Skip to main content

Sjósókn í Suðursveit

Steinþór þórðarson skrifar:

Sjóróðrar hafa verið stundaðir í Suðursveit svo langt sem sagnir ná, meira að segja herma munnmæli að Hrollaugur sem nam land á Breiðabólsstað í Suðursveit hafi fast sótt sjóinn; til marks um það telja munnmælin að hann hafi haft verskála á Hrollaugseyjum og sótt róðra þaðan á nálæg mið, þar sem nógur fiskur átti að fást. Þessar eyjar og útsker liggja nærri hásuðri frá Breiðabólsstað.

Eyjarnar eru þrjár, Austastaey, Miðey og Vestastaey. Sú austasta er stærst og gengur ekki sjór yfir hana nema í aftaka rosum á vetrum, sem sjaldan skeður.

Á þessari ey hefði skálinn því átt að standa, ef nokkuð væri hæft í munnmælunum. Það sem gerir þessa frásögn tortryggilega, eru erfiðleikar á því að geyma þarna skip, eftir því sem nú er, en vel má vera að á þeim árum hafi verið þarna öðruvísi umhorfs, til dæmis að Austasta-ey og Miðey hafi verið ein ey, nú er sund á milli þeirra, það breitt að sex róinn bátur geti róið milli þeirra ef ekki væri brimsúgur.

Ef svona hefði verið eins og ég giska á þá hefur verið allt önnur aðstaða til sjósóknar frá Hrollaugseyjum. Undan sandinum suður af Breiðabólsstað til Hrollaugseyja var röskur klukkutíma róður á áttæring. Tvö eru kennileiti í landnámi Hrollaugs, sem við hann er kennd, Hrollaugshólar, sem er stór hraunaþyrping við austurenda Breiðamerkursands. Í sundi milli hárra kletta sem skilur þessi hraun í sundur í austur- og vesturhóla, átti Hrollaugur að vera heygður.

Þeir sem lifðu í námunda við þennan stað, mundu vel hauginn. Þorsteinn Arason bóndi á Reynivöllum, gegn og sannorður maður, mundi vel hauginn. Hann sagði mér að þetta sem var sagt að væri leiði Hrollaugs hefði verið fallega gróin smáhæð á sléttum grasvelli milli austur- og vesturhóla. Svo tekur Fellsá sér farveg milli þessara hóla og brýtur upp leiði Hrollaugs.

Séra Jón Pétursson prestur á Kálfafellsstað frá 1928 framyfir 1940 sagði mér eftir Þorsteini Arasyni að spýtusprek hefðu fundist á aurunum fram af Hrollaugshaug, sem Fellsá hefði borið þangað og taldi víst að þau hefðu verið úr haug Hrollaugs. Hitt kennileitið er Hrollaugseyjar. Getur ekki verið að þær beri það nafn, af því Hrollaugur hafi haft þar einhverja bækistöð?

Ágæt fiskimið voru suðaustan við Hrollaugseyjar, þar sáust nokkrar franskar fiskiskútur lengst af sumars, þegar þær fóru hér af grunnmiðum, það benti til að þar væri fisk að hafa. Gamall maður sem ólst upp á Breiðabólsstað, þar búsettur um tíma og lifði fram á annan tug þessarar aldar, sagði að í sinni æsku hefði verið róið frá sandinum sunnan við Breiðabólsstað útá svokallaða ,,Leiru'', sem væri austan við Hrollaugseyjar, þar hefðu verið talin góð fiskimið og einnig sprökumið. Sú var líka reynsla vélbáta frá Hornafirði, lengi fram eftir. ,,Áðurnefnd sjósókn var aðeins stunduð,'' sagði gamli maðurinn, ,,á sumrin í dauðum sjó og tryggilegu lofti''; það var um hálfsannars tíma róður hvora leið á þessi mið í kyrru veðri.

Þá er Hrollaugs þætti í sjósókninni lokið.

Eins og ég sagði í upphafi hafa sjóróðrar verið stundaðir í Suðursveit svo langt sem sagnir ná, það mátti segja að það væri annar bjargræðisvegur sveitarinnar; ef hann brást, var þröngt um matbjörg á mörgum heimilum, sem gekk hallæri mest. Búin voru svo lítil hjá mörgum bændum að það var ekki hægt að styðjast við þau nema að hluta, til afkomu fyrir fólkið; þessu til sönnunar ætla ég að taka upp úr Byggðasögu Austur-Skaftfellinga, öðru bindi, framtal bænda í einu með blómlegustu byggðarlögum sveitarinnar. ,,Kálfafell'' skráð af Þorsteini Guðmundssyni frá Reynivöllum: ,,Þórður Steinsson, 3 nautgripir, 19 ær, 6 sauðir, 12 gemlingar, 3 hross, 1/3 í skipi. Jón Þórðarson, 2 nautgripir, 14 ær, 5 sauðir, 9 gemlingar, 3 hross, 1/16 í skipi. Brynjólfur Jónsson, 3 nautgripir, 15 ær, 9 sauðir, 9 gemlingar, 3 hross, 1/3 í skipi. Sigurður Eiríksson, 3 nautgripir, 18 ær, 9 sauðir, 10 gemlingar, 3 hross, 1/8 í skipi. Þórarinn Sigurðsson, 2 nautgripir, 10 ær, 3 sauðir, 8 gemlingar, 3 hross, 1/6 í skipi.''

Þetta framtal er vorið 1850. Það sýnir að einhvers staðar hefur björg þurft að koma til viðbótar þeim afurðum sem þessi bústofn gaf af sér til að framfæra sex til átta manna fjölskyldu eða meir. Allir áttu þessir bændur hlut í skipi, þaðan kom björgin þegar vel áraði sem aflabjörg og sjóveður snerti. Mörgum heimilum hjálpaði fiskreki á fjörur, og sílahlaup á land, þegar ganga var mest við land í mars. Fiskurinn sem rak, var selrifinn (rifinn eftir sel) eins og það var kallað, meira og minna étinn, en sumir fiskarnir aðeins bitnir á kviðinn, til að ná úr þeim lifrinni. Þá var víða nokkur silungsveiði á sumrin, og kríueggjaver. Rjúpur voru líka veiddar á vetrinum ef snjóar ráku þær niður á láglendi. Þessi veiði gat skipt hundruðum, sem tveir menn veiddu á dag í snörur. En allir gátu þessir bjargræðisvegir brugðist. Þá var hart í ári, eins og gamla fólkið orðaði það.

Af því að sjávarútvegur gat fært mikla björg í bú þegar veiði gafst, var oft teflt á það tæpasta til að ná í björgina og þá einkum fyrir mitt minni. Eg heyrði elstu sjómenn segja að einakt hefði verið stutt, eins og það var kallað, eftir lagi, lengri tíma. Var þá staðið framundir þar sem sjórinn féll og sogin flæddu aftur fyrir skut á skipinu. Nú er lag kallað, en reyndist svo stutt að skipið flaut ekki frá landi og sló uppí fjöru aftur og þá á ný stutt eftir lagi. Þetta gat gengið allt að þrisvar sinnum. Ekki var oftar í það sinn leitað lags og skipið sett frá sjó. Einatt var dokað við í fjörunni, var það kallað ,,sandstaða'', var farið í bændaglímu sér til afþreyingar; man ég eftir að þeir voru bændur Björn Steinsson bóndi, Breiðabólsstað og Bjarni Runólfsson bóndi, Kálfafelli. Þarna voru um eða yfir fjörutíu manns samankomnir. Ekki man ég hvað margir tóku þátt í glímunni, en þeir voru margir.

Þarna voru samankomnar fjórar skipshafnir, margt ungir og vaskir menn. Meðan á glímunni stóð gekk einn formaðurinn, sem ekki tók þátt í henni, fram að sjó, kom aftur og sagði að sjór væri farinn að lagast, góð lög kæmu og það stærsta farið að draga úr köstunum. Fór þá hver háseti að sínu skipi, skipunum hrundið fram, skinnklæðst í snatri, tekið lagið og ýtt á flot. Sjór fór batnandi. Afli var góður, og menn voru glaðir yfir skiptum um kvöldið og sögðu: ,, Þetta eigum við bændaglímunni að þakka'', ef ekki hefði verið farið hana, hefðu menn farið heim og ekkert orðið úr róðri.

Strax þegar kom fram á þorra var farið að hugsa um róðra, flestir karlmenn hlökkuðu til að byrja þá, ekki aðeins að fá björgina, heldur líka ævintýri, sem mörgum sjómönnum og þá einkum þeim yngri fannst fylgja því að ýta og lenda, var stór stund.

Það var sjaldgæft að unglingar fengju að fara á sjó fyrr en árið eftir fermingu. Þá urðu þeir að verða búnir að læra sjóferðabænina í ,,Þórðarbænum'' og kann hana enn.

Fyrsti undirbúningur að róðrum, var að athuga um skinnfötin, ef þau reyndust ekki nógu góð frá árinu áður, þá varð að sauma ný. En ekki voru allir bændur það vel efnum búnir af skinnum, að þeir gætu endurnýjað skinnfötin eða þeirra sjómanna sem voru á þeirra vegum. Var þá leitað til góðra kunningja um skinn. Oftast fór það svo, að hægt var að endurnýja skinnfötin ef þörf var, enda lögðu formenn áherslu á að hásetar þeirra væru vel ,,skinnaðir'' eins og það var kallað. Það var til tvenns konar gerð að skinnklæðum sem hlífði frá mitti niður á mjóalegg, önnur gerðin var kölluð skinnhald, það náði frá mitti niður undir ökkla, þó misjafnt eftir því hvað skinnin voru stór sem skinnhaldið var úr. Neðan við skinnhaldið komu skinnsokkar, heilir í botninn en saumaðir á tvo vegu upp, eins og skinnsokkurinn var langur, saumurinn aftan og framan á leggnum. Síðan var þvengur úr skinni dreginn í skinnsokkinn efst og hann dreginn saman með þvengnum, það stöðugt, að hann félli sem þéttast að buxunum. Var svo tvívafið, eða eftir því hvað þvengurinn var langur, yfir fótlegginn laust ofan við sokkinn og hnýtt. Skinnhaldið gekk niður í skinnsokkinn og hnýtt, það langt niður sem sídd þess leyfði. Síðan var mjóu bandi, fléttuðu úr hrosshári eða snæri, marg og fastvafið utan um skinnhald og skinnsokk laust neðan við miðjan legg, það fast að sjór kæmist ekki upp á milli og maðurinn þá þurr bæði í fætur og á lærum. Þetta tókst yfirleitt. En ef bindingin brást sagði sá sem fyrir því    varð: ,,Það gaf á milli hjá mér.'' Efst um skinnhaldið í mitti eða þar um, var brugðið snæri til að halda því uppi.

Hin gerðin af skinnklæðum hið neðra um menn hét ,,skinnbrók''. Það var frábrugðið skinnhaldinu, að ekki þurfti skinnsokka með því frekar en vildi. Það var saumað fyrir skálmarnar að neðan, svo ekkert op var, en þar til gerðir skór hafðir á fótum utan yfir skinnbrókina. Skinnbrókin gekk jafnlangt upp og skinnhaldið og sami umbúnaður til að halda því upp um sig. Það þurfti stærri skinn í skinnbrók en skinnhald, væn sauðarskinn.

Í þessi skinnklæði þurfti þrjú skinn, hvort sem um brók eða hald var að ræða, eitt skinn fyrir hvorn krík og það þriðja í svokallaðan ,,setskauta'' (setskaut), sem tengdi brókarkrikana saman, þar fyrir rassi, gekk fram milli fóta og upp að framan jafnhátt og brókarskálmarnar náðu upp.

Hlífðarfatið að ofan hét skinnstakkur, hann var úr sauða- eða ærskinnum. Hann var sniðinn eins og fat fyrir efri bol með op uppúr hálsmáli og steypt yfir sig þegar í hann var farið, ermarnar náðu fram undir hendur og vafið með þar til gerðu bandi þéttingsfast um þær, stutt ofan við úlnlið, svo ekki gæfi sjó upp á handleggi. Skinnstakkurinn náði niður undir mjaðmir, dálítið niður á skinnhald. Stutt neðan við þar sem stakkur og hald eða brók mættust, var snæri vafið yfir manninn, helst það fast að ekki gæfi sjór á milli þó hann lenti það djúpt í útróðri eða lendingu.

Klæddir eins og lýst hefur verið, áttu menn að vera nokkuð vel varðir fyrir utan-aðkomandi bleytu, enda það sem formenn vildu um sína háseta, hvað sem ídálpaði. Skinnstakkar voru lítt notaðir í minni tíð. Sunnan við Bjarnahraun, ,,Bjarnahrauns-sandur'' var aðal útróðrastaður báta í Suðursveit. Upp í þennan sand myndaðist bogadregin vík, sem Þrándarholt eystra og vestra mynduðu að vestan, en Borgarhafnarhálsar að austan (austan við þá átti útræði Norðlendinga að vera), en það langt frá að þeir drógu ekkert úr sjógangi.

Þarna framan við sandinn er smásker sem sjór gengur yfir á flóðum, en nokkuð uppúr sjó. Eftir því sem meira vik myndaðist í fjöruna innan við skerið, eftir því var sjávarlagið betra. Innan halt stutt frá austurenda þess var legið eftir lagi þegar gott sjávarlag þótti í víkinni, eins og þessi staður var kallaður, en oftar varð að liggja austur af því eða jafnvel djúphallan það á fjöru ef aðgrynni var; sem sagt, skerið þótti heldur draga úr öldubrotinu við land, ef það var hæfilega langt frá landi, einkum á fjöru. Þarna þótti heldur betra að vera með báta sína en annars staðar eftir útræði og þá helst milli austur- og vestur- Þrándarholta, þar var einstaklega aðdjúpt, sem þótti kostur við sjávarlag, þá var hægt að liggja nær landi eftir lagi, stutt lög entust þá betur.

Það var langt að sækja sjó frá hvorum sveitarenda, frá Reynivöllum vestasta bænum, þriggja klukkutíma lestargangur hvora leið og álíka langt að þeim austasta, Skálafelli; það þurfti því að taka daginn tímalega, til að tefja ekki róður. Þrándarholt draga nafn af ós, sem rann fram úr fjörunni milli þeirra og hét Þrándur, til hans féll vatn öðruhvoru frá ,,Staðará" og ,,Fljótinu". Ef  Staðará féll ekki til hans, féll hún austur í Borgarhafnarfljót og þaðan í Hálsaós, fylgdi þá Fljótið venjulega eftir. Þá stóð Þrándur uppí (rann ekki fram). Nafn sitt hefur hann fengið af því hann hefur þótt ,,þrándur í götu" á leið eftir fjörunni og þá einkum fyrir sjómennina vestan yfir Steinasand, að og frá Bjarnahraunssandi. Það var mun styttri leið en þurfa að fara uppá Steinasand.

Fyrr eða seinna á þorranum var byrjað að líta eftir, hvort skipið væri vel sjóhæft. Var það þá bikað utan eða innan eða hvort tveggja, gætt að, hvort tréstykkin, sem voru ofan á borðstokknum fyrir hvert ræði og ræðin gengu niðurúr, væru ekki farin að fúna, svo um þyrfti að skipta og litið eftir fleiru, sem aðdyttingar gat þurft. Skip voru sett úr vetrarnausti til sjós í síðustu viku þorra, ef vel leit út með sjó, það kom fyrir að hægt væri að róa í þeirri viku, en lítill afli.

Þegar skip var sett til sjós, var allt látið fylgja því sem fylgja þurfti, árar, stýri, stjóri 40 faðma langur, kolluband 15 faðma langt, ,,hlunnar" til að setja, 4-5 skíði úr hvalrifi, hákarlakeppur til að rota hákarl með, hákarlabreddur til að stinga og leggja hákarl með, íburður til að vera í hákarl, þegar búið var að draga hann undir borð. Breddurnar voru 3-5, blaðið um tvö kvartel, og skaptið álíka langt. Íburður var 2-3 kvartel og beygður með hálshringsbug, vel beittur, oddurinn á enda bugsins.

Sjaldan var farið að hugsa fyrir alvöru til róðra fyrr en viku af góu, þá var fiskiganga oftar að byrja að ganga að landi og þá fiskvon; þó gat það komið fyrir, að góður afli fengist fyrstu daga góu, meðal fleiri dæma gerðist það 1907 fyrsta mánudag í góu og þriðjudag  (sprengidag) fyrsta veturinn sem ég röri. Þennan mánudag var búið að ákveða af eftirtöldum að fara útyfir Jökulsá á Breiðamerkursandi að sækja tré sem höfðu legið þar frá vetrinum áður úr togarastrandi, ís var yfir allt, það færi átti að nota. Í ferðinni voru Björn Steinsson, Breiðabólsstað, Jón Jónsson, Smyrlabjörgum, Þórður Steinsson, Hala, Steinþór sonur hans, og Þorsteinn Arason, Reynivöllum. Á mánudagsmorgun voru fjórir þeir fyrsttöldu samankomnir á lóninu neðan við Breiðabólsstað, þá ber Ketil Jósson bónda á Gerði þar að, var að koma af fjöru og segir að það sé besta sjóveður. ,,Hvað þýðir að tala um sjóveður," segir Þórður, ,,þegar engin kveikja sést við land." Svo var ekki meira talað um það, hvorir héldu sína leið, Ketill heim, en hinir vestur á sand. Þorsteinn kom til móts við þá á lóninu suður af Reynivöllum. Þeim gekk ferðin vel, sem fóru að sækja trén og komu heim um það leyti, að birtu var að bregða. Þá er þeim færð sú fregn að Ketill hafi tekið hest sinn, riðið austur í Bjarnahraunssand og ætlað að fá sér þar róður, eflaust hefðu þeir róið því Ketill var ekki kominn enn. Nokkur eftirvænting var á Breiðabólsstaðarbæjum að fá fréttir hjá Katli þegar hann kæmi, hvort aflast hefði. Langt var liðið á vöku, þegar Ketill kom heim. Færði hann þá þær fréttir að tvö skip hefðu róið og aflað 13 og 14 í hlut af fallegum fiski. Af því útlit var fyrir sjóveður næsta dag, var sent að Reynivöllum til Þorsteins Arasonar, sem var formaður á skipi þeirra fyrir vestan Steinasand og honum sagðar aflafréttirnar og til einhvers gæti orðið að róa næsta dag, ef sjóveður yrði. Þorsteinn lét þau boð út ganga á Breiðabólsstaðarbæi og Sléttaleiti að þeir frá Reynivöllum kæmu snemma í fyrramálið, ef sjólag yrði.

Þennan morgun, fyrsta þriðjudag í góu, sem var ,,sprengidagur", var uppi fótur og fit á sunnansandabæjum, því sjólag var bæði þar sem sjávarhljóð og loft snerti. Skipið þeirra sunnsendinga var í vetrarnausti frá haustinu áður, í tíft stutt vestan við Breiðabólstaðarbæinn þar sem vestri bær Breiðabólsstaðar var, en féll úr byggð um 1890.

Allir skipseigendur, sex að tölu og þeirra sjómenn, alls tíu að tölu, auk þess Jón á Smyrlabjörgum, sem var næturgestur á Breiðabólsstað og ætlaði að fala róður, sem var auðsótt, voru komnir að skipinu í hálfbjörtu. Það þarf ekki að fjölyrða það, skipið er tekið úr nausti og sett fram á Breiðabólsstaðarlón, sem voru fáir metrar, svo austur lónið, austir fyrir Sléttaleiti. Þar var helst búist við að reyna að komast út vegna aðgrynnis vestar, eða ,,eyra", eins og það var kallað í daglegu tali (þá einatt sagt:,,þær eru vondar eyrarnar núna"). Skipið var skilið eftir þarna á ísnum en mannskapurinn gekk fram að sjó. ,,Það er vel hægt að komast hér út," sagði formaðurinn, ,,hann rennur að vísu í, en lögin eru ágæt." (,,Rennur í " þýddi það kæmu stórir sjóar, en það þótti ekki hættulegt, ef lögin voru góð). Nú er skipið sótt norður á ,,Lón", því brýnt fram fjöru og róið út á besta lagi, eftir að allir venjulegir sjómannasiðir voru um hönd hafðir. Skipið átti að fara með austur í Bjarnahraunssand, þaðan sem átti að halda því út, ef á sjó gæfi þessa vertíð. Haldið er í suðaustur eins og leiðin lá móts við Bjarnahraunssand og útá mið. Þegar róið hafði verið í hálftíma í þessa átt, sagði formaður: ,,Nú skuluð þið hvíla ykkur og við skulum renna, við erum útaf ,,Samvinnunni", þar hefur stundum reynst gott fiskimið, best að prófa það nú." (Samvinnan var engjastykki í Kálfafellslandi, sem lengi frameftir var beitiland bæjanna, en þegar ágangur Steinavatna tók af önnur engjalönd sem bæirnir áttu, var farið að slá þetta land og þá í samvinnu af öllum Kálfafellsbændum; þar af hlaut þetta stykki nafnið ,,Samvinna", sem síðar var skipt.)

Um leið og færi komu til botns og farið að ,,bráka", stóð fiskur á hverjum krók. Ekki þarf að orðlengja það, að skipið var hlaðið á hálfum öðrum tíma af stærðar vertíðarþorski á tólf faðma dýpi, án þess hreyft væri í ár. Stutt var orðið móts við fyrirhugaðar ,,varir", Bjarnahraunssand, því austurfallið (fjarandisjór) hafði borið skipið í þá átt.

Léttan var róið til lands, seilað á venjulegri ,,legu", leitað lags að því loknu, eins og venja var. ,,Lending" gekk vel, enda sjór góður. Nú voru hafðar hraðar hendur að losa ólar af ,,seilinni" og bjarga þeim það vel upp, að ekki væri hætta á að sjór tæki þær. Þegar búið var að draga fiskinn af ,,vörðuálum" bað formaður Þórð á Hala að vera í landi og skipta meðan þeir röru út aftur. Þórður sagði fátt, en sagði þó, að hann hefði haft meira gaman af að róa með þeim. Róið var út aftur, en Þórður skipti. Í fæstum orðum sagt aflaðist lítið í þessum róðri jafnvel þó leitað væri á sömu mið og dýpra. Í þessum róðri öfluðust 5 í hlut en, en þeim fyrri 19 í hlut, alls 24 í hlut. Þetta þótti mikill fengur af svo vænum fiski. Hin skipin tvö sem röru úr Bjarnahraunssandi öfluðu líkt og daginn áður, héldu sig alltaf dýpra á Sunnansandaskipið.

Jón á Smyrlabjörgum bað Þorstein Arason að lofa sér að róa, ef aftur yrði hægt að róa á þessari vertíð, var það auðsótt mál, því Jón þótti alls staðar góður liðsmaður þar sem hann vann. Ekki var aftur róið fyrr en laugardag fyrir páska, sem mun hafa verið annar laugardagur í einmánuði. Þá aflaðist 25 í hlut af vænum fiski. Er þá talinn sá afli, sem kom á því ári. Ég vildi láta frásögn um þennan róður fljóta með, hún sýnir hvernig gengið gat við sjóinn í Suðursveit.

Vandfengin voru sjóveður í Suðursveit, þó komu þau dag og dag, gátu staðið í fleiri daga ef um sérstaka veðurstillu var að ræða, en það var ekki oft. Ef áttin var suðlæg var ekki að vænta sjóveðurs. Öðru máli var að gegna með norðlæga átt, ef hún var hófleg, ekki miklir vindar.

Ef hæg norðvestanátt og ,,tempraður landnyrðingur" eins og eldri menn kölluðu hann, mættust, mátti vænta sjóveðurs, gerði þá einatt stillt veður, í einn eða fleiri daga. Landnyrðingur kom og kemur oft að kvöldi dags, ekki síst eftir heita daga. Kom þá austankaldi eða stinningskaldi, setti þoku í fjöll, skreið niður öll fjallaskörð og dreif yfir allt loft á svipstundu. Að morgni var oft komið logn og þokunni farið að létta með hægri vestanátt. Þetta var landnyrðingur ,,með lagi", og sjóveðurs von. Ef landnyrðingur kom að kvöldi, var ekki farinn að lygna að morgni og tekið að létta í lofti, mátti búast við þrálátri austanátt með kalsahreti, rigningu eða snjó eftir árstíðum. Þetta var tempraður landnyrðingur, eða landnyrðingur með lagi. Talað var um sjóveður í veðurbrodd, það var þegar blásið hafði af norðri án þráveðurs, en lygndi skyndilega, þá var oft ládauður sjór. Það var kallaður ,,veðurbroddur".

Einu sinni var gamall maður á Felli, þegar byggð var þar (gamlir menn gátu verið þar oftar). Þá er einn vetur í góubyrjun að gamli maðurinn segir að afli komi á góu. Svo líður fram eftir góu, aldrei kemur sjóveður; er þá maðurinn minntur á spána. ,,Góa er ekki liðin enn." Þennan morgun var hvasst á norðan, lágur bakki í hafi, en annars heiður himinn. Um morguninn báðu konur gamla manninn að stíga þóf fyrir sig, það er að þæfa vaðmál undir fótum. Hann tók því vel, en sagði: ,,Ef farið verður til sjós, þá hætti ég." Konurnar sögðu að ekki mundi mikil hætta á því. ,,Dagurinn er ekki liðinn enn", sagði sá gamli og steig á þófið.

Útúr hádegi sléttlygnir og bakkinn fyrir hafi var að mestu horfinn. Nú varð uppi fótur og fit í Suðursveit. Allir karlmenn þutu til sjós, því blíða sjóveður var. Klukkan þrjú voru öll skipin fimm að tölu komin út á mið. Áður en fór að skyggja voru skipin með hlaðafla öll, til lands. Gamli maðurinn gekk milli manna í fjörunni, heldur hreykinn og sagði: ,,Nú sjáið þið hvort ekki kom afli á góu." Þetta var veðurbroddur sem gaf sjóveðrið.

Ég ætla að skjóta hér inn annarri frásögn um veðurbrodd. Það var árið 1903, síðasta þriðjudag í vetri, að sjómennirnir fyrir vestan Steinasand eru saman komnir á Reynivöllum og standa við nýsmíðað skip, sem Þorsteinn Arason hafði smíðað. Þetta var fallegt skip, vel lagað til að ýta því og lenda, og eins til gagns, hét ,,Gæfa", annað skipið með því nafni í þessu byggðarlagi. Ætlunin var að róa skipinu þess fyrstu sjóferð þennan dag, því sjóveður var gott. Röðuðu nú hásetar og formaður sér að skipinu og settu það úr Reynivallahlaði og stefndu með það suðaustur á Breiðabólsstaðarlón, sem var sumpart autt og sumpart á ís. Þetta gekk allvel, þú yrði að setja það fyrsta sprettinn á auðri jörð, skipið var létt í meðförum, spánnýtt, óvelt í sjó og sandi; út átti að róa frá sandinum nær miðju vega milli Sléttaleitis og Breiðabólsstaðar. Þar á fjörunni voru grjóthrúgur, sem hafðar voru til að hlaða að skipum, þegar þau voru geymd þar, sem einatt var, meðan ekki var farið með þau í Bjarnahraunssand, fyrr en seinni part vetrar. Kom fyrir að skipinu var haldið þaðan út alla vertíðina, ef sjávarlag var þar gott eins og var 1903.

Breiðabólsstaðarlón var orðið íslaust vestur á móts við Breiðabólsstað, gekk því greiðlega að koma skipinu síðasta spölinn fram til sjós. Komið var á fiskimið klukkan að ganga þrjú, sjór var góður og fiskur lét sæmilega. Þegar leið á daginn kom ausan frassi, sem þoka fylgdi, og huldi meginhluta fjalla; drifu bólstrarír henni niður í fjallaskörð. Þessu fylgdi snjóreytingur, sem herti í fúlan austanbyl.

Ég, strákurinn tíu ára, fór að smala kindum, sem voru hér austur og vestur með Breiðabólsstaðarfjalli, efast um að þær hafi verið hýstar næturnar áður. Þetta gekk vel, ég fann það sem vantaði af fénu, gaf hey á jötur og hýsti það.

Þegar ég kom heim, rofaði það í drífuna að sást útá fjöruna. Kom þá í ljós að skipið var komið upp á fjöru og búið að hvolfa því. Þetta gladdi fólkið að vita að sjómennirnir voru komnir til lands. Aftur dimmdi og fjaran hvarf. ,,Þetta er bölvaður landnyrðingur", sagði Benedikt móðurafi minn, ,,hvað sem hann gerir úr honum." Það var rétt, þetta var landnyrðingur sem gerði skyndilega þessa veðurbreytingu, eins og oft áður og síðan. En myndi þetta vera landnyrðingur með lagi? Það kom fram næstu daga. Farið var að kvölda, rof tók framí, svo vel sá út á lónið. Sáust þá bátarnir, ,,Lónbátarnir", eins og þeir voru kallaðir, átti annar heima á Reynivöllum, en hinn á Breiðabóls-staðarbæjum. ,,Guði sé lof", sögðu konurnar á bæjunum, þegar þær sáu sjómennina koma róandi á bátunum yfir lónið. Þeir lentu við túnfótinn meðan við Breiðabólsstað. Fór þá hver sjómaður heim til sinna og var vel fagnað, eins og æfinlega var gert þegar menn komu af sjó. Nú var farið að spyrja frétta: ,,Hvernig öfluðuð þið? Var sjórinn góður? Urðu strákarnir ekki sjóveikir? (það voru Þórbergur Þórðarson og Ragnar Þórarinsson, sem röru þá í fyrsta sinn). Er ekki malbratt?" (það er brattur fjörukamburinn þar sem skipinu var lent). Úr öllu þessu var leyst með ánægju.

Aflinn var 14 í hlut af fallegum fiski. Sjórinn var góður þar til landnyrðingurinn skall yfir eins og hendi væri veifað. Þá varð vindbáran fjandi kröpp, en allt gekk þetta vel, landsýn töpuðum við litla stund, svo var snjókoman mikil. Strákarnir voru ekkert sjóveikir og drógu vel í hlutinn sinn.

Í dag þegar ég er að skrifa þessar línur, síðasta þriðjudag í vetri, eru liðin 75 ár síðan Þórbergur og Ragnar fóru í sinn fyrsta sjóróður. Eftir það röri Þórbergur þrjár vertíðir í Suðursveit en Ragnar fjórar. Fluttu þá til Reykjavíkur, urðu þar góðir borgarar, Þórbergur þjóðkunnur rithöfundur, en Ragnar trésmíðameistari, falin ýmis trúnaðarstörf af sinni stétt. Þessi var þá ferill hinna ungu sjómanna, sem fóru fyrst á sjó síðasta þriðjudag í vetri 1903 og lentu á landróðri í hinni kröppu landnyrðings kviku. Á landróðri lífsins á langri æfi hafa þeir eflaust lent í líkum kvikuföllum.

Þá er að víkja þar að sem fyrr var frá horfið. Síðasta miðvikudag í vetri var allhvöss norðan strekkja, en ekki sjáanleg þrá í lofti. Svona blés út þennan dag og fram eftir nóttu, kaldur. Á fyrsta sumardag var komið logn og blíðaveður, vatnsdauður sjór og sannur ,,veðurbroddur". Róið var og öfluðust 35 í hlut. Þetta veður hélst til helgarinnar og alltaf góður afli.

Þá er frásögninni af róðrinum síðasta þriðjudag í vetri 1903 lokið, og þá vikið að hinni beinu frásögn.

Þegar skiphöfn var komin að skipi á þem stað, sem átti að róa því frá, var það fyrsta að ganga fram að sjó og gæta að hvort sjóveður væri, var þá venjulegt að formaður hefði þar síðasta orðið, en ýmsir lögðu þó orð í belg. Gaman gat verið að hlusta á það tal þegar tvísýnt var um sjóveður. ,,Stór var nú þessi", sagði einhver, þegar stór alda féll í sandinn, ,,og þarna kemur annar og sá þriðji", gall í öðrum, ,,svo eru köstin mun lengri en lögin, aldrei þótti það nú gott", sagði sá fjórði. ,,Svo er loftið ekki tryggilegt, lyftir undir fjöllin, eins og sagt var að gert hefði þegar Mýramenn lentu í hrakningum forðum". ,,Það getur hvesst á norðan", sagði sá fimmti.,,Sjáið þið eyrarnar, þær eru farnar að bjóða sig, og helvíti gróinn í útsuðrinu, hann gruggar upp undan þessu lofti. ,,Aha," þarna féll Holtsboðinn". ,,Nú, það verður ekki róið í dag, eða það skil ég ekki." Eitthvað þessu líkt gat talið verið hjá hásetum ef tvísýnt þótti um sjóveður. Svo kom formaður með sinn úrskurð, sem kveðinn var upp af viti og þekkingu, á sjó og lofti. Hann gilti. Öllu var óhætt.

Ef sjóveður þótti var annar festarendinn, sem á festinni var, sem lá yfir skipið miðskipa, losaður af steini, sem hann var bundinn um og honum kastað yfir skipið að steini þar sem hinn festarendinn var bundinn um; jafnframt þessu var grjót tínt frá stöfnum skipsins og skorður teknar undan því sem mig minnir að vera fjórar undir hvorri hlið.

Þegar allt grjót og skorður hafði verið losað frá skipinu, röðuðu skipverjar sér að þeim borðstokk skips sem í vestur sneri, lyftu með sameiginlegu átaki upp uns það hvíldi á hinum borðstokknum, hlupu þá nokkrir yfir til að taka móti því svo það dytti ekki á hliðina. Að því búnu hlupu menn upp skipið til að losa færin, sem fest voru í kjalsog við botn þess, þar geymdust þau vel því alltaf sogaði gælu undir skipið þegar það var á hvolfi og færin það hátt frá sandi að ekki var hætta á þau drægjust ofan í hann. Sömuleiðis var stjóri og kolluband losað, sem fest voru á sama hátt og færin, en þá fremst í skipinu þar sem mest loft var undir það þegar það var á hvolfi. Þegar búið var að losa færin voru þau hengd yfir miðja þóftu, þannig að færið var annars vegar, en sakkan hins vegar, svoleiðis héngu þau þar til þeim var rennt í sjó og á sama hátt voru þau sett þegar haldið var af miðum, þá búið að hanka þau upp. Óuppgert færi mátti ekki liggja í skipi í lendingu, það gat valdið slysi ef einhver flæktist í því þegar fljótt varð að hafa við og hlaupa að skipinu svo það legði ekki uppí að sjó. Það var kallað að ,,hlaupa utanundir". Oft gat verið ærin þrekraun að standa þar, þegar braut á mönnum annars vegar, en útsogin fyrir ofan skipið þrýstu því í fang þeirra sem utanundir stóðu hins vega. Þegar þannig var búið að ganga frá færum og böndum og leggja stýrið að formannssæti ,,afturstafn", var beinum hlunnum raðað á sandinn fyrir aftan það, því afturstafn sneri að sjó. Röðuðu sér nú allir skipverjar að skipinu og sneru bökum að því. Þeir sem aftast stóðu við hvorn kinnung, lyftu því uppá fyrsta beinið og svo hvert af öðru jafnóðum og að þeim kom, en hinir gerðu átök með bökunum og köstuðu því af sér með snörpum samtaka hnykkjum, en önduðu aðeins á milli og ýttu þannig skipinu áleiðis til sjós. Þetta voru kölluð ,,hlunnbrögð". ,,Við skulum nota hlunnbrögð", ,, við skulum hlunna það ",var sagt. Þegar komið var með skipið miðja leið fram að sjó var því snúið. Hljóp allur mannskapurinn þá sitt undir hvora hlið og lyftu því eins hátt og unnt var og því snúið uns framstafn horfði beint til haft.

Alltaf var skipi snúið mót austri. Nú var hlunnum raðað undir það á ný og sett fram með hlunnbrögðum. Stundum voru skipin dregin í loti meðan hlunnaröðin entist, fram fjöruna. Þá hlupu einhverjir og röðuðu þeim fram fyrir. Oft var maður hafður til að taka hlunnana jafnóðum og þeir komu aftur undan skipinu og hlaupa með þá fram fyrir það; var hafður til þess ungur maður (unglingur) ef hann var á skipinu, eða þá annar sem röskur var.

Þegar búið er að snúa, er hlunnum raðað framan við skipið, og því hrundið fram að sjó. Þegar komið var fram undir flæðarmál, það er þangað sem sjór sogar hæst í fjöru, þar sem átti að róa, var numið staðar með skipið og látið leggjast á hliðina . Síðan gekk mannskapurinn upp að ,,skorðum" eins og það var kallað, sótti árar, skinnklæði og nesti. Þegar fram að skipi kom aftur voru ræði sett í borðstokka, 3-4 í hvorn borðstokk, eftir því hvað skipið var margróið, síðan árar settar í ræði (kallað að ára, við skulum ára). Hvert ræði átti vissa ár, þar mátti ekki skeika. Andófsárar, miðskipárar, austurrúmsárar og barka- eða bitaárar, ef skipið var áttróið.

Þegar hér var komið tóku menn skinnfataböggla sína, leystu utan af þeim böndin og skinnklæddu sig eins og það var kallað. Þegar menn voru klæddir gekk hver að sinni þóftu, því hver átti sitt vissa sæti, átakamestu mennirnir voru hafðir undir andófsárum, þeir höfðu mest afl til að lyfta skipinu upp úr sandinum þegar ýtt var út, og eins að vaða hóflega djúpt með því fram í brimgarðinn. Ef tíu menn voru sexrónu skipi fóru sex undir árar en fjórir stóðu við skut og ýttu, gerðu síðasta átakið að koma skipinu á flot meðan þeir sem undir árar fóru, voru byrjaðir að dýfa árum í sjó til útróðurs. Það kom fyrir að þeir sem ýttu gátu ekki haft sig uppí skipið(,,ekki innbyrt sig"), höfðu vaðið dýpra en þá varði, kenndu ekki botns og héngu, voru þá innbyrtir af öðrum þegar útfyrir brimgarðinn kom. Nú var allt undirbúið til að hefja róður. Þá sagði formaður: ,,Við skulum hafa rétt, og færa okkur nær." Þegar honum fannst komið það nálægt sjó, að stuttu sjóarnir gengu upp að framstafni skipsins, sagði hann ,,ekki nær," og í töluðum orðum segir hann: ,,Við skulum biðja guð að koma til með okkur."Tóku þá allir húfur sínar ofan, beygðu höfuð niður að sinni þóftu og lásu bænina. Ef lagið var að koma í sama mund og bænalestri lauk, sagði formaður háum og skýrum orðum ,,tökum á", það þýddi að útróðurinn skyldi hefja. Allir tóku á eins og kraftar leyfðu, vaðið var það langt út í brimgarðinn að þeir sem undir árar fóru voru vissir um, að vaða ekki það djúpt, að þeir töpuðu fótfestu, kepptist þá hver í sitt sæti, dyfu árum í sjó og tóku bakföll, þeir sem ýttu beittu kröftunum til hins ítrasta, til að skipið flyti á því útsogi sem því var ætlað. Það tókst, skipið var flotið og komið út fyrir brimgarð, öllu óhætt í þessum útróðri. Segja mátti að það væri tilviljun ef lag kom um leið og bænalestri lauk. Sagði þá formaður að bænalestri loknum: ,,Við skulum færa okkur nær, og nær", þá var stansað og beðið eftir lagi. Misjafnt var hvað beðið var eftir lagi lengi, þar réði hvað álögin milli laga voru löng og hvað lögin voru hrein (skýr). Nú kom lagið og allt gerðist eins og áður er lýst og formaður hefur sömu orð.

Stundum gat það komið fyrir að skipi slægi upp í útróðri. Ekki var það talið lífshættulegt, en gat þó valdið slysi, þó ekki séu sagnir af því hér.

Það kom fyrir að formenn bundu ,,afturaf", eins og kallað var í útróðri. Annar endinn á kollubandinu var festur í afturstafn skipsins, en hinn endinn látinn liggja upp á sandinn. Ef maður var staddur þarna sem ekki ætlaði að róa, var hann látinn gæta endans og þá kippa í hann ef honum sýndist ætla að fara illa í útróðri. Ef enginn var í fjöru sem gat sinnt þessu var bandið látið liggja eins og áður segir og ef upp ætlaði að slá, hljóp einhver þeirra sem ýttu frá skipinu og þreif til bandsins. Með þessu var fenginn meiri vissa fyrir því að skipið drægist ekki útí brimgarðinn, sem gat haft alvarlegar afleiðingar. Einu sinni sem oftar var það í formannstíð Steins á Breiðabólsstað, að skipin í Bjarnahraunssandi voru að hefja útróður. Þetta gekk allt vel nema fyrir einu skipinu, því var búið að slá þrisvar upp. Gekk þá formaður skipsins til Steins á Breiðabólsstað og biður hann að taka lagið fyrir sig. Steinn þótti glöggur formaður. Steinn varð við þessari bón, gekk með formanni að skipi hans, tekur sér stöðu við hlið formanns við afturstafn og skyggnist eftir lagi. Nú kallar Steinn lagið, þá gellur í einum háseta að það sé ekkert lag. ,,Éttu skít og haltu kjafti og út með ykkur", átti Steinn að hafa sagt. Þetta gekk vel og skipið flaut.

Svona gátu formenn verið misjafnlega glöggir að taka lag. Þá er að víkja aftur að þegar skip voru komin út fyrir brimgarðinn. Þegar komið var út fyrir hina svokölluðu legu, 40-50 faðma frá landi, sagði formaður: ,,Við skulum biðja guð að koma til með okkur í Jesú nafni." Tóku þá allir ofan höfuðföt sín og lögðu þau á þóftuna hjá sér. Las þá formaður bæn hátt og skýrt, og faðirvorið á eftir og að síðustu bænaorðin: ,,Drottinn blessi þig og varðveiti" og svo framvegis og krossaði fram yfir skipið um leið og hann mælti blessunarorðin. Allir þökkuðu formanni og settu upp höfuðfötin. Nú var tekið upp léttara tal, farið að tala um daginn og veginn, segja afladrauma og aðra. ,,Alltaf er mér fyrir heldur slæmu," sagði einn hásetinn, ,, ef mig dreymir að ég sé að fást við kvenmann.",,Dreymdi þig það í nótt?" spyr einhver. ,,Já", sagði sá sem dreymdi, ,,og best gæti ég trúað að hann gruggaði upp í dag", og það varð.

Þegar komið var á grunnmið sagði formaður: ,,Eigum við ekki að stinga hér niður?" Árar voru lagðar upp og færum rennt. Brákað er um stund, en enginn fékk viðbragð. ,,Ekki ætlar hann að rífa í, hafið þið upp, við skulum kippa út, það er mikið súluger að ,,trumba". Þar er oft fiskur undir þar sem hún ,,trumbar". Haldið var þangað sem súlan var og færum rent. Það skipti engum togum, fiskur stóð á hverjum krók. Eftir tvo tíma var búið að hlaða skipið, færi hönkuð upp og haldið til lands.

Þegar á legu er komið er fiskur dreginn uppá ólar með þar til gerðri nál, oftast úr hvalbeini, líka úr eik. Þegar nóg þótti komið á hverja ól, var henni varpað fyrir borð og endi hennar hnýttur við band í skipinu. Ólarnar, sem fiskurinn var dreginn á ,voru ristar úr húð af nautgripum og kallaðar ,,vörðuólar".

Þegar búið var að ,,seila" eins og það var kallað, þ.e. að taka það mikið af fiski úr skipinu, að óhætt var talið að lenda með það sem eftir var, voru ólarnar með fiskinum þá losaðar frá skipinu, bundin lykkja á ólarendann og stjóraendinn þræddur gegnum lykkjuna. Þegar allar ólarnar voru komnar á stjórann var vandlega hnýtt að, svo þær losnuðu ekki af stjóranum á leið til lands eða meðan þær voru að landfestast.

Að þessum umbúnaði loknum var þetta kölluð ,,seil", eða ,,varða". Áður en þetta gerðist var stjórinn vandlega hringaður niður í austurrúm skipsins, en þar var enginn fiskur og þess vandlega gætt að ekki kæmi snurður á hann, sem tafið gæti að hann rektist rétt út á landróðri. Nú var allt tilbúið að leita lags og taka landróðurinn (brimróðurinn). Sá sem hélt stjóranum var sestur á austurrúmsþóftu tilbúinn að láta hann renna eftir höndum sér meðan á landróðri stóð.

Sá sem hélt seilinni (vörðunni) gat dálítið ráðið því hvernig lending tókst, ef sjór var vondur til lengdar. Ef sjór reið að, sem sjáanlegt var að skipið myndi lenda of framarlega á og brot hans keyra skipið á undan sér með miklum hraða, reisti skut þess upp um leið og framstafn þess kenndi grunns í fjörunni og skipið steyptist fram yfir sig og hvolfdi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Til þess að reyna að forðast þetta, kallaði formaður þegar hann sá svona sjóa ríða að, ,,taktu í stjórann". Sá sem seilinni hélt spyrnti við fótum, hætti að gefa stjórann út, en hélt af öllu afli í hann móti seilinni, gang dró þá úr skipinu og það barst á háfaldi öldunnar upp í fjöru og fékk góða lendingu. Sumir formenn létu alltaf sama manninn halda seilinni, ekki síst ef hann var glöggur á sjó og þeir gátu treyst honum næst sér að skammta sjóinn, sem átti að lenda á, undir skipið.

Þegar allt var undirbúið til lendingar, eins og áður getur, var skipinu snúið til lands, þannig að framstafn sneri beint til lands. ,,Við skulum færa okkur nær", sagði formaður, ,,og nær", ef honum fannst skipið of langt frá til að taka landróðurinn. ,,Stoppið þið". Nú var beðið eftir lagi. Það var misjafnt hvað lengi þurfti að bíða, fór eftir því hvernig sjór var. Kallið kom: ,,Róum í land". Ef formanni fannst þurfa að herða meira á landróðri, sagði hann: ,,Róið þið, róið þið, róið þið, og vel með þessum", ef hann sá heppilegan sjó til að lenda á vera að nálgast, og skipið rann í fjöruna. Kollubandsmaður hljóp út með kollubandið og varnaði því að skipið drægi út. Hásetar hlupu út á bæði borð, köstuðu árum langsum eftir þóftum, formaður kippti stýri af krókum, sumir háseta hlupu sjómegin að skipi og hjálpuðu til að það sneri þvert fyrir sjó og vörnuðu því, oft með miklum átökum, að það hallaðist að sjó og drægi út. Þetta var oft hraksöm staða fyrst meðan sjórinn var að þoka skipinu uppí fjöruna, aðrir af hásetum tíndu fiskinn uppúr skipinu og köstuðu honum það hátt uppí fjöru að sjór tæki hann ekki. Þegar búið var að tína fiskinn upp, gengu allir skipverjar í að snúa skipinu (nema sá sem hélt seilinni) og setja það hátt frá sjó, svo ekki flæddi undir það. Að því loknu gengu allir að seilinni, losuðu ólarnar af henni og drógu þær með fiskinum á að fiskihrúgunni, sem kom uppúr skipinu og þar losað af þeim. Þegar búið var að losa stjórann við ólarnar tóku menn hann og hönkuðu hann upp á þann hátt að annar rétti hendleggina beint fram frá öxl, en hinn rakti stjórann uppá þá, uns að enda kom og hann kominn í eina stóra hönk. Þá var sitt hvorum enda bundið yfir hann svo hann raknaði ekki upp. Þetta var kallað að hanka stjórann. ,,Við skulum hanka upp stjórann", var sagt, eða ,,hankið þið upp stjórann".Að þessu búnu var gengið að því að setja skipið upp. Var hlunnunum raðað á fjöru fyrir framan það og sams konar átökum beitt eins og þegar það var sett fram, uns komið var upp í skorður, þar sem átti að hvolfa skipinu. Þá voru færi fest í kjalsog og stjóri og kolluband fest upp fremst í skipinu, eða lögð yfir þóftu. Að þessu búnu var skipinu hvolft og skorður settar undir það, látið snúa framstafni á vissan punkt, vegna veðurs. Var það á ,,Hólmkvarða" á Borgarhafnarfelli, en af þeirri átt var álitið að ströngustu veðrin kæmu; þá var hánorðan. Mig minnir það vera fimm skorður undir hvorri skipshlið. Skorðurnar, sem voru næst stöfnum hétu ,,saxaskorður" undir söxum skipsins. Þá skorða milli bita og austurrúms, þar næst um andófs- og miðskipsrúm og um miðjan barka. Þegar búið var að skorða skipið, var grjóti hlaðið að stöfnum þess og nokkuð aftur og fram með kinningum, það langt frá hvorum stafni, að sem minnst op væri undir það. Jafnframt þessu var ketting sett yfir skipið um andóf, stórir steinar bundnir í hvorn enda á kettingunni og fleirum raðað ofaná þá. Árunum var svo rennt undir festina ofan á botn skipsins upp við kjöl beggja megin og skorðaðar þar með hlunnunum.

Þannig gengið frá gekk skipshöfn fram að sjó, til að skipta fiskinum. Var mönnum skipt í tvo flokka, annar tíndi fiska í köst (hrúgur), jafnmarga fiska og hlutir voru oftast 14-16 kom þó fyrir að þeir voru 17-18. Hinn flokkurinn tók fiskana úr köstunum og bar þá stutt frá, lögðu þá á sandinn með það miklu millibili að ekki væri hætta á að hlutir færu saman. Það margir menn báru á hlutina að hvert kast var tekið í einu, oftast bar sami maðurinn 2-4 fiska, eftir því hvað margir báru á hvað fiskar voru stórir. Að skiptum loknum voru hlutir teknir oft á þann hátt að hluthafi sagði: ,,Ég tek þennan hlut." Ef skipseigandi (húsbóndi) tók fleiri hluti en sinn eigin, tók hann fyrir sína heimamenn, af því honum báru hlutirnir eða hluturinn og þá voru teknir samliggjandi hlutir, svo raða mátti hlutunum saman. Þetta var hægara, en taka þennan hlut á þessum stað og annan á hinum, kannski með lengra millibili. Þegar mannshlutirnir höfðu verið teknir, lágu skipshlutirnir fjórir eftir.

Formaður átti venjulega heilan hlut í skipi, en aðrir skipseigendur hálfan; kom fyrir kvart í hlut. Þessir skipseigendur skiptu svo hlutunum með sér þannig, að alltaf voru sömu skipseigendur saman með hlut til skipta. Ef einhver búandi í sveitinni átti ekki hlut í skipi eða gat ekki róið vegna heilsu sinnar eða annarra heimilisástæðna, var honum gefinn hlutur. Kom fyrir af tveimur í senn, en oftar af einu, og skiptust þá skipin á að gefa hlutinn. Þetta var kallaður ,,fátækrahlutur".,,Eigum við ekki að gera fátækrahlut?" Nú voru það ekki alltaf fátæklingar sem urðu þessa hluta aðnjótandi, heldur hefur nafnið lifað frá þeim árum þeim árum sem aðeins fátæklingar fengu hann.

Þegar skiptum var lokið, tók hvert heimili, eða réttara sagt menn á hverju heimili, sínar fiskiólar eða fiskibönd, ef úr öðru efni var en ólum og þræddu fiskinn uppá, eins marga fiska og hóflegt þótti til að reiða undir sér í hnakknum heim um kvöldið að lokinni sjóferð eða að koma uppá hest, ef um meiri fisk var að ræða. Ef um mikinn afla var að ræða, urðu þeir sem lengra áttu heim, að skilja meginhluta aflans eftir; þá aðeins fara með fáa fiska, svo hægt væri að halda greitt heim, en einatt var farið að kvölda eða komið fram á miðnætti þegar róðrar voru stundaðir á vorin, eins og oft gerðist með góðum árangri.

Ef lítið aflaðist var alltaf reynt að koma aflanum heim með sér og þá heldur gengið, en geta það ekki. Þá voru hestarnir með fiskinum reknir, en sjómennirnir gengu í hóp á eftir. Þá var oft um margt spjallað og létt yfir hópnum.

Ég gleymdi áðan að segja frá því þegar ég var að tala um, að fiskurinn hefði verið þræddur á ólar og fiskibönd, hvernig var farið að því. Fiskinálinni með ól eða fiskibandi í augu var stungið undir tálknið á fiskinum öðrum megin og stungið upp hausinn og gegnum augað. Sama aðferð var höfð þegar seilað var. Þá hef ég sagt frá sjóferð eins og hún gerðist frá því skip var tekið úr fjöru og þar til því var lent, fiski skipt, gengið frá skipi í fjöru og menn héldu glaðir heim.

Þessu líkir voru hinir fjölmörgu róðrar í Suðursveit, þú með ýmsum frávikum væru, einkum úti á miðum. Misjafnt var, hvað þurfti að sækja djúpt til að fá fisk, það gat verið milli 6 og 30 faðma dýpi. Í vindbrælu, einkum af austri, var haft andóf, ef skip þótti reka of hratt og ekki þótti fara vel á færum, einkum var það, þegar vindur og fall var úr sömu átt. Tveir menn voru í andófi, sinn á hvort borð og komið gat fyrir að þeir væru fjórir, ef það var hvasst og sætt þótti.

Eins og ég hef áður minnst á, bæði í hverjum róðri og á vertíðinni allri, var afli mjög misjafn, allt frá því að verða ekki var og uppi í tvíhlaða. Það þótti gott fiskifar, ef hleðsla fékkst yfir daginn, einkum á vorin þegar fiskur var smærri. Heldur þótti lítið að fá hálffermi, þó var guð lofaður fyrir björgina, einkum ef þetta var fyrsti róðurinn, en þá biðu kannski svangir munnar heima. Einatt kom það fyrir að sargað var mestan hluta dagsins eftir fimm til tíu fiska hlut. Þetta þótti lítill afli, en samt var róið dag eftir dag ef sjóveður var, þó ekki aflaðist meir. ,,Þetta dregur sig saman", sögðu sjómennirnir. Svo gat komið dagur í þessari aflatregðu, sem allt í einu fékkst hleðsla. Líka gat farið svo, þó hlaðið væri þennan daginn, að lítið eða ekkert fengist þann næsta. Þá sannaðist orðtækið ,,Svikull er einatt sjávargjöf". ,,Hann er oft trygglyndur á vorin", var líka sagt. Eitthvað man ég eftir aflabrögðum frá 1902-1931, að ég byrjaði að halda dagbók, en eftir það eru skrifaðar heimildir. Einkum er þetta minni mitt bundið við afla fyrir vestan Steinasand. Árið 1902 kom hafís hér seint á góu og var að hrekjast fyrir landi framyfir sumarmál. Þá var hart milli manna, enginn afli af sjó utan fimm í hlut af ýsu á sunnansandaskipi á laugardag fyrir Trinitatis, enginn fisk- eða sílareki á fjörur. Verslunin á Höfn orðin vörulaus á góu, en fékk lítinn vöruslatta frá Reykjavík með strandferðaskipinu ,,Hólum" í annarri viku sumars. Þessu var skipt á heimili, sennilega eftir mannfjölda. Að Hala komu 25 pund af rúgmjöli og 25 pund af maís, sem var notaður úí graut. Þetta var treint fram undir Trinitatis.

Um helgina áður var sameinast af bæjunum fyrir vestan Steinasand og tveir menn sendir til Djúpavogs eftir vörum, með einn hest undir burði af tveimur heimilum, 100 pund af matvöru á bæ, kaffi og sykri. Þetta dugði, þar til vöruskip kom á Höfn. Fyrsta sumarvikan var sannkölluð hungurvika, þá var á mörgum bæjum ekkert að borða nema mjólkin úr kúnum og hún var lítil, því þröngt var um heyfeng að gefa þeim. (Ég man vel þessa viku).

Árin 1903 og 1904 voru fremur góð aflaár, einkum hið fyrra. 1905 var talsverður afli, en 1906 fiskaðist lítið. 1907 komu 48 til hlutar á Sunnansandaskip og ég hygg líkt á önnur í Bjarnahraunssandi. Eitthvað aflaðist 1908, en ég er ekki viss um árin 1909-1914, þó mun einhver hafa komið, að minnsta kosti sum árin. Frá 1914-1920 voru góð aflaár. 1916 tvíhlóðu öll skip í Bjarnahraunssandi, fjögur að tölu, af vænum þorski, á góuþræli. Þann vetur og vor aflaðist mikið. Svo eru aflaleysisár 1920-1924, en þá gott aflaár.

1925 var mikill afli, þá öfluðu skipin: ,,Svanur" 81 í hlut, ,,Vonin" 66 í hlut (skipt var í 18 hluti, en líklega 14-16 á ,,Svani"), ,,Vongóður" 42 í hlut. Þetta var um sumarmálin á einum degi. Hár hlutur það ár. Góður afli er árin eftir til 1931. 1932,1933 og 1934 er sæmilegur afli, en 1935-1938 lítill afli, að báðum árum meðtöldum.

Góður afli á ,,Hrollaug", bát sem Breiðabólsstaðarbændur áttu, smíðaðir 1935 af Skarphéðni Gíslasyni, Vagnsstöðum, fjórróinn, á röru 5-6 menn, kom fyrir 7. Þetta var 1939; þá alls til hlutar á þennan bát 172. Aldrei tekinn hlutur eftir bátinn. 1940-1941 metafli, þá seldur þurrkaður saltfiskur til ýmissa. 1942-1945 lítill afli og stundum enginn. Sæmilegur afli 1946. Ágætur afli 1947 og 1948. Allgóður afli 1949. Ágætur afli 1950 og 1951. Góður afli 1952-1954 að báðum árum meðtöldum. Sæmilegur afli 1955-1957. Ágætur afli 1958. Mjög lítill afli 1959 0g 1960. Enginn afli eftir það. Síðast var róið vorið 1964, þá enginn afli, enda stutt verið úti, sjór breyttur til hins verra. Sú spurning er á vörum ýmissa hér: Verða sjóróðrar framar stundaðir í Suðursveit?

Lengi fram eftir var helst aflavon í mars, apríl og maí. Uppúr 1930 breyttist þetta nokkuð, þannig að aflavon gat verið frá mars til ágústloka. Júní var aflamesti mánuður 1950 til 1958. Lítið var hér um sumarafla eftir aldamót til 1930, þó  öfluðu skipin austan Steinasands vel í slættinum 1905. Eftir að farið var að róa hér fjórrónum bátum, uppúr 1935, voru þeir notaðir til að róðra á sumrin. Þegar sumarannirnar voru komnar, var hægara að manna þá út en stærri skip, enda kom oft mikill afli á þá. Mestur afli kom á Hrollaug, sem ég hef áður minnst á, á sjötta hundrað í hlut eftir árið.

Bár voru kallaðir þeir sem voru fjórrónir eða minni, en skip sem voru sexrónir eða meira. Um skipin var aldrei sagt: Nú er báturinn róinn, heldur nú er skipið róið, eða nú eru skipin róin. Alveg sama sagt um bátana: Nú er báturinn róinn, ekki skipið róið. Þegar eldri konur sáu skip koma framundan fjörunni sögðu þær: ,,Guð gefi þeim til lukku og blessunar", og okkur krökkunum var sagt að segja það sama. Aldrei mátti benda á skip á sjó, þá gat það sokkið. Ef krakkar gerðu það, gat það valdið hýðingu. Ekki mátti viðra rúmför þegar menn voru á sjó. Ekki mátti prjóna neitt á sjómenn á sunnudögum.

Stuttu eftir að Ingibjörg tengdadóttir kom að Hala, en hún var frá Hóli í Svarfaðardal, viðraði hún út rúmföt í sólskini og blíða veðri. Þá segir Þórey, sem var vinnukona á Hala: ,,Hví gerirðu þetta, Ingibjörg, veistu ekki að það eru skip á sjó?" Svona var trúin.

Hákarlaveiðar voru ærinn þáttur í sjósókn í Suðursveit fyrir aldamót, minna eftir það og loks ekkert. Hákarlasmið voru hér góð og aflaðist oft mikið af hákarli, eftir því sem eldra fólk sagði. Á þeim árum sem faðir minn var að byrja að róa, kom einu sinni mikil aflahrota á skipið fyrir vestan Steinasand, það var um vor og skipinu haldið úti á mörkum Reynivalla og Fellsfjöru, suður af Reynivöllum. Þá lágu 90 hákarlar óuppskornir í fjörunni í einu. Stöðugt sjóveður var og aldrei gafst tími til að skera hákarlinn upp. Ekki löngu eftir það sem hér hefur verið sagt frá, lágu 50 hákarlar óuppskornir í einu, aflað á sama skip. Eldri sagnir, nokkru eldri en hér hefur verið sagt frá, segja að 120 hákarlar hafi legið óuppskornir í einu af Sunnansandaskipi. Afli sá, sem nú hefur verið sagt frá, hefur skipts á sjö heimili. Þetta hefur verið smáfengur.

Sagt var að séra Þorsteinn Einarsson í Kálfafellsstað frá 1841-1871 hafi búið til hákarlamið út í sjó suður af Kálfafellsstað. Þetta gerði hann á þann hátt, að hann lét gera trékláf allstórann og rammlega gerðan, setti í hann hrossskrokk og lét setja hann á visst mið á nítján faðma dýpi, Holtið á Hrafnagil og Skerið á Stólinn; hann er hátt hraun í Uppsalalandi, en skerið er ,,Styrmissker", suður af Hreggsgerði, spöl frá landi. Holtið er eystra-Þrándarholt sem áður hefur verið nefnt í þessari frásögn. Hrafnagil er fyrir ofan bæinn á Brunnum, þar í fjallinu.

Lengi var þeta hákarlamið skipa sem röru úr Bjarnahraunssandi. Mikið grjót var sett með skrokknum í kláfinn. Orsökin til þess að svona mikið safnaðist af hákarli í fjöru einu, var sú að stöðug sjóveður voru og var þá meira sinnt að afla hákarls en skera hann upp, það er að taka úr honum lifur, skera hann í limi (hákarlslimur eða limir), hóflega stóra til þurrks. ,,Hnakkalimur", ,,kviðlimur" var fiskþynnstur, en fljótur í þurrk.

Á þessum árum var lýsi í háu verði og einkum hákarlalýsi. Þegar aflaðist  vel lögðu sumir bændur í Suðursveit inn lýsi. Í bókinni ,,Samgöngur og verslunarhættir" eftir Þorleif í Hólum, grípur hann niður í fáeina reikninga viðskiptamanna hjá Papóverslun árin 1865-1866, þar á meðal tvo úr Suðursveit, reikninga þeirra séra Þorsteins Einarssonar, Kálfafellsstað, og Steins Þórðarsonar, þá bónda, skrifaðan á Kálfafelli, en hefur verið fluttur að Breiðabólsstað þá. Steinn leggur inn ellefu kúta af lýsi og fær fyrir það 18 ríkisdali. Séra Þorsteinn leggur inn lýsi fyrir 87 ríkisdali, það hefur verið 50 kútar og harðfisk fyrir 56 ríkisdali. Hann hafði langmesta útgerð sem einstaklingur í Suðursveit á þeim árum.

Takmarkað var, hvað skip gátu tekið mikinn hákarl í einu. Tólf hákarlar voru hámark, sem hægt var að taka í einu utanborðs og smá ,,skaular" ef einhverjir voru innanborðs í skipið að auki. Tólf hákarlar voru kallaðir hlass, hákarlahlass. ,,Þeir komu hlesstir að landi", var sagt þegar skip kom með hlass.

Erfitt var að róa fyrir hlassi af hákarli þegar búið var að festa tvo hákarla við hvern róður á skipinu, einkum í hörðu falli og vindkviku, þá kom fyrir að skip náðu ekki á sinn lendingarstað og urðu að lenda þar sem bar að í fjöru. Ekki þótti þetta gott, þó svo yrði að vera. Krókurinn og sakkan voru kölluð ,,sókn", en taumurinn  sem lá frá krók upp í sökku, sem var úr járni, vel faðmur á lengd, var úr smágerðri festi og hét ,,bálkur", ,,sóknarbálkur". Neðri endi bálksins var festur í svokallaðan ,,segulnagla", sem var í efri enda króksins og lék þar til og frá eftir því sem sakkan og færið snerist. Krókurinn var allmiklu stærri en stærstu fiskikrókar. Best þótti að krókurinn væri samansettur úr sem flestum tegundum, þá varð hann veiðnari.

Einu sinni sem oftar  kom ég í smiðju til Björns föðurbróður míns á Breiðabólsstað; hann var að slá fram nokkuð langan járnbút og slær hann flatan. ,,Hvað á að verða úr þessu hjá þér?" spurði ég. ,,Krókur á hákarlasókn." ,,Úr þessari flatneskju?" spyr ég. ,,Já, svo slæ ég þetta saman, mynda úr því nokkurs konar hólk, en áður en ég loka honum, læt ég hluta af gömlu beislismjöli og einn eða tvo búta úr útslitinni skeifu og sýð þetta saman og geri úr þessu efni sóknarkrók. Gamalt máltæki segir", bætti Björn við: ,,Tuggið járn og troðið, teygt og lengi soðið", úr því verður veiðisæll krókur.

Þetta var gömul trú og henni var Björn að fullnægja með smíði þessa króks og vita sannleiksgildi þeirra. Gott ef ummælin um tuggða járnið og troðna áttu ekki að vera frá tröllkonu. Þegar farið var í hákarlasetu og búið var að leggja skipinu við ankeri, var það fyrsta verkið að beita sóknina. Beitan var reykt hrossakjöt og blóðýldu, ef til var, hellt á krókinn.,,Blóðýldan" var búinn til úr blóði úr hrossi, sem slátrað var, það sett í allstóra kirnu og smábitar úr hrossskrokknum látnir saman við. Kirnan svo sett á þann stað sem innihaldið gat best úldnað. Þetta þótti úrvalsbeita, en gat ekki alltaf verið til staðar, því að hrossi var ekki alltaf lógað. Þegar búið var að beita, var sókninni rennt til botns, en kaðallinn sem lá frá henni uppí skip, hét ,,setufæri". Grunnmál var tekið jafnlangt og sóknarbálkurinn var, rúmur faðmur. Sá sem undir sókninni sat, kom sér vel fyrir, brá setufærinu yfir herðar sér, teygði sig fram á borðstokkinn og las hákarlasálminn hálfhátt. Hann er svona: ,,Þó ég sé magur og mjór á kinn, mana ég þig sláni; komdu nú á krókinn minn, Kjaftabuslugráni. "Þegar lestri bænarinnar var lokið virtist sá, sem undir sókninni sat, verða ein athygli. ,,Eitthvað er hann að kroppa í, hann tekur aðeins í færið, nei, hann vill ekki festa sig." ,,Gefðu eftir ofaní hann," segir einhver. Allt í einu sviptir hann færinu af herðum sér og rykkir í það af afli með báðum höndum. Það er kominn hákarl á. Nú er dregið hægt pg rólega fyrst, svo hann rífi sig síður af. Áfram hélt drátturinn, í köflum með dálitlum rykkjum, ýmist lá hákarlinn með öllum þunga á færinu, eða hann létti sér upp og hljóp á eftir því. ,,Hann er kominn undir borð." Það verður mikill handagangur á skipinu, íburðir eru teknir, fullbúnir að köðlum eða ólum, þeim krækt á tveim til þrem stöðum í hákarlinn og honum haldið fast að skipshliðinni; einn tekur ,,hákarlakeppinn", sem er trébútur, handfangsdigur að ofan, fer heldur gildnandi með smá rótarhnút á endanum, vel alin á lengd, slær hann heljarhögg í hausinn á hákarlinum og fleiri ef hann rotast ekki við fyrsta högg; annar tekur hákarlabreddu og stingur hann. Hákarlinn er dauður. Þá er það síðasta eftir, en það er að ,,þuma hann", ganga frá kaðli eða vörðuól í honum festa hann við skipið. Svona var hver hákarlinn tekinn af öðrum, uns hlass var komið og kannski einhverjir ,,skaular" inní skipið. Ekki aflaðist alltaf hlass. Ekki lásu allir sem undir sókn sátu hákarlasálminn, höfðu ekki trú á að það þýddi.

Þá er eftir að segja frá einum þætti í sambandi við róðrana, sem ekki má gleymast, það eru draumarnir. Það var mikið mark tekið á draumum í sambandi við sjóróðra og aflabrögð. Þá var ýmislegt fært sér í nyt, sem bent gæti til afla og reyndist nær óbrigðult. Mikill sjávargangur í draumi var talinn óbrigðull fyrir afla og eftir því sem sjórinn gekk nær bænum og ég spyr ekki að, ef hann braut á hlaðvarpanum eða stéttinni, þá var alveg víst að það varð aflaár. Sama var ef menn dreymdi saur, og þá einkum mannasaur, og ef sá sem dreymdi þóttist vera að maka honum á hendur sér, þá var það alveg viss aflavon. Fólk sagði með ánægju frá þessum draumum, og þá venjulega byrjað á þennan hátt: ,,Nú held ég að mig hafi dreynt fyrir afla í nótt." Þá var spurt: ,,Hvað dreymdi þig?" og þá var draumurinn sagður.

Það var fleira sem fólk færði sér í nyt ef það hélt að það gæti þýtt matardrauma. Fram undir 1890 var tvíbýli á Breiðabólsstað, kallað ,,austur-" og ,,vesturbær". Í vesturbænum er þá ráðandi ekkja Margrét Brynjólfsdóttir.

Það var lítið heyjasumar þegar það gerðist sem nú verður sagt frá. Hún átti hest sem hét Hrekkur og var í miklu uppáhaldi hjá henni. En af því það heyjaðist svo lítið þetta sumar þá ákveður Margrét, að setja Hrekk á guð og gaddinn og láta hann ganga úti í Breiðabólsstaðarteigum. Þar voru auð vermsluræsi lengst vetrar. Þegar kemur fram á góu dreymir Margréti að djöfullinn komi til hennar og segir: ,,Þú skalt leggja reiðing á hann Hrekk." Þegar Margrét vaknar um morguninn, segir hún fólki sínu drauminn og að hann verði að afla, sem og varð. Svo líða einhverjar vikur og ekki kemur sjóveður. Um miðjan einmánuð brá til stilltari tíðar og gerir sjóveður og mikill afli berst á land í Bjarnahraunssandi, þar voru þeir vestan yfir Steinasand með skip sitt. Og af því aflinn var svo mikill varð Margrét að taka Hrekk af útigangi, leggja á hann reiðing og flytja á honum fisk úr Bjarnahraunssandi. Þar með var draumurinn kominn fram.

Minna var um sjóslys í Suðursveit en búast hefði mátt við á jafn hafnlausum stað. Um aldamótin síðustu hvolfdi skipi í lendingu á Staðarfjöru (Kálfafellsstaðar), sem hét ,,Helga", formaður Sigurður Arason frá Reynivöllum, þá bóndi í Borgarhöfn. Sagt var að tekið hefði sig upp óvæntur öldhnykill þegar skipið var á brimróðrinum, náð skipinu og steypt því um. Einn maður slasaðist og beið bana, hann var Jón Jónsson á Smyrlabjörgum, aldraður maður. Þetta mun hafa skeð rétt fyrir hvítasunnu.

Kirkjuferð mín þennan hvítasunnudag var mér lengi minnisstæð og er það enn. Þegar ég kom inn fyrir kirkjudyrnar verður mér litið til hægri innan við þær; sé ég þá að lík stendur uppi stutt frá sem inn er gengið. Mér brá ónotalega. Þetta mun hafa verið í fyrsta sinn sem ég sá liðinn mann.

Ég sá tvisvar skipi hvolfa í lendingu og í þriðja sinn ,,kæfa", og það var mun leiðari sjón en sjá skipi hvolfa. Það bar þannig til að skipið snerist á landsjónum, kenndi ekki grunns, lá flatt fyrir sjóunum og reistist upp á hliðina svo engu munaði að því hvolfdi. Mennirnir hrukku úr sætum sínum, misstu árarnar, en gátu náð sér haldi í skipið, sumir hangandi utan borðs, en aðrir í skipinu. Þarna gekk sjórinn látlaust yfir það í brimgarðinum, engri björg var við komið, skipið bar aldrei það uppí fjöruna, að hægt væri að ná til þess af mönnum sem í landi voru, en þarna voru fleiri skipshafnir og einhverjir vaðbundnir, þar á meðal Björn Steinsson á Breiðabólsstað, mikill röskleika- og átakamaður. Nú bar skipið það nær, að hann gat náð í kollubandið sem hékk á framstafni skipsins, með því að vaða upp undir hendur útí brimgarðinn, en það voru traustar hendur sem héldu í vaðinn, sem Björn var bundinn í. Nú var öllu borgið, fleiri gengu á kollubandið, hægt var að kippa skipinu hærra upp í fjöruna með hverjum sjó uns mönnum var stætt við það. Þetta fór allt betur en á horfði, enginn mannanna meiddist og voru furðu lítið þrekaðir.

Það var alltaf sama skipið sem varð fyrir þessum hrakningum. Aldrei varð slys eða manntjón í þau þrjú skipti sem skipinu hlekktist á. Svo kemur ,,Sæbjargarslysið" 4.maí 1920, þegar ,,Sæbjörgu" hvolfdi í lendingu í vondum sjó. Tveir menn drukknuðu, Magnús Sigurðsson bóndi, Borgarhöfn og Stefán Gíslason vinnumaður hjá prestshjónunum á Kálfafellsstað, frú Helgu og séra Pétri; lík hans rak aldrei upp. Sá þriðji brotnaði, Ingólfur Guðmundsson vinnumaður á Kálfafellsstað og beið þess aldrei bætur. Það lenti í mistökum hjá lækninum að binda um brotið. Brisaði ekki rétt. Fór Ingólfur þá á sjúkrahús í Reykjavík, var brotinn þar upp aftur, en lukkaðist litlu betur. Þá varð sú tilviljun, að Steingrímur Matthíasson læknir á Akureyri, var á ferð og kom að Kálfafellsstað, þar sem Ingólfur átti heima. Bar Ingólfur upp fyrir honum, hvernig væri komið fyrir sér vegna lærbrotsins. Bauð Steingrímur honum að koma til sín, hann skyldi athuga hvort hann gæti eitthvað gert fyrir hann. Síðsumars fór Ingólfur til Akureyrar, lagðist þar á sjúkrahús undir hendi Steingríms læknis, sem gerði aðgerð á honum með þeim góða árangri að eftir veturinn gat Ingólfur gengið að allri vinnu bæði til sjós og lands og farið í fjallgöngur. Þessi varð þá árangurinn af ferð Ingólfs til Steingríms læknis á Akureyri, enda gleymir hann aldrei þeim manni sem hann telur sinn mesta velgerðarmann og minnist hans með hlýhug.

 Fjórða maí 1920 er loft skýjað að vestanverðu og bakki fyrir hafi nokkuð austur, en heiður á austurloft sem þykkni færðist þó yfir hægt og hægt að lokum með ,,tór" í suðaustri, sem aldrei þótti spá góðu um veðurfar, þegar á dag var liðið, enda fór það svo þennan dag. Snjókomu gerði útúr nóni, með austan frassa og kalsaveðri og jörð varð alhvít. Þegar Stefán Gíslason á Kálfafellstað kom í eldhúsið um morguninn til að drekka kaffið, segir hann: ,,Líklega verður róið í dag, en eitthvað verður það sögulegt," og vinnukonu á staðnum bað hann fyrir úrið sitt. Líklega ekki haft góða drauma þá nótt. Sjóveður var sæmilegt þennan morgun. Nokkur tíningur var á mönnum að skipum, þó heimti eitt skipið sína menn fljótlega og róið var, það var ,,Sæbjörg". Stuttu síðar rær annað skipið, ,,Vongóður", og það þriðja ,,Svanur", er í þann veginn að byrja að styðja eftir lagi, en þá bregður svo við að aldrei kemur lag sem kallandi þótti. Eftir að stutt hafði verið um stund og aldrei kom lag var skipinu snúið við og það sett upp á kamb, því sjá mátti að sjór var í örum uppgangi. Af skipunum sem úti voru er það að segja, að formanninum á Sæbjörgu sýndist sjór vera farinn að stækka og skipaði hásetum að róa til lands. Þegar þeir höfðu róið kipp að landi mæta þeir ,,Vongóð" á útleið og spyrja þeir hvernig sjór hefði verið við land. Sögðu þeir að væri líkur og þegar ,,Sæbjörg"  röri. ,,Vongóður" hélt út, en ráðgerð er á ,,Sæbjörgu" hvað gera skuli, sumir vilja útá mið, en aðrir til lands. Tók formaður þá ákvörðun að halda út. Þegar keipað hafði verið eftir fiski um stund og dálítið dróst, skipaði formaður að halda til lands því sjór væri að ganga upp. Voru þá lagðar út árar og róinn lífróður til lands. Þegar að landi kom sýndist sjór nær ólendandi. Skipshöfnin af ,,Svani" sem ekki röri, stóð með vaðbundna menn tilbúin að taka á móti ,,Sæbjörgu" þegar hún lenti. Aldrei kom lag sem kallandi var, liggja þurfti með lengsta móti frá til að bíða eftir lagi, því venjuleg lega var grunn og gætti þess þó mest, þegar sjór var orðinn svo vondur. Þetta þýddi að landróður varð lengri og lengri lög þurfti. Líklegasta lagið var kallað, en fyrsti sjórinn í ólaginu sem á eftir kom greip skipið á landsjónum, lyfti því upp að aftan, keyrði það með ógnarhraða upp í fjöru og það stafnstakkst, allt fór í grænan sjó, menn og skip. Fljótlega var hægt að bjarga nokkrum af mönnunum, en einhverjir héngu innan í skipinu og aðrir hröktust þó lengur, sem var bjargað. Brátt tókst að ná til skipsins, hvolfa því upp og bjarga þeim mönnum sem inni í því héngu. Höfðu þeir gripið þar dauðahaldi, sem erfiðlega gekk að losa. Höfðu þeir gripið þar dauðahaldi, sem erfiðlega gekk að losa. Magnús lá látinn í fjörunni, en Stefán rak aldrei á land.

Þegar búið var að bjarga af ,,Sæbjörgu", kom ,,Vongóður" að landi. Vaðbundnir menn stóðu tilbúnir að ná til kollubandsins ef skipið kæmist á réttan kjöl í fjöru. Sjórinn var stór sem skipið lenti á, en sat svo mátulega á honum að það stafnstakkst ekki og sjór náði ekki til að falla ofan í það, en sogið sem skipið rann á uppí fjöru, var djúpt, svo engar líkur voru til að óbundinn maður gæti staðið það af sér, en kollubandið varð að grípa á undan útsoginu, því með því mundi skipið draga út ef ekki væri haldið á móti. Þeir vaðbundnu óðu útí löðrandi brimið allt til mittis, annar gat gripið kollubandið á undan útsoginu. Báðir héldu þeir traustum höndum í bandið og fleiri komu á endann, meðan útsogið fjaraði aftur með skipinu. Öllu var borgið.

Svona fór um sjóferð þá, daginn eftir Krossmessu 1920. Heppnin í öllu þessu var, að ,,Svanur" fékk ekki lag úr landi. Ef skipin hefðu róið öll má hamingjan vita hvernig farið hefði.

Það var á góuþrælnum á árunum milli 1870-1880 að skiptapar urðu í Mýrdal, ártalið man ég ekki svo ég þori með að fara. Einn bátur röri þá frá Bjarnahraunssandi, formaður var Halldór Jakobsson, orðlagður formaður í Suðursveit. Stuttu eftir að þetta skip röri komu fleiri skipshafnir í sand. Þegar skip Halldórs röri var sjór talinn góður, en svo brá við, þegar hinar skipshafnirnar komu í fjöru, að varla kom lag sem var ýtandi á, enda kom það brátt í ljós að sjór var í örum uppgangi. Það er af Halldóri að segja að hann komst á grynnri fiskimið og dróst þar einn fiskur. Vildu þá einhverjir leita dýpra,en Halldór skipaði að snúa hið bráðasta til lands, því sjór væri mjög farinn að stækka. Bað hann háseta sína að róa sem knálegast. Ekki var sjór álitlegur þegar kom að landi, hvert ólagið af öðru reið á fjöruna. Skipverjar Halldórs sögðu að hann hefði tvisvar verið búinn að kalla lag en afturkallað það aftur. Átti hann þá að hafa sagt: ,,Ég held ég ætli ekki að fá lag með ykkur í land, piltar." Þá segir Sigurður oddviti á Kálfafelli háum rómi: ,,Hvað segir hann, piltar? Segist hann ekki komast með okkur í land? Jú, jú, það skal, það skal." Í töluðum orðum Sigurðar, kallar Halldór lagið í þriðja sinn. Á því flutu þeir upp í fjöru, en þar stóðu vaðbundnir menn tilbúnir að grípa kollubandið um leið og skipið kenndi grunns og það bjargaði. Skipið var meir borið en dregið upp í skorður, þar sem því var hvolft og hlaðið grjóti að því af þrem skipshöfnum.

Einn af hásetum Halldórs, sem andaðist 1930, sagði, að svo hefði sjór gengið fljótt upp, að þegar skipshafnirnar fóru úr fjöru, strax þegar búið var að ganga frá skipinu, þá hefði sjór runnið norður yfir fjöru austan við Eystra-Þrándarholt, sem ekki gerði nema í meiri rosum. Þessi háseti var orðvar maður og öfgalaus, Þórður Jónsson, Kálfafelli, síðar formaður á ,,Svani". ,,Svanur" þótti aflaskip gott, enda sagði séra Pétur á Kálfafellsstað: ,,Svanur er eins og herragarður, en hin skipin eins og hjáleigur." Svona var hans samlíking.

Ein frásögn að lokum, um hvað sjór getur verið fljótur að ganga upp. Það var um Jónsmessuleytið 1927 að sjómennirnir fyrir vestan Steinasand lögðu af stað til Hrollaugeyja í selaslátt. Í fylgd með þeim var Helgi Arason, Fagurhólsmýri, sem var að setja upp rafstöð á efra bænum á Reynivöllum.

Skipið ,,Vonin" var í Bjarnahraunssandi frá vetrinum áður. Var því um helmingi lengri leið til Hrollaugseyja, en þegar farið var frá Breiðabólsstaðarfjöru.

Sjór var svo dauður þegar róið var fyrripart dags, að báran rann nær hljóðlaust í sandinn, án þess að brotna. Ekki var komið langt áleiðis til eyja, þegar einn af hásetunum sagði við sessunaut sinn: ,,Við megum hafa gát á sjónum í dag, þó hann væri óvenjulega smár þegar við fórum úr landi. "Tók sessunauturinn undir þetta. Þá voru farnar að koma lágar og þykkar öldur, sem ekki létu mikið yfir sér, en voru drjúgar þegar þær féllu í fjöru. Ekki leið á löngu að hásetinn segir í heyranda hljóði, að sjór sé farinn að stækka. Undir þessi orð hans var ekki tekið. Þegar stutt er til Hrollaugseyja og menn í þann veginn að búa sig til uppgöngu, sást vel hvað mikið brim var við eyjarnar. Þá segir hásetinn: ,,Ég er búinn að fara nokkrar ferðir til eyja, en ég held engum hefði dottið í hug að leggja að þeim í þeim brimsúg sem nú er í kringum þær."-Þögn.-Þá segir Helgi Arason: ,,Það er þá kannski ástæðulaust að vera að því nú." Þetta var ekki sagt af hræðslu, heldur hyggindum.

Með þessum orðum Helga var teningunum kastað og róið til lands sem var beinn róður. Enginn lífróður var róinn, sem hefði þó átt að gera eins og sjór var orðinn. Þegar kom undir Breiðabólsstaðarfjöru þar sem lenda átti, kallar sá sem í framstafni sat, að grunn brot væru framundan. Nú duldist engum að sjór var þarna ólendandi, grunn brot til beggja handa svo langt sem sást. Var uppi ráðagerð hvað gera skyldi. Ákveðið var að halda austur móts við Steinasand vestanverðan, þar væru kannski grunn brot minni eftir venju. Nú var róinn lífróður austur með grunnbrotunum, því engum duldist hvað beðið gat.

Þegar komið var móts við ákvörðunarstað lágu grunnbrotin niðri. Í sama mund kom það sem kalla varð lag, eins og sjór var orðinn; þessi lagning entist og skipið rann í fjöru. Tveir fóru út með kollubandið, ekki veitti af, því útsogið frá sjónum sem lent var á, var hart. ,,Vonin" var gott sjóskip, það hefur eflaust hjálpað lendingunni. Lent var á síðasta sjónum í því sem kallað var lag; á eftir komu rosasjóar svo vandræði voru að halda skipinu frá að hallast að sjó. Þeir sem gleggstir voru og horfðu til sjós eftir að lent var, sögðu að aldrei hefði komið líkt lag, enda brim upp fyrir allar fjörur heiman af bænum að sjá, stuttu eftir að lent var, sögðu að aldrei hefði komið líkt lag, enda brim upp fyrir allar fjörur heiman af bænum að sjá, stuttu eftir að lent var. Líklega um klukkutíma eftir að ,,Vonin" lenti, kom ,,Esja" að Hornafirði og var ekki hægt að hafa samband við hana vegna brims.

Það var reynsla sjómanna hér að aldrei væri verra að treysta sjó, en þegar hann gekk uppúr ládeyðu. Gat þá á svipstundu verið kominn ólendandi sjór. Var sú deyða kölluð ,,undirdráttarkyrrð".

            Ég hef látið framanritaðar sjóferðasögur fylgja hér með, til að sýna, að gát varð að hafa á öllu við sjósókn í Suðursveit, ef vel átti að fara.

            Það var ekki venja hér í sveit að menn hefðu mat með sér á sjó, og var svo allt fram á mína daga. Tilgangurinn hefur líklega verið sá, að drottinn mundi frekar veita þeim björg, þar sem þeir sátu svangir, að leita hennar. Eftir að ég kom til minnis var alltaf farið með nesti á sjóinn.

            Af bæjunum Miðþorpi og Borgarhöfn var alltaf komið með hesta í fjöru, bæði til að flytja fiskinn á heim og láta sjómennina ríða. Þá var sjómönnum líka fært kaffi til að hressa sig á. Oft voru það heimasæturnar af bæjunum, sem komu með hestana. Þetta þóttu dálitlar ævintýraferðir, að sjá skipin lenda, sjá miklar fiskhrúgur í fjöru og virða fyrir sér hina ungu og ógefnu menn, sem þarna var að sjá, eflaust hafa þeir rennt til þeirra hýru auga þó lítið bæri á. Þetta gat verið brot úr markaðsstað.

            Einn af sjómönnum af ,,Voninni" var hafður í landi til að gæta hesta sjómannanna, oft til þess valinn, ef einhver var sérstaklega sjóveikur, eða kaus heldur að vera hestamaður, eins og þeir voru kallaðir, en róa. Með hestana var hann í ,,Hellalandi", stutt frá þar sem skipin voru höfð. Oftast fór hestamaðurinn heim á bæi mikinn hluta úr deginum, fékk þá góðgerðir og ræddi við fólkið.

            Eitt var það sem fólk tók mark á í sambandi við aflavon. Það var ef hestar, sem til brúkunar voru notaðir, rifu sig í síður með kjaftinum. Þá var líklegt að fiskur yrði fluttur á þeim áður en langt leið.

            Vont þótti í draumi ef verið var að setja skip frá sjó. Það boðaði aflaleysi og ef komið var með það upp undir fjall, var alveg fráleitt með afla. En ef skipið var að hrekjast í brimgarðinum var viss afli á það.

            Oftast var sagt, þegar horft var til skips að heiman: ,,Þarna er blessað skipið; ætli blessað skipið fari ekki að fara í land." Það var alltaf talað með virðingu um skip á sjó, og sjómenn.

            Þegar sjóróðrar féllu niður í Suðursveit féll stór þáttur úr atvinnulífi fólksins og bjargræðis bæði karla og kvenna. Þó konur færu ekki á sjó, unnu þær samt að aflanum þegar heim kom, slægðu hann og ef lengur var róið en einn dag í senn, þá flöttu þær fiskinn og sáu ævinlega um gegningar, þegar í róðrum stóð. Harðfiskur sem oft var borðaður  fleiri en færri daga ársins og hákarlinn, meðan hans var aflað, hafa nokkuð ráðið þeirri heilsu sem eldra fólk hélt og komst á háan aldur, án þess nokkurn tíma að þurfa að vitja læknis og hélt sínum tönnum. Þá var sú félagslega hlið sem sjóróðrarnir höfðu í för með sér, sem mikill eftirsjá er að.

            Þegar sú kynslóð líður, sem nú er uppi í Suðursveit, lifa sagnir um sjóróðrana þar aðeins í þjóðsögnum. Þá er að grípa í framanritaðan þátt og sjá hvernig þeir gengu.

Lokið við að skrifa 28.maí 1978.

Steinþór Þórðarson Hala Suðursveit

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 93
Gestir þennan mánuð: ... 5515
Gestir á þessu ári: ... 13555