Skip to main content

Ármann Jakobsson segir:

Ofvitanum kynntist ég þegar ég var barn en las bókina í einu lagi í menntaskóla. Ég held það sé óhjákvæmilegt að heillast fyrst og fremst af stíl Þórbergs þegar maður les Ofvitann í fyrsta skipti, það er vandfundinn mælskari maður á íslenska tungu á 20. öld. Seinna hefur heimspeki sögunnar heillað mig. Hún fjallar um mann sem hugsar í samfélagi sem vill helst ekki hugsa. Þannig skýrist heitið, aðalpersónan (Þórbergur sjálfur) er kallaður ofviti vegna þess að hann hugsar. Þetta er auðvitað sígild aðstaða og á ekki síður við í samfélagi nútímans þar sem heimskan ræður oft ríkjum og þar á ég við verstu tegund heimskunnar og þá sem Þórbergur barðist helst við, en það er heimska af ásettu ráði.

Fyrsti hluti Ofvitans og sá sem þessi tilvitnun er sótt í fjallar um dvöl hans í Kennaraskólanum, en skírskotar auðvitað til íslensks menntakerfis almennt og hvernig flatneskjan veður þar uppi ef menn gæta ekki að sér. Því miður er textinn alls ekki úreltur, þó að nýjar tegundir flatneskju hafi tekið við af þeim gömlu. En Þórbergur hætti aldrei að vera höfuðóvinur flatneskjunnar og um leið skar hann sig úr fyrir að þora að orða hlutina tæpitungulaust, en var þó laus við allar klisjur, og svo laus við einfeldni að hann þorði það sem fáir aðrir þora, að spyrja eins og einfeldingur. Líklega hefur hann álitið hræðsluna við einfeldnina einn versta löst mannkynsins og um það fjallar þessi bók auðvitað ekki síst.

        „Náttúrufræðin, allstór bók á dönsku eftir einhvern Boas, var öll um bein og skinn og hár á dýrum: Skelet, Lændehvirvler, Hjörnetænder, Kindtænder og Knudtænder, Skind og Huder, Dækhaar og Uldhaar, og þannig upp og upp aftur sama hreyfingarlausa þvælan um bein, skinn og hár, hár, skinn og bein, á einum 200 stórum síðum.
        Og ég, sem var búinn að kosta peningum upp á mig í þennan skóla til þess að fá að vita eitthvað, er máli skipti, um dýrin, systkini okkar! Ég var hingað kominn í einlæga leit að uppruna þeirra, brann af forvitni að komast eftir, hvað þau væru allt af að hugsa, þráði að vita, hvernig sálin hagaði sér í þeim og hvort hún lifði eftir líkamsdauðann. Og eina svarið sem mér hlotnaðist við þessum síbankandi spurningum þekkingarþrár minnar, var þetta:
       „De ægte Sæler har et afrundet Hoved med kort Snude, en kort Hals, en plump, tendannet Krop og en kort Hale.“
       Það var eins og hellt væri úr hlandkopp framan í mig. 
      Og þegar mig langaði að vita, hvers vegna sum dýr hefðu hófa, en önnur klær, þá var ég yfirþyrmdur með eftirfarandi svari:
       „Hovdyrene udmærker sig ved at være forsynede med Hove i Steden for Klöer.“ 
      ,,Ég sat fyrst dolfallinn yfir þessari flatneskju.“
(Þessi tilvitnun er úr Ofvitanum, bls. 25-25 í frumútgáfunni.)

(Ármann Jakobsson íslenskufræðingur)

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463