Skip to main content

Gullhyrna og Soffía

Steinþór Þórðarson skifar:

Það var bjartur haustdagur. Sólskin var á tindunum yfir Hvannadal og nærliggjandi fjallatoppum. Nú voru dagarnir orðnir stuttir og sólargangur lágur, þessvegna náði skin sólar ekki lengra niður í dalinn.

Á Brekkunni, eins og hún var kölluð í daglegu tali en heitir Brattabrekka, sem liggur fyrir hluta af opi Hvannadals að sunnan, liggja tvær ær veturgamlar, báðar í rúböggum. Önnur heitir Gullhyrna hin Soffía. Yfir þær flaug stór rjúpnahópur. Ærnar kipptust báðar við og stóðu upp. Þær lituðust um, hvað þetta hefði verið, sneru sér nokkra hringi, sperrtu eyrun og hlustuðu. Ekkert heyrðist nema niðurinn í Dalsá þar sem hún féll fram úr Klukkugili, þar sem skessurnar áttu að búa.

Í norður og norðaustur lá Hvannadalur, þetta fallega afréttarland með smá giljum og grónum hæðum á milli norðan megin, sem kallaðir eru Stafir.

Þær litu inn dalinn. Við þeim blasti Miðfellið með smá skógarkjarri, og Arahnúta. Í Miðfell fóru Breiðabólsstaðarbændur til kolagerðar fyrr á árum, sennilega fram undir síðustu aldamót. Enn eru fjalhöggin, sem þeir kurluðu viðinn á,þar undir stórum steini neðst í Miðfelli áður en brekkan fer verulega að rísa. Þessum gömlu minjum um framtak liðinnar kynslóðar hagræða gangnamenn við og við undir steininum til þess að síður skuli gróa yfir þær. Þessi kolagerð í Miðfelli var gerð til þess að hlífa skóginum frammi í Staðarfjalli sem notaður var til eldsneytis. Það var kallað að kurla viðinn þegar hann var höggvinn í smá búta áður en hann var brenndur. Þegar kolin voru búin að liggja hæfilega langan tíma í kolagröfinni voru þau sett í poka og borin fram í Staðarfjall. Það er langur og vondur vegur með þungan burð.

Í norðaustur af Miðfelli blöstu Kálfafletir við, grösugasti bletturinn í Hvannadal. Örnefnið Kálfafletir hafði lifað í munnmælum síðan naut voru höfð í Hvannadal. Upp af Kálfaflötum er Kálfaflataheiði, vinaleg og grösug hlíð með smá lægðum. Lengra inni í dalnum er Stórhóll. Stutt þar fyrir innan, hinu megin Dalsár (austanmegin), er Nautastígur. Ber hann það nafn beggja megin fjallsins. Yfir Nautastíg var farið með nautin þegar þau voru sett í Hvannadal. Var það gert til að villa um fyrir þeim svo þau færu síður úr dalnum. Ekki sýnist þetta neitt glæsilegur nautavegur. Snarbrattar fjallshlíðar hvoru megin með lausum og klöngróttum skriðum. En örnefnið verður ekki véfengt, þarna hefur verið farið með naut. Hvannadalsmegin eru Nautastígsstafir, grösugir að neðan en berari er ofar dregur. Hinu megin fjalls, norðanmegin, er Nautastígsgil. Upp úr því var farið með nautin. Innst í Hvannadal eru Kvosirnar. Upp af þeim ganga Kvosastafir eða Þverstafir eins og eldri menn kölluðu þá einatt. Á þeim er nokkuð gras. Yfir Kvosunum gnæfir Svartitindur, allhár hnúkur upp úr fjallsegginni. Á Kvosastöfum fundust oft hagalömb seint á haustin meðan fráfærur voru. Börðu þau þá bæði í snjóum og stórhríðum ofan af eggjum niður í dalina eða niður á Stafina.

Þetta gósenland sem nú hefur verið lýst blasti við augum ánna. Þarna höfðu þær verið í sumar og liðið vel í hinni þögulu kyrrð dalsins og etið þar kjarngóðar jurtir.

Fýsilegt væri nú að snúa aftur inn í dalinn þó haust væri komið og þær komnar þetta áleiðis heim. Alltaf var nú hægt að komast hingað aftur ekki mundi svo bráðlega snjóa. Í suður lá gatan til heimahaganna. var kannski hyggilegra að taka hana og þoka sér nær kofanum sínum?

Fjallaþráin með frelsið varð sterkari í hug ánna og þá einkum Gullhyrnu. Hún lagði af stað og labbaði í hægðum sínum af stað inn á brekkubrúnina. þar nam hún staðar, leit til baka og jarmaði. Soffía stóð í sömu sporum og mændi fram götuna. það mátti sjá að hún var ekki ákveðin í hvora áttina hún ætti að halda. Aftur jarmaði Gullhyrna. Soffía tók hátt undir, snýr við og fetar sig í áttina til hennar.

Brekkan er brött. Á fyrri árum var hún alltaf kölluð Brattabrekka og nafn hennar nefnt í yfirlætis og ögrunartón. Okkur krökkunum á Breiðabólsstaðarbæjum var sagt af eldra fólki sem fór til grasa í Hvannadal, að svo væri brekkan brött að taka mætti steininn með munninum þegar hún væri gengin upp með venjulegum gönguhraða. Það var erfitt að bera þarna upp stóra og blauta grasapoka, oft í slagveðurshríð. Ekki mátti fara til grasa nema í rigningu.

Haustveður geta einatt verið válynd, er þá fljótt að breyta úr hægri rigningu í verra veður. Í einu slíku veðurfari var ég ásamt fleirum í grasaferð í Hvannadal að haustlagi. Þá gerði vont veður. Á skall blotahríð með suðaustan stórveðri. Snarpir byljir skrúfuðust upp úr Klukkugili og skullu á okkur með ógnar afli. Hrukku menn þá ýmist til baka eða köstuðust áfram í þessum sviptibyljum. Í einum þessum byl missti Ragnar Þórarinsson hattinn. Hann tók hátt í loft upp og kastaðist síðan ofan í Klukkugil. Tók Ragnar þá nestispoka sinn, sem var úr segli af einu skútustrandinu í Suðursveit, og smeygði á höfuð sér.

Ferðin fyrir ánum sóttist fljótt niður brekkuna. Á Fremsthöfða, sem er stutt fyrir innan brekkuna, gripu þær aðeins niður. Þar var lítið fyrir munn og ekki bragðgott. Best var að halda í fyriheitna landið, Kálfafleti, sem Gullhyrna sá í hillingum haustsins. Þegar að Klifá kom var hún orðin nokkuð uppbláð af krapi. Gullhyrna horfði upp og niður með henni spekingsleg. Soffía setti hornin í síðu hennar eins og hún vildi segja: "Þú hefur ekkert vit á þessu." Nú var það hún sem tók forystuna og stefndi niður með ánni þangað sem þær Klifá og Dalsá falla saman undir  Grágæsahálsi. Þar er autt brot upp í Miðfellstangann, en sá tangi gengur í odd fram úr Miðfelli. Myndast hann af því að árnar falla sín hvoru megin við hann. Soffía leggur út í ána, fyrst hægt, svo stökk áfram og hvert af öðru uns hún nemur staðar í Miðfellstanganum. Gullhyrna hélt á eftir. Í tanganum hrista þær mestu bleytuna úr lagðinum en það gengur erfiðlega, rúbaggarnir eru svo þungir. Nú var sólin horfin af tindunum, rökkur skammdegiskvöldsins færðist yfir. ærnar runnu í hægðum sínum hærra upp í Miðfellið. Þar gripu þær niður um stund en tóku sér síðan náttból á sléttu og skóglausu barði, lögðust þar, sneru hausum saman og jórtruðu.

Með birtu næsta morgun risu þær á fætur, hristu af sér næturhéluna og fóru að kroppa á barði stutt frá þar sem þær lágu. Lengra var nú ferðinni heitið, þær runnu af stað og héldu áfram för sinni á Kálfafleti þangað sem hugurinn stefndi. Þar voru þær þá komnar í sumarhagana sína. En nú var ekki eins mikið fyrir munninn eins og þá var og svo var gróðurinn ekki eins bragðgóður eins og áður. Þær sóttu því hærra í brekkuna og kroppuðu við fót. Svona hélt ferðin áfram uns þær voru komnar hátt upp á Kálfaflataheiði. Hér var gott að vera. Víðsýni mikið og þessi fíni og bragðgóði gróður og mikið afdrep í lægðunum ef illveður skylli á.

Dagarnir liðu, næturnar lengdust og tíðin fór að verða umhleypingasöm. Nú var sólin hætt að skína á tindana yfir dalnum, suðurfjöllin byrgðu sýn hennar þegar sólargangur var orðinn svona lágur.

Það var orðið ósköp vetrarlegt í Hvannadal enda komið fram í desember. Fjöllin voru hvít af snjó niður í miðjar hlíðar sem dró saman í beðjur þegar vindþotur gerði. Svo kom áhlaupadagurinn mikli 9. desember með snjókomu og frosthörku. Nú var enginn tími til umsvifa, hríðin var svo dimm og körg, hver skepna varð að láta fyrirberast þar sem hún var stödd. Gullhyrna og Soffía gátu dregið sig í skjól undir melbarði neðarlega á Kálfaflataheiði. Snjó hlóð í kringum þær, hann lamdi inn í ullina og settist þar að um sinn. Nú þýddi ekki mikið að hugsa til heimferðar í þessu veðri. Var ekki útilokað að þær kæmust heim í kofann sinn þar sem bragðgóð tuggan beið þeirra?

Þetta var aldrei nema bölvað flan, hugsaði Soffía, að fara í Hvannadal þegar vetur var genginn í garð með sín vályndu veður. Móðir mín og formæður, sem allar voru af þrautreyndu fjallafé, hefðu aldrei látið sig henda þetta. Þær voru öruggar og ákveðnar þegar halda átti heim undan harðindum vetrar.

Þegar ég var lamb með móður minni í fyrrahaust hélt hún sig framan af vetri vestan á Kvennaskálatindi. Eitt kvöld í góðu veðri tekur hún á rás niður flár, niður úr Sauðungshömrum og niður í Hvamm, rann í hægðum sínum götuna heim að túngirðingu og lagðist þar. Daginn eftir var komið versta veður og fjöllin alhvít af snjó. Hún hefði ekki látið draga sig í þær ógöngur sem ég er nú komin í. Þannig hugsaði Soffía. Skepnur hugsa þó þær geti ekki mælt.

Eftir sólarhring létti upp. Þá var kominn mikill snjór, en þó einkum til fjalla. Ekki leið á löngu að á brast hvassveður af norðri með grimmdar frosti. Þetta veður varð til þess að þjappa snjónum saman í harðar beðjur en nokkuð reif af hæðum og klettanefjum. Þegar veðrinu slotaði fóru þær Gullhyrna og Soffía að þoka sér úr snjóborginni, komust þær á næstu hæð þar var dálítið af mosa og vindstrá á stangli sem þær rifu í sig. Hér var þó dálítið kropp í góðu veðri.

Þannig liðu nokkrir dagar. (Skart) var um haga hjá þeim stöllum og sultur fór að sverfa að. Nú brá til þíðu og rigndi nokkuð. Það skýrðist heldur um á hæstu hæðum. Upp komu dálitlir hnjótar svo Soffía og Gullhyrna áttu hægara með að renna um hnjótana þar sem þær voru. En þessi dýrð stóð ekki lengi. Það snjóaði á ný og endaði með blotaslyddu. Nú var kominn djúpur snjór og tæsingsbloti. Allar bjargir voru bannaðar nema vindstrá sem stóðu á stangli upp úr klakanum. Þannig liðu dagarnir til jóla.

Fram eftir Þorláksmessu snjóaði dálítið en brá þá til stuttrar þíðu. Heldur var hægara að renna um þegar snjórinn mýktist. Undir kvöldið heyrðu þær Gullhyrna og Soffía jarm. Þær sperrtu eyrun og hlustuðu. Gullhyrna tók undir. Var nú hrútur að koma? hugsaði hún. Æreðlið sagði til sín þó sultur syrfi að. Hvar var þetta jarm? Gullhyrna lagði af stað og stefndi á hljóðið niður að Kálfaflatagili. Soffía fór á eftir. Ferðin sóttist seint þó leiðin væri ekki löng. Þegar þær komu á gilbarminn stutt fyrir ofan aðal fjárgötuna sem liggur yfir gilið koma þær auga á tvær kindur í gilinu yfir af sér. Þær stóðu þar í litlum torfutodda sem var þó hulinn snjó. Kindurnar í gilinu komu auga á Soffíu og Gullhyrnu og jörmuðu hátt. Þær lögðu af stað niður gilslakkann og niður í gilið. Þarna var fagnaðafundur þegar kindurnar hittust en Gullhyrna varð fyrir vonbrigðum, þetta var þá ekki hrútur heldur ær og lamb, en ekki samstætt.

Jólin liðu, ekki með neinum dagamun fyrir kindurnar í Kálfaflatagili, ekkert sem minnti á að nú var stórhátíð.

Út úr þrettánda gekk í norðan blástra með miklu frosti og kófbyl í fjöllum. Kindurnar reyndu að bera af sér veðrið með því að hjúfra sig hver að annarri. Svona liðu dagarnir hver af öðrum og sulturinn svarf orðið fast að. Í veðurdúrunum stóðu kindurnar upp og hristu af sér mesta snjóinn. Þær skimuðu í allar áttir hvort hvergi væri sjáanlegt strá sem stæði upp úr snjónum. Hvergi var strá að sjá, ekkert sást nema endalaus snjóbreiðan.

Einn daginn kom fullorðna ærin auga á skúta í gilinu stutt frá þeim. Í einum logndúrnum lagði hún af stað þangað, hinar héldu á eftir henni. Þarna hlaut að vera eitthvert skjól. Vegurinn var ekki langur, þó sóttist ferðin seint. Ófærðin var mikil í gilinu og þróttur kindanna farinn að þverra. Að lokum komust þær þó í skútann. Ekki var nú skjólið mikið. þó mátti heita hreinn malarblettur undir há klettinum sem gnæfði yfir skútann. Nú var ekki um annað að gera en láta þarna fyrirberast uns yfir lyki. Líklega mundi einhver finna beinin þeirra hér þegar farið yrði í fjárleit í Hvannadal næsta haust, hugsaði Soffía. Enn liðu langar og kaldar nætur og sólarlausir dagar. Á smá nibbum sem stóðu út úr klettinum reyndu þær að naga skóf. Ekki var matarbragðið mikið en samt fróaði það.

Eitt kvöldið brast á meira stórveður en en gert hafði í undangengnum veðraham. Snjóinn skóf af öllum áttum niður í gilið og inn í skútann þeirra. Nú var farið að fenna í síðasta skjólið, samt reyndu kindurnar að halda sér þar við og tróðu undir sig fönnina. Hungrið og hugarangrið svarf að. Þær fóru að kroppa í ullina hver á annarri, engin fylli var í þessu en einhver fró. Þróttur þeirra þvarr nú dag af degi. Gullhyrna var lögst fyrir en hinar stóðu oftast.

Þegar þrjár nætur voru til þorra færðist hin ömurlega nótt yfir. Gullhyrna lá en hinar stóðu og hengdu niður höfuðin. Hugsunin var orðin sljó en þó var eins og hugboð segði þeim að vissara væri að hlusta. Úti var logn, heiðkírt veður og bjart yfir hjarninu. Hvað er þetta? Eitthvað uppi á gilbarminum, sem gaf hátt hljóð frá sér, var að nálgast þær. Það brakaði í fönninni eins og hún brotnaði niður undan léttu fótataki. Öll deyfð og allur sultur hvarf úr huga kindanna. Þær einbeittu huganum að því sem þær heyrðu. Eitthvað lifandi kvikindi var að koma niður gilbarminn og stefndi til þeirra. Ekki var það rjúpa, einhver meiri óvinur þeirra. Elsta ærin skynjaði fljótt hvað var á ferð. Hún sneri sér einn hring, stappaði niður öðrum framfætinum og gekk fet fram fyrir hópinn. Nú var þetta kvikindi komið svo nálægt þeim að ekki leyndi sér hvað hér var á ferð. Það var tófa. Allar urðu kindurnar skelfingu lostnar. Hver þeirra skyldi verða þessum djöfli að bráð? Kannski ein, kannski allar? Soffía stóð utast í hópnum til annarrar hliðar. Tófan er komin fast að þeim. Hún nemur aðeins staðar, hugsar sig lítið um og stefnir að Soffíu. Eins og örskot svífur hún á hana. það hefst ófagur leikur. Soffía reyndi að verjast en kraftana þraut, hún valt út í fönnina. Tófan neytti færis. Blóðþyrst grúfði hún sig yfir hana og reif hana á hol og saug úr henni blóðið. þarna voru örlög Soffíu ráðin. En hvað beið hinna? Yfir þeim grúfði nóttin, köld og miskunnarlaus.

 

Nú víkur sögunni heim í byggðina. Þar var klaki yfir alla jörð, mátti því aka hvaða farartæki sem var yfir vötn og vegleysur. Norðan stormar blésu og frosthörkur voru miklar en oft heiðskírt veður. Níunda og tíunda desember gerði mikinn snjó og ófærð í fjöllum. Fénaður var um allt þegar snjóinn gerði, gekk því erfiðlega að hafa hann saman þó hverjum færum degi væri sætt frá því snjóaði og fram yfir nýár. Nú var vetur kominn að þorra og enn vantaði nokkrar kindur. Líklega eru þær allar dauðar úr harðrétti eftir langvarandi hagleysur í fjöllum.

Daginn fyrir þorra datt ungum og ólötum bónda í Suðursveit, Ingimar Bjarnasyni á Jaðri, í hug að gaman væri að skreppa í Hvannadal. Vitanlega gat þetta verið áhættusöm ferð um hávetur í mjög vafasamri færð til fjalla. Ferð í Hvannadal, ef á að ganga hann alla leið á enda,  tekur ekki minna en fimm tíma hvora leið úr næstu byggð á auðri jörð. En ekki gat hann farið einn. Hann skyggndist í hug sínum eftir manni sem mundi vilja leggja í þessa áhættusömu ferð með sér. Dettur honum þá í hug að hringja til Bjarna Þórhallssonar á Breiðabólsstað og spyr hvort hann vilji leggja í að koma með sér í Hvannadal á morgun, fyrsta þorradag. Bjarni er aldrei ótrauður til stórræða og tók vel á þessu. Það samdist svo með þeim að mætast á Steinabala við eyðibýlið Steina næsta morgun ef veðurspá væri góð að kvöldi og veðurútlit og loft trúlegt að morgni. Þennan dag var norðan strekkingur en spáð lygnandi veðri og léttskýjuðu. Þriðja manninn ætlaði Ingimar að fá en hann vildi ekki gefa sig til, var það þó bagalegt eins og síðar kemur fram. Þeir Ingimar og Bjarni ákváðu að mæta á áður umgetnum stað klukkan 7 að morgni, ekki veitti af að taka daginn tímanlega þar sem löng og erfið leið var fyrir hendi.

Að morgni fyrsta þorradaginn var veðurútlit fremur gott, nokkuð kalt og norðan gola sem fór lygnandi þegar fram á daginn kom. Þeir göngufélagar lögðu af stað áður en fór að birta af degi. Á Steinabala mættust þeir á ákveðnum tíma. Ingimar kom á bíl en Bjarni á dráttarvél. Þeir stönsuðu stutt á Steinabala, kveiktu í pípum sínum, og ráðslöguðu um veðrið. Dálítil blika sýndist á lofti, "líklega er það (þrá) sem léttir kannski í þegar birtir", sögðu þeir. Nú stigu þeir báðir í bílinn en dráttarvélin var skilin eftir. Þeir gátu ekið inn í Staðarfjall, það var þó dálítill léttir, stytti gönguna um einn og hálfan tíma. Við skógargirðinguna í Staðarfjalli á Rauðarárflötum komu þeir bílnum fyrir á hagkvæmum stað. Þaðan hófst sjálf gangan. Héldu þeir eins og leið lá uppúr Hellistorfu, upp Hellisstaf, um Járnhnausbotna og inn í Þröng. Þegar Þröngin þrýtur tekur við Garðhvammur. Fremst í þeim hvammi er hátt barð með nokkrum gróðri. Þar undir litlu hellublaði liggja brot af krossi sem Þórbergur Þórðarson setti þar upp aldamótavorið síðasta. Á hann var skorið ártal og dagur sem hann var settur upp. Fyrir löngu var krossinn fallinn og brotinn í fjóra hluta. Öllum var þeim haldið til haga þarna undir hellublaðinu og á hverju hausti hagræddu göngumenn, sem fóru í Hvannadal, þeim ef með þurfti. Meðan fært var frá fyrir vestan Steinasand og lömbin setin í Staðarfjalli í þrjá daga, voru þau rekin á fjórða degi og skilin eftir í Garðhvammi. Innst í Garðhvammi er Garðshnaus. Þegar þeir félagar komu þangað var tæplega orðið sauðljóst, þó námu þeir þar staðar og lituðust um. Neðan við þá gein Klukkugilið með löngum og snarbröttum skriðum upp á Garðshnaus. Milli Garðshnauss og Garðsins, sem er um 5-8 mínútna gangur, eru fremri Garðskriður, hangandi brattar niður í Klukkugil. Ekki eru nú Garðskriður árennilegar fannst þeim félögum. Samanbarinn hjarnskafl alla leiðina og Klukkugil gínandi fyrir neðan. Litla stund ráðguðust þeir um hvað gera skyldi. Þeim koma saman um að þetta mundi viðsjálasti kaflinn á leiðinni, ef þeir slyppu yfir hann voru líkur til að þeir kæmust áfram. Báðir höfðu þeir brodda bundna í sauðband á herðum sér. Nú leystu þeir þá af sér og settu á fæturna. "Verst er að broddarnir á þeim eru svo ansi lágir", sagði Bjarni. "Þeir gera svo lítið gagn á hörðu hjarninu." " Þeir eru þó betri en ekkert", svaraði Ingimar. "Jú, víst er það en betra er að treysta þeim ekki um of", fannst Bjarna. Nú voru fæturnir tilbúnir og þá var að leggja til atlögu við skaflinn. Af einhverri huldri öryggiskennd gripu þeir í húfurnar og þrýstu þeim á sig. Með traustum handtökum á stöngunum lögðu þeir svo út á hjarnið. Hvergi markaði fyrir fæti. það voru broddarnir og stangirnar sem hjálpuðu þeim að fikra sig fót fyrir fót áfram, en hægt miðaði. Hvert misstigið spor gat ráðið örlögum þeirra. Allt í einu stönsuðu báðir, það var eins og þeim fyndist nóg komið. Hvorugur sagði orð. Þeir mældu vegalengdina inn á Garðinn með augunum, enn var langt eftir. Sá sem á undan var byrjaði að höggva spor í hjarnið. Þetta var eina ráðið og þau voru þá líka tilbúin fyrir þá til baka aftur. Fátt var sagt en áfram var haldið. Sporin í hjarnið skapaði öryggi og ferðin sóttist heldur betur. Þeir skiptust á að höggva sporin og notuðu til þess þá stöngina sem hafði bitbetri brodd. Og af því að hér voru hraustir og einhuga menn að verki þá tókst þeim vonum fyrr að ná inn á Garðinn. Þar tylltu þeir sér niður og gripu í sig bita sem þeir voru með.

Langt er síðan Garðurinn fékk sitt nafn. Munnmæli segja að hann hafi verið hlaðinn þegar naut voru rekin í Hvannadal til að verja þeim leiðina fram í byggð.. Enginn efi er á því að munnmælin um nautagöngu í Hvannadal eru sönn, til þess benda örnefni sem ég hef áður nefnt, eins og Nautastígur og Kálfafletir. Þá er Garðurinn eitt sönnunarmerkið sem enn mótar greinilega fyrir. Hann hefur ekki verið hlaðinn til að verja fé úr dalnum, fyrir því eru nógar leiðir aðrar opnar þaðan.

Hér á Garðinum var það sem fróðleiks og gáfukonuna Oddnýju Sveinsdóttur, þá húsfreyju á Gerði í Suðursveit, dreymdi þann leiðinlegasta draum, sagði hún, sem sig hefði dreymt. Það var á björtum vormorgni að hana dreymdi drauminn. Var hún ásamt fleira fólki á grasaferð í Hvannadal. Það hvíldi sig á Garðinum. Oddný hallaði sér upp að lágum kletti sem er alveg við götuna. Henni rann blundur á brá og þá dreymdi hana. Sjálfur heyrði ég hana segja drauminn. Hann var stuttur, enda svefninn ekki langur. En henni fannst hann benda til þess að ekki væri allt einleikið með Klukkugil sem gein þarna fyrir neðan djúpt, dimmt og draugalegt.

Þeir félagar voru fáorðir meðan þeir gripu í sig bitann. Allur hugurinn var við framhald ferðarinnar en eflaust hefur þeim flogið í hug, þegar þeir voru staddir á þessum hættustað, þær sagnir sem þeir höfðu heyrt um Klukkugil, Garðinn og Skessuna sem átti að búa í Klukkugili. Nú var heldur enginn tími til langra heilabrota. Þeir áttu erfiða ferð fyrir hendi og sem lengst þurftu þeir að komast inn eftir dalnum til þess að geta leitað sem best af sér allan grun um fé þar. Var því best án frekari hugleiðinga um drauma og landvætti að hypja sig af stað.

Innan við Garðinn taka við Innri-Garðskriður, eftir þeim liggur gatan sniðhallt niður í Hvannadal. Ekki var eins hart hjarnið í þessum skriðum eins og þeim fremri og þegar kom niður að Dalsá, þar sem leiðin liggur fyrst inn dalinn, var skreppings ófærð sem fór versnandi eftir því sem innar dró. Innan við Garðskriður tekur við Grágæsaháls. Þegar þangað er komið blasir við Miðfellið, Arahnúta og Klifatorfur. Þar sem Grágæsaháls ber hæst tylltu þeir piltar sér niður og brugðu sjónauka fyrir augu. "Andskoti er hér nú dauðalegt", sagði Bjarni. "Það sést ekki einu sinni hrafn." "Þeir eru allir komnir í verstöðina á Höfn eins og fólkið", svaraði Ingimar. Litla stund sátu þeir. Nú lá leiðin yfir Dalsá og upp í Miðfellið. Næsti áfangi var á Kálfafleti, þar er Hvannadalur hálfnaður. Alltaf versnaði færðin eftir því sem lengra dró inneftir. Gott mátti heita ef dagurinn entist þeim inn á Kálfafleti í svona færð.

Þegar inn að Kálfaflatagili kom, það skilur á milli Miðfells og Kálfaflata, sýndist þeim móta fyrir harðspora á litlum bletti stutt fyrir ofan fjárgötuna. Við nánari athugun sást að hér höfðu kindur verið, þó fyrir nokkru síðan, en eftir að fé var smalað úr dalnum. Héldu þeir nú lengra upp eftir gilbarminum. Aftur urðu þeir varir við harðspora og nú greinilegri. Þeim kom saman um að hér nærri hlytu að vera kindur, lifandi eða dauðar. Þegar þeir höfðu haldið enn góðan spöl upp með Kálfaflatagili sáu þeir traðk eftir kindur, nýlegt, niður í gilinu. Þá var að leita þangað. Þegar ofan í gilið kom sáu þeir að hér höfðu kindur verið ekki fyrir alllöngu. Héldu þeir lengra upp eftir gilinu, sást þá móta fyrir skúta þar stutt frá og var skafl dreginn fyrir hann. En hvað lá fannbarið á skaflinum framan við skútann? Dauð kind. Þessi harðspori er þá víst eftir hana, kom þeim saman um. Þeir héldu upp að skútanum. Innan við skaflinn undir klettinum var mikið lægra en skaflinn var sjálfur framan við. Þarna inni stóðu tvær kindur, ær og lamb, og sú þriðja lá. Sú fjórða lá dauð á skaflinum framan við.

Ósköp voru nú kindurnar illa komnar, uppstrengdar og nokkuð ullarétnar, en sú sem lá gat ekki hreyft sig. Er hún kannski dauð? Ekki er það, en hún er frosin niður. Fóru þeir að reyna að losa hana upp úr klakanum og eftir nokkra stund og með ýmsum brögðum tókst það. Eftir afturlappirnar var komin nær kvartéls djúp rás ofan í klakann. Á því mátti sjá að ærin var búin að liggja þarna niðurfrosin í fleiri sólarhringa.

Þarna voru þær þá Gullhyrna og Soffía. Gullhyrna sú niðurfrosna en Soffía lá dauð á skaflinum, drepin af tófu fyrir stuttu. Hún var eign Zophoníasar Torfasonar, eina kindin sem hann átti, honum gefin í tannfé vorið 1957 af Steinþóri Þórðarsyni afa hans. Gullhyrnu átti Torfi Steinþórsson, fullorðnu ána átti Skúli Sigfússon á Leiti, en lambið Ingimar Bjarnason á Jaðri.

"Nú hefði komið sér vel", sagði Ingimar, "að við hefðum verið þrír eins og ég ætlaðist alltaf til. Þá væri kind á mann." "Við tökum ána hans Torfa og lambið þitt", sagði Bjarni. "Mér sýnist Gullhyrna ekki vera orðin á það marga fiska að hú þoli fleiri nætur hér á klakanum og lambið er mesti ræfill. Fullorðna ærin hefur mest þrek og getur lifað hér einhver dægur ef ekki gefur eftir henni á morgun." Réðst þetta svo með þeim. Tók Bjarni Gullhyrnu og lagði á herðar sér en Ingimar lambið. Héldu þeir félagar svo af stað í áttina heim. Seint sóttist ferðin. Byrðar þeirra gerðu það að verkum að þeir sukku dýpra í snjóinn. En áfram var haldið með smá hvíldum og áfram miðaði. Fram í Staðarfjall komust þeir með heilu og höldnu, var þá nokkuð byrjað að síga að. Þessu næst stigu þeir félagar inn í bílinn eftir að þeir höfðu hagrætt kindunum á bílpallinum. Þetta var þá síðasti áfanginn og hann sóttist fljótt eftir að ökutækin tóku við. Það er alltaf gott að vera kominn heim og ekki síst eftir tvísýnt ferðalag.

Þá er sagan þeirra Gullhyrnu og Soffíu á enda. Gullhyrna rétti fljótt við eftir að hún kom í fjósið á Hala og alin þar á töðu og nýmjólk. Annan einmánaðardaginn var hún orðin það vel fylld að klippa varð af henni tvenn reyfin því rúbaggarnir fóru orðið svo illa á henni að það varð að losa hana við ullina.

Lengi mun Hvannadalsferðin þeirra Ingimars og Bjarna fyrsta þorradaginn 1958 lifa í munnmælum og sögnum í Suðursveit. Fullorðna ærin var sótt daginn eftir en leyfarnar af henni Soffíu lágu eftir á klakanum í Kálfaflatagili. Þegar sólin og sumarið kemur bráðnar ísinn frá beinunum hennar, falla þau þá ofan í grýttan jarðveginn og mynda þar lítinn grænan topp.En skinin hornin af henni munu svo lengi sem þau sjást á þessum stað, minna á þann harmleik sem þarna var háður.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463