Skip to main content

Frásögn af spólu, Vilhjálmur á Gerði, Völvuleiði

Völvuleiði
Fyrir utan Kálfafellsstað er þúfa nokkur á sléttum bakka sem að kölluð er
Völvuleiði. Sú sögn fylgir að þegar fljótlega eftir að kristni var lögtekin á Íslandi þá hafði
verið byggð kirkja á Kálfafelli eystra sem kallað var þá og ákveðið þar prestssetur. En
þar hefði á þeim tíma búið kona margkunnug og hefur hún líklega orðið að rýma þegar
ákveðið var að prestur byggi þarna á Kálfafelli eystra. Henni hefur sjálfsagt líkað það illa
að rýma og lagði það á að það skyldi enginn prestur ílengjast á Kálfafellsstað lengur en
20 ár. Þeir sem að yrðu lengur, það myndi/mundi sækja óhöpp og ófarnaður að þeim. En
ég skal nú geta þess að það virðist nú ekki hafa verið á síðari öldum því að allt frá 1600
hafa prestar á Kálfafellsstað verið mjög spakir og flestir setið þar lengur en 20 ár og
sumir mjög lengi. Það er, eins og ég gat um áðan, þá er svokallað Völvuleiði á bökkunum
fyrir utan Kálfafellsstað og fylgir því sú sögn að ef að staðarprestur lætur hressa upp á
leiðið, s.s. hlaða það upp, þá verði hann fyrir einhverju happi.


Nú var það rétt fyrir aldamótin, þá er prestur á Kálfafelllsstað séra Pétur Jónsson
og er þá nýlega kominn þangað, hann kom þangað 1893. húsakostur var þá orðinn mjög
lélegur á Kálfafellsstað, svo að prestur ákvað að byggja staðinn upp. Þá var á þeim árum
var erfitt um að fá byggingarefni flutt hingað í Skaftafellssýslu og prestur gat ekki fengið
timbur til byggingarinnar nær heldur en austur á Djúpavog.
Nú er það um vorið sem ákveðið er að byggja að prestur ætlar að láta fara
lestarferð austur á Djúpavog til þess að sækja timbur til byggingarinnar. Þar er búið að
smala hestum undir timburflutninginn um sveitina og safna þeim saman af Kálfafellsstað
og ákveða hvaða menn skuli fara með lestinni og sem sagt, það er eiginlega ekkert eftir
nema bara að fara af stað í ferðina. Ég þarf að geta þess áður að einmitt þetta sama vor þá
tóku vinnumennirnir á Kálfafellsstað sig til og hlóðu upp Völvuleiðið, vel og vandlega og
gengu vel frá öllu. En svo þegar að þeir lestarmennirnir sem áttu að fara í
timburflutninginn eru allt að því að ganga af stað, þá sést hvar maður koma þeysríðandi
utan yfir Steinasand. Þetta er þá bóndinn á Sléttaleiti, sem í þá daga var kirkjujörð, og
hann hefur þær fréttir að færa að það sé rekinn heljarmikill bjálki á Sléttaleitisfjöru. Það
var hætt við að fara í timburferðina vestur á Djúpavog og farið að vitja um bjálkann, og
þessi bjálki var það feiknar tré, hann var meira en alin á kant og 60 feta langur.
Nú var tekið til að fá sagir til að vinna bjálkann í staðinn fyrir að sækja timbur á
Djúpavog og þegar hann hafði verið unninn þá dugði timbrið úr honum að mestu leiti til
þess að byggja upp gamla húsið á Kálfafellsstað sem rifið var 1952 þegar að séra Sváfnir
Sveinbjarnarson byggði upp þetta íbúðarhús sem nú er þar. Ég vil ekki segja hvað húsið
var stórt, ég man það ekki svo glöggt en þetta hús var ein hæð og port byggt með kvisti.


Manstu eftir fjörum sem fylgdu eyðijörðum og eru komnar undir aðra jaðrir núna?
Já, hér austast í Breiðbólsstaðarfjörum er fjörustúfur sem að ber nafnið Vindásfjara. Inni
á Steinadal er fjallsrani lágur” eða heiðarás nokkuð skógi vaxinn sem að ber nafnið
Vindás. Þar er talið að hafi verið bær sem ber þetta nafn og honum hafi tilheyrt þessi
fjörustúfur sem er hér austast á Breiðabólsstaðarfjörum. Ég þekki engar heimildir um það
hvenær Vindás hefur verið síðast í bygð. 1703 er hans að engu getið og ég held að í

jarðarbók þeirri sem að Ísleifur sýslumaður Einarsson gerði fyrir þá Árna Magnússon og
Pál Vídalín sé Vindás ekki nefndur á nafn. Svo það virðist vera sem hann sé mun eldri
heldur en frá því um 1700.
Þeir höfðu nú þann sið Árni og Páll að geta allra eyðijarða. Kálfafellsstaður á
hálfa Vindásfjöru, held ég að sé ennþá í gildi því það var nú milli 40 og 50 að samþykkt
voru lög um það að allir þeir sem ættu ítak í annara manna jörðum yrðu að lýsa eftir því.
Ef að þeir étu það falla niður að lýsa eftir því, þá var ítakið ekki lengur í gildi. Þá féll það
frá þeirri jörð sem hafði haft ítakið og til þeirrar jarðar sem að átti landið sem að ítakið
var í. Ég held að séra Jón sem var þá á Kálfafellsstað hafi lýst eftir öllum ítökum og geri
þess vegna ráð fyrir að Vindásfjara sé ennþá í eigu Kálfafellsstaðarkirkju.


Fjörur á Mýrum?
Á Mýrum er jörð upp við fjöllin, svona næstum miðsveitis sem að heitir Haukafell, sem
að nú hefur verið í eyði síðan 1936. Haukafell átti ítaksfjöru í Borgarfjöru en Borg átti
aftur í staðinn skógarítak á Haukafellsdal sem að heitir Borgarskógur. Báðir bæir hafa
(heldur hann) verið bændaeign, frekar en kirkjustaðir. En Borg var svokölluð
konungsjörð sem síðar voru nefndar þjóðjarðir eða landsþjóðsjarðir og er það ennþá.
Næsta fjara fyrir vestan Borgarfjara. Nú er Bakki í eyði, búinn að vera í eyði síðan um
um 1950. þar í Bakkafjöru átti Rauðaberg á Mýrum ítaksfjöru sem nefnd var
Rauðabergsfjara.


Skupla
Um upphaf Skuplu er það að segja að einvhern tímann átti að hafa búið bóndi nokkur á
Kálfafelli í Suðursveit og hjá honum var stúlkukind sem að þótti baldin og óstýrilát og
Sigríður hét. Nú var það eitt sinn að bóndi fer í skóg inn á Kálfafellsstað og stúlkan með
honum. Þegar að bóndinn hafði lagt upp, sem kallað var, og var tilbúinn til þess að láta
upp á hesta sína og halda heim þó sótti hann svefn. Svo hann lagði sig útaf og sofnaði.
Þá dettur stúlkunni í hug að gera honum nú einhverjar skráveifur og verður henni
það þá fyrir að þar sem að hann liggur hafði hann rétt frá sér aðra höndina þannig að
lófinn sneri upp, tekur hún það þá til bragðs að hún leggur saur sinn í hendi hans og þegar
hún hafði það gert þá tekur hún puntstrá og fer að rjála með því um andlit mannsins.
Þegar hann kenndi þess þá varð honum það fyrir eins og mönnum verður oft þegar þeir
halda að fluga eða annað skordýr sé að fitla framan í þeim, að hann færir hendina og
strýkur henni yfir andlitið. Þannig að saur telpunnar klínist framan í hann. Við þetta
vaknar hann og þegar hann skilur hvað í efni er, þá reiðist hann óskaplega, nær um
stúlkuna og refsar henni það harðlega að hann gekk frá henni nær dauða en lífi. En undir
þessum sviptingum hét stúlkan honum því að hún skildi ganga aftur og ganga aftur og
niðjum hans í níunda lið.
Og síðan hverfur hún. Bóndinn heldur svo heim en þegar um nóttina þá verður
vart um mikið hark og umstang frammi í bænum og þegar að er komið er þar öllu
umsnúið, mat spillt, ílát brotin og brömluð og allt í óreiðu. Þetta gekk svo að það var lítt
fritt á þessu heimili fyrir aðgang draugsins og var helst frið að fá með því að húsmóðirin
skammtaði draugnum eins og hún hafði áður skammtað stúlkunni og var þá helst

einhvern frið að fá. Þessi stúlka hefði átt að heita Sigríður en svo er sagt að eftir að hún
gerðist draugur að þá hafði hún gengið um með klútretju bundna um höfuðið og hlaut af
því nafnið Skupla.


Fífla-Þórólfur
Þegar Ísleifur Einarsson bjó á Felli, þá var á Reynivöllum, næsta bæ, kall sá sem
Þórólfur hét. Hann hafði það auknefni að hann var kallaður Fífla-Þórólfur. Hann var
ákaflega trúgjarn, trúði öllu því sem honum var sagt og hafði ákaflega gaman að segja frá
því aftur sem að honum hafði verið sagt. Þetta notuðu piltar á Felli sér og löguðu óspart í
kall til þess að láta hann segja frá aftur. Ein slík saga hefur lifað og er á þessa leið.
Einhvern tímann fundu Fellspiltar upp á því að segja Þórólfi rekasögu frá Felli. En
Fellsfjara hefur allataf þótt rekasæl og mörg höpp þar komið, bæði fyrr og síðar. Nú
einhvern tímann sögðu þeir kalli þær fréttir að það hafði rekið hálft tungl á Fellsfjöru og
það hafi komið úr því tólf tunnur af lýsi. En þegar að kall fór að segja frá aftur þá bætti
hann við, það hefði verið mikið helsítis happ hefði það rekið heilt.


Hornafjarðarmáninn
Sagan um Hornafjarðarmánann hef ég heyrt að væri eftir Árna á Sævarhólum, en
ég er hér um bil sannfærður um að hún sé miklu eldri, en sagan er svona. Einu sinni þegar
að Skaftfellingar sóttu verslun sína austur a Djúpavog, þá lagði kall einn af stað í
kaupstaðarferð með nýju tungli. En einhverra hluta vegna hefur hann tafist á leiðinni
þannig að þegar hann kemur austur á Djúpavog þá er tunglið orðið fullt. Þegar að kall sér
fullt tungl verður honum að orði “Þetta sé ég að er almennilegt tungl, þetta er ekki eins og
helvítis Hornafjarðarmáninn”.


(Af byrjun á spólunni)


Frá kaupsstaðarferð eins bónda sem að bjó á austasta bæ í Suðursveit og hét Árni
Eiríksson og var alltaf kenndur við bæ sinn og kunnur undir því nafni, Árni á
Sævarhólum eða Árni á Hólunum. Þá var verslunarstaður allra Austur-Skaftfellinga í
Papós í Lónssveit. Til þess að komast þangað héðan úr hinum syðri sveitum þurfti að fara
um Almannaskarð en sem kunnugt er þá er það mjög bratt og í þá daga var það nú ólíkt
því sem nú er því það var aðeins mjó gata í skriðunum uppi á skarði ekki breiðara en það
að einn hestur gat fótað sig í einu á götunni. Eitt sinn var það þegar Árni á Hólunum hafði
farið upp á ós eins og sagt var, var á heimleið, þá kom hann að Flatey á Mýrum og guðaði
þar á glugga því fólk var gengið til náða og sagði fréttirnar svolátandi allt í belg og biðu.
„Hér sé guð, ekkert að frétta nema skaðinn í skarðinu, en hvað þær dönsuðu mikið.
Grímur hósi dauður, Grímur kominn, allt fæst sem um er beðið, nema kaffið og
eldskjóðurnar, ég flutti tunnu af kvartel á honum gamla Rauð og veriði sæl.“
Það sem að Árni átti við með því að nefna skaðann í skarðinu var það að hestur
hafði hrasað hjá honum í skarðgötunni og farið ofan. En í annari kleifinni hafði verið
matbaunir, pokinn utan á hann rifnaði og baunirnar skoppuðu um alla skriðu, því sagði
hann þetta „en hvað þær dönsuðu mikið“.

Eitt sinn var það að þeir urðu samferða i kaupstaðinn, bræðurnir Árni á Hólunum
sem áður var nefndur og Jón Eiríksson á Geirsstöðum. Kona Jóns hét Jórunn og þótti af
mörgum fremri bónda sínum. Í þá tíð var lýsi ein besta innleggsvara og Jón flutti með sér
lýsismaga sem kallað var en það var magi úr sel sem var skafinn upp, blásinn út og hertur
og hafður til þess að geyma í lýsi og flytja á milli.
Nú var þeim bræðrum skrafdrjúgt á leiðinni og riðu samhliða og mösuðu. En Jón
reiddi undir sér sem kallað var, lýsismaga, en hrossið sem hann reið var latgengara en
hross bróður hans svo hann varð að ýta við því en til þess hafði hann borddstaf er hann
bar í hendi og danglaði honum eftir sig. En nú taka þeir allt í einu eftir því að það lekur úr
lýsismaganum og þegar þeir athuga betur sjá þeir það að er hann orðinn næstum tómur og
allur með smágötum. Því að þegar Jón danglaði í hrossið þá hafði hann stundum hitt í
magann með broddinum og var búinn að pikka á hann smágöt. Þá sagði Árni „allt hefði
farið betur bróðir hefðirðu riðið hinum meginn“. En Jóni varð á orði „Við skulum ekki
láta hana Jórunni vita af þessu auminginn“.
Nú segir ekki meira af ferð hennar, þeir ljúka sínum erindum en þegar þeir koma
heim að Geirsstöðum þar sem að Jón bjó og sjá Jórunni, þá er það fyrsta sem Jón segir
„Sæl vert þú Jórunn, illa fór maginn Jórunn“.
Ég er Vilhjálmur Guðmundsson fæddur á Skálafelli, austasta bæ í Suðursveit. Ég
ólst þar upp hjá foreldrum mínum, til níu ára aldurs. Þá fluttu þau austur í Nes og áttu þar
heima um tíma en þrettán ára fór ég til systur minnar sem þá hafði byrjað búskap á Eskey
á Mýrum og var þar til 1922. Ég er fæddur 21. ágúst árið 1900.
Álagablettir í Suðursveit...?
Í Breiðabólsstaðartúninu ofan við Hala er Bölti sem að kallaður er Álfabrekka og þar
liggur forboð á því að slá þennan bölta, og hann er aldrei sleginn. Ég hef heyrt um að
hann hafi verið sleginn eða nein slys hafi orðið af því.
Þá er hér austur undir endanum á Steinafjalli, þar var áður bær sem að hét Steinar, sá bær
tók af af vatnagangi og var fluttur vestur í brekkuna vestur með fjallinu og hét þá
Sléttaleiti. Rétt fyrir vestan gömlu bæjarrústirnar í Steinum er hæð nokkur sem að gengur
fram úr brekkunni eins og lítill höfði en hér um bil að öllu leiti án kletta. Þessi hæð er
nokkuð grasgefin en einhverra hluta vegna var höfð ótrú á því að slá þar. Nú var það eitt
sumar þegar síðasti bóndinn sem bjó á Sléttaleiti var þar þá þótti honum álitleg slægja
þarna á Steinahæðinni og tók sig til fyrir almenna sláttarbyrjun og sló þarna æði mikið.
Þetta nýttist honum vel, þessi heyfengur, en þegar að kom fram á sumarið eða aðhallandi
slætti, þá veiktist hann og fékk einhvern sjúkdóm sem að endaði með því að það settist að
í lærinu og mjöðminni og eftir að hafa oft leitað lækninga til Reykjavíkur þá tókst að
bæta þetta mein. Hann átti í þessu í um það bil 2 ár, en það var trú manna að þetta hafi
komið yfir hann vegna þess að hann hafi slegið Steinahæðina.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463