Skip to main content

Berjaferð

Það mun hafa verið einhvern tíma eftir 1940 að Þórbergur og Margrét voru í heimsókn á
Hala, ég hef sennilega verið 10 – 12 ára gamall. Margrét ákvað að ná sér nú í gott
búsílag með því að tína ber. Ingólfur Guðmundsson, þá vinnumaður á Reynivöllum átti
litla járntunnu, svona lítinn kút, gæti hafa tekið 40 – 50 lítra, sem hann gaf Margréti og
hún setur sér það markmið að fylla nú kútinn af berjum. Þau komu því á hverjum degi
Margrét og Þórbergur gangandi inn að Reynivöllum frá Hala og við bræðurnir Þorsteinn,
kallaður Daddi og ég, Sigurður vorum ráðnir sem verkamenn hjá þeim við berjatínsluna.
Fórum við gangandi inn í Hólmafjall sem er nokkurn spöl frá Reynivöllum, en fara þarf
vestur yfir Fellsána til að komast þangað. Ætla má að sé um eins og hálfs tíma gangur frá
Hala þangað til komið er í berjalandið í Hólmafjall. Það var mikið af berjum þetta haust
og dvöldum við þarna daglangt við að tína ber og þessi berjatínsla stóð sennilega í
vikutíma, því ekkert var gefið eftir með það að fylla átti tunnuna af berjum. Margrét var
verkstjórinn og stjórnaði berjatínslunni með harðri hendi og hélt okkur verkamönnunum
að verki.

 

Allt var tínt með höndum því á þessum árum voru engar tínur og það var
harðbannað að tína upp í sig samkvæmt fyrirskipunum verkstjórans. Þórbergur var
drjúgur við tínsluna en tók sér þó alltaf hlé á hverjum degi til að iðka Möllersæfingar og
baða sig í Mjósundaánni, en það er blátær á sem rennur eftir dalnum á milli Fellsfjalls og
Hólmafjalls. Áin rennur eftir djúpu gljúfri fremst í dalnum og er þar stórbrotið landslag.
Síðan er það einn daginn að við vorum við berjatínsluna upp í Mýrarbotnum, að
Þórbergur fór að vanda að baða sig en hann hafði alltaf með sér handklæði og sápu í
ferðunum .Baðaði hann sig í ánni spölkorn fyrir ofan gljúfrin en þar rann hún eftir
sléttlendi en í stórsteinóttum farvegi. Þegar hann kemur til baka er honum mikið niðri
fyrir og segir að það hafi hent sig slys . Þegar hann var komin út í ána og byrjaður að þvo
sér hafi hann misst sápuna, hún runnið af stað eftir ánni, hann á eftir allsber og elti hana
fram á brún á gljúfrinu, en sápan alltaf runnið úr höndum sér. Margrét skammaði hann
óskaplega fyrir, var það ljótur lestur , ,,hvort hann væri búinn að tapa sápunni?”,,það væri
nú ekki svo auðvelt að ná um sápu um núna, hvort hann vissi ekki hvað sápa væri dýr, “
Dundu skammirnar yfir Þórbergi í langan tíma með miklum hávaða og látum, en ekki var
laust við að við strákarnir hefðum gaman af, þó svo að okkur væri ekki alveg um sel að
heyra í Margréti og hversu grimm hún var út af einni sápu.
Skemmtilegast þótti okkur á leiðinni heim, það var gott veður þessa daga og það var
þannig að það óx í Fellsánni í svona hlýju veðri þegar líða tók á daginn því hún er jökulá.
Var því stundum nokkuð erfitt að vaða hana til baka . Við strákarnir fórum úr skóm og
sokkum og hlupum yfir og biðum á bakkanum eftir þeim Þórbergi og Margréti, Hún lét
hann bera sig á bakinu yfir og það var alveg bíó. Hann var berfættur og bretti
buxnaskálmarnar upp á hné, hún hékk á bakinu á honum. Strax þegar hann var kominn út
í byrjaði hún að öskra og sprikla og gala og arga, hvort hann ætlaði að drepa sig og lét
öllum illum látum. En við strákarnir skemmtum okkur konunglega á bakkanum hinu

megin og ég hef grun um að Þórbergi hafi ekki heldur þótt leiðinlegt að stríða Margréti
svolítið, en hana hefur örugglega sundlað því nokkur straumur var í ánni.
Mér þótti drepleiðinlegt að tína ber og var ekki mjög duglegur við tínsluna. Því var það
þegar heim var komið þá fór pabbi að spyrjast fyrir um hvernig verkamennirnir sem hann
réði hefðu staðið sig. ,, Ja, svaraði Margrét að bragði og snögg upp á lagið, ,,sá svarti
hann stóð sig sæmilega en sá rauði, hann var alveg ómögulegur”. Þorsteinn bróðir minn
sem var eldri en ég var dökkhærður og fékk sem sagt þessa viðurkenningu, ég var
rauðhærður og fékk minn dóm óþvegið en man þó ekki eftir að ég hafi verið neitt leiður
yfir.
Ekki tókst alveg að fylla tunnuna, þrátt fyrir mikla elju við berjatínsluna, - það man ég.
En þessir dagar urðu ógleymanlegir og mest man maður eftir skömmunum í Margréti.
Eins og þessi saga sýnir var líf þeirra Þórbergs og Margrétar gjarnan ein ,,kómedía” og
engin tilviljun að gruntónnin í verkum Þórbergs er meinlaust grín. Hann hafði þar nægan
efnivið úr eigin lífi og ef til vill er það svo hjá okkur flestum ef við bara höfum ,,sansinn”
til að skilja það broslega í lífinu og síðan hæfileikann til að segja frá því þannig að aðrir
skemmti sér yfir
Skráð af Þorbjörgu Arnórsdóttur eftir frásögu Sigurðar Þorsteinssonar á Reynivöllum

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463