Skip to main content

Bragi Ólafsson segir:

Tilvitnunin sem ég vel er síðasta erindi kvæðisins Fútúrískar kveldstemningar úr Eddu Þórbergs:

Láttu geisa ljóð úr bási,
spæjari! Varstu sprok að segja?
Sprungu lýs á rauðri tungu?
Glyserin er guðleg læna.
Gling-gling-gló og hver á hróið?
Nybbari sæll og Nói skrubbur!
Nonsens, kaos, bhratar! monsieur!

Skýringar Þórbergs:

- Glyserin var töluvert drukkið á þessum árum.
- Gling-gling-gló var þá mikið notað af lyriskum jörmurum.
- bhratar, sanskrítarorð og þýðir bróðir og er sama orðið.

 Frá því að ég las þetta undirfurðulega kvæði fyrst, einhvern tíma í menntaskóla, hefur titill þess alltaf verið mjög ofarlega í huga mínum. Þegar ég til dæmis upplifi kvöldstemningu sem er á einhvern hátt sérstök, eða þegar eitthvað mjög einkennilegt kemur fyrir mig eftir klukkan sex á daginn, dettur mér iðulega í hug að ég sé að upplifa kvöldið á hinn fútúríska hátt. Eða öllu heldur: á hinn þórbergska hátt. Og það er góð tilfinning. Betri en til dæmis að upplifa kristmannska kveldstemningu eða jafnvel laxneska, þó ég hafi svo sem ekki reynslu af því, ekki ennþá. En þetta kvæði Þórbergs, sem er heilmörg erindi, er bara ein af óteljandi uppbyggilegum og einkennilegum stemningum í hinni góðu Eddu. Og það er svolítið skemmtilegt að hafa það í huga að þessar fútúrísku kveldstemningar eru ortar árið 1917, fimm árum áður en T.S. Eliot birti The Waste Land. Síðasta línan í fyrsta hluta þess mikla kvæðis er nefnilega svona: "You! hypocrite lecteur!-mon semblable,-mon frère!" og er Eliot þar að vitna í inngang Charles Baudelaire að ljóðasafninu Les Fleurs du Mal. Mon frère þýðir auðvitað bróðir minn á frönsku, en í hinum íslensku kveldstemningum, sem ég endurtek að eru ortar fimm árum áður en Eliot ávarpar sinn hræsnisfulla lesanda og bróður, má segja að Þórbergur sé mun smartari í sínu ávarpi til lesandans og bróðurins, því hann splæsir á hann hvorki meira né minna en sanskrít, og bætir svo við, svona til að hafa frönskuna með líka: monsieur. Og til að ávarpið sé ekki bara eitthvert innantómt ávarp lætur hann fylgja með að tilvera okkar mannfólksins sé ein ekkisens bölvuð vitleysa og ringulreið. Sem hún auðvitað er.

(Bragi Ólafsson, skáld)

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 78
Gestir þennan mánuð: ... 6159
Gestir á þessu ári: ... 24182