Skip to main content

Ársskýrsla 2015

Starfsskýrsla ársins 2015 hefur nú verið birt á Þórbergsvefnum. Enn eitt metið hefur verið slegið í aðsókn gesta á staðinn,en alls voru skráðar 160.069 gestakomur á Þórbergssetur árið 2015.

20160108 ICECAVE 009Fjölbreytt starfsemi einkennir árið, en segja má að gönguferðir á jökli og íshellaferðir séu sú nýjung sem mesta athygli vekur og dregur æ fleiri ferðalanga að. Við stofnun Þórbergsseturs var það eitt af markmiðum þess að efla náttúruskoðun og söguferðir, að nýta  staðbundna þekkingu heimamanna á sögu og náttúru til að draga að fleiri ferðamenn, stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi og styrkja búsetu á svæðinu. Það hefur sannarlega tekist, fyrirtækið Glacier Adventures gerir út jöklaferðir frá Þórbergssetri allt árið og er aðsókn gífurleg. Ungt fólk frá Hala er í forsvari fyrir fyrirtækið og nýtir tengingar við setrið, segir frá lífsbaráttu fólksins og fer og kannar svæði þar sem áður var aðeins farið til að leita kinda, en bændur hér gjörþekka. Þannig teygir sagan sig í allar áttir og sá þekkingargrunnur sem setrið markar nýtist til fjölbreyttrar fræðslu og starfsemi.


Menningarviðburðir verða einnig alþjóðlegri en áður svo sem tónleikar þýskra tónlistarmanna um páskana auk þess sem fastir viðburðir festa sig í sessi.
Ársskýrsla Þórbergsseturs fyrir árið 2015 ber vitni um öfluga starfsemi, en sýnir einnig að móttaka ferðamanna er aðalstarfið alla daga. Erlendir ferðamenn  eru í miklum meiri hluta gesta en einnig  koma við fjölmargir íslenski ferðamenn yfir sumartímann. Ævinlega gera gestir góðan róm að því að heimsækja safnið og það er óvænt og skemmtileg viðbót við dvöl þeirra á svæðinu. Þar kynnast þeir sögu svæðisins betur og skynja sterkt þann sess sem bókmenntir eiga í menningu og andlegu lífi þjóðarinnar allt frá upphafi  Íslandsbyggðar.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5793
Gestir á þessu ári: ... 23817