Skip to main content

Síðasta ferð yfir Breiðamerkurjökul

Þorbjörg Arnórsdóttir 2. desember 2006:

Í viðtölum við erlenda ferðamenn sem heimsóttu Þórbergssetur í sumar gætti gjarnan undrunar hjá þeim hversu einangrað þetta landsvæði hefur verið. Það eru aðeins rúmlega 40 ár síðan að jökulfljót lokuðu Suðursveit af frá umheiminum á báða vegu, úti fyrir er hafnlaus strönd þar sem brimið svarrar og að baki risavaxnir fjallgarðar og víðáttumiklar jökulbreiður. Það eru reyndar þessi einkenni í náttúrufari Skaftafellssýslna sem nú virka eins og segull og  draga að hundruð þúsundir ferðamanna ár hvert.

Samgöngur og búsetuskilyrði hafa breyst með slíkum ógnarhraða að segja má að íbúar svæðisins hafi stigið frá fornöld yfir í tækniveröld nútímans á hálfri öld. Það er því alls ekki víst að við sem hér búum áttum okkur á hvernig svo hraðfara breytingar hafa haft áhrif á mannlíf og þróun, flest lítum við þó með lotningu til liðinna kynslóða sem tókust hér á við daglegt líf af mikilli reisn þrátt fyrir erfið kjör. Ekki er þó alveg víst að við skynjum að í sögu forfeðranna  liggur mikil auðlegð og að okkur ber skylda til að heiðra minningu þessarar kynslóðar með því að skrá niður og flytja þannig hluta þessa menningararfs til komandi kynslóða. Margt gott hefur þó verið gert í þessum efnum, má þar nefna útgáfu Skaftfellings og einstaka elju þeirra Kvískerjabræðra við að skrá og afla þekkingar um sögu og náttúrufar, svo og  ættfræðirannsóknir Sigurðar Ragnarssonar o.fl. Á undanförnum árum hefur síðan verið gert nokkuð í því að gera þessa sögu sýnilegri ferðamönnum með því að setja upp fræðsluskilti á áfangastöðum og með uppbyggingu Þórbergsseturs. 

Eitt af meginmarkmiðum Þórbergsseturs er að safna saman þekkingu og gera sagnir er varpa ljósi á mannlíf og sögu sýnilegar. Í haust hefur verið unnið að verkefni sem tengist ferðalögum yfir Breiðamerkurjökul. Aðallega hefur verið safnað saman rituðu máli sem áður hefur komið út, en í því grúski kom í ljós að síðasta ferð sem vitað er að farin hafi verið með hesta yfir Breiðamerkurjökul var 3. ágúst árið 1950. Sú saga kom til okkar þegar Sigurður Þorsteinsson frá Reynivöllum rifjaði upp þennan atburð fyrir skömmu. Í dagbókum Þorsteins Guðmundssonar frá Reynivöllum fundust líka heimildir um ferðalagið. Frásagan sem ekki hefur verið skráð áður er nú birt hér á Þórbergsvefnum, en áður hefur verið birt frásaga um ferðalag yfir Breiðamerkurjökul undir liðnum Suðursveit. Sú frásögn er efttir Jón Jónsson frá árinu 1928 og ber heitið , Á undirvarpi.

Ferð yfir Breiðamerkurjökul 3. ágúst 1950

Síðasta ferð sem vitað er um að  farin hafi verið yfir Breiðamerkurjökul með hesta var  3. ágúst árið 1950. Tveimur dögum áður kom að Reynivöllum ferðamaður að nafni Gísli Sigurðsson með fjóra hesta. Kom hann austan af landi og ætlaði að halda ferð sinni áfram til Reykjavíkur og fara landleiðina sunnan jökla. Maður þessi hafði verið ráðsmaður eða starfsmaður á Vífilsstöðum og var sennilega bara á ferðalagi að gamni sínu, en var einnig að selja og kaupa hesta í ferðinni. Ekki þótti ráðlegt að setja hestana í Jökulsá þar sem mikið var í henni og hún straumþung. Í dagbók Þorsteins Guðmundssonar má sjá að úrhellisrigning og mikil hlýindi höfðu verið dagana áður og við þær aðstæður að sumarlagi var Jökulsá yfirleitt ófær hestum, hvað þá ríðandi mönnum.

Þorsteinn Guðmundsson á Reynivöllum sem hafði þann starfa að fylgja ferðamönnum yfir Breiðamerkursand og Sigurður Þorsteinsson sonur hans höfðu tekið að sér að fylgja ferðalöngunum yfir jökul og ætlaði Sigurður Björnsson á Kvískerjum síðan að taka á móti þeim þegar þeir kæmu niður af jöklinum vestan árinnar. Var maðurinn einn dag um kyrrt á Reynivöllum og þann dag fóru þeir feðgar að gæta um veg fyrir hestana á jökli. Bratt var upp á jökulinn, en þegar upp var komið var hann sléttur og góður yfirferðar. Tóku þeir með sér hefilspæni sem höggið var úr trjábútum og merktu veginn upp á jökulinn til að auðveldara yrði að finna bestu leiðina daginn eftir.

Að morgni 3. ágúst bjuggu menn sig af stað í ferðina með farangur og alla hestana. Í dagbók Þorsteins kemur fram að Gísli hafi aðeins verið með 4 hesta, en Sigurð minnti að þeir hefðu verið fleiri. Hugsanlega hafa fleiri hestar verið með í för frá Reynivöllum.  Rétt þegar þeir eru að fara úr hlaði sjá þeir hvar kemur maður flengríðandi austur með fjalli. Það var þá Skúli Sigfússon bóndi á Leiti í Suðursveit. Hafði hann keypt hest af Gísla þegar leið hans lá framhjá Leiti eða þeir gert hestaskipti, en nú hafði Skúla snúist hugur með hestakaupin og vildi skila hestinum og taka sinn hest aftur. Varð það úr og Skúli reið aftur heim að Leiti á sínum hesti, sennilega ánægðari með hann en nokkru sinni fyrr. Á milli Leitis og Reynivalla eru amk. 13 kílómetrar, en þar sem Skúli taldi að hann hefði verið svikinn af þessum hestaskiptum, setti hann það ekki fyrir sig að elta manninn uppi og hætta við kaupin.

Ferðin yfir jökul gekk vel, torfæri var upp jökulkantinn, nokkurn tíma tók því að koma hestunum þar upp, en síðan var hið besta jökulleiði. Var þetta langur vegur því Lónið var farið að myndast þarna. Í dagbók Þorsteins Guðmundssonar frá 3. agúst 1950 stendur orðrétt.,, fengum sæmilegan veg fyrir hestana en langan, vorum 6 tíma á jökli báðar leiðir." Farið var alveg vestur að Esjufjallaröndinni, þar var jökullinn rennisléttur niður á sandinn.  Þegar niður af jöklinum kom tók við aurinn, en smáspöl frá jökuljaðrinum tóku hestarnir allt í einu að brjótast um og sukku upp í kvið. Þarna var þá sökkvandi kviksyndi og urðu því mikil umbrot og átök og héldu fylgdarmenn á tímabili að einhverjir hestar myndu drepast þarna ofan í. Það tókst þó að lokum að ná þeim upp úr þessu kviksyndi þó erfitt væri um vik, því ekki var auðhlaupið að komast að þeim í jökuleðjunni. Sennilega hefur verið ís undir aurnum á kafla og vatn því staðið uppi og myndað kviksyndi, en jökulleirinn er mjög fínn svo nærri jöklinum. Dúaði jörðin undir fótum mannanna, og því ekki hættulaust að fara um svæðið fótgangandi eða á hestum.

Á leiðinni til baka fengu þeir feðgar svarta þoku á jöklinum, svo þeir sáu ekki handa sinna skil, aðeins beint niður á jökulísinn. Kom það sér þá vel að þeir voru með kompás, en Skarphéðinn Gíslason á Vagnsstöðum var framfarasinnaður maður og mikið fyrir tækninýjungar og hafði verið með kompása til sölu. Voru þetta kompásar sem voru  festir um úlnliðinn, þeir voru með vökva í og gerðu sannarlega sitt gagn. Þorsteinn hafði skömmu áður keypt sér svona kompás. Sannaðist það vel að þessu sinni hversu góð hjálpartæki kompásar voru á ferðalögum og hjálpaði það þeim feðgum að rata á jöklinum til baka. Heppnin var með ferðalöngunum þennan dag, þar sem að þokan skall ekki á meðan var verið með hestana á jöklinum. Mikið lán var líka að hafa kompásinn með og ekki gott að segja hversu lengi þeir hefðu verið að komast til baka, ef þeir hefðu ekki getað notið leiðsagnar af segulnálinni, sem gaf þeim upp réttar áttir og greiddi þannig fyrir för  þeirra á leiðinni heim.

Þorbjörg Arnórsdóttir skráði eftir frásögu Sigurðar Þorsteinssonar frá Reynivöllum

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463