Skip to main content

Frásögn úr Suðursveit 1948

Frásögn þessi var birt i dönsku blaði 1947 og er eftir Jón Þorsteinsson sem var Svarfdælingur, og starfaði sem íþróttakennari við Lýðháskóla í Rysting í Danmörku, en kom til Íslands eftir stríðið 1945, og réðst íþróttakennari í einn mánuð við unglingaskóla í Suðursveit.

Vilhjálmur Guðmundson þýddi og flutti sem inngang að ræðu sem hann flutti á uppskeruhátíð í Suðursveit, sennilega haustið 1948.

 Frásögn Jóns Þorsteinssonar

Þar sem þýsku flóttamennirnir voru áfram í Rystinge, ákvað ég að vera um veturinn á Íslandi. Skólarnir þar höfðu byrjað starf sitt og ég gat ekki fengið fasta atvinnu, en svo fékk ég tilboð um að kenna við skóla á Suðausturlandinu, í Suðursveit og tók ég því. 

 Þangað voru um 800 km með flugvél og kostaði ferðin um 500,00 kr. Kaupið var 1400,00 kr á mánuði, ókeypis dvöl og hálfur ferðakostnaður. Í Suðursveit kenndi ég í einn mánuð fimm stúlkum og fjórtán piltum á aldrinum fjórtán til seytján ára. Sveitin er fimmtíu km löng og þar búa hundrað og áttatíu manns. Það er mjó strandræma milli úthafsins og Vatnajökuls.
Skóla og samkomuhús höfðu bændurnir sjálfir byggt. Ríkið lagði tvo fimmtu hins áætlaða byggingarkostnaðar og það dugði fyrir efni, svo við fáum húsið fyrir ekkert sögðu þeir. Ef bóndi þurfti að byggja hús komu nágrannarnir og hjálpuðu honum. Kirkju sóknarinnar höfðu þeir byggt á sama hátt. Ég var þannig af tilviljun kominn í alíslenskt umhverfi, hafði lent þarna innan um íslenskan aðal, menn sem naumast höfðu tekið hin svo kölluðu menningargæði í þjónustu sína, en báru enn hlýtt og viðkvæmt hjarta undir vaðmálsstakki sínum. Aldrei sá ég þá eiga annríkt en án efa  náðu þeir þangað sem þeirra ætluðu sér.

Kennarinn og átta drengir áttu ca 8 km leið til skólans. Þeir óku í íslenskum hervagni (stækkuðum jeppa). Leiðin lá yfir sandauðn, sundurskorna af straumhörðum jökulám. Oft kom það fyrir að bíllinn komst ekki leiðar sinnar sakir vatnavaxta, þá gripu menn til fyrirrennara hans, hestanna, sem óðu hinar ægilegu gruggugu ár, með hægum en öruggum skrefum. Þótt bíllinn væri settur í gang kl. átta kom oft fyrir að hann náði ekki til skólans fyrr en um hádegi. Enginn vélfræðingur var í sveitinni, og bílvélin var ekki alltaf í lagi, reimin sem snýr rafli og viftu slitnaði, reim úr sundurskornum hjólbarða eða samanslungin kaðalspotti dugir aðeins stuttan tíma, en nýja reim var ekki að fá. Þegar þannig var ekla á rafstraum var náttúrlega hvorki hægt að nota startara eða ljós. Vatn var í bensíninu, oft varð að losa leiðslurnar og þurrka þær, vatnskassinn var fullur af riði, einnig hann varð oft að taka upp kvölds og morgna. Já það getur margt hent einn bíl. Aldrei sá ég þurrð á þolinmæði farþeganna, þegar bíllinn stansaði í einhverjum álnum greip einn, án þess að hika, sveifina og hljóp út í ískalt vatnið. En hvað drengirnir voru innilega ánægðir, þegar þeir að lokinni kennslu komust aftur að bílnum sínum.

Gengi illa að koma bílnum af stað, skemmtu þeir sér við dans, kennarinn var lærður danskennari og nutu nemendur hans góðs af því. Tveir drengjanna höfðu æft sig í að leika á harmonikku og þeir skiptustá að sjá um danstónlistina. Leikfimi var þeim ný kennslugrein, við bjuggum tl jafnvægisbekk úr borðum frá gamla samkomuhúsinu, en hvað þeir voru áhugasamir. Ef ég mætti dæma eftir þessum nemendum mundi það vera mjög ánægjuleg staða að vera flokksforingi, ef leikfimi yrði sýnd hér. Í dönsku tímunum var einnig mikill áhugi, þegar ég sagði frá hinum hraustu molbúum var hlegið dátt er það átti við.

Hér eru menn vanir að halda á hverju ári þriggja daga samkomu fyrir alla sýsluna. Mætti líkja henni við haustmót lýðháskólanna. Ég hjálpaði til við að smíða bekki til að hafa næg sæti á samkomunni og komst þá í kynni við bændurnar. Þeir eru nefninlega eins og jótarnir, í því að þeir vilja þekkja fólk dálítið áður en þeir tala opinskátt. Hér um bil tvö hundruð manns sóttu mótið, þar voru haldnir tveir fyrirlestrar á dag og umræðuefni með ákveðnum framsögumönnum á kvöldin, menn ræddu um stofnun nýbyggðahverfa á heppilegum stöðum, auðvitað með félagsrekstri, um ríkis- og einkaeignarétt urðu miklar umræður. Það var rætt um áfengi og unga fólkið heilt kvöld. Umræðurnar voru skírar og þaulhugsaðar. Ég átti að tala eina klukkustund á hverjum degi og talaði um Danmörku á hernámsárunum, það væri synd að segja að ekki hefði verið tekið eftir því sem ég hafði að segja, en þegar ég síðasta daginn sagði frá dönsku lýðháskólunum og haustmótum þeirra þá var þar ekki aðeins hlustandi söfnuður, maður gat fundið hvernig fólkið drakk í sig þennan blæ frá bræðraþjóðinni. Þátttakendurnir gistu á næstu bæjum, en kvöldverðinn höfðu þeir með sér og átu þarna í þessum litla sal. Svo var efnt til dansleiks síðustu nóttina og dansað alla nóttina allt til að birti í austri undir morgun
Heim var haldið á hestbaki eða á opnum vörubílum, fyrir suma var það fimmtíu km löng leið, ég stóð skjálfandi í dyrunum meðan ökutækin hurfu í hrímþoku hins gránandi dags.

Jólin nálguðust og snjór fór að falla. Kindurnar voru teknar í hús, en hestarnir urðu að halda áfram að naga frosið grasið heim við bæina enn um sinn. Kýrnar eru fáar og afurðir litlar. Smjör og mjólk gengur til heimilisnota, hér er ekkert átt við að mæla fitumagn mjólkurinnar og maður smyr brauðið án þess að hugsa um smjörið. Sauðkindurnar gefa tekjur heimilisins af þeim eru fimmtíu til hundrað á hverjum bæ. Sé talan aukin tapast það í minni þunga. Hið hrjóstruga haglendi sveitarinnar getur aðeins borið takmarkaðan fjölda, jafnvel af þessum nægjusömu skepnum.

Ein vika til jóla. Yfir öllu Íslandi geysar vetrarstormurinn í almætti sínu, öll umferð truflast og síminn er í ólagi. Í Suðursveit nuddast gamall Ford-bíll gegnum snjófannirnar, með skóflum og járnkörlum brjótum við honum leið. Árnar eru afleitar yfirferðar, sumstaðar eru ísspangur þar sem vera má að bíllinn geti brunað á fullri ferð. Við hættum á það, það er engin önnur leið. Stormurinn æðir og við höfum komist tuttugu km áfram, en nú erum við algerlega stopp við á, sem er hálfur annar metri á dýpt. Bíllinn snýr við en hreppstjórinn og ég vaða yfir með farangurinn, eftir að hafa gengið fimm km leið náðum við til næsta bæjar, en þar beið okkar jeppi hreppstjórans,  bilaður. Við strituðum við að gera við hann í tvo daga en þá gátum við loks ekið. En þá var komin asahláka, við þurftum yfir þrjú hundruð metra breitt vatnsfall og það var ekki árennilegt. Jeppinn fékk nú keðjur á öll hjól og hreppstjórinn renndi honum út á, ísinn seig, lægðin eftir bílinn varð dýpri og dýpri, keðjurnar á aftur hjólunum hjuggu göt í ísinn og óteljandi gossúlur stigu upp í bílbrautunum.
Nú heyrðust brak og boms og aðeins efri hluti jeppans stendur upp úr vökinni. Ég dríf mig út, dett, brölti áfram og kemst til hreppstjórans, þetta er nú meira andskotans brasið segir hann með heimspekilegri ró, við brjótum ísinn og gerum vökina stærri, bíllinn fer í gang, vélin suðar og vatnið spýtist, annað framhjólið nær haldi og jeppinn stendur nærri því upp á endann, líkastur litlum hvolpi sem hefir lagt framlappirnar upp á brúnina á kassanum sínum, bæillinn suðar og hvæsir í vökinni, svo skeði kraftaverkið skerandi brrrr , bíllinn og hreppstjórinn, þeir voru nú það eina sem ég þá stundina byggði von mína á - brunuðu eftir ísnum, og í þetta sinn náðu þeir yfir. Eftir voru fimmtán km um sand og leðju, öðru hverju sat bíllinn fastur og drap á sér, ég varð að fara út og snúa honum í gang á meðan hreppstjórinn sogaði inn á hann. Þannig snigluðumst við áfram í fyrsta og öðrum gír og með drif á öllum hjólum.

Næsta dag kom flugvélin en þar sem veður var vont var för hennar frestað. Milli flugvallarins og bæjarins er fjörður um eins km breiður,  bátinn rak á land undan stormi og straumi,  nokkrir menn óðu út í og losuðu bátinn, en þá hafði gildur kaðall snúist í skrúfuna, svo vélin gat ekki gengið, átta menn reyndu að komast yfir í róðrabát þeir komust aðeins fáa faðma þá brotnaði ár og bátinn fyllti af vatni. Á fjórum dögum hafði ég komist fimmtíu km, sjö hundruð og fimmtíu átti ég enn ófarna, nú var föstudagskvöld en jólin á mánudag.
„Heldur skal ég nauðlenda á söndunum en vera hér um jólin", sagði flugmaðurinn og svo lögðum við af stað, þrír menn í níu manna flugvél, þrátt fyrir versnandi veður. Flugvélin steypti stömpum, Bensi gamli söng sálma. Þegar við flugum yfir Suðursveit, sendi ég mína síðustu kveðju. En hvað sveitin var nú eyðileg yfir að líta. Jöklar, himinn háir tindar og lítil rönd af láglendi. Fyrr á tímum höfði verið hér víðlend engi, en sandfok og jökulár höfðu herjað af miklum móði. Hvað lengi geta hinir nægjusömu íbúar staðið í stríðinu við náttúruöflin? Verði þeir hraktir af hólmi mun einn gróðurhólmi sögueyjarinnar hverfa í gleymskunnar sjá. Nú sendi ég þessum ágætu mönnum síðustu kveðju og þökk úr þúsund metra hæð. Án efa höfðu þeir kennt mér meira heldur en ég, kennarinn frá útlöndum gat kennt þeim.
Hinn danski lýðháskólaheimur og bændafólkið í Suðursveit berjast hvort á sínum stað fyrir hinum sömu lífsverðmætum. Framtíð beggja landanna byggist að verulegu leyti á sigri þeirra í baráttunni.
                         Jón Þorsteinsson

 

Þessari mynd af okkur bregður gesturinn upp fyrir félögum sínum í öðru landi, en hann dvaldi hér í rúman mánuð fyrir tveimur árum síðan . Við getum verið harðánægð með þessa mynd. Þó að erfiðleikarnir séu ef til vill ofurlítið stækkaðir frá því sem venjulegt er, þá skín samúðin og mér liggur við að segja aðdáun út úr hverri setningu. Ýmsir aðkomumenn, útlendir og innlendir hafa sagt álit sitt á sveit okkar og sýslu. Sumir sjá fátt gott í fari okkar eða vors foreldris, en fáir munu eins hjartanlega velviljaðir eins og þessi Svarfdælingur.

Okkur finnst að hinn ættgöfgi landnámsmaður þessa héraðs muni ekki hafa verið stórbrotinn maður. Faðir hans lýsir honum svo að hann hafi það skap að engin styrjöld fylgi, en þó muni hann þykja mikils verður þar sem hann taki sér bólfestu. Af niðjum hans fara litlar sögur stórræða eða hryðjuverka utan Flosa og hans félaga, og seinþreyttir voru þeir til vandræðanna. Hæst bera í fornum sið friðarhöfðingjann Hall af Síðu og hinn glæsilega fyrsta Hólabiskup, Jón Ögmundsson. Því áliti hefur verið lýst, að Skaftfellingar hafi lítinn hlut átt í opinberum erjum og málaferlum. Við nánari athugun kemur mér það svo fyrir sjónir að þeir menn sem sagnir eru um að helst hafi átt í erjum og illdeilum, hafi verið aðfluttir, bendir þetta til þess að Hrollaugsskapið, hafi verið nokkuð rótgróið í niðjum hans og hans félaga. Samkvæmt kenningu Hávamála ætti umhverfið þó að hafa öfug áhrif á íbúana. Þar segir svo „Lítilla sanda, lítilla sæva, lítil eru geð guma" Það merkir að þeir sem búa við smágert náttúru umhverfi eru litlir fyrir sér.

Satt er það að fáir eru þeir héðan úr héraði, sem borið hafa merki fyrir þjóð sinni. En vera má að hin þrotlausa barátta við náttúruöflin, ásamt einangrun vegna erfiðra samgönguskilyrða, hafi orðið til þess að fólkið hér hafi meir lifað inn í sjálft sig. Enn er það að sá hugsunarháttur hafi verið ríkjandi, sem lýsir sér í hendingum. „Heima er best, já heima vil ég vera". Og er það síst að lasta. Hitt ber að virða og meta er ungir menn og konur hrinda heimdraganum, og vilja út til fanga. Ekki fyrst og fremst til að afla fjár og metorða, heldur miklu fremur þekkingar og menningar. En ánægjulegast er þó, er hinir sömu koma heim aftur, þangað sem vaggan stóð og miðla ættingjum og uppvaxandi kynslóð af þeim hinum andlega sjóði, er safnast hefir. Kveikja nýjan lífsneista í huga æskumannanna og löngun til að gera heimabyggð sína heppilegri dvalarstað komandi kynslóðum en hún hefir verið feðrum og mæðrum.

,,Og svo er sem moldin sú
sé manni þó skyld
sem mæðrum og feðrum er vígt."

Það er ánægjulegt þjóðþrifaverk að hlynna að átthagaástinni, þessum veika vísi, sem verður hjá flestum til við móðurhnén, á heimaþúfunni eða túnbrekkunni við bæjarlækinn, en kann síðar að teygja rætur sínar lengra og sjúga sér þrótt víðar að, frá átthögunum og ættarjörð, náttúru hennar og þjóðlífi, söngvum skáldanna og störfum hagleiksmanna, samtíð og sögu liðinna alda. Og síðar verður honum vaxinn sá styrkur, er getur snúið Gunnari heim aftur, þó að líf liggi við, dregið örvarodd frá konungdómi og sólríki suðurlanda, norður í heim til að bera beinin á berurjóðri, og lagt á varir væringjanna, sem unnið hafa afreksverk og mikinn orðstýr út um heim, þá hinstu ósk að ,,í vöggunnarlandi skal varðinn standA"Víst finnst okkur, því miður, að enn eigi við orðin hans Jónasar í Gunnarshólma, „dauft er í sveitum hnípin þjóð í vanda". En ég vil þó enn um sinn halda fast í þá von að þau sannist á sveitinni okkar orðin hans þar á eftir „En lágum hlífir hulin verndarkraftur".

Já það er þjóðþrifaverk að hlynna að ættjarðarástinni, en hitt er þó ekki síður mikils vert, að vinna að því að hún verði ekki hordauða á heimaþúfunni. En svo kalla ég það ef lífafkoma og  möguleikar heimabyggðarinnar eru ekki sambærilegir við afkomu annara héraða landsins.

            Suðursveit hefur ekki verið eftirbátur annara hreppa sýslunnar til félagslegra átaka. Þegar kaupfélagshugmyndin var að ryðja sér til rúms hér um slóðir, voru Suðursveitungar þar fremstir í flokki. Og síðar á erfiðleikaárum kaupfélagsins átti það hér lengi vel sína styrkustu stoð, bæði að því er kom til þroskaðrar félagshyggju og fjárhagslegs styrks verum þessa minnug og stöndum fast saman um kaupfélagið, þó að kaupmannaliðið og leppar þess bjóði gylligjafakjör um sinn. Veit ég þó að vorkunnar er á þar sem forusta félagsins er nú eigi svo örugg sem skyldi. En við eigum þó alltaf rétt til íhlutunnar þar úr að bæta. Í ferðavísum sínum segir Jónas Hallgrímsson um Suðursveit:

„Suðursveit er þó betri
en Seltjarnarnesið var.
Taðan er töluvert meiri
og tunglið er rétt eins og þar".

Nú er svo komið að Seltjarnarnesið er börnum þessa lands hinn eftirsóttasti staður. En nú höfum við fullan hug á þvi að stækka túnin okkar svo að þau gefi af sér jafnvel meiri töðu en túnin á Seltjarnarnesinu gera nú, og leiða ljós og yl um sveitina frá vötnum. Tækist það mætti svo fara að Suðursveit yrði að minnsta kosti sonum sínum og dætrum, ekki síður eftirsóttur staður en borgin á Seltjarnarnesinu.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 257
Gestir þennan mánuð: ... 6189
Gestir á þessu ári: ... 6274