Kínverskir vasar og rússnesk sælgætisskál með töngum

Eftirfarandi bréf og gjafir bárust Þórbergssetri á síðasta ári. Aðstandendur Þórbergssetur þakka kærlega fyrir þann góða hug sem fylgir gjöfum þessum. Hér á eftir verður sá siður Mömmugöggu í heiðri hafður að skenkja gestum konfektmola úr sælgætisskálinni hvenær sem merkileg bjóð verða í Þórbergssetri.  Þess má geta að kínversku vasarnir eru merktir Qianloong 6. keisara sem var uppi 1735 – 1796 í Kína.

Eftirfarandi gjafabréf fylgdi með gjöfinni.
Þórbergur keypti þá á Kínaförinni 1952 og gaf þá Margréti konu sinni þegar heim var komið.

Um árabil var starfrækt fornverslun í Reykjavík sem nefndist Stokkur. Var hún fyrst til húsa að Vesturgötu 3 og síðar á Skólavörðustíg 21. Eigandi hennar var Marsibil Bernharðsdóttir (1912-1996) og gegndi bæði hún og verslunin merkilegu hlutverki í verslunarlífi borgarinnar. Stokkur var vettvangur margs konar viðskipta. Þangað komu menn til að selja, kaupa og eiga vöruskipti og var varningurinn oftast forngripir eða notaðir munir á sanngjörnu verði. Eigandi sá hins vegar til þess að verslunin var eitthvað annað og meira. Hún var lifandi partur af mannlífi og íslenskri þjóðmenningu. Iðulega sat Marsibil og prjónaði lopapeysur sem hún seldi erlendum ferðamönnum í verslun sinni og sjaldan var hún svo önnum kafin að hún gæfi sér ekki tíma til þess að spjalla við viðskiptavini og bar þá oft margt í góma auk umræðna um þá hluti sem falir voru. Ættfræði, pólitískar væringar, almennt siðferði og vangaveltur um lífið og tilveruna voru gjarnan á dagskrá. Af fundi Marsibilar fóru menn ósjaldan með góðan grip í farteskinu og hressir í bragði eftir upplífgandi samræður.

Bróðir minn Ólafur Pétursson (1939-2012) menntaskólakennari  og undirritaður nutum þessara heimsókna í Stokk og þegar verslunin hvarf af sjónarsviðinu, söknuðum við hennar mjög og gerðum okkur ljóst að það skarð sem myndaðist yrði aldrei að fullu bætt þótt margar aðrar góðar verslanir hafi sett sinn svip á antikmarkaðinn í Reykjavík bæði fyrr og síðar.

Eitt sinn sem oftar leit bróðir minn inn til Marsibilar og var verslunin þá komin á Skólavörðustíg að mig minnir. Sá hann þá tvo handmálaða hágæða kínverska skrautvasa úr næfurþunnu postulíni í sýningarkassa gerðum af miklum hagleik. Bróðir minn unni mjög fögrum postulínsmunum og gerðust kaup fljótt og án málalenginga. Fylgdi það sögu þessara gripa að þeir væru komnir úr búi Þórbergs Þórðarsonar (1889-1974) og hann hefði fengið þá þegar hann var á ferð í Kína. Margrét Jónsdóttir ekkja hans væri að minnka við sig og frá henni væru hlutirnir komnir. Það fylgdi og sögunni að rússnesk sælgætisskál með töngum væri þar einnig til sölu og væri hún komin sömu leið úr sama búi. Hafði Þórbergur hlotið hana að gjöf þegar hann var á ferð í Rússlandi. Þessar fréttir bar bróðir minn mér eins fljótt og hann gat. Þar sem ég hafði ætíð verið mikill áhugamaður um silfur beið ég ekki boðanna og keypti skálina undireins. Eftir lát bróður míns eignaðist ég vasana tvo og þannig eru þessir merku og fallegu gripir komnir í mína eigu.

Oft hef ég velt því fyrir mér hvernig best væri að varðveita þessa hluti og um leið þá sögu sem tengist þeim. Þá vildi svo til að frænka mín Sigrún Sigurðardóttir og maður hennar Halldór Gunnarsson sögðu mér frá Þórbergssetri og hversu vel og smekklegt það væri úr garði gert. Sú hugmynd fæddist fljótt með mér að gaman væri að koma hlutunum þangað til varðveislu og bað ég Sigrúnu og Halldór að vera mér innan handar við það verkefni. Það er því algerlega þeirra verk að þoka þessu máli áfram þannig að nú virðist innan seilingar að hlutirnir komist á bestan varðveislustað. Til að ganga sem best úr skugga um að hlutirnir væru komnir úr búi Þórbergs Þórðarsonar og konu hans Margrétar Jónsdóttur heimsóttu Sigrún, Halldór og ég frænku Margrétar, Helgu Jónu Ásbjarnardóttur (Lillu-Heggu) sem þekkti heimili þeirra manna best og sýndum henni gripina. Áttum við einkar skemmtilega stund í sumarbústað Helgu þar sem við nutum stakrar gestrisni hennar og kvaðst hún þekkja gripina vel. Að mínum dómi er þetta hinn besti mögulegi vottur um sannleiksgildi frásagnar Marsibilar í Stokk.

Á grundvelli þessa teljum við, Sigrún, Halldór og ég, að saga þessara hluta varðveitist best á Þórbergssetri og vonum að setrið vilji veita þeim viðtöku til eignar og varðveislu í minningu bróður míns Ólafs Péturssonar en án hans þáttar er óvíst hver afdrif listmuna Þórbergs frá Kína og Rússlandi hefðu orðið.

Sé það góðu heilli gjört.

Seltjarnarnesi, 29. apríl 2016

Sigurður Pétursson

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 142
Gestir þennan mánuð: ... 7313
Gestir á þessu ári: ... 18054

Þórbergssetur - Hala, Suðursveit - 781 Höfn í Hornafirði - Sími: 478-1078 - Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Copyright © 2023. All Rights Reserved.

Fara efst