Skip to main content

Sjósókn í Austur-Skaftafellssýslu á dögum árabátanna

Torfi Steinþórsson - föstudagur, 14 desember 2007

Austur-Skaftafellssýsla hefur frá upphafi byggðar verið landbúnaðarhérað, en þó rýrt sem slíkt allt fram á 7. tug þessarar aldar að verulega fór að rakna úr í þeim efnum með aukinni ræktun og þá einkum með ræktuninni á söndunum.

Ekki er hægt að segja að á liðinni tíð hafi verið mikið fjölmenni í Austur-Skaftafellssýslu, en löngum þó of mikið til að landbúnaður einn gæti framfleytt íbúunum. Fleiri stoðir urðu að renna þar undir.

Sýslan liggur suðvestur með ströndinni og eru þar fá byggð ból, sem eiga langan veg til sjávar. Má því segja að byggðin liggi vel við til að notfæra sér margs konar hlunnindi, sem einkum bjóðast í nálægð sjávar svo sem fisk- og hvalreka á fjörur, eggjatöku, fuglaveiði, silungsveiði í ám og vötnum, lúruveiði út við suma ósa og síðast en ekki síst fiskveiðar í sjó. Flest byggðarlög Austur-Skaftafellssýslu hafa í gegnum tíðina notið góðs af einhverjum áðurnefndra hlunninda og mörg hver notið þeirra allra að einhverju marki. Ég mun hér á eftir reyna að segja ofurlítið frá sjósókn í Austur-Skaftafellssýslu á dögum árabátaútgerðar.

Ýmislegt var sameiginlegt með sjósókn úr öllum byggðarlögum sýslunnar. Lendingarskilyrði var slæm, en þó misslæm. Fiskimið góð en þó misgóð. Allsstaðar var farið að hugsa til róðra með góukomunni. Því þá gat fiskur verið genginn á miðin, þó oft gæti það dregist fram í marsbyrjun. Það voru 3 teikn sem gátu gefið hugmynd um hvort fiskur væri genginn á grunnmið eða ekki. Þessi teikn voru: Sást fugl ganga á sjónum, var þorskur annað hvort heill eða selrifinn farinn að reka á fjörur og hvernig frönsku skúturnar höguðu sér á miðunum úti fyrir. En þar voru þær vanar að birtast snemma í mars. Upp úr 1930 hættu skúturnar að sjást á miðunum, bæði þorskur og loðna hættu að reka á fjörur og alltaf gat brugðið til beggja vona hversu alvarlega var hægt að marka fuglinn. En oftast fiskaðist samt svipað og áður, þegar á sjó gaf. En sjóveðrið lét oft á tíðum standa á sér og það jafnvel svo  að ekkert einsdæmi var að ekki gæfi á sjó fyrr en eftir sumarmál. En þá gat líka allur fiskur verið horfinn af miðunum. Löngum var það venjan að eftir miðjan maí væri orðið fiskilaust. Þó gat út af brugðið þeim vana. T.d. var það svo í Suðursveit á árunum 1932 - 1959 að fleiri árin komu góðar aflahrotur eftir miðjan maí eða júní, jafnvel í júlí. Fyrr á öldinni mátti slíkt heita óþekkt.

Nú verða hér á eftir taldar upp verstöðvar í Austur - Skaftafellssýslu og byrjað að austan.

Hvalneskrókur

Skammt frá austast bæ sýslunnar er Hvalneskrókur. Þaðan mun Hvalnesbóndi hafa róið, einnig menn af ýmsum bæjum í Lóni austan Jökulsár. Í Hvalneskrók var sjór einkum brúklegur í norðaustan og austanátt, en verri í suðvestan og vestan. Sjósókn lagðist niður frá Hvalneskrók, þegar Einar Eiríksson bóndi flutti frá Hvalnesi á Höfn 1945. Á síðari sjósóknarárum Einars frá Hvalneskrók var hann búinn að setja vél í bát sinn og mun þar með hafa orðið fyrstur manna til að sækja sjó á vélbát frá brimsöndum Austur - Skaftafellssýslu.

Papós

Vestast í Lónssveit fellur Papós til sjávar. Þar var helsti útróðrarstaður Lónmanna, fyrst og fremst þeirra, sem heima áttu vestan Jökulsár, en einnig líka af bæjum úr miðri sveit. Jafnvel sótti bóndinn úr Víðidal, meðan búið var þar, sjó á Papós. Hefur það verið strembin sjávargata. Sjálfsagt hefur hann legið við á einhverjum bænum í grennd við Papós.

 Helstu annmarkar á úthaldi frá Papós voru miklir straumar í ósnum og sviptivindar ofan úr fjallaskörðunum. Sæta varð föllum til að fara um ósinn. Og bátarnir voru geymdir í Þorgeirsstaðaklifi, sem er innan við fjörðinn og bíða varð út frá eftir flóði til þess að koma bátunum í naust. 5-6 bátum var löngum róið frá Papós, en róðrum var haldið þar uppi fram um 1930. Á síðustu áratugum úthalds á Papós voru bátarnir sexæringar af færeyskri gerð og áhöfn þá 6-7 menn. Sumir bátarnir voru þó af minni gerð. Sjómenn á Papós notuðu segl eftir því sem við var komið. Það munu líka árabátar sem haldið var út frá Hornafjarðarós einnig hafa gert, en annars staðar varla að marki frá verstöðvum í Austur - Skaftafellssýslu. Þegar vel aflaðist á Papós seldu bændur eitthvað af saltfiski í verslun á Höfn.

Hornshöfn

En víkjum nú niður í Nesjasveit. Þar voru tvær verstöðvar. Hornsvíkin (Hafnartangi) við Vestrahorn og frá Hornafjarðarós. Á báðum þessum stöðum virðast öðru hverju koma tímabil þar sem sjósókn leggst að mestu niður á öðrum hvorum staðnum en naumast á báðum í senn. Hugsanlega gæti það stafa af breytilegri aðstöðu til sjósóknar á öðrum hvorum staðnum.

Í Byggðarsögu Austur - Skaftafellssýslu 1. bindi á bls. 126 hefur Bjarni Bjarnason Brekkubæ þetta að segja: „Suðaustur af bænum skerst inn í landið allstór vík, er nefnist Hornsvík. Þaðan var útræði Nesjabænda langt fram á 19. öld. Frá Horni hefur útræði verið stundað meira og minna fram á síðustu tíma, þegar gefið hefur á sjó. Í jarðabók Ísleifs Einarssonar frá árunum 1708 -1709 er sagt, að á Horni hafi að fornu verið 20 verskálar. Munnmæli Hornsmanna herma, að Norðlendingar, einkum Skagfirðingar, hafi haft verstöð í tóftunum í kömbunum undir Kambhorni. Tættur þessar voru 14 að tölu, hlaðnar úr grjóti og lítt fallnar. Á heimstyrjaaldarárum síðari jöfnuðu Bandaríkjamenn þær að mestu við jörðu, þegar þeir höfðu þar bækistöð."

Annars munu menn úr Nesjum eitthvað hafa legið við í verbúðum á Horni því löng var sjávargatan, þriggja tíma reið frá innstu bæjum í Nesjum. Um 1870 virðist útgerð úr Hornshöfn dragast verulega saman. Og fóru þá Nesjamenn að stunda að einhverju marki útróða úr Höfðasandi á Mýrum. Á þessu verður þó breyting um aldarmótin 1900. Því þá hækkar aftur vegur Hornshafnar, m.a. með því að verslun Þórhalls Daníelssonar fór að gera þaðan út 2-3 báta. Skipshafnir þessara báta voru að miklu leyti skipaðar Austfirðingum. Má segja að það hafi orðið fyrstu kynni þeirra af fengsælum fiskimiðum í nánd við Hornafjörð.

Hornafjarðarós

Sennilega hefur sjósókn um Hornafjarðarós verið stunduð fyrr á öldum, að minnsta kosti öðru hverju. En ýmsum annmörkum hefur sjósókn á árabátum verið háð, t.d. miklum straumum í ós og líklega nokkru lengra á mið en úr Hornsvík. Þá hefur mikið fiskifang, sem oft fékkst inn í Hornafirði líklega að einhverju leyti dregið úr áhuga þerra sem við Hornafjörð bjuggu að leita á dýpri mið.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna 2. bindi segir frá kolaveiðum, sem virðast hafa verið stundaðar af nokkru kappi í lónunum innan við ósana bæði í Lóni og Hornafirði og var sú veiði stunduð bæði af körlum og konum og var félagsveiði, þar sem fleiri heimili slógu sér saman. Á bls. 133 segir síðan:

„Silungsveiði mætti stunda miklu betur en gert er. Lítið veiðist af þorski nema vestast í Hornafirði, þar sem menn einnig veiða hákarl." En samkvæmt skilgreiningu Eggerts og Bjarna upp úr miðri 18. öld og eins Sveins Pálssonar 40 árum síðar ætti „vestast í Hornafirði" að eiga við Suðursveit, þar sem Bjarni og Eggert telja Hornafjörð ná allt að Breiðamerkursandi. Þá segja þeir félagar neðar á sömu bls.: „Öræfingar stunda þorskveiði á vorin og sumrin frá Ingólfshöfða."

Árabátaútvegur um Hornafjarðarós fór verulega vaxandi upp úr síðustu aldarmótum. Í 3. bindi Byggðarsögu Austur - Skaftafellssýslu bls. 199-200 segir Gísli Björnsson m.a.:

 „Eftir 1907 finnast ekki heimildir fyrir því að róið hafi verið að staðaldri frá Hornshöfn, en þá hefur árabátaútvegur stóraukist frá Höfn. 1909 eru gerðir út þaðan 6 bátar á vetrarvertíð og 1910 eru þeir orðnir 7 og mun sú tala hafa haldist nokkuð óbreytt til ársins 1918. Flestir þessir bátar voru sexrónir og með góðan seglbúnað. Afli var misjafn eins og gerist. 1911 og 1916 voru metár. Aflahæstu bátarnir voru þá með 3500 fiska hlut af stórþorski, en skipt var í 10 staði." Ennfremur segir Gísli á bls 200: „Eftir 1918 mátti segja að árabátaútvegur legðist niður vegna tilkomu vélbáta heimamanna og aukinnar útgerðar aðkomubáta."

Höfðasandur

Þegar ekið er framhjá Heykögglaverksmiðjunni í Flatey má sjá þar lengst niður á sléttunni tvo bæi og stutt á milli þeirra. Þetta eru Flateyjarbæirnir. Nokkurn veginn í suður frá þeim eða suðaustur má sjá lágan flatan klett í fjörunni út við sjóinn. Þetta er Skinneyjarhöfði. Austan undan honum er dálítil vík. Frá ómunatíð hefur úr vík þessari verið útróðrastaður þeirra Mýramanna og verið kallaður Höfðasandur. Varla fer á milli mála að við Höfðasand er betra sjólag en frá nokkrum öðrum stað á söndum Austur - Skaftafellssýslu, enda fara ekki sögur af því að þar hafi bát hlekkst á utan í það eina sinn þegar manntjónið mikla varð á Mýrum 3. maí 1843 og 14 menn létust. Ekki var hægt að kenna höfninni um slys þetta, heldur miklu norðan stórviðri, sem sagt er, að hafi skollið á eins og hendi væri veifað og hrakið flesta bátana lengst suðvestur í haf. Um þessar mundir gengu 8 bátar frá Höfðasandi, allir sexrónir. Sjö bátarnir réru um morguninn en sá áttundi réri ekki og leist formanni ekki á loftið. Var sá bátur úr Suðursveit. Sá bátur, sem lengst hraktist í veðri þessu náði landi vestan undir Ingólfshöfða. Ekki er hægt að rekja þessa sögu lengra hér, en þeim sem leikur hugur á að frétta nánar af atburðum þessum skal bent á frásögn skráða af Þórbergi Þórðarsyni og birtist í bókinni Brim og boðar 2. bindi á bls. 65-84.

 Frá Höfðasandi er útgrynni allmikið og því nokkuð langróið á fiskimið. Auk þess eru fjöllin bak við sveitina skörðótt, fremur lág og langt frá sjó. Veita þau því minna skjól fyrir norðanátt en fjöllin í Suðursveit, þótt norðandvindur hamli róðrum úr Höfðasandi. Ekki hefur þótt fiskisælt á miðum úti fyrir Höfðasandi og t.d. mun ekki hafa verið um teljandi afla að ræða þar á þessari öld á vorin eða sumrin.

Á árunum frá 1950-60 gerðu Suðursveitungar dálítið að því að aka með báta sína á bílum austur í Höfðasand og róa þaðan á vetrarvertíð, því þá var sjólag við fjörur í Suðursveit orðið verra en áður. Þá er einnig vitað að í kringum 1880 eru 2 bátar úr Nesjum gerðir út frá Höfðasandi. En útgerð Nesjamanna lagðist þar niður árið 1883. Róðrum var að einhverju leyti haldið áfram frá Höfðasandi allt til ársins 1961, þótt stopul væri sjósóknin á síðari áratugum einkum vegna aflaleysis. Þó aflaðist bara vel í þeim fáum róðrum sem farnir voru 1961.

Í Suðursveit

Fyrstu munnmæli um sjósókn í Suðursveit herma að Hrollaugur Rögnvaldsson jarl af Mæri, sá sem Landnáma segir fyrsta bóndann á Breiðabólsstað í Fellshverfi, hafi haft verskála út á Hrollaugseyjum. Sá er þetta ritar hefði ekki viljað róa úr þeirri veiðistöð. Jafnvel þó brimið hafi síðan þvegið „hin skreipu sker" í 11 aldir er erfitt að leggja trúnað á að þar hafi á landnámsöld verið betri staður til útróðra en frá söndunum í Suðursveit. En góð fiskimið hafa löngum þótt vera í nálægð Eyjanna, m.a. góð lúðumið suðaustur úr Eyjunum. Og þangað herma munnmæli að Sunnansendingar hafi stundum róið á sumrin.

Eyjarnar virðast strandbergsklettar, sem rísa nærri lóðrétt frá botni og eins og staðhættir eru þar nú virðist útilokað að þaðan hafi verið hægt að stunda sjósókn. Hitt tel ég líklegt, að Hrollaugi eins og síðari tíma bændum á Breiðabólsstað hafi orðið tíðlitið til Hrollaugseyja, þegar hann var að „bræð´ann" af stéttinni á Breiðabólsstað. Á milli Miðeyjar og Vestureyjar eru tvö smásker. Annað þeirra er skammt vestan við Miðeyna og er uppúr sjó á fjöru og heitir Boði. Hitt er blindsker, sem aldrei kemur upp úr sjó og kallast Skuggi. Hann er mitt á milli Mið- og Vestustueyjar. Á Skugga brýtur alltaf nema ládeyða sé - sandasjóveður. Úr vestanverðri Suðursveit frá þeim bæjum, sem sést til Skugga, var mikið mark tekið á honum. Sæist ekki brjóta á Skugga lágsjávað væri, þóttu miklar líkur á að væri sjóveður. En sæist brjóta á honum lék vafi á sjóveðri.

 Fiskimiðin úti fyrir Suðursveit hafa löngum þótt gjöful og stutt að sækja á þau. En sá galli er á gjöf Njarðar, að hvergi á fjörum sveitarinnar finnst afdrep fyrir úthafsbriminu, sem oft er geigvænlegt á þessum slóðum. En hefur öll strönd Suðursveitar ávallt verið eins og illa varin fyrir úthafsöldunni og hún er nú? Heyrum hvað jarðfræðingurinn dr. Sigurður Þórarinsson hefur um það að segja í ritgerð sinni „Sambúð lands og lýðs í ellefu aldir". Ritgerð þessi birtist í I. Bindi Sögu Íslands. Þar segir m.a. á bls. 90-92:

 

„Landbrot, samfara landsigi, á vafalítið þátt í því, að aðalverstöð Norðlinga, Kambstún í Suðursveit, með útræði frá Hálsaósi, lagðist af á ofanverðri 16. öld. Orsökin er talin vera mannskaðinn mikli árið 1573, sem Biskupsannálar Jóns Egilssonar hafa eftirfarandi um að segja: „Anno 1573 varð það hið mesta manntjón undir Hálsum í Hornafirði góuþrælinn [þ.e. 9 marz], drukknuðu LIII menn, en af komst sá hinn fjórtándi einn;* þar voru eftir XV ekkjur, þær ekkert hæli áttu og engan að, utan guð einn". Vel má það rétt vera, að þessi mikli mannskaði hafi bundið endi á útræði undir Hálsum, en annað býr þó að baki. Það er, því miður ekkert einsdæmi í sögu íslenzkra fiskveiða, að verstöðvar gjaldi afhroð í báta- og mannamissi, en ekki er vitað til, að þær hafi aflagzt af þeim orsökum einum saman. Mönnum hættir yfirleitt til að ofmeta áhrif einstakra atburða, sem eru aðeins hlekkir í langri orsakakeðju. Aðstæðurnar við Hálsa eru þannig, að tvö sker, Hafnarsker og Minnasker, mynda þar, ásamt boðum og grynningum, einskonar kví, sem er opin mót norðaustri. Í sóknarlýsingu Kálfafellsstaðar frá 1855 segir svo um Hálsaker:

 

„Er það skerjaklasi nokkur, sem sjaldan sést upp úr sjó, en brýtur hvarvetna á, hann gengur til hafs og beygist aftur nokkuð til lands, og myndast þá innan hans eins og kví eða höfn, en þó eigi til nota vegna þessa að sjór gengur yfir hann allan. En í fyrri daga mun hann hærri verið hafa og þá líka besta höfn eins og sagt er".

Sú setning, sem hér er skáletruð, er lykillinn að örlögum hafnarinnar og útræðisins við hálsa. Þarna hefur framan af öldum verið allgóð höfn frá náttúrunnar hendi, hin bezta í Skaftafellssýslum, varin af náttúrlegum brimbrjótum gegn hættulegustu stormáttum, en fengsæl fiskimið fram undan og því eðlilegt að þarna yrði mikið útræði, sem vermenn sóttu víða að. Leið margra Norðlinganna þangað lá þvert yfir Vatnajökul. En sakir lækkunar skerjanna, hvort sem hún var aðallega af völdum landbrots eða landsigs, var höfnin smátt og smátt að versna og því hlaut að koma að manntjón hlytist af.

 

Ástæðan fyrir því, að bátstaparnir 1573 bundu algjöran enda á útræðið frá Hálsum, var því einnig sú, að höfnin var orðins svo léleg, að ekki þótti ráðlegt að hefja sjósókn þaðan að nýju. Það var aldarlangt starf hægvirkra, en sívirkra náttúruafla, sem hér skipti sköpum að lokum, þótti einum atburði væri síðar um allt kennt."
Hér mun vera villa í afskriftum annálsins, LIV, þ.e. fimmtugasti og fjórði, hefur orðið XIV, þ.e. fjórtándi.

 

Ef rétt er það, sem segir í Öldinni sextándu, að bátarnir hafi verið átján, sem á sjó fóru þennan örlagaríka dag og aðeins einn bátur náði landi, þá hljóta þeir sem fórust að hafa verið mun fleiri en 53, því fleiri en 3 menn hafa hlotið að vera á hverjum bát til jafnaðar. Þá væri líklegra að þennan dag hafi farist 93 menn úr Hálsahöfn eins og Þorleifur Jónsson í Hólum hefur tekið upp í bók sína Samgöngur og verslunarhættir Austur-Skaftfellinga á bls. 22 og hefur hann það úr ferðasögu Þorvaldar Thoroddsen, sem birtist í Andvara 1895. En í Öldinni sextándu segir um þennan atburð á bls. 134:

 

Fjöldi skipa með tugum útróðramanna ferst á fiskislóðum út af Suðursveit

;;Mikill mannskaði varð á góuþrælinn á fiskimiðum undan Suðursveit. Þar fórst fjöldi báta með mörgum tugum manna, er reru úr verstöð þeirri, sem nefnist Hálsahöfn. Þetta er meðal mestu sjóslysa sem verða hér við land. Þarna týndust á einum degi nær  allir bátar, sem til fiskjar ganga á þessum slóðum, og með þeim þeir menn, sem þekkja þar bezt sjólag, fiskigöngur og fiskislóðir. Aðeins einn bátur náði aftur landi af átján sem reru. Þrátt fyrir tíð slys á sjó, ber aðeins örsjaldan við, að annað eins mannfall verið í einni svipan svo að segja, og til eindæma er fært, að fjölmenn verstöð bíði annað eins afhroð."

,,Hálsahöfn er skammt frá Hestgerði í Suðursveit, og hafa Norðlingar, Þingeyingar og Eyfirðingar, haft þar verstöðu um langan aldur. Einnig munu Fljótsdælir hafa farið þangað til útróðra, auk þess sem heimamenn hafa sótt þaðan sjó. Svo er sagt, að skipið, sem af komst hafi verið eign heimamanna. Fimmtán þeira kvenna, sem misstu eiginmenn sína, eru með öllu snauðar og hafa ekki neina fyrirvinnu. "

 

            Talið er að róðrar hafi lagst niður úr Hálsahöfn eftir þennan örlagadag. Suðursveitungar hafi upp frá því löngum róið frá Bjarnarhraunssandi, sem er á fjörunni nálægt suðri frá Borgarhöfn, þó heldur vestar eða um 5 km vestan við Hálsakletta.

            Sjálfsagt hefur útræði frá Bjarnarhraunssandi aldrei verið eins gott og úr Hálsahöfn meðan hún var og hét. En Suðursveitungar áttu ekki betri kosta völ og Bjarnarhraunssandur var aðal lendingarstaður þeirra framundir 1950 eða hátt á 4. öld. En árið 1949 bar Þrándarós (Staðará), sem rennur til sjávar skammt vestan við lendinguna á Bjarnarhraunssandi, svo mikinn sand í lendinguna, að uppfrá því hefur Bjarnarhraunssandur verið ólíklegasti staðurinn á öllum Suðursveitarfjörum til úthalds. Þeir, sem heima áttu vestan Steinasands, Sunnansendindingar, reru þó ekki alltaf úr Bjarnarhraunssandi meðan útræði var þaðan. Það var löng sjávargata eða um þriggja tíma lestargangur frá Reynivöllum. Þó höfðu þeir oftast útræði þaðan á vetrarvertíð, sjaldnar á vorin og aldrei á sumrin. Ef Sunnansendingar voru ekki með sitt úthald í Bjarnarhraunssandi, þá réru þeir frá fjörunum nær sér t.d. vestast frá Kálfafellsfjöru, Sléttaleitisfjöru eða Breiðabólsstaðarfjöru allt eftir því hvar best var sjávarlag hverju sinni, einnig líka eftir því hvar auðveldast var að komast ut á fjöruna, en það gat verið breytilegt stundum nærri eins og sjávarlagið. Eftir að bílar og dráttarvélar komu til sögunnar þurfti útræðið ekki að vera eins fastbundið ákveðnum stað og áður.

            Þó að á fjörum Suðursveitar finnist ekkert afdrep fyrir úthafsbriminu, hafa sjóslys orðið þar ótrúlega fá, einkum þó ef borið er saman við verstöðvarnar á Suðurlandi. Ekki finnast heimildir um stór slys hér eftir sjóslysið mikla á góuþrælinn 1573. Reyndar stendur  svo í Öldinni sautjándu við árið 1697, á bls 213: „Þrír bátar fórust úr Hornafirði". Svo mörg eru þau orð. En eins og áður hefur verið getið í þáttum þessum virðast þeir Eggert og Bjarni og jafnvel Sveinn Pálsson einnig ekki alltaf skilgreina byggðarlög nánar en það, að allt svæðið frá Almannaskarði til Breiðamerkursands er í þeirra hug Hornafjörður. Eins gæti hafa verið á ofanverðri sautjándu öld, að minnsta kosti í munni þeirra, sem heima áttu langt í burtu. Þess vegna er ekki fullljóst úr hvaða verstöð austan Breiðamerkursands þessir þrír bátar hafa verið. Kannski ekki allir úr sömu verstöðinni. Á góuþrælnum 1871 reri eitt skip úr Bjarnarhraunssandi. Sjór var talinn góður, þegar farið var úr landi. Komist var á grynnri fiskimið og búið að draga einn fisk. Gekk þá sjór upp eins og hendi væri veifað. Róið var sem aftók til lands. Þegar inn á leguna kom, var mjög tvísýnt hvort takast mætti að lenda, en það hafðist þó, enda var formaðurinn, Halldór Jakobsson í Hestgerði, orðlagður í Suðursveit sem góður formaður.

Þá vildi líka svo vel til, að fyrir voru í fjörunni tvær skipshafnir, sem komið höfðu í fjöru eftir að sjór var farinn að ganga upp og því ekki treyst sér að róa. Voru nokkrir menn vaðbundnir í fjörunni tilbúnir að taka á móti skipi Halldórs um leið og það kenndi grunns, grípa kollubandið og halda svo fast í svo útsogin hrifsuðu ekki skipið með sér út aftur. Þessi lending þótti mjög stórkostleg og hefur löngum síðan verið rómuð í Suðursveit. Þarna voru þrjár skipshafnir, sem ekki biðu boðanna með að hjálpast að við að setja skipið upp á fjörukambinn, hvolfa því þar og ganga frá. Þennan dag reri á skipi þessu Þórður Jónsson á Kálfafelli þá unglingur nýlega byrjaður róðra, en síðar um marga áratugi formaður á Kálfafellsskipinu „Svan" sem löngum var orðlagt aflaskip. Þórður lifði fram til 1930 og þótti sannorður og langminnugur og sagði núlifandi mönnum frá þessum róðri. Svo harkalega stakkst framstafn skipsins niður í sandinn um leið og það rakst í fjöruna, að mikill sandur kom inn í barkarúm þess. Strax, þegar búið var að ganga frá skipinu á fjörukambinum héldu menn heim, en þá var kominn svo mikill rosi að sjór flæddi norður yfir fjörukambinn skammt vestan við skipin þar sem þau voru geymd á fjörunni. Gerist slíkt ekki nema í meiri rosum. Þennan sama dag urðu þau mestu sjóslys, sem sögur fara af í Mýrdal. Fórust þá 26 menn í Dyrhólahöfn segir Eyjólfur Gðmundsson á Hvoli í bók sinni Pabbi og mamma.

            Sveinn Pálsson getur þess í ferðabók sinni á bls. 219 að í Suðursveit beiti menn stefni beint að landi, þegar lent sé við brimsandinn „en ekki byrðingnum eins og gert er í Landeyjum". Einu sinni hefur sá, sem þessa þætti hefur tekið saman, séð slíka lendingu. Voru það Mýrdælingar, sem komu hér að fjörunum á áttæringi sumarið 1928 í fylgd með norsku gufuskipi, sem dreifði símstaurum hér uppá ströndina því næsta ár skyldi leggja símalínu frá Hólum í Hornafirði til Víkur í Mýrdal. Áttæringurinn var hafður til að flytja í land m.a. kúlur og króka til símans. En um leið og skipið rann í gegnum brimgarðinn og upp í útsogið sneri formaðurinn því snögglega þannig að hliðin vissi að landi um leið og það kenndi grunns. Enginn Suðursveitungur hefði séð slíka lendingu áður og leist ekki alls kostar vel á. En Mýrdælingarnir kváðust alltaf lenda þannig, nema ef vera skildi í mjög vondum sjó. En töluverða aðgæslu hlaut að þurfa til að „að renna skipinu við" á réttu augnabliki eins og eftirfarandi saga hermir:

            Það var einhvern tíma nokkru eftir síðustu aldamót, að sexæringi var róið úr Suðursveit að vorlagi í ágætu sjó. Svo stóð á að hinn rétti formaður var ekki viðlátinn að róa þennan dag. En af því að sjór var ágætur var ekki svo mjög fengist við það og viðvaningur tók að sér formennskuna. Svo þegar lent var um kvöldið fór lendingin þannig, að framstafn skipsins sneri verulega til hafs, en afturstafn leitaði því meira til lands. Komst þá kollubandsmaður ekki út með bandið, en annar bitamaður gat komist út og haldið skipinu. Einhverjir urðu til þess eftir á að bera það á „formanninn" að hann hefði tekið skakkt í stýrið í lendingunni. Ekki kvað formaður, að svo hefði verið, allt hefði þetta verið með vilja gert, en sagðist hafa ætlað að „renna skipinu við",því það hefði Halldór heitinn i Hestgerði gert. Þetta svar formannsins bendir til þess að sagnir hafi verið um það í Suðursveit, að Halldór hafi að minnsta kosti á stundum „rennt við" í lendingu, enda var hann aðfluttur til Suðursveitar. En ekki mun hann hafa haft þann stíl á við lendinguna á góuþrælinn 1871.

 

Slysfarir

            Tvisvar á þessari öld hafa orðið banaslys í fiskiróðri úr Suðurveit. Fyrra slysið varð um eða uppúr aldamótunum. Þá hvolfdi í lendingu litlum sexæringi. Einn maður slasaðist svo að hann andaðist skömmu síðar.

            Hitt slysið átti sér stað 4. maí 1920. Þann dag reru tveir áttæringar úr Bjarnarhraunssandi. Hét annað skipið Sæbjörg og var það fyrsti áttæringur Suðursveitunga á þessari öld, smíðaður 1914 af Skarphéðni Gíslasyni á Vagnsstöðum. Hitt skipið, sem á sjó fór þennan dag hét Vongóður. Þorsteinn Arason skipasmiður, formaður og bóndi á Reynivöllum smíðaði Vongóðan 1916. Þorsteinn smíðaði annan áttæring það sama ár. Var það Vonin eign Sunnsendinga. Var Þorsteinn Arason formaður á Voninni. En þar sem Sunnansendingar fóru ekki í fjöru þennan dag, kemur Vonin ekki við sögu. Umræddan morgun var sjór sæmilegur, þegar skip reru, en veðurútlit tvísýnt, enda fór svo að um nón gerði austanfrasa með snjókomu. Jafnframt brimaði sjór skyndilega. Sæbjörg kom nokkru á undan Vongóð inn á leguna. Var þá naumast hægt að segja, að nokkurt lag kæmi. Enda fór svo, að lagið, sem þeir á Sæbjörgu ætluðu á í land, reyndist of stutt. Fyrsti sjórinn í ólaginu náði skipinu, svo það stakkst á hvolf um leið og það kenndi grunns við sandinn. Þarna drukknuðu tveir menn af þeim tíu, sem á skipinu voru. Þriðji maðurinn slasaðist svo illa að hann hefur ekki borið þess bætur síðan. En skipið brotnaði svo mikið að á því var ekki farið á sjó eftir það. Að ekki skyldi þó fara verr en fór fyrir Sæbjargarmönnum má víst mikið þakka því að í fjörunni var áhöfnin af þriðja skipinu, Svan. Þeir höfðu komið síðastir í fjöru. En þegar þeir ætluðu að ýta á flot, fengu þeir ekkert lag. Settu þeir þá skip sitt upp á kamb og gengu frá því þar, en biðu svo í fjörunni þar til hin skipin komu að landi og höfðu menn vaðbundna til að taka á móti þeim.

            Af Vongóðum er það að segja, að hann kom að landi ekki löngu á eftir Sæbjörgu. Hann var talinn gangbetra skip en Sæbjörg og líklega með fleiri vana ræðara innanborðs, enda náði hann slysalaust landi með hjálp þess fjölmennis, sem fyrir var í fjörunni til að taka á móti. Árið 1806 drukknuðu tveir bræður í fiskiróðri í Suðusveit.

Bátasmiðir í Suðursveit

            Árið 1841 kom séra Þorsteinn Einarsson að Kálfafellsstað og var þar prestur til ævioka 1871. Ættir séra Þorsteins voru í Mýrdal og undir Eyjafjöllum. Segja má að með kom séra Þorsteins hefjist vakningaralda í Suðursveit, ekki þó svo mjög í trúarlegum efnum heldur í mörgu því, sem varðaði sjósókn og jafnvel landbúskap líka. Þorsteinn var mikill áhugamaður um sjósókn og reri sjálfur á sjó fyrri ár sín á Kálfafellsstað. Hann fékk mág sinn, Þorstein Sigurðsson sunnan úr Mýrdal til að koma austur í Suðursveit og hefja þar búskap. Hann bjó nokkur ár í Borgarhöfn. En síðari hluta ævinnar átti Þorsteinn skipasmiður, eins og hann oft var kallaður, heima á Sléttaleiti, og þar stendur smiðja hans enn í dag eitt húsa. Ekki er örgrannt að jafnvel á okkar dögum þykjast sumir, sem leið eiga framhjá kofa þessum, heyra hamar glymja þar á steðja einkum og sérílagi, ef þarna eru á róli ættingjar gamla smiðsins.

            Já, Þorsteinn skipasmiður þótti mikill smiður, svo mikill að engan undrar þótt hamarshögg hans syngi enn í ljósvakanum, undir Steinafjalli. Hann smíðaði öll skip, sem smíðuð voru í Suðursveit um hans daga og innleiddi nýtt lag á skipum í Suðursveit svonefnt brimsandalag, sem þótti taka eldra lagi mjög fram. Þorsteinn Sigurðsson þótti einnig ágætis formaður. Eftir fráfall Þorsteins skipasmiðs hóf nafni hans Arason að smíða skip í Suðursveit og reyndar víðar. Þorsteinn Arason þótti ekki síðri sem skipsmiður og formaður en nafni hans Sigurðsson var áður.

            Uppúr síðustu aldamótum var róið fjórum sexæringum úr Suðursveit. Þetta voru nokkuð stórir sexæringar því 10 til 12 manna áhöfn var á þeim, sennilega lítið sem ekkert minni en áttæringarnir voru, sem komu til sögunnar á öðrum tug aldarinnar. En þeir voru fullmanna með tólf. Á vetrarvertíð 1920 var fjórum áttæringum haldið út úr Bjarnarhraunssandi. En einn þeirra, Sæbjörg eyðilagðist seint á vertíðinni eins og greint er frá hér á undan. Þetta sama vor var svo Svanur ekki talinn sjófær lengur fyrir elli sakir. Það haust smíðaði Þorsteinn Arason nýjar Svan. Var það síðasti áttæringurinn, sem smíðaður var í Suðursveit og jafnframt síðasta skipið sem Þorsteinn smíðaði. Hann lést af slysförum rétt fyrir jólin 1924. Svan var fyrst róið 1921. Þá voru skipin ekki nema þrjú. Árið 1934 var Vongóður orðinn ónýtur. Fór þá saga „skipanna" óðum að styttast. Vonin gekk síðast á vetrarvertíðinni 1941. Fékk þá 178 til hlutar í sjö sjóferðum, sem líklega hefur verið nálægt metvertíð hjá því skipi, Svanur var við líði allt til 1950, en var ekkert róið fjögur síðustu árin fyrr en svo 13. apríl 1950 að farið var á sjó á honum í síðasta sinn og fengust þá 13 í hlut, reyndar ekki mikill afli, en góð vertíðarlok farsællar fleytu. Þar með var sögu „skipanna" lokið í Suðursveit.

            Á 4. áratugnum hófst tímabil „bátanna" með því að Skarphéðinn á Vagnstöðum smíðaði fögurra manna far fyrir bæina Breiðabólsstað og Hala. Auðvitað var báturinn skírður Hrollaugur þetta var árið 1935. Á þeim árum var lægð í aflabrögðum og sjósókn i Suðursveit. Árið 1939 fiskaðist vel á Hrollaug en aðrir fiskuðu ekki það árið. Ári síðar smíðaði Skarphéðinn tvo fjórróna báta. Sá þriðji var smíðaður árð eftir. Og tveimur árum síðar smíðaði Skarphéðinn fremur lítinn sexæring, sem hann sjálfur átti. Voru á þ5 bátar í Suðursveit.

            Árin 1940 og 1941 voru einhver bestu aflaár í manna minnum í Suðursveit. Sérstaklega fiskaðist vel á Hrollaug vorið og sumarið 1940 eða um 570 í hlut í 17 róðrum. Ekki hafa fréttir borist um annan meiri afla á þessari öld í Suðursveit. Aldamótakynslóðinni hefur löngum orðið minnistæður aflaveturinn 1916. En minnsta kosti nú í hálfa öld hefur verið ómögulegt að grafa upp hvað aflinn raunverulega var mikill þann vetur, enginn virðist hafa lagt það á minnið og því síður skrifað hjá sér hvað margt var til hlutar eða hvað margir róðradagarnir voru. Eitt eru þó allir sammála um, sem muna aftur til „hinna góðu gömlu daga", að á góuþrælinn tvíhlóðu allir fjórir áttæringarnir. Auðvitað var þetta stærðarfiskur svo giskað hefur verið á að um 50 hafi verið í hlut á skip eftir daginn, en enginn þykist muna það nákvæmlega. Góuþrællinn var langmesti afladagurinn í Bjarnarhraunssandi þann vetur. Óvenju oft var hægt að róa veturinn 1916, því sjávarlag var þar þá með albesta móti.

            Hér framan hefur verið talað um „skip" og „báta". Áttæringar voru „skip" svo og þeir sexæringar, sem í notkun voru framyfir aldamót, enda lítill eða enginn stærðarmunur á. Áhöfn á báðum gerðunum 10-12 menn. Hins vegar voru „bátar" fjórrónir og áhöfn 4-6 menn. Fyrr var um það getið, að Skarphéðinn smíðaði sexæringa skömmu eftir 1940. Skömmu eftir 1950 smíðaði hann svo annan sexæring, sem nú er varðveittur hjá Byggðarsafni Austur-Skaftafellssýslu. Var honum síðast róið 14. ágúst 1960. Báðir þessir sexæringar voru minni en „aldamótakynslóðin", enda fullmannaðir með 8 manna áhöfn. Þessir tveir sexæringar fengu aldrei það virðulega heiti að vera kallaðir „skip" þeir voru bara „bátar".

            Á byggðarsafninu er líka varðveittur fjórróinn bátur, sem Reynir heitir, smíðaður af Skarphéðni 1940. Honum var einnig síðast róið á sjó 14. ágúst 1960. Mátti segja að það ár legðust sjóróðrar niður í Suðursveit og þá m.a. fyrir aflaleysi. Síðast var þó róið úr Suðursveit 20. apríl 1964. Þá varð ekki fisk vart, enda varla við að búast, því sjóferð sú var mjög stutt. En til ársins 1958 var oft góður afli allt frá 1946. T.d. síðasta almennilega afladag hjá Suðursveitungum, sem var 4. júní 1958. Þann dag var Reynir þríhlaðinn á 9 faðma dýpi út af Steinum og fengust þá 156 í hlut. Ekki eru spurnir af að fleira hafi orðið til hlutar í Suðursveit á einu dægri, enda var helmingur áhafnarinnar kominn með „slóða". Hér má geta þess að frá og með árinu 1947 notuðu Sunnsendingar utanborðsmótor á báti sínum, fyrst á Hrollaugi síðan á Reyni.

            Ekki tíðkaðist að nota beitu, nema fyrir kom í miklu tregfiski að reyna „ljósabeitu". Það var að skera kverksiga úr fiski og beita honum. En oftast lét árangurinn á sér standa og berir krókarnir gáfust oft betur. Lengi vel höfðu Suðursveitungar mestu trúna á frönsku önglunum, sem þeir annað hvort fengu á ströndum eða þegar þeir komust í samband við Fransara út á sjó, sem oft bar við hér á árum áður. Einnig var svo hægt að fá samskonar öngla hér í verslunum allt framundir síðara stríð.

            Ef „bátur" eða „skip" var orðið nærri hálfhlaðið eða meira þurfti að seila út fiskinum þegar inn á leguna kom áður en lent var. Það var að fiskurinn var þræddur upp á ólar. Þær svo bundnar á stjórann. En hann var um það bil 40 faðma langur kaðall. Þegar bíð var að binda „vörðuólarnar" á annan enda stjórans var byrjað að hringa stjórann frá hinum endanum niður í austurrúmið. Var það vandasmt verk að gera það svo vel að ekki yrði hætta á flækju, því nú var komið að alvalegustu stund sjóferðarinnar, brimróðrinum, og þá reið mikið á að stjórinn gæti runnið tálmunarlaust út, svo ekki færi allt í óreiðu, þ.e. að báturinn varð að komast sem fljótast upp í fjöru eftir að formaður hafði kallað lagið og skipað að hefja brimróðurinn. Ef ekki var seilað út fiskinum væri hann eitthvað sem um munaði í bátnum, var hætta á að báturinn stæði grunn það utarlega í soginu að hann fylltist af sjó kæmi verulegur brotsjór. Gat þá fiskinum skolað út. Svo þegar í land var komið var seilin dregin upp í fjöru. Ekki var fiskinum seilað út, þegar lent var í Höfðasandi og líklega hvergi utan Suðursveitar í þessari sýslu.

Bænin má aldrei bresta þig"

            Áður en „skipi" var ýtt á flot sagði formaðurinn: „Við skulum hafa rétt og færa okkur nær". Þegar það hafði verið gert mælti formaður: „Við skulum biðja guð að koma til með okkur". Tóku þá allir ofan höfuðföt sín og lásu í hljóði sjóferðarbæn það er að segja ef þeir þá kunnu hana. En, ef einhverjir voru, sem ekki kunnu, urðu þeir hinir sömu að láta „Faðir vorið" nægja. Svo signdu menn sig og sæti sitt á skipinu. Að því búnu var sætt fyrsta lagi til að ýta á flot. Þegar komið var skammt út fyrir brimgarðinn, tók formaður ofan höfuðfat sitt og mælti: „Við skulum biðja guð að koma til með okkur í Jesú nafni". Tóku þá allir að ofan og formaðurinn fór hátt og snjallt með sjóferðarbænina. Var sú bæn eftir Bjarna Arngrímsson á Melum í Melasveit og birtist fyrst á prenti 1798. Líklega var það önnur bæn, sem formaðurinn las í heyranda hljóði heldur en sú, sem menn fóru með í hljóði í landi. Þegar formaður hafði lokið við að fara með bænina, blessaði hann yfir skipið og áhöfn þess.

            Þegar Suðursveitungar fóru að sækja sjó á „bátnum" fór undirritaður með örggari huga bænalaus frá landi heldur en eftir bænalesturinn á „skipinu". Kannski var það bara af því, að hann lærði aldrei sjóferðarbænina?

Hákarlinn

Aðeins verður að minnast á hákarlinn áður en þessu spjalli lýkur. Á 19. öldinni veiddist hér oft mikið af honum. T.d. man sá, er þessar línur ritar, eftir að Þórður Steinsson fyrrum bóndi á Hala sagði frá því, að þegar hann var sem unglingur nýlega byrjaður róðra, voru eitt sinn að vorlagi 90 hákarlar óskornir í fjörunni suður af Reynivöllum. Þetta var afli af einu skipi, Sunnansandaskipinu, sem þá hefur verið haldið út fra Reynivallafjöru vestanverðri eða austast á Fellsfjöru. Ekki þótti viðráðanlegt að veiða fleiri en 12 hákarla í einum róðri, því hákarlinn var hafður utanborðs og róið fyrir honum í land, og voru 12 hákarlar talið vera yfrið nóg „hákarlshlass" til þess að róa fyrir í land. Ekki er að efa að hægt hefur þá gengið. Þessir 90 hákarlar hafa þá hlotið að veiðast í einum 7-8 sjóferðum og aldrei orðið hlé á svo hægt væri að gera aflanum til góða. Þessi aflahrota mun hafa komið um eða rétt fyrir 1870, því Þórður Steinsson var fæddur 1854.

Um þessar mundir var gott verð á lýsi og fyrir kom að bændur seld hákarlalýsi í versluninni á Papós.

Eftir að kom fram yfir aldamótin, fór hákarlsaflinn mjög minnkandi. Síðasta hákarlalegan, úr Suðursveit var farin á Vongóð 8. júní 1932 og fékkst þá einn hákarl.

Öræfin

Úr Öræfum hefur sjósókn verið mjög lítil minnsta kosti á síðari öldum, hvergi í sýslunni er verri aðstaða til úthalds. Þó mun fyrr á öldum hafa verið nokkurt útræði frá Ingólfshöfða og þá líklega úr svonefndri Höfðavík, sem er rétt vestan við Höfðann. En þar virðist endurtaka sig að nokkru sagan úr Hálsahöfn. Náttúruöflin fordjarfa smátt og smátt verstöðina, og það kemur að því að slys verða, skip farast og áhafnir þeirra drukkna. Slys urðu við Ingólfshöfða árin 1746 og 1758. Eftir það var mönnum orðið ljóst að verstöðin var orðin ónothæf og þar sem ekki var í annað hús að venda með útræði í Öræfum, þá lagðist sjósókn að mestu af í þeirri sveit.

Krydd í tilveruna

Vegna hafnleysis í þessari sýslu varð naumast um mjög marga róðrardaga að ræða á ári hverju. Ef til vill hafa þeir þó stundum verið eitthvað fleiri annars staðar í sýslunni en í Suðursveit vegna slæmrar aðstöðu þar til sjósóknar. Á móti gat þó komið að oft var meiri aflavon á miðum Suðursveitunga en annars staðar á miðum Austur-Skaftfellinga. Í Suðursveit má kannski finna aðeins dæmi þess að einn og sami maður hafi farið allt að átján daga á sjó á einu ári. En algengasti róðrarfjöldinn gat orðið svona 6-7 yfir árið, þó stundum mun færri. Nú skyldi ætla að 6-7 sjóferðir á ári og stundum færri hefðu ekki getað orðið snar þáttur í lífinu í sveitinni. En skoðum það ögn nánar. Komið gat fyrir að ekki þyrfti nema 2-4 góða afladaga til að heimilið fengi nægan ársforða af fiski. Og það var mikið borðað af fiski á þeim árum, þegar vel veiddist. Sumt var verkað sem harðfiskur, en megin hluti aflans var léttsaltaður siðan breiddur upp og sólþurrkaður. Og væri hann svo geymdur hæfilega lengi var hann orðinn herramannsmatur, enda borðaður flesta rúmhelga daga ársins nema annað veiðifang kæmi til.

En þó sjóferðir yrðu kannski ekki nema 3-4 á árinu, gátu þær orðið ógleymanlegt ævintýri eins konar stórhátíðar, sem risu upp af flatlendi rúmhelginnar, krydd í tilveruna, sem bragðbætti mannlífið árið um kring. Algengt umræðuefni manna voru sjóferðir og ýmislegt, sem þeim var tengt. Menn sögðu gjarnan sögur af sjóferðum sínum eða annarra. Þeir sögðu nýlegar eða gamlar sjóferðasögur eftir atvikum. Og þeir lifðu aftur upp í huganum, þegar þeir voru að bylta honum inn í bandóðum, alteknir veiðigleði á ný. Og ungir drengir hlustuðu hugfangnir á eldri mennina og biðu fullir væntinga þess tíma, er þeir fengju aldur til að verða þátttakendur í ævintýrinu.

Og hvað svo nú, ungu menn? „Nú er hún Snorrabúð stekkur" var einu sinni kveðið.

Langi einhvern að frétta meira af sjóróðrum í Suðursveit, skal þeim hinum sama bent á greinina „Sjósókn í Suðursveit" eftir Steinþór Þórðarson. Greinin er í Skaftfellingi I. árg. 1978 bls. 101-137.

         (Birtist í Skaftfellingi, 11. árgangur. 1996)

Torfi Steinþórsson Hala

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463