Skip to main content

Að loknu ári 2016

Árið 2016 var viðburðarríkt svo sem sjá má í starfsskýrslu Þórbergsseturs sem birt er hér á síðunni. Fjöldi ferðamanna heimsóttu Þórbergssetur og nú geta þeir fengið hljóðleiðsögn um safnið á 9 tungumálum. Þrátt fyrir miklar annir tókst að halda úti metnaðarfullri menningardagskrá, og erlendir gestir  njóta þjóðlegra veitinga og skoða sig um á staðnum.

Starfsskýrsla Þórbergsseturs fyrir starfsárið 2016

Að loknu ári 2016 er margs að minnast. Árið 2016 er tíunda heila starfsár Þórbergsseturs, en það var opnað formlega 1. júli 2006. Þess var minnst með ýmsum hætti sem kemur fram hér í starfsskýrslunni. Mikill fjöldi ferðamanna sótti staðinn á árinu og samfelld aukning kom fram á teljara við útidyr alla mánuði ársins. Hlutfallslega mest er aukningin yfir vetrarmánuðina, en alls voru 191.681 gestakomur yfir árið á móti 160.069 á árinu 2015. Hátoppur vetrarferðamennskunnar er í febrúar með 15.720 gestakomur og mars með 16.761 gestakomur, en sumarmánuðina júli og ágúst eru gestakomur 24.293 og 23.326. Rólegust var umferðin í janúar og apríl á síðasta ári eða 10.537 og 10.632 gestakomur og meira segja í desember voru fleiri gestakomur eða 12.637 þó að lokað væri í þrjá daga á gistiheimilinu á Hala yfir jólin og þar af leiðandi færri á ferðinni þá daga.

Þrátt fyrir mikla aukningu ferðamanna tókst að halda uppi öflugri menningarstarfsemi á árinu 2016. Fastir viðburðir voru á sínum stað, en síðan var ýmislegt skemmtilegt sem skreytti afmælisárið. Þar ber hæst doktorsvörn Soffíu Auðar Birgisdóttur í hátíðarsal Háskóla Íslands 12. maí, en vörnin byggði að hluta til á bók hennar sem kom út fyrir jólin 2015 ,, Að skapa, þess vegna er ég“ auk geysimikillar og nákvæmrar rannsóknarvinnu á verkum Þórbergs. Ritgerð Soffíu ber heitið,, Ég skapa þess vegna er ég. Sjálfsmyndir, sköpun og fagurfræði í skrifum Þórbergs Þórðarsonar. Andmælendur voru dr. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir við Háskóla Íslands og dr Jurg Glauser prófessor við Háskólann í Zurich. Segja má að þessi dagur hafi verið stærsti Þórbergsdagur frá upphafi ferils hans, útsending var beint frá vörninni yfir í fyrirlestrasal Nýheima á Höfn þar sem fjöldi ,,sveitunga“ Þórbergs gat fylgst með athöfninni. Viðburður sem þessi og rannsóknarvinna Soffíu Auðar Birgisdóttur styrkja enn fremur grunnstoðir menningarlegs bakgrunns Þórbergssetur, varpa nýju ljósi á líf Þórbergs Þórðarsonar og starf og færa túlkanir á verkum hans til samtíðar með eftirtektarverðum hætti. Glöggt er hægt að merkja hversu nútímalegur höfundur Þórbergur Þórðarson er og hversu sterk áhrif hann getur haft á nútímalega hugsun og heimspeki og líf fólks ekki bara hér á Íslandi, heldur um allan heim eins og við finnum glöggt sem störfum í Þórbergssetri og ræðum hér dags daglega við gesti og gangandi.

Stærsta verkefni Þórbergsseturs á árinu 2016 var að ljúka við hljóðleiðsögn á níu tungumálum í samvinnu við fyrirtækið Locatify. Nú er hægt að fræðast um rithöfundinn Þórberg Þórðarson og verk hans á eftirtöldum tungumálum, íslensku, ensku, sænsku, þýsku, frönsku, spænsku, kínversku, japönsku og alþjóðatungumálinu esperantó. Verkefni þetta er búið að vera lengi í undirbúningi, en tókst loks að ljúka því á afmælisári. Soffía Auður Birgisdóttir samdi textann við leiðsögnina og fjölmargir færir aðstoðarmenn komu að þýðingum og upplestri. Búið er að vígja öll tungumálin og m.a. kom Kristján Eiríksson með esperantista með sér til að njóta leiðsagnar á esperantó. Kínverjar og Japanir hafa rölt um sýningar með heyrnartækin og mælist þessi nýjung vel fyrir hjá erlendum ferðamönnum, og gerir þannig sýninguna aðgengilegri fjarlægum þjóðum.

Þórbergssetur hefur nú yfir vetrartímann aðgang að fræðaíbúð á Sléttaleiti sem er í eigu Rithöfundasambands Íslandi. Þórbergssetur bíður listamönnum og eða fræðimönnum að dvelja á staðnum. Þeir eiga síðan að koma með eitthvert framlag til Þórbergsseturs. Á árinu 2016 nýttu margir sér þessa aðstöðu og er þetta mikil lyftistöng fyrir starfsemi Þórbergsseturs, sannir og trúir sendiherrar setursins, sem fá Suðursveitina hans Þórbergs, umhverfið og náttúruna beint í æð, hlusta á óperur hafsins, njóta mikilleika klettanna og ,,hugsa háleitar hugsanir“ eins og þeim einum er lagið sem búa á svona stað.

Framlag ríkisins er samkvæmt samningi frá mennta- og menningarráðuneyti Íslands 10 milljónir á ári og er það sá fasti grundvöllur sem gerir rekstur Þórbergsseturs sem menningarseturs mögulegan og er um leið viðurkenning á starfsemi þess sem eitt af rithöfundasetrum Íslands. Sértekjur Þórbergsseturs jukust á árinu 2016 í réttu hlutfalli við fjölgun gesta og hafa þær tekjur m.a. stuðlað að því að hægt er að fara í endurbætur á aðstöðu svo mögulegt sé að taka á móti fleiri gestum, m.a endurbætur á frárennslismálum.

Glacier Adventures er afþreyingarfyrirtæki sem er í nánu samstarfi við Þórbergssetur. Starfsemi þess fellur vel að markmiðum Þórbergsseturs að fara með ferðamenn í skipulagðar ferðir með leiðsögn heimamanna, þar sem þekking staðkunnugra nýtist við leiðsögn og fræðslu og haldið er áfram að segja sögur af lífsbaráttu fólksins í sambýli við náttúruöflin. Brottfarir eru frá Þórbergssetri 3 – 4 sinnum á dag og eykur sú starfsemi líka umsvif á staðnum.

Þórbergssetur hefur á undanförnum 10 árum sannað tilverurétt sinn sem menningarsetur í sveit, sem tekur á móti sívaxandi fjölda erlendra ferðamanna og stendur fyrir öflugri menningarstarfsemi sem byggir á þeim arfi sem við eigum dýrastan, bókmenntum og sagnahefð ásamt því að standa fyrir þjóðlegum veitingum og fræðslu um umhverfi og náttúru.

Helstu viðburðir og verkefni á árinu 2015 eru eftirfarandi:

 • Í janúar komu 8 mismunandi ljósmyndahópar í Þórbergssetur og nutu veitinga og þjónustu í Þórbergssetri og nýttu sér aðstöðu til fundarhalda og myndasýninga. Einnig komu allmargir hádegishópar og gestakomur voru alls 10.537. Veitingar í Þórbergssetri eru þjóðlegar veitingar, framleiðsla beint frá býli eins og kostur er. Kjötsúpa og lambasteikur af Halalömbum og Jöklableikja frá Hala. Jón Þórisson leikmyndahönnuður lést þann 5. janúar en hann er hönnuður sýningarinnar og hugmyndasmiður að útliti Þórbergsseturs. Blessuð sé minning hans.

 • Í febrúar var mikið að gera 15.720 gestakomur, 19 mismunandi ljósmynda- og ferðahópar dvöldu frá einum og upp í fjóra daga og alls 18 hádegishópar þáðu veitingar og fóru inn á safnið. Hafinn var undirbúningur að hljóðleiðsögn á Þórbergssetur.

 • Mars var viðburðarríkur, 16 mismunandi ljósmyndahópar dvöldu á Hala en einnig voru margir ferðamenn á ferðinni, gestakomur alls 16.761 og og 21 hádegishópar komu og fengu veitingar og heimsóttu safnið. Mjög margir komu í Þórbergssetur í tengslum við íshellaferðir í febrúar og mars en brottför er frá Þórbergssetri í 2 – 3 ferðir á dag frá fyrirtækinu Glacier Adventures.

 • Árleg bókmenntahátíð var haldin 13. mars. Gestir hátíðarinnar voru þær Halldóra Thoroddsen og Guðrún Pétursdóttir sem rifjuðu upp dvöl sína á Hala fyrir nær 50 árum. Halldóra las upp úr verðlaunabók sinni Tvöfalt gler. Einnig var Iðunn Steinsdóttir gestur á hátíðinni og las upp úr bók sinni Hrólfssögu og Soffía Auður Birgisdóttir var með kynningu á bók sinni um Þórberg,, Ég skapa, þess vegna er ég“. Kvennakór Hornafjarðar skemmti með söngdagskrá. Var þetta hin ánægjulegasta stund eins og alltaf og fjölsótt og gæddu gestir sér á kaffi og kökum í lok dagskrár.

 • Í mars dvaldi Hlynur Axelsson í fræðaíbúð á Sléttaleiti á vegum Þórbergsseturs. Hlynur er mastersnemi í arkitektúr við arkitektaskólann í Árósum og vann að lokaverkefni sínu um náttúrurannsóknarsetur við jaðar Breiðamerkurjökuls.

 • Í marsmánuði barst Þórbergssetri vegleg gjöf, ræðupúlt merkt Þórbergssetri með eftirlíkingu af skrift Þórbergs, - listasmíð gjörð af Ragnari Imsland en gjöfin var frá þeim hjónum Ragnari og Júlíu Imsland, Þórbergssetur þakkar af alhug þessa góðu gjöf

 • Í apríl hægði á umferð í Þórbergssetur, gestakomur voru 10.632 nokkrir ljósmyndahópar og 17 hádegishópar komu í Þórbergssetur, einnig pólskur nemendahópur á vegum FAS og hópur skólastjóra af Suðurlandi í fræðsluferð og samfundar við skólafólk á Hornafirði.

 • Hið árlega bridgemót var haldið 16. – 17. apríl. Metþátttaka var eða 50 manns víða af á landinu. Etið var hrossakjöt og Jöklableikja og spilað af kappi með nýju keppnisfyrirkomulagi, tvímenningur með tölvutæknina að vopni.

 • Í maímánuði unnum við hörðum höndum við uppsetningu á hljóðleiðsögn sem var síðan tekin í notkun 1. júni, fyrst á tveimur tungumálum en síðan bættust við 6 tungumál í viðbót og var verkinu alfarið lokið á 10 ára afmælisdegi Þórbergssetri 1. júlí.

 • Í maí voru alls 13.079 gestakomur í Þórbergssetur og allmargir hópar í hádegismat. Nemendur Leiðsöguskóla Íslands komu í sína árlegu heimsókn í Þórbergssetur, gistu á Hala og Þórbergssetur sá um sérstaka dagskrá fyrir þá og kynningu á staðnum.

 • Á vordögum bárust Þórbergssetri fjölmargar gjafir frá velunnurum setursins. Má þar nefna tvö sendibréf sem Þórbergur skrifar til vinkonu sinnar Oddgerðar Geirsdóttur árið 1926, en þá eru þau bæði stödd í Kaupmannahöfn. Bréfið snýst um að sætta Þórberg við aðra unga konu Einarínu Guðmundsdóttur og er mjög svo skáldlegt og kómískt , - eins og Þórbergi einum er lagið. Gefendur að bréfunum eru Kristín Anna Kristínardóttir dóttir Oddgerðar og Gunnar H, Jónsson. Bréfin höfðu varðveist alla tíð hjá móður hennar og bárust henni úr dánarbúi hennar. Einnig bárust að gjöf tveir kínverskir vasar, mikil gersemi sem Þórbergur keypti í Kínaförinni 1952 svo og rússnesk silfurskál með sykurtöng sem Þórbergi hafði verið gefin í Rússlandi. Skálin var notuð sem nammiskál í bjóðum hjá Margréti og Þórbergi á Hringbraut 45. Gefendur eru Sigurður Pétursson og bróðir hans Ólafur Pétursson ( 1939 – 2012) sem höfðu keypt munina á fornsölu á Skólavörðustíg 21 hjá Marsibil Bernharðsdóttur, en Margrét hafði sett þá til sölu þar þegar hún flutti á Droplaugarstaði. Kínversku vasarnir eru hin mestu gersemi merktir keisara sem uppi var 1735 - 1796 og er vel búið um þá í haganlega smíðuðum trékassa. Að lokum barst að gjöf flaska innpökkuð í fallegar umbúðir, innihaldið rautt eðalginseng eins og Þórbergur notaði sér til heilsubóta, og hafði þau áhrif að hann varð rauðhærður á ný og endurheimti náttúruna. Gefandi er Páll Imsland jarðfræðingur. Keyptir voru tveir læstir sýningarskápar og þessum merku gripum komið þar fyrir og voru þeir fyrst til sýnis á afmælisþingi Þórbergssetur 8. október og málþingsgestum þá boðið nammi úr silfurskálinni frægu. Þórbergssetur þakkar af alhug þessar merku gjafir sem tengjast svo sterkt þeim hjónum Þórbergi Þórðarsyni og Margréti Jónsdóttur konu hans

 • Í júní voru alls 63 hádegishópar sem nutu veitinga og fóru á safnið og 19.343 gestakomur. Einnig voru 50 manna kaffihópar einu sinni í viku allt sumarið, fengu þeir sérstakar móttökur með kynningu á Þórbergi og verkum hans og fóru á sýninguna. Var þetta skemmtileg nýjung hjá ferðaskrifstofunni Iceland travel og verður vonandi áframhald á því að þeir verði svona menningarlegir í hugsun með skipulagningu á ferðum erlendra ferðamanna á Íslandi.

 • Í júlí voru 77 hádegishópar sem nutu veitinga og fóru á safnið og 24.293 gestakomur. Einnig voru hópar í hverri viku sem fóru á safnið með hljóðleiðsögn og borðuðu kvöldmat á vegum ferðaskrifstofunnar Artik Adventures. Er þetta án efa annasamasti júlímánuður frá upphafi og vísa varð frá nokkrum hádegis- og kvöldverðarhópum vegna anna í fyrsta skipti í sögu setursins. Allt gekk samt vel en starfsfólki var fjölgað á vöktunum til að mæta auknu álagi.

 • Hinir árlegu tónleikar í Kálfafellsstaðarkirkju voru á sínum stað á Ólafsmessu, ógleymanleg stund í Kálfafellsstaðarkirkju og heimsókn að völvuleiði undir Hellaklettum í lok dagskrár. Jónína G. Aradóttir tónlistarmaður úr Öræfum flutti frumsamin ljóð og lög ásamt hinum fallegu Öræfavísum við texta Aðalsteins Aðalsteinssonar og lag Jóhanns Moraveks.

 • Í ágústmánuði var heldur rólegra eða 23.326 gestakomur og 59 hádegishópar. Og áfram hélt umferðin í september alls 16.848 gestakomur og líf og fjör allt um kring. Um 40 eldri borgara frá Höfn litu við í morgunkaffi í byrjun september. Gaman var að skoða með þeim klettana og heilsa Bergi í skini sólar og birtu frá haffletinum og Halldór á Gerði sagði frá ferð niður Gerðisskoruna. Einnig komu nemendur frá Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna í sína árlegu heimsókn í Þórbergssetur, ungt fólk frá ólíkum menningarsamfélögum sem gaman er að taka á móti og segja frá Þórbergi og lífinu í Suðursveit .

 • Þórbergssetur styrkti með fjárframlagi 1.500.000 kr útgáfu á endurminningum séra Sváfnis Sveinbjarnarsonar og hjálpaði til við söfnun mynda, en bókin ber nafnið ,, Á meðan straumarnir sungu“. Bókin kom út fyrir jólin og er merk heimild um samgöngur og mannlíf vestan fljóta á árunum 1951 – 1963. Þökk sé séra Sváfni Sveinbjarnarsyni fyrir einlægar og skemmtilegar frásagnir.

 • Í október voru 14.417 gestakomur í Þórbergssetur, jöklagöngur héldu áfram, ljósmyndahópar birtust enn á ný að skoða norðurljósin og fanga dýrð náttúrunnar í haustlitunum, 27 hádegishópar komu í mat og lífið hélt áfram sinn vanagang þó að rólegra væri en yfir sumartímann.

 • Afmælismálþing Þórbergsseturs svokallað stjörnuþing var haldið með pompi og prakt í Þórbergssetri 8. október og fjallað var um stjörnurnar, himingeiminn og gruflað í gömlum fræðum tengdum efninu. Í tilefni af 10 ára afmæli Þórbergsseturs var meira lagt í málþingið og í lokin voru tónleikar með Megasi og Möggu Stínu þar sem Megas frumflutti ljóð í anda Þórbergs. Það má með sanni segja að þessi dagur hafi verið glæstasti hátíðardagur í 10 ára sögu Þórbergssetur, og gaf aðstandendum Þórbergsseturs sannarlega aukinn kjark að takast á við verkefni komandi ára.

Dagskrá málþingsins var eftirfarandi:

  • 10:30 Þorbjörg Arnórsdóttir; Setning afmælisþings, sagt frá gjöfum er borist hafa

  • 10:45 Gísli Sigurðsson; Himinhvolfið sem minnisbanki goðafræðinnar í Snorra Eddu

  • 11:30 Snævarr Guðmundsson; Örlítið um stjörnur og svolítið um menn

  • 12:10 Hádegismatur

  • 13:00 Viðar Hreinsson; Jón lærði, himnasalir og handritin

  • 13:40 Soffía Auður Birgisdóttir; Með stjörnur í augunum: um ástina, skáldskapinn og stjörnuhimininn í skrifum Þórbergs.

  • 14:20 Upplestur bréf um Einarínu frá Þórbergi

  • 14:40 Þorvarður Árnason: Himinhvolfið og undur þess; Norðurljósaveiðar fyrr og nú

  • 15:20 Hátíðarkaffi

  • 15:50 Ávörp gesta í tilefni 10 ára afmælis; Pétur Gunnarsson

  • 16:15 Skemmtiatriði; Margrét Blöndal myndlistarmaður segir frá teikningum sínum. Skáldið og tónlistarmaðurinn Megas verður með tónlistarfólk við hlið sér og flytur tónlistardagskrá

  • 17:15 Dagskrárlok

 • Íslenskunámskeið fyrir erlenda starfsmenn á vegum Fræðslunets Suðurlands var haldið í Þórbergssetri í byrjun vetrar alls 40 kennslustundir og námskeiðið sóttu um 20 nemendur frá vinnustöðum í Suðursveit og Mýrum

 • Kristján Eiríksson og Sigurborg Hilmarsdóttir dvöldu eina viku á Sléttaleiti í fræðaíbúð á vegum Þórbergssetur. Kristján er að vinna að þýðingum á esperantótextum Þórbergs og undirbúa útgáfu á áður óbirtum textum eftir Þórberg sem hann ritaði á esperantó. Einnig dvöldu Megas og Margrét Blöndal á Sléttaleiti í hálfan mánuð og undu hag sínum vel eins og sjá má á Halatextum Megasar sem birtir hafa verið á Þórbergsvefnum. Sænskur fræðimaður Ann Charlot Svensen dvaldi í viku á Sléttaleiti í nóvember við vinnu sína og Michael Kienitz bandarískur ljósmyndari dvaldi síðan á Sléttaleiti frá 14. nóvember til 14, janúar. Michael er að taka upp og gera stutta videomynd um Þórbergssetur, sem verður lokið við á árinu 2017. Þórbergssetur greiðir dvölina fyrir dvalargesti en þiggur í staðinn eitthvert framlag til setursins ef mögulegt er.

 • Áfram var mikið að gera í nóvember og desember. Gestakomur í nóvember voru 14.088 og desember 12.637. Ljósmyndarar sækjast eftir töfrum sólarljóssins á þessum tíma þegar sól er lægst á lofti, sólarupprás og sólarlag kalla fram einstaka litadýrð og varpa bleikrauðum blæ yfir loft og láð. Einstakt í öllu heiminum, - segja þeir, því sólin er svo lágt á lofti í skammdeginu og svo kallar myrkrið fram töfra norðurljósanna betur en nokkru sinni fyrr.

 • Þann 28. nóvember var bókmenntakynning í Þórbergssetri. Séra Sváfnir Sveinbjarnarson las upp úr bók sinni ,, Á meðan straumarnir sungu" og tók sér morgungöngu niður við Breiðabólsstaðarlón, en þangað kom hann fyrst fyrir 64 árum síðan. Það voru um 25 manns sem mættu á bókakynningu í Þórbergssetri þennan dag, gamlir sveitungar séra Sváfnis að hlýða á hann enn einu sinni flytja talað orð úr ræðustóli og rifja upp gömul kynni. Steinunn Sigurðardóttir las upp úr bók sinni um Heiðu fjalldalabónda og ljóðabókinni Af ljóði ertu komin, og Bjarni Harðarson las upp úr bókinn Forystufé.. Einkar ánægjuleg stund í Þórbergssetri og heimsókn þeirra þriggja ásamt Gísla Sváfnissyni verður ógleymanleg okkur staðarhöldurum á Hala.

 • Á gamlárskvöld að lokinni máltíð með allri fjölskyldunni og afkomendum brunuðu Þorbjörg og Fjölnir á Hala í átt til Bessastaða til að taka við riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag. Síðustu mínútum afmælisársins var eytt í fögnuði yfir komu nýs árs með því að aka inn í ljósaregn og sprengjugný höfuðborgarinnar og raula enn einu sinni ,,Nú árið er liðið,” brunandi eftir Miklubrautinni í Reykjavík. Eins ótrúleg stund og hægt var að hugsa sér, - en með í farteskinu vonir og þrár um gæfuríkt komandi ár.

 Að loknu ári 2016 er því efst í huga þakklæti til samferðamanna, samstarfsfólks og velunnara Þórbergsseturs sem lagt hafa fram krafta sína til að láta drauminn um menningarsetur á Hala í Suðursveit rætast, en einnig auðmýkt og þökk til æðri máttarvalda að gefa krafta og heilsu til að halda á lofti minningu forfeðranna með svo afgerandi hætti.

Lífið er stundum eins og ævintýri, sem við trúum ekki einu sinni sjálf og samferðamennirnir eru allir þátttakendur. Því hvarflar hugurinn ekki síst til Jóns heitins Þórissonar leikmyndahönnuðar og Sveins Ívarssonar arkitekts sem eiga heiðurinn að einstakri hönnun hússins og sýningarinnar, hönnun sem án nokkurs vafa mun bera uppi hróður staðarins um ókomin ár.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 8411
Gestir á þessu ári: ... 86474