Skip to main content

Helga Jóna Ásbjarnardóttir

Þegar ég reyndi að velja einn af uppáhaldsköflum mínum úr bókum Sobbeggiafa, var úr vöndu að ráða. Ég valdi kafla úr Sálminum um blómið, þegar við Sobbeggiafi erum að galdra ullabjökkin úr ullabjakksbúðinni hans Silla og hans Valda. Þann kafla vel ég vegna þess að ég var kominn hátt á fimmtugsaldur þegar ég lagði í það af alvöru að lesa bókina um mig.

Ég hafði allatíð frá því hún kom út verið hrædd við hana. Hún var of persónuleg fyrir mig. En þegar ég eignaðist mitt fyrsta barnabarn Hugrúnu Þórbergsdóttur og hún komin á fjórða ár, fór ég að lesa fyrir hana kafla úr bókinni. Og viti menn hún skildi strax húmorinn í bókinni. Og þar sem við kúrðum saman uppi í rúmi og uppáhaldskaflinn hennar var lesinn, þegar amman gat galdrað ullabjakk úr búðinni hans Silla og hans Valda, og sú stutta veltist um af hlátri. Þá gleymdist feimnin og ég las alla bókina. Og það var sem blásið væri í glæður gamalla minninga og upp fóru að rifjast gleymdir góðir dagar. Þegar við Sobbeggi afi göldruðum og áttum góðar stundir saman í unnskiftingastofunni forðum daga.

Takk fyrir
Helga Jóna Ásbjarnardóttir

Sálmurinn um blómið - annað bindi
Það var eins og Sobbeggi afi væri farinn að tala við sjálfan sig, en svo áttar hann sig og segir: „Jæja, þetta dugir ekki. Nú ætla ég að sýna þér, hvernig á að garda.“
Nú setur Sobbeggi afi skrifborðsstólinn sinn út á mitt gólf unnskiptingastofunni og segir við lillu Heggu: „Taktu nú vel eftir. Nú byrja ég að garda. “Svo gerði hann sig alvarlegan í framan og afar skuggalegan og gekk aftur á bak kringum stólinn og dró hendurnar á víxl að sér og frá sér og þuldi hægt með sterkri og djúpri og dimmri röddu:


„Sykur minn góði hjá Silla og Valda,
svífðu nú hingað inn
og niður í maga minn!
Svo að ég verði sætari en Gyða
og sætari en Bidduskinn.

Sykur minn góði, sykur minn góði,
svífðu nú hingað inn
og niður í maga minn
og niður í maga minn!“

Og um leið og hann sagði „og niður í maga minn” rak hann sleikjufingurinn á hægri hendinni upp í munninn á sér. Litla manneskjan horfði undrandi á hann. En gardameistarinn var ekki alveg sannfærður um, hvort hún tryði nógu mikið á gardurinn hans. Nú gardaði hann aftur og ennþá aftur, og þegar hann gardaði í fjórða sinnið, þá varð hann í framan eins og frændi hans, þegar hann gardaði á kaf niður í sjóinn þrjátíu herskip með tyrkneskum stríðsmönnum á. Þá sýndist honum litla manneskjan vera farin að trúa á gardana hans. Þá segir hann við hana: „Jæja,nú gardar þú og gerir alveg eins og ég,og þú átt að hugsa sterkt um sykurinn og karamellurnar og súkkulaðið og sætabrauðið í búðinni hans Silla og hans Valda.“
Nú fór litla manneskjan að ganga aftur á bak í kringum stólinn og draga hendurnar á víxl að sér og frá, en gardameistarinn hafði upp fyrir henni vísuna og hún sagði hana eftir honum, því að hún var ekki ennþá búin að læra hana. „Og rektu nú ofan í þig sleikjufingurinn!” segir meistarinn, þegar þau komu að orðunum„ og niður í maga minn“, og litla manneskjan rak ofan í sig vinstri sleikjufingurinn.
„Nei-nei!“hrópar meistarinn. „Þú átt að reka ofan í þig sleikjufingurinn á hægri hendi. Þegar maður gardar,verður maður að gera allt rétt.“ Og lilla Hegga rekur ofan í sig hægri sleikjufingurinn. „Gott! Og nú gördum við það aftur.“ Og þau gerðu það. Og svo í þriðja sinn. Litla manneskjan var farin að liðkast í gardinum. „Nú gördum við ekki meira í dag, “segir gardameistarinn. „Þú verður sniðug gardakerling, þegar þú ert búin að læra vel að garda.“

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463