m.a. sýnishorn af því hversu mikil jarðvegsmyndun verður vegna upplausnar eða veðrunar bergs á þeim slóðum. Á 4,5 milljörðum ára er talið að veðrun eða upplausn bergs á Nýfundalandi sé 4,5 metrar. Með þessari grein fylgja myndir úr Suðursveit þar sem við getum lesið jarðsöguna í 5 metra jarðlagi 5-6 þúsund ár aftur í tímann. Hér er engu saman að jafna, á Nýfundalandi er jarðvegsmyndun aðeins nokkrir sentimetrar frá því ísaldarjökullinn hopaði af landinu, en hér á Íslandi er jarðvegsmyndun 6-7 metrar á sama tíma, hvað veldur?

Það væri gaman að verða vísindamaður á Íslandi í framtíðinni og taka þátt í öllum þeim óteljandi og spennandi verkefnum sem okkar bíða hinu megin við lækinn.

Ritað að Hala í Suðursveit, 11. nóvember  2005.

Fjölnir Torfason.   

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 93
Gestir þennan mánuð: ... 5515
Gestir á þessu ári: ... 13555