Skip to main content

Sérstaða Þórbergsseturs á fræðasviði - bókasafn Esperantista komið í hús

Benedikt og bókaveggurÁrið 2024 heilsar hér í Þórbergssetri og framundan virðist vera líflegt starfsár með fjölmörgum uppákomum á menningarsviði. Auk þess vonumst við eftir að fjöldi ferðamanna, innlendra sem erlendra komi í heimsókn og njóti hér matar og menningar líkt og undanfarin ár.
 
Um síðustu helgi voru hér kröftugir og langir vinnudagar þar sem settur var upp stór og mikill bókaskápur. Íslenska esperantósambandið hefur afhent Þórbergssetri bókasafn sambandsins til varðveislu. Er það til heiðurs Þórbergi Þórðarsyni, sem var einn af ötulustu liðsmönnum esperantóhreyfingarinnar á Íslandi. Þórbergur skrifaði mikið á esperantó auk þess sem alheimstungumálið opnaði honum sýn til heimsbókmenntanna - enda mörg merkustu bókmenntaverk heimsins þýdd á esperantó.

Benedikt Hjartarson bókmenntafræðingur fylgdi safninu hingað austur og stjórnaði uppsetningu þess. Hann orðar það svo að esperantó sé í raun huldukerfi heimsbókmenntanna og hefur hann gefið út bók undir því nafni sem að er lykill að bókasafninu og fjallar um nokkur merk verk innan þess. Hann segir að eftir rannsóknir hans hafi sú sannfæring hans orðið æ sterkari með árunum ,, að saga alþjóðahyggju og alþjóðlegra menningar- og hugmyndastrauma á fyrri hluta tuttugustu aldar verði ekki rakin með tilhlýðilegum hætti án þess að tekið sé mið af mikilvægu hlutverki esperantóhreyfingarinnar." Þar af leiðandi er ljóst að í bókasafni esparantóhreyfingarinnar á Íslandi leynist án efa merk saga þeirra frumkvöðla sem leituðu eftir alþjóðlegum menningarstraumum í byrjun 20. aldarinnar og þar stóð fremstur í flokki Þórbergur Þórðarson, sveitastrákurinn frá Hala í Suðursveit.

Kristján Eiríksson íslenskufræðingur gaf út merka bók, - Lifandi mál, lifandi manna  árið 2020. Þar er saga Íslenska esperantósambandsins rakin en einnig rakin tengsl Þórbergs við hreyfinguna. Fjölmatgar  þýðingar á verkum Þórbergs eru birtar í bókinni, - greinar ritaðar á esperantó sem hafa ekki komið fyrir almenningssjónir áður. Bókin er einnig ómetanleg heimild um þessa merkilegu tíma og leit Íslendinga eftir að kynnast erlendum menningarstraumum í gegnum alþjóðatungumálið esperantó.

Mikil prýði er að bókaveggnum í ,,Eystri sal" safnsins, og vekur það án efa forvitni þeirra ferðalanga sem hér koma alls staðar að úr heiminum.
 

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 6318
Gestir á þessu ári: ... 24341