Skip to main content

Veðurárdalur

Þobjörg Arnórsdóttir 
135478233 10220224002604104 3308776689397454788 nVeðurárdalur, Illagil, Hellrafjall, Hellrafjallsnöf, Miðfell í Veðurárdal, Miðfellsegg, Útigönguháls, Fauski. Öll þessi nöfn vekja upp minningar um löngu liðna tíð þegar setið var í eldhúsinu á Gamla Hala og skeggrætt fram og til baka um þessar fjarlægu og fáförnu slóðir. Þær voru amk. fjarlægar í hugum þeirra sem töldu að varla væri fært þangað nema fuglinum fljúgandi og fáeinum ,,ofursmölum" af Breiðabólsstaðarbæjum. Þegar haustaði að var farið að leggja á ráðin um Veðurárdalsgöngu og spennan óx með degi hverjum. Veðurárdalsgangan var nefnilega engin venjuleg ganga. Það þurfti að draga fram gömlu heimasmíðuðu jöklabroddana, treysta vel klettaböndin og velja góða veðurspá. Ræða um hverjir ættu að fara innfyrir og hverjir standa fyrir á Hellrafjalli, hvort sést hafi fé í Fellsklettunum, ræða um hvort sú tvílembda á Bjarnarák væri þar enn og svo framvegis.

Og svo rann upp stóra stundin. Það átti að smala Veðurárdalinn. Lagt var af stað í bítið, sól skein í heiði og mikil tilhlökkun lá í loftinu. Eftir að brautin inn eftir var rudd var leiðin að jökli mun auðveldari Það flýtti fyrir og stytti gönguna til muna. Tveir fóru inn fyrir, alla leið inn á Beygju. Gengið var á jöklinum, yfirleitt um tvo klukkutíma, þó var misjafnt hversu gott færi var. Stundum var jökullinn sprunginn og illfær og fara varð í land við Útigönguháls. Tveir eða þrír fóru í humátt á eftir í fyrirstöðu á Hellrafjalli, ekki mátti missa féð niður fyrir gilið heldur varð að halda því upp á pöllunum neðan við Miðfellið til að ná því fram í Fellstúnabotn. Innri menn þurftu að vonast eftir góðri landtöku af jöklinum, fremri menn gátu farið af jöklinum með því að klöngrast upp klett yfir á Hellrafjallsnöfina. Þeir sem lengra fóru áttu mörg sporin eftir í erfiðum skriðum og hjöllum. Annar þeirra kom fram úr Fauskatorfum og niður í Fauskabotn og þaðan áfram austur og kom síðan neðarlega í Útigönguhálsinn. Hinn fór efst fram úr Fauskatorfum og upp í Fauskabotn og þaðan upp í Miðfellsegg. Smala þurfti fé af Hellrafjalli upp í Miðfell, standa síðan fyrir og hóa fénu sem kom að innan, upp og rétta leið fram, yfir eggina í um 800 metra hæð, - upp í Fellstúnabotn. Að missa féð niður á Hellrafjall var ávísun á mikil vandræði, líklegt að það hafnaði í klettunum eða lenti niður í Illagil. Alls staðar var þverhnípi niður á jökulinn og algerlega ófært meðfram honum eins og gefur að skilja.
 
Þeir sem heima voru fóru að huga að því að koma sér inn í Þröng um kaffileytið. Engin fjarskipti voru og því varð bara að bíða og sjá hvenær fé og menn kæmu yfir eggina yfir í Fellstúnabotn. Torfi Steinþórsson fór mjög að ókyrrast strax eftir hádegi og réð ferðinni inn í Þröng lengi vel. Oftast var hann mættur með kíkinn fyrstur manna. Ekkert sást til smalamanna frá því að þeir komu yfir eggina, fyrr en þeir birtust á Rákinni sem lá fram úr klettunum neðan við Fellstúnabotn. Hitta þurfti á þessa einu klettarák með fjárhópinn til að koma honum niður úr botninum og niður í skriðurnar. Stundum laumaðist einn göngumanna á undan fjárhópnum eftir Rákinni til þess að standa fyrir í Útigönguklettum. Eins og nafnið á klettunum bendir til voru kindur nánast glataðar ef þeir misstu þær fram í klettana. Dæmi var um að þar gengu kindur úti, þar sem erfitt var að fara um þá kletta og ná fénaði niður. Stundum fór einhver knár að neðan til að standa fyrir og beina fénu niður í Skógartorfurnar og þaðan niður á jafnsléttu. Rákin sem gengið var eftir var nokkuð löng og örmjó og laus í sér á kafla. Einhverjir fóru hana í bandi til að vera öruggir. Skilja varð fé eftir inn í dal frekar en eiga á hættu að lenda í myrkri, því þá var nánast ómögulegt að finna Rákina eða snúa við fram jökul.
 
Við sem heima vorum, konurnar með börnin og annað heimilisfólk vildum sem flest komast inn eftir að fylgjast með. Það var óneitanlega sérstök sjón að sjá menn og skepnur þræða sig fram eftir Rákinni, spennandi að fylgjast með og sjá hvernig myndi nú ganga að koma fjárhópnum niður skriðuna. Mjög var misjafnt hvernig fénaðist, oftast voru þetta um 30 - 40 kindur seinni árin, en ef vel gekk gátu það verið allt að 60 fjár. Fé var vænt sem kom úr Veðurárdal og því var á tímabili nokkuð margt fé sem gekk þar og dæmi var um að um 80 fjár hafi komið fram í einni smölun.
 
Smalamenn á Breiðabólsstaðarbæjum gætu án efa sagt margar sögur af ferðum sínum um þessar slóðir og eltingarleik við erfiðar rollur, sigra og ósigra, og óteljandi spor við að standa sig í að sinna skyldum bóndans, að koma fé sínu heilu til byggða áður en veturinn lagðist að.
 
Þegar ég hafði átt heima á Hala í 23 ár nánar tiltekið árið 1995 fór ég í fyrsta skipti í Veðurárdal. Við hjónin röltum þarna inn eftir í góðu veðri og með okkur í för var Ragnar yngsti sonur okkar aðeins fimm ára að aldri. Eiginlega ætluðum við upphaflega bara aðeins upp á jökulinn sem þá lá mikið framar en nú er, á að giska 2 - 3 kílómetrum framar og var um 200 - 250 metra þykkur inn við Hellrafjall. Það var gott færi á jöklinum, Ragnar var knár til göngu en óöruggur að hafa bara hjarnið undir fótunum. Okkur miðaði hins vegar vel og eftir um það bil 30 mínútna gang á jökli sá ég hið alræmda Illagil í fyrsta skipti. Efst í því voru grænir básar og mér er í minni þegar Fjölnir rifjaði upp að það hafi verið 1968 sem hann fór þarna ásamt fleirum að taka kindur úr svelti. Þá höfðu þeir komist beint af jöklinum upp í gilið. Básarnir voru stutt frá fjallsbrúninni frá okkur og séð og algerlega með ólíkindum að jökullinn hafi verið svo þykkur þarna fyrir um 30 árum þá, - nú eru það orðin 52 ár.
 
Það var gott færi á jöklinum og vorum við komin inn að Hellrafjallsnöf eftir eins og hálfs klukkutíma gang. Fjölnir hafði brugðið klettabandi um öxl sér eins og siður var ef fara átti í fjöll, og tosaði hann okkur þarna upp klettinn, sem var um þriggja mannhæða hár. Ragnari leyst reyndar ekkert á þetta fimm ára barninu og varð ansi hræddur,- en við reyndum að sannfæra hann um að ekkert væri að hræðast, pabbi væri alvanur að fara hér um. Þarna komst ég í fyrsta skipti í návígi við Útigönguháls, Miðfell og Hellrafjall, og sá loks öll þessi kennileiti sem svo oft höfðu verið til umræðu þau ár sem ég hafði búið á Hala. Það vakti undrun mína hve lítill gróður virtist vera þarna í þessu gósenlandi, þar sem vænstu dilkar Sunnansandabænda áttu að hafa alist upp. sumarlangt. Klettaveggir slípaðir af jökulfargi og skriðuhlaupnar fjallshlíðar einkenndu landslagið, varla stingandi strá að sjá nema á stöku stað, helst í væsum og lækjarfarvegum. En mikið hafði maður forframast þennan dag að afreka það að komast í mynnið á Veðurdal og sjá með eigin augum þetta ævintýraland. Á leiðinni fram eftir klöngruðumst við í skriðunni til hliðar við jökulinn rétt áður en við komum á ,,fast land"til að renna ekki á hálum ísnum þar sem brattinn var mestur. Þá ræddum við um að einhvern tíma yrði nú hægt að reka fé með fram jökli, en óvíst að maður lifði þá daga, en sennilega þó börnin okkar, alla vega hann Ragnar sem hafði staðið sig svo vel í þessari ævintýraför.
 
Nýársgangan okkar 2. janúar 2021 var einmitt um þessar slóðir. Nú eru liðin rétt 25 ár síðan ég fór þarna fyrst. Við ókum eftir slóðanum góða, sem nær alla leið að Illagili eftir að hann hefur verið framlengdur nokkrum sinnum. Þar eru bílastæði og voru þar fáeinir bílar. Illagil ber nafn með rentu og blasir við, mér tókst að koma auga á básana efst í gilinu, þar sem náð var í kindur í svelti árið 1968. Niður á jökulurðina fyrir neðan eru áreiðanlega 5 - 600 metra klettaveggur. Það sést glitta í kantinn á Breiðamerkurjökli langt fyrir innan, framundan er hálftíma gönguferð inn að jöklinum yfir jökulklappir, grjót og urðir. Veðurárdalur er galopinn til vesturs. Hellrafjallsnöfin gnæfir yfir okkur á leiðinni inn eftir, standberg skafið af hrammi jökulsins. Kletturinn sem við Ragnar vorum hífð upp af jöklinum fyrir 25 árum er einhvers staðar þarna upp við brúnina. Jökullinn er á móts við miðjan Útigönguháls í dag. Útigönguhálsinn er reyndar myndarlegt fjall sem gnæfir nú yfir, nær alveg laus við fjötra jökulbreðans. Það er af sem áður var. Komin er göngubrú yfir ána sem rennur þarna frjáls niður á aurinn og þarf ekki að finna sér leið lengur undir jöklinum eða eftir jökulsprungum fram á sandinn.
 
Það eru reyndar bara 5 - 6 ár síðan hægt var að reka féð úr dalnum fram með jökli með góðu móti, nú er það greið leið. . Þetta gerist með ógnarhraða. Jökullinn er eins og dauður, hann fær ekkert aðrennsli, verður brátt kominn inn að Fauska ef fram heldur sem horfir. Í staðinn fyrir ær og kýr í Suðursveit eru flestir með atvinnu við að taka á móti ferðamönnum og leiðsegja þeim um undralendur jökulsins. Vart er hægt að hugsa sér nokkurn stað magnaðri til útiveru eða áhrifameiri til kennslustundar um hlýnun jarðar. Í stað þess að nýta það sem náttúran gaf erum við að njóta þess að fara um landið. Og þessi breyting telur nú minna en eina mannsævi,. Ragnar er nú 30 ára , gaman væri að geta verið vitni að því hvernig þarna verður umhvorfs þegar Vilma og Matilda verða komnar á fertugsaldurinn en þær voru með okkur í þessari skemmtilegu ferð.

  • 135254671_10220223465790684_3760109771679471289_o
  • 135268692_10220223466830710_89145512694640501_o
  • 135304965_10220223475830935_7961047760836808681_o
  • 135364275_10220223472070841_7152245951006462113_o
  • 135375177_10220223460950563_2525503685570058697_o
  • 135383731_10220223462070591_6676141028804574078_o
  • 135389410_10220223474750908_7584720035513433914_o
  • 135461166_10220223904001639_4201362881007031429_o
  • 135462313_10220223449630280_5719986592208186800_o
  • 135470970_10220223444750158_3787444115032329727_o
  • 135478227_10220223442310097_6184638901299132549_o
  • 135478233_10220224002604104_3308776689397454788_n
  • 135483155_10220223443430125_2632518169310327956_o
  • 135492081_10220223471070816_3678165243980483186_o
  • 135492278_10220223475390924_4415118724471222631_o
  • 135536262_10220223467390724_3889705791558028152_o
  • 135602297_10220223472670856_8911657591271785683_o
  • 135618476_10220223464670656_7512503731995601576_n
  • 135683885_10220223471390824_1639230532225210246_o
  • 136639339_10220223463790634_1752161236216579797_o
  • 135254671_10220223465790684_3760109771679471289_o
  • 135268692_10220223466830710_89145512694640501_o
  • 135304965_10220223475830935_7961047760836808681_o
  • 135364275_10220223472070841_7152245951006462113_o
  • 135375177_10220223460950563_2525503685570058697_o
  • 135383731_10220223462070591_6676141028804574078_o
  • 135389410_10220223474750908_7584720035513433914_o
  • 135461166_10220223904001639_4201362881007031429_o
  • 135462313_10220223449630280_5719986592208186800_o
  • 135470970_10220223444750158_3787444115032329727_o
  • 135478227_10220223442310097_6184638901299132549_o
  • 135478233_10220224002604104_3308776689397454788_n
  • 135483155_10220223443430125_2632518169310327956_o
  • 135492081_10220223471070816_3678165243980483186_o
  • 135492278_10220223475390924_4415118724471222631_o
  • 135536262_10220223467390724_3889705791558028152_o
  • 135602297_10220223472670856_8911657591271785683_o
  • 135618476_10220223464670656_7512503731995601576_n
  • 135683885_10220223471390824_1639230532225210246_o
  • 136639339_10220223463790634_1752161236216579797_o

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463