Skip to main content

Leyndardómar Suðursveitar

Það var ennþá svarta myrkur þennan morgun, klukkan var ekki orðin fimm, en samt voru komin ljós í glugga á bæjunum á Hala. Fólk sást hlaupa milli bæja, bera saman bækur sínar, spá í veðrið og veðurspána milli þess sem borðaður var staðgóður og vel útilátinn morgunverður. Tekið var til nesti handa hverjum og einum sem ætla mætti að dygði meðalmanni í tvo daga, fundnir mannbroddar og reynt hvort leðrið í þvengnum dygði nú ekki eina ferðina enn og síðast en ekki síst voru valin bestu og léttustu klettaböndin, þau gerð upp í jafna og fallega hringi, síðan bundið vandlega að hringnum og að lokum bundin tvöföld lykkja um vaðinn svo þægilegt væri að bera hann á öxlinni.

Dagurinn er 20. september 1985, það var ætlun fjögurra manna að freista þess að komast að því hvað hefði orðið um fjárhóp sem vitað var að hafði haldið sig í og við Mávatorfu í Innri-Veðurárdal síðasta vetur og jafnframt að kanna betur fjöllin og jöklana á þessum slóðum.

Þetta var í fimmta sinn sem lagt var upp í sérstakan jökla- og landkönnunarleiðangur af bændum í Suðursveit á 200 hundruð ára tímabili, sérstaklega til að kanna landvæðið vestan Þverártindseggja og Veðurárdalsfjöll. Fyrsti leiðangurinn var farinn 1793, annar 1850, þriðji 1928 og sá fjórði var farinn 1932.

Á hverju var von

Undirbúningur ferðarinnar hafði tekið marga mánuði, haustið áður höfðu menn farið áleiðis að Mávatorfu, þá upp Miðfell í Veðurárdal og yfir eggjarnar þar norður af. Komu þeir þá að stórum dal sem lá frá vestri til austurs. Dalur þessi er í daglegu máli kallaður Innri Veðurárdalur. Hlíðar dalsins að sunnanverðu voru hamraflug með djúpum og hrikalegum giljum, að norðanverðu féll skriðjökulstunga niður í hann úr norðaustri, hamraflug gengu frá dalbotni nokkuð upp eftir hlíðum og á einum stað alla leið upp í fjallseggjar í 1000 metra hæð. Dalbotnin sjálfur var fylltur gríðarmiklu jökullóni þar sem ísjakar svömluðu um í kolmorauðu jökulvatninu. Miðað við stærð jakanna mætti ætla að vatnið í dalnum væri meira en hundrað metra djúpt og vatnsborðið í um 400 metra hæð yfir sjávarmáli. Hvítingsdalir liggja í sveig fyrir austurenda Innri Veðurárdals og eru yfir 1000 metra hátt fjallabákn, að norðanverðu eru Þverártindseggjar meira en 1500 metra háar, sunnan undir Þverártindseggjum er nokkur háslétta í ca 1000-1200 metra hæð, sléttan er þakin jökli sem flæðir á nokkrum stöðum áleiðis niður í dalinn, en nær á einum stað alveg niður í dalbotnin eins og áður er lýst. Mávatorfa er í brattri skriðu nokkru austar en fyrir miðjum dal, torfan vísar mót suðri og þar nýtur vel sólar að sumarlagi. Torfan er óreglulega löguð að ofan og vestanverðu, en að austanverðu er eins og skaparinn hafi farið með stóran hníf og skorið stykki úr dalnum, torfan endar að austanverðu í þverhníptu hamrastáli, misgengi eða berggöngum, sem engum eru fært nema fuglinum fljúgjandi. Vestan við Mávatorfuna taka við brattar skriður með klettabeltum á milli, enn vestar enda skriðurnar og við tekur hamraflug um 500 metra hátt sem nær frá háeggjum í um 1000 metra hæð og allt niður að morauðu jökulvatninu í botni dalsins. Breiðamerkurjökull kelfir úr vestri inn í mynni dalsins og lokar fyrir afrennsli vatnsins úr dalnum. Sjá má að stöku sinnum, ef til vill á nokkurra ára fresti nær vatnið að lyfta jöklinum og þá tæmist vatnið út og inn undir jökulinn. Hvert það fer eða hvað langan tíma það tekur vatnið að tæmast úr dalnum veit enginn, þarna kemur enginn nema einstaka smalamenn og þá stundum með nokkurra ára millibili. Ef til vill kemur vatnið úr dalnum fram í Veðurá, Stemmu eða Jökulsá, það skiptir ekki höfuðmáli hver áin það er sem fyrst tekur við vatninu, þær renna allar að lokum út um sama ósinn til sjávar þ.e. Jökulsá.

Hitt er meira áhyggjuefni, að eftir því sem jökullinn þynnist framan við dalinn þá gæti vatnið lyft honum upp með meiri hraða en nú gerist og eftir því sem jökullinn hopar meira niður á sandinum styttist sú vegalengd sem vatnið þarf að renna undir jökulinn, hraði þess kann að verða meiri og gera þarf ráð fyrir því að við ákveðnar aðstæður á næstu árum gætu þarna orðið hamfaraflóð að óþekktri stærð.

Hvað er þessi dalur að gera þarna

Vestast fyrir norðurhlíðum Innri-Veðurárdals er Prestfell, pýramítalagað og formfagurt fjall, 1000 metra hátt, með skriðum og gróðurteygingum móti suðri. Með austanverðu Prestfelli gengur fallegur dalur í nokkrum sveig, fyrst til norðvesturs, síðan til norðurs og loks að síðustu til norðausturs inn með Prestfelli, dalur þessi liggur milli hamrabeltisins vestan Mávatorfunnar og Prestfells. Þennan dal var lítið vitað um fyrr en í þessari könnunarferð haustið 1984. Niðurstaða þessarar ferðar var sú að ekki væri hægt að komast í Mávatorfu úr Veðurárdal, heldur yrði að fara yfir skriðjökulinn sem liggur sunnan í Þverártindsaeggjum, líkt og gert var 57 árum fyrr þegar fullhugar brutust þá leið til að kanna mávavarpið í Innri-Veðurárdal. Það var um hásumar þegar nóttin var björt, nú var hins vegar að skella á svartasta skammdegið, birtutíminn stuttur og allra veðra von. Útilokað var að fara vestri leiðina í Prestfell eftir að ljóst var að þessi nýfundni dalur skar leiðina svo gjörsamlega að hann einn var margra klukkustunda farartálmi.

Skyldur bóndans

Þegar hér var komið sögu var ljóst að ekki tækist að ná til kindanna fyrir veturinn, fólkið vonaði innst inn að þær kæmu sjálfar nær byggð þannig að mætti bjarga þeim, en allt kom fyrir ekki. Skömmu fyrir jól flaug flugvél yfir dalinn og sást úr henni að féð hélt sig enn í Mávatorfu og hafði ennþá næga beit. Þegar komið var fram í janúar fór fólk á Breiðabólsstaðarbæjum að huga að því hvort hægt væri að fá þyrlu frá Varnarliðinu í Keflavík til þess að fljúga með menn og hunda í Mávatorfu og freista þess að ná fénu þannig. Eftir miklar umræður varð niðurstaðan sú að þar sem enginn núlifandi maður þekkti til í Mávatorfunni þá var samkvæmt loftmyndum ekki ljóst hvort þyrla gæti lent í Torfunni eða næsta nágrenni, því var hætt að hugsa um þá leið til björgunar.

Það var þungbært fyrir fólkið á bæjunum að vita af fénu lengst inn í fjöllum og hafa engin ráð á að bjarga því. Það er skylda bóndans að bjarga hverri kind af fjalli hvað sem það kostar, þó það taki jafnvel marga menn heilu dagana að bjarga einni kind úr svelti þá töldu menn það ekki eftir sér. Hjá góðum bónda er hver kind nánast eins og hluti af honum sjálfum. Hver kind var skírð með nafni og hafði sinn svip, hver kind hafði persónuleg einkenni, kom til dæmis alltaf fyrst inn þegar fénu hafði verið hleypt í vatn, önnur horfði aldrei í augu á nokkrum manni heldur væflaðist hálfgert utan við hópinn meðan enn önnur þurfti nauðsynlega að fá athygli með því að nudda sér við hönd eða fót bóndans þegar færi gafst á.

Undirbúningur

Nú leið veturinn 1985, veður var lengst af tíðindalítið og fremur hagstætt. Fólkið á Breiðabólsstaðarbæjunum talaði oft um fjárhópinn í Innri-Veðurárdal og þegar komið var fram í apríl voru menn ekki vonlausir um að féð hefði bjargað sér á snöpum yfir veturinn.

Fyrri hluta dags hinn 25. apríl þá um vorið gerði mikinn snjóbyl hér um slóðir, svo blindur var bylurinn að ekki tókst að ná börnunum heim úr skólanum í Hrollaugsstöðum þennan dag og var það í fyrsta og eina skipti sem börnin þurftu að gista í skólanum frá því daglegur akstur hófst haustið 1973. Haustið 1985 voru fjöll smöluð sem venja var, farið var í innstu leitir í Veðurárdal, meðal annars til að kanna hvort féð væri enn í Mávatorfunni eða annars staðar í Innri-Veðurárdal. Hvar sem leitað var sást ekki til fjárhópsins og í sjónaukum sáust engin merki um afdrif fjárins. Því var það ákveðið eftir fyrstu göngur í byrjun september að gera út sérstakan leiðangur til að kanna afdrif kindanna og ekki síður til að kanna fjöllin nánar, sem full þörf virtist á samanber dalinn stóra sem í fyrsta sinn hafði sést haustið áður. Um veturinn höfðu verið fengnar loftmyndir frá Landmælingunum, þær grandskoðaðar, m.a. settar undir víðsjá sem stækkaði þær mörg þúsund sinnum. Hér kann einhver að spyrja, voru menn ekki læsir á landakort, því þurfti að kaupa dýrar loftmyndir til að skoða einhverja færa leið í afdal í Suðursveit? Svarið er einfalt, landakort þess tíma sýndu skástrikuð svæði á mestum hluta leiðarinnar, skástrikað þýddi ókannað land. Þau örnefni sem merkt voru á landakortið reyndust svo illa staðsett að munaði í sumum tilfellum mörgum kílómetrum.

Í víðsjánni mátti greina bestu leiðir til að fara, bæði á jökli og ekki síður í fjöllunum. Ákveðið var fyrirfram í smáatriðum hvaða leið skyldi valin, hjá hvaða sprungusvæði þyrfti að sneiða þegar farið var inn Breiðamerkurjökul, hvaða leið væri farin úr Prestfelli og yfir dalinn stóra og áfram yfir í Mávatorfu og síðast en ekki síst hvaða leið var best úr Innri-Veðurárdal upp í Hvítingsdalseggjar ef okkur litist ekki á að fara fram Bríkurjökul vegna glæru og hálku sem viðbúið væri á hájöklum svo síðla sumars. Síðar kom í ljós að tímanum sem varið var í að liggja yfir víðsjánni og loftmyndunum var ekki illa varið, ef til vill skipti hann sköpum um að ferðin endaði ekki með ósköpum eins og stundum vill verða ef menn fara til fjalla illa undirbúnir og vankunnugir.

Sagan á bak við Fjöllin.

Það var mikil spenna í mönnum þegar ákveðið var að fara í þennan leiðangur í Fjöllin bak við byggðina í Suðursveit. Þessi Fjöll eru falin í jöklum og ófærum fjöllum, leynd var yfir tilvist þeirra oft áratugum eða árhundruðum saman og fólki í Suðursveit stóð ógn af þessum fjöllum eftir voðaverk sem þarna var unnið fyrir nær 200 árum. Þegar sá er þetta ritar var barn og unglingur á Hala þá var ekki talað einu orði um þessi Fjöll. Þegar spurt var varð fólk afundið eða skrýtið á svipinn, jafnvel brá fyrir hræðsluglampa í augum, ef til vill ekki nema von, nokkrir menn úr Suðursveit höfðu verið dæmdir fyrir sauðaþjófnað úr þessum fjöllum og aðrir höfðu drepið þar mann og enn aðrir höfðu orðið þar fyrir sérstakri lífsreynslu sem tæpast gat talist þessa heims..

Sagan segir að einhvern tíma á sýslumannsárum Ísleifs Einarssonar á Felli (1684-1720) hafi nokkrir bændur í Suðursveit leituðu sér matbjargar í Mávabyggðir, bændurnir náðu einhverjum kindum þarna í fjöllunum, síðar fékk sýslumaður fregnir af málinu og við rannsókn kom í ljós að féð sem bændurnir tóku var ómarkað og voru þeir dæmdir fyrir þjófnað. (Ferðabók Sveins Pálssonar bls. 280)

Vitað var að villifé eða útigangar héldu sig í fjöllunum að baki byggðar eða í nágrenni Breiðamerkurjökuls. Í dag vitum við að útilokað er að hópar villifjár hefðu lifað í þeim fjöllum sem við þekkjum í dag sem Mávabyggðir, þau fjöll eru vestan Breiðamerkurjökuls þannig að ótrúlegt þykir að Suðursveitungar hafi brotist þangað til matbjargar þó hart væri í ári, sá er þetta ritar hefur komið í Mávabyggðir vestan Jökuls fyrir fáum árum, mat hans er það að í þessum fjöllum gæti hrafn tæpast lifað af vetur, hvað þá sauðkind. Ekki er hægt að útiloka að einhver ruglingur hafi orðið milli Mávabyggða og Mávatorfu, en með hliðsjón af samanburði örnefna í Öræfum og Suðursveit frá fyrri öldum til nútíma, má telja ólíklegt að einhver vitræn niðurstaða fengist úr slíku.

Jökla og fjallarannsóknir í Suðursveit í 200 ár

 

Sagnir hafa geymst um að fólk úr Suðursveit hafi farið til grasa undir Snæfell (Skaftfellskar þjóðsögur bls. 75) Einnig eru heimildir fyrir því að samgönguland hafi fyrr meir verið milli Skaftafells í Öræfum og Möðrudals á Fjöllum (Skaftfellskar þjóðsögur bls. 72) Slíkar heimildir sem þessar eru gulls ígildi, en taka verður þeim báðum með nokkrum fyrirvara.

Þó hraustmenni hafi byggt Öræfi og Suðursveit um aldir, þá er til of mikils ætlast af þeim að hafa drýgt þær hetjudáðir sem hér var að framan vitnað til, báðar þessar tilvitnanir hafa verið teknar full bókstaflega af seinni tíma mönnum og færðar í þjóðsagnastíl, án þess að málið væri kannað nánar. Hvaða Snæfell var það sem Suðursveitungar áttu að hafa farið til grasa í, seinni tíma menn þekktu aðeins Snæfell á Héraði og var án efa vísað til þess í Skaftfellskum þjóðsögum. Það Snæfell sem Suðursveitungar fóru til grasa í er af samgöngulegum ástæðum útilokað að hafi verið Snæfell það á Héraði sem við nú þekkjum. Þangað er í beinni loftlínu frá Kálfafellsstað í Suðursveit 55 kílómetrar, fær gangvegur um hálendið er nær 100 kílómetrar og af þeim sökum fremur ólíklegt að Suðursveitungar einir hefðu farið þessa leið sér til matbjargar, frekar en þeir sem nær voru eins og til dæmis fólk úr Nesjum eða Lóni. Sagan um grasaferðir fólks úr Suðursveit í Snæfell á án efa við um annað Snæfell en það sem við nú þekkjum. Breiðabunga, fjallabákn mikið, 20-30 kílómetra langt frá austri til vesturs og 10-15 kílómetra breitt frá norðri til suðurs, liggur norðan allra byggðarfjalla, frá Kálfafellsdal í Suðursveit allt að Sandmerkisheiði á Mýrum. Síðustu sumur hefur lítill hluti vesturhlíðar Breiðubungu verið snjólaus og er ekki ólíklegt að einmitt á þær slóðir hafi fólk úr Suðursveit farið til grasa á öldum áður, ekki spillir fyrir að leið sú sem Norðlendingar áttu að hafa farið til sjóróðra í Suðursveit liggur þessa sömu leið. Ekki er tiltakanlega löng leið úr Staðardal í Suðursveit um Hálsatind að þeim slóðum Breiðubungu sem nú er að mestu snjólaust síðsumars. Vegfarandur um þjóðveg 1 eiga þess kost að fylgjast með á næstu árum hvernig vesturhlíðar Breiðubungu losna smátt og smátt úr viðjum jökulsins. Á hæð austan Kvíár í Öræfum þegar sést heim að Kvískerjum er tilvalið að stöðva bifreiðina, taka upp sjónauka ef hann er með í för og skoða fjöllin sem sjást í jöklinum norðan við Þverártindseggjar. Eyjólfsfjall sést allvel, snýr frá vestri til austurs, 927 metra hátt, sýnist þó eins og hundaþúfa í samanburði við Breiðabungu sem þarna er norðaustan við. Miðað við breytingar á snjóalögum og jökulþykkt í vesturhlíðum Breiðubungu síðasta áratug er ekki ólíklegt að þarna frá þjóðveginum megi fylgjast með hvernig fjallið smátt og smátt skýrist. Um árið 2020 má gera ráð fyrir að vesturhlíðar þess verði að mestu snjólausar í 750-1200 metra hæð.  

Um afrek smalanna í Skaftafelli og Mörðrudal og gagnkvæm réttindi þessara jarða samkvæmt ævagömlum máldaga, er líklegast að einhver biskupinn eða ritari hans, ef til vill hálfblindur og gleraugnalaus, hafi misritað eða mislesið Skaftafell í stað Stafafell. Vitað er að lönd Stafafells í Lóni og Möðrudals á Fjöllum hafa á öldum áður legið nálægt hvort öðru, samgangur sauðfjár þessara bæja hafi verið nokkur áður en jöklar tóku að stækka, skógur í Stafafelli var öldum saman talinn hinn mesti í Skaftafellssýslu.

Ferðir Norðlendinga til útróðra í Suðursveit

Sagnir höfðu geymst um að Norðlendingar hefðu á öldum áður komið til útróðra að Hálsahöfn í Suðursveit. Góð hafnaraðstaða og gnægð fiskjar á vormánuðum í flestum árum er talin hafa dregið að fjölda vermanna frá Austur- og Norðurlandi til útróðra, bæði að Horni í Nesjum og einnig að Hálsahöfn í Suðursveit.

Útróðar frá Hálsahöfn fengu slæman endi á góuþrælinn 1573. Þá varð þar eitt mesta sjóslys sem sögur fara af hér við land, sagt er að 92 sjómenn sem réru frá Hálsahöfn þennan dag hefðu farist, sumir telja að tala þeirra sem fórust hafi verið nokkru hærri.

Þegar Sveinn Pálsson síðar landlæknir ferðaðist hér um héraðið 1793 þá dvaldi hann að Kálfafellsstað í Suðursveit dagana 15. og 16. september vegna illviðris sem þá gekk yfir. Eftir það taldi hann séra Vigfús Benediktsson (Galdra-Fúsa) góðvin sinn. Ekki er óliklegt að þessa daga hafi þeir, séra Vigfús og Sveinn rætt um fyrri tíma og þá borið á góma sagnirnar um sjóslysið mikla frá Hálsahöfn og ferðir Norðlendinga og Austfirðinga til sjóróðra í Hornafjörð. Nær öruggt má telja að séra Vigfús hafi gert út leiðangur í dalinn strax eftir að Sveinn fór hér um héraðið, en um veturinn 1794 fær Sveinn Pálsson bréf frá þessum góðvini sínum prestinum, þar sem lýst er í nokkrum atriðum niðurstöðu leiðangursins.

Guðmundur Jónsson Hoffell lýsir leiðangri þessum í bók sinni Skaftfellskar þjóðsögur og sagnir. Þar eru nafngreindir þeir menn sem séra Vigfús sendi á jökulinn 1793. Elstur þeirra og eflaust foringi hópsins, Þorsteinn Vigfússon bóndi á Kálfafelli, oftast kenndur við Fell, fæddur 1756 á Smyrlabjörgum, 37 ára þegar ferðin er farin. Næstelstur var Kristján Vigfússon, síðar sýslumaður Austur-Skaftfellinga, missti það embætti með skömm, en varð síðar hreppstjóri, talinn vel gefinn og hraustur með afbrigðum, mikill söng og gleðimaður. Kristján var fæddur að Stað í Aðalvík 1765, er því 28 ára þegar ferð þessi er farin. Þriðji maður er Eiríkur Einarsson fæddur á Kálfafellstað 1776. Eiríkur er þarna í ferðinni yngstur leiðangursmanna, aðeins 17 ára gamall.. Stutta frásögn á ferð þeirra þremenninga er að finna í bók Guðmundar J. Hoffells og eins segir Sveinn Pálsson nokkuð frá þessari ferð í ferðabók sinni sem kom út í íslenskri þýðingu árið1945. Frásögn Guðmundar J. Hoffells er skráð 150 árum eftir að ferðin var farin, en frásögn Sveins Pálssonar er samtímaheimild, rituð nánast þá daga sem atburðir eiga sér stað. Sá er þetta ritar hefur alla tíð haft fulla trú á að bréf séra Vigfúsar Benediktssonar á Kálfafellsstað til Sveins Pálssonar frá vetrinum 1794 megi enn finna, ekki er útilokað það sé að finna í Kaupmannahöfn ásamt fleiri gögnum sem tengjasta því merka riti sem Ferðabók Sveins er í íslenskri mannfræði og náttúrusögu.

Hvenær drepur maður mann

En víkjum að leiðangrinum haustið 1793. Leið þeirra þremenninga lá inn Kálfafellsdal og þar upp til eggja, einhver vandræði voru að komast yfir fjöllin en gekk þó að lokum. Leiðangursmenn lentu í miklum mannraunum, að eigin sögn, fundu útilegumannabyggð í fögrum dal á fjöllum, lentu þar í slagsmálum upp á líf og dauða, en höfðu betur þá er yfir lauk. Lýstu þeir á hendur sér manndrápi í sjálfsvörn þegar komið var til byggða og töldu ekki útilokað að íbúar í fjallabyggðinni hyggðu á hefndir.

Þegar Sveinn Pálsson gekk á Öræfajökul sumarið eftir þ.e. 1794 fyrstur manna, þá er hann nokkuð upptekinn af bréfi prests og er sífellt að horfa eftir fjöllum í Klofajökli,( þ.e. Vatnajökli) sem hugsanlegt væri að útilegumenn hefðu sest að í. Sveinn lýsir umhverfinu allnákvæmlega, meðal annars telur hann sig vera að lýsa Breiðamerkurfjalli og Mávabyggðum, sem eru fjöll austan í Öræfajökli, en við nánari athugun og yfirlestur má sjá að einhvers misskilnings gætir í staðsetningu þessara fjalla hjá Sveini, þó þarf ekki svo að vera, ef til vill höfðu þeir sem síðar staðsettu þessi fjöll sett þau niðu á röngum stað. Uppdráttur eða kort af Vatnajökli og næsta nágrenni, frá árinu 1794 og birt er í Ferðabók Sveins staðfestir, að þegar hann telur sig vera að lýsa Breiðamerkurfjalli, þá er hann að lýsa þeim Mávabyggðum sem við þekkjum í dag og þegar hann telur sig vera að lýsa Mávabyggðum þá er hann að lýsa fjöllum sem við þekkjum í dag sem Esjufjöll. Sú nafngift kom þó ekki til fyrr en á 20. öld. Breiðamerkurfjall sem við nú þekkjum hét fyrr meir Breiðamerkurmúli, það nafn kemur fyrir í ævagömlum kirknamáldaga.

Sá er þetta ritar hefur um langt árabil verið þeirra skoðunar að Öræfingar og Suðursveitungar eigi heimsmet í því að færa til fjöll og dali, jafnvel milli sveita. Þeir voru jú vanir því að jökulárnar flæmdust sitt á hvað um sandana, ekkert var á þær að treysta um staðsetningar, jafnvel ekki frá degi til dags, því þurftu fjöllin eða dalirnir þá endilega að vera alltaf á sama stað. Hér kann miklu að ráða að bæði þessi byggðarlög hafa farið í eyði vegna tíðra eldgosa í og við Öræfajökul á árabilinu 1332-1362. Svo skelfileg voru áhrif þessara eldgosa og mannfellis af þeirra völdum svo og Plágunnar miklu 1402 og aftur 1495- 96 að nær öruggt má telja að í þessum byggðarlögum hafi lítil sem engin byggð orðið aftur fyrr en um 1500, það er að byggðirnar hafi verið í eyði í nær 170 ár. Þessi eyða í búsetunni skýrir ef til vill að hluta þann óstöðugleika sem fjöllin og dalirnir máttu búa við, en eignakröfur Skálholtsbiskupa vegna Staðarmála má einnig finna í skjölum fram yfir 1850. Þegar blessaður biskupinn fór að gera landakröfur samkvæmt einhverjum gömlum máldaga, þá gat verið þægilegt að færa fjöllin og dalina svolítið til, jafnvel að skjóta þeim milli sveita ef það mætti bjarga einhverju. Við samanburð heimilda virðist mest hafa verið um flutninga fjalla milli sveita eða innan sveita í Öræfum og Suðursveit á árabilinu 1840-1930.

Leiðangurinn 1850

Vorið 1842 kom ungur aðstoðarprestur að Kálfafellsstað, sá hét séra Þorsteinn Einarsson. Prestur sá er fyrir var, séra Jón Þorsteinsson var farinn að gamlast og vera heilsudaufur og áhugalítill um kristindóminn, biskupi þótti hann ölkær um of og samþykkti því að hingað kæmi aðstoðarprestur, þó sóknin væri ekki stór. Þessi nýji kapellán var kraftmikill og hugaður, framfarasækinn og sókndjarfur mjög, einkum þegar peningar eða jarðeignir áttu í hlut.

Gamli presturinn dó 1848 og tók þá séra Þorsteinn við embættinu að fullu. Færðist nýi presturinn allur í aukana þegar sá gamli dó og sótti mjög að bændum hvar sem peninga eða landskika mætti hafa. Taldi séra Þorsteinn m.a. að landamerki milli Kálfafellsjarða og Borgarhafnar væru ekki á réttum stað og hafði uppi kröfur um breytingar, eins lét hann fara fram rannsóknir í því hvar Staðará, sem skildi að jarðirnar hefði runnið í fornöld, því þar ættu landamerkin að vera.

Í upphafi landvinninga séra Þorsteins kom honum það í hug að Kálfafellsdalur héldi áfram hinu megin við Brókarjökul. Þá var Brókarjökull mun stærri en nú er og taldi prestur að jökullinn lokaði dalnum að hluta, en síðan héldi dalurinn áfram hinu meginn við jökulinn. Hér var eftir miklu að sækjast og ákvað hann að senda menn á fjöllin til að kanna hinn endann á Kálfafellsdal.

Það er svo 8. október 1850 að fjórir menn fara snemma morguns frá bænum Felli sem þá var enn í byggð og héldu inn Breiðamerkurjökul, svo langt sem þeir töldu sig hafa dagsbirtu til að komast aftur að Felli síðar sama dag. Því miður hefur ekki tekist að finna heimildir um hverjir þessir menn voru. Það er skemmst frá því að segja að mennirnir komu að stórum dal innarlega í fjöllunum, lá dalur þessi frá vestri til austur, yfrið stór og með nokkrum gróðri í. Grasbrekku sáu þeir stóra að því að þeir töldu fyrir miðjum dal. Fyrir norðurhlíðum dalsins vestur við Breiðamerkurjökul var laglegt fjall sem sendimenn prests þekktu ekki nafnið á. Þótti þeim því tilvalið að gefa því nafn og skírðu fjallið í höfuðið á prestinum og heitir fjall þetta síðan Prestfell. Séra Þorsteinn taldi fremur líklegt að hér væri kominn hinn endinn á Kálfafellssdal og íhugaði frekari rannsóknir ef aldur og heilsa næðist til, hvatti hann og fleiri til að leggja rannsóknum þessum lið. ( Hér er stuðst við frásagnir í bókinni, Skaftafellssýsla sýslu og sóknarlýsingar bls. 127-128)

Ekki verður séð að séra Þorsteinn hafi staðið fyrir fleiri jöklarannsóknaleiðangrum, en rúmlega ári síðar keypti hann hlut í Fellsjörðinni og hefur eflaust þannig talið sig best tryggðan um aðgang að hinum endanum á Kálfafellsdalnum. Dóttir séra Þorsteins og konu hans frú Guðríðar Torfadóttur, var frú Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm skáldkona, fædd og uppalin á Kálfafellsstað í Suðursveit, brautryðjandi í gerð sögulegra skáldsagna og án efa fyrsti alvöru rithöfundur þjóðarinnar á okkar tímum.

Draugarnir í Fjöllunum 1928

Næst er gerð tilraun til að rannsaka fjöllin bak við byggðina sumarið 1928. Þá fóru fjórir menn inn úr Reynivallafjalli, þaðan inn á Bríkurjökul og svo áfram þar til þeir sáu ofan í dalinn stóra, þann sama og sendimenn séra Þorsteins höfðu lýst eftir ferð sína 1850. Þeir menn sem í þennan leiðangur fóru voru, Þorsteinn Guðmundsson bóndi á Reynivöllum, Þórhallur Bjarnason bóndi á Breiðabólsstað, Sveinn Einarsson ráðsmaður á Neðribæ á Reynivöllum og Ingvar Þorláksson vinnumaður Steinþórs á Hala. (Skaftfellingur 9, árg. 1993)

Takmark þessara manna sem nú fóru til landkönnunar var að komast í grastorfuna stóru sem sendimenn séra Þorsteins höfðu lýst í sinni ferð. Menn höfðu grun um að í grastorfu þessari væri ef til vill að finna fuglavarp, lengi höfðu menn veitt athygli mávategund sem ég kann því miður ekki deili á, flugu fuglar þessir yfir fjöllin að því er virtist í stefnu á þessa grastorfu.

Fjórmenningarnir bröltu niður af jöklinum, niður brattar hlíðar dalsins og viti menn, grastorfan stóra var þakin í máv hvert sem auga var litið. Tíndu mennirnir nokkuð af eggjum og suðu í potti sem þeir tóku með sér að heiman, á meðan sauð í eggjunum voru sungin ættjarðarlög og síðan tekið hraustlega til matar síns. Eftir að hafa borðað sig belgfulla af mávseggjunum færðist værð yfir mannskapinn og lögðust þeir til svefns í torfunni innan um mávagerið. Eftir litla stund vakna þeir við það að hundur eins þeirra sem í ferðinni var, stóð á barmi mikils gils sem austurendi torfunnar lá að og gelti og gelti án afláts og horfði niður í gilið stingandi augum. Þarna leið nokkur tími og ekki hætti hundskvikindið að gelta, hvað sem reynt var, á endanum ákváðu fjórmenningarnir að ekki væri lengur vært í torfunni góðu og ákváðu að halda þegar í stað heim á leið. Gilið sem hundurinn gelti ofan í skírðu þeir Draugagil, þar sem þeir voru nokkuð vissir um að hundurinn hefði séð draug ofan í gilinu. Þegar Steinþór Þórðarson á Hala, afi minn sagði mér söguna spurði ég hann hvort það gæti verið að útilegumaðurinn hefði gengið aftur og væri enn á sömu slóðum og hann átti að hafa verið drepinn 135 árum fyrr. Þá sagði hann: ,,Það er nú frekar ólíklegt en þó getur maður ekki verið viss um að svo sé ekki.”

Fundinn Svöludalur 1932

Enn var farið til jökla úr Suðursveit á Jónsmessu 24. júní árið 1932. Þá lögðu tveir menn upp frá Reynivöllum, og fóru þeir sömu leið og farin var 1928. Hér var aftur á ferð Þorsteinn Guðmundsson bóndi á Reynivöllum, en með honum í för var Baldur Johnsen læknir frá Vestmannaeyjum, þá 22 ára gamall læknanemi stjúpsonur Jarþrúðar Pétursdóttur prestsdóttur frá Kálfafellsstað. Hafði hann sumardvöl hjá séra Jóni Péturssyni bróður Jarþrúðar, en Jón hafði þá tekið við föðurarfleifð sinni sem þjónandi prestur á staðnum.. Fóru þeir í Mávatorfu en eftir skamma viðdvöl þar héldu þeir áfram för, ferðinni var heitið þvert yfir Vatnajökul til Norðurlands. Hafa þeir sennilega ætlað að leika eftir för þremenninganna Helga Guðmundssonar frá Hoffelli, Sigurbergs Árnasonar frá Svínafelli og Unnars Benediktssonar frá Einholti sem fóru norður í land yfir Vatnajökul frá Hoffelli, fram og til baka sumarið 1926.

Þeir Þorsteinn og Baldur fóru síðan aftur upp Bríkurjökul og töldu sig nú vera komna á beinu brautina til fyrirheitna landsins. Eftir nokkra göngu á sléttum jöklinum koma þeir skyndilega fram á flugbratta fjallshlíð. Fyrir fótum þeirra var þá gríðarstór dalur opin mót vestri, að norðan var lágt fjall (Eyjólfsfjall), að austan gnæfðu Þverártindseggjar og að sunnan var hásléttan sem Bríkurjökull þakti að mestu og sameinaðist heiðarlandi sem gekk norður úr Prestfelli. Hrepptu þeir vont veður á þessum slóðum og þurftu að hafast við í tjaldi sínu og bíða veðrið af sér En á dauða sínu áttu mennirnir von, frekar en að rekast á þennan risastóra dal. sem við frekari athugun reyndist ófær til niðurgöngu úr þeirri átt sem þeir komu. Sagan segir að á meðan mennirnir stóðu á brúninni og réðu ráðum sínum kom svala fljúgandi að þeim úr norðri, skírðu þeir þennan stóra dal eftir þessum litla fugli og nefndu hann Svöludal. Skemmst er frá því að segja að þeir hættu við för sína að svo búnu og sneru aftur heim.

Mikið hefði séra Þorsteinn Einarsson á Kálfafellsstað verið glaður hefði hann vitað af þessum dal, því að Eyjólfsfjall virðist að hluta vera framhald af fjallgarðinum sem markar austurhlíðar Kálfafellsdals. Nú er að byrja að koma mynd á þessi miklu fjöll sem liggja bak við byggðina í Suðursveit. Þessi dalur sem þarna fannst 1932 og heitir nú Svöludalur er án efa sami dalurinn og sendimenn séra Vigfúsar fundu í leiðangrinum 1793, þá komu þeir að honum frá norðri, en leiðangursmennirnir 1932 komu að þessum sama dal frá suðri. Svöludalur er fylltur jökli í botninn nú á tímum en líklegt er að 1793 hafi hann verið jökullaus að nokkru, þar sem Brókarjökull var á þeim tíma minni en hann er nú og miklu minni en hann varð í hámarki um 1830-40. Það er því ekki að undra þó sendimenn Galdra Fúsa hafi þurft að tjá sig með tilþrifum þegar þeir komu til byggða eftir ferðina 1793. Þessi dalur, Svöludalur er svo vel falinn milli fjallanna, svo feiknar stór og tilkomumikill, á þeim tíma án efa nokkuð gróinn og að sama skapi búsældarlegur að enginn trúði því sem þeir sögðu þegar þeir reyndu að lýsa þessu náttúrufyrirbrigði sem þarna er. Lítill vafi er á að ónákvæmar fullyrðingar Sveins Pálssonar um að mennirnir hafi farið með fleipur eitt drógu úr áhuga annara til að kynna sér landfræðilegar aðstæður í fjöllunum bak við byggðina í Suðursveit.

Innan nokkurra áratuga má ætla að Breiðamerkurjökull hafi hopað svo mikið á þessum slóðum að mögulegt verður að sigla langleiðina að Svöludal og þegar jökullaust verður í botni dalsins og form hans og mikilleiki birtist fólki, þá verður þessi dalur talinn meðal mestu náttúruundra okkar lands. Sá er þetta ritar leit Svöludal fyrst augum haustið 1974, það haust voru óvenju slæmar heimtur fjár af fjalli, leigði hann sér þá flugvél frá Egilsstöðum og flaug með henni hér um fjöllin vítt og breitt í þeim tilgangi að leita að eftirlegukindum. Í þessari ferð var flogið tvisvar eftir Svöludal. Vísbendingar eru um að í dalnum sé jarðhita að finna og ekki skal útiloka að finna megi mannvistarleifar þegar jökullinn hopar meira á næstu árum.

Ekki er útilokað að útilegumannabyggðin sem leiðangurmenn sögðu frá 1793 gæti hafa verið sæluhús norðlenskra vermanna frá fyrri öldum.

Leiðangurinn 1985

Víkjum nú aftur að upphafi þessarar greinar, því enn skal halda á jökul úr Suðursveit og kanna ný lönd. Það er kominn 20. september 1985. Allt er tilbúið til brottfarar, fjórir menn og einn hundur búa um sig í gamla Rússajeppanum og ekið er af stað áleiðis inn í Þröng. Það er staður sunnan undir Fellsfjalli þar sem Breiðamerkurjökull hefur í áranna rás skafið fjallshlíðina og sópað grjótinu í jökulgarða þegar hann gekk fram, en nokkrar sléttar spildur eru milli jökulgarðanna sem verða til þegar jökullinn hopar.

Þeir sem hér voru að hefja ferð eru, Steinþór Torfason, bóndi á Hala 37 ára og Fjölnir Torfason, bóndi á Hala 33 ára. Bróðir þeirra fyrrnefndu var einnig með í för, Zophonías Torfason, þá starfsmaður Ísbjarnarins í Reykjavík, síðar skólameistari og kennari við Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu, 29 ára og fjórði maður er Sigurbergur Arnbjörnsson frá Svínafelli í Nesjum, um þessar mundir vinnumaður á Hala, 25 ára. Með í för var hundur sem Krummi hét, nokkuð kominn til ára sinna þegar hér er komið sögu, fundvís á fé með afbrigðum og glöggur að rata í illfærum klettum eða fjöllum, afbragðs ferðafélagi sem sjaldan reif kjaft eða setti sig verulega á móti ákvörðun okkar hinna ferðafélaganna. Enn var myrkur þegar við fórum frá bílnum, en farið var að skíma þegar komið var að jökulröndinni. Jökullinn var greiðfær inn á móts við Hellrafjallsnöf. Þegar þangað var komið var sólin farin að skína á fjallatinda og orðið bjart, það var eins gott því hér vorum við komnir að sprungusvæði sem ekki hafði verið farið yfir í bráðum tvo áratugi. Á loftmyndum mátti sjá að með því að fara dálítið út á jökulinn mátti þræða sig eftir jökulhryggjum milli sprunganna og þannig tókst okkur að þræða leiðina yfir sprungusvæðið. Það að komast hjá því að þurfa að fara í land af jöklinum við Hellrafjall, stytti leið okkar í átt að Prestfelli um einn til tvo klukkutíma og sparaði ómælda orku.

Þegar komið var af sprungusvæðinu var gengið greitt og hlaupið við fót þar sem gott færi var.

Jökulvegur frá Þröng og að Prestfelli var um 11-12 kílómetrar og fórum við þá leið á röskum tveimur tímum. Á móts við sprungusvæðið opnast dalur sem heitir Miðfell, er hann milli Hellrafjalls og Útigönguháls, innan við Útigönguháls tekur við Fauski og síðan Fauskatorfur.

Innsta kennileiti í Fremri Veðurárdal nefnist Beygja. Hér tekur fjallgarðurinn beygju, frá því að stefna í norðvestur stefnir hann í norðaustur og síðan í austur. Þegar komið er inn á Beygju blasir Prestfell við til norðnorðvesturs, þangað eru um tveir kílómetrar frá Beygjunni, þar á milli er Innri Veðurárdalur, nær sex kílómetra langur til austurs.

Skömmu áður en við komum að Prestfelli tókum við eftir því að jökullinn breyttist frá því að vera skriðjökull í það að vera líkari hjarnjökli eða smá bland af hvoru tveggja. Við nánari skoðun kom í ljós að við vorum hér að koma á snjóalögin frá vetrinum áður, sem sagt við vorum þarna á mörkum ákomu og bræðslusvæðis sjálfs skriðjökulsins í um 400 metra hæð yfir sjávarmáli. Þetta sumar 1985, var heitara en næstu tuttugu sumur þar á undan, samt voru mörk bræðslu og ákomusvæðis þarna aðeins í um 400 metra hæð. Þetta sumar bráðnuðu snjófannir í háfjöllum sem ekki höfðu bráðnað næstu sumrin þar á undan.

Komnir í Prestfell

Það var sérkennileg tilfinning að stíga á land í Prestfelli, bæði að hafa farið svo langan jökulveg á svo skömmum tíma og hitt ekki síður að ekki var vitað til þess að hér hefði maður komið um langt árabil, jafnvel ekki í mörg hundruð ár. Við töldum okkur hafa svo góðan tíma að við ákváðum að skoða okkur dálítið um í Prestfelli, gengum dálítið upp fjallið og inn eftir hlíðum þess, upp á myndarlegan hnaus sem þar er og horfðum þaðan inn með hlíðum fjallsins, inn eftir Breiðamerkurjökli. Við reyndum að meta fjarlægðina til Esjufjalla og færið á jöklinum þangað yfir og var það mat okkar að jökulvegur milli Esjufjalla og Prestfells myndi ófær vegna mikils skriðs í Breiðamerkurjökli á milli Esjufjallarandar og svæðis um tveimur kílómetrum frá Prestfelli. Hnausinn sem við stóðum á skírðum við Maddömuhnaus, þótti það vel til fallið í miðju hlíðum Prestfells.

Við tókum síðan stefnu af Maddömuhnaus, austur hlíðar Prestfells sem eru að mestu ógrónar svo hátt uppi, þó fundum við á einum stað dálitla uppsprettu í skriðunni og umhverfis hana var að finna ótrúlega margar tegundir blóma og grasa.. Skriðurnar framan í Prestfelli eru ólíkar skriðum í framfjöllum. Hér eru skriðurnar gerðar af fremur smáum þunnum hellum, 3-8 cm í þvermál og 1-2 sentimetrar á þykkt. Hellur þessar hafa í aldanna rás raðað sér eftir veðri og vindi þannig að þær mynduðu flöt þar sem hver hella lá að því er virtist að hálfu ofan á hellunni sem neðar var og þannig koll af kolli, líkt og gömlu helluþökin voru hér í sveitinni fyrr meir. Þannig virtist náttúran hafa raðað hellunum, að í miklum stormi eða regni myndaðist hvergi brún eða bil þar sem vindurinn gæti náð undir hellurnar eða regnið myndað farveg á einum stað frekar en öðrum. Á hellunum mátti sjá skófir og annan smágróður og töldum við að þær hefðu legið í svipaðri eða sömu stöðu lengi.

Hér verð ég að segja frá undarlegu fyrirbrigði sem ég varð vitni að á þessum slóðum ári síðar. Þá kom ég inn á Beygju í fyrstu smölun og skimaði til Innri-Veðurárdals og Prestfells og rifjaði upp í huganum ferðina frá árinu áður. Eg hafði skamma stund staðið og yljað mér við minningarnar þegar ég tók eftir því að Prestfellið var eitthvað öðruvísi en það var vant að vera, það virtust vera einhver skil í skriðunum í efri hluta fjallsins. Ég tók upp sjónauka og kannaði nánar hvað þarna hefði komið fyrir. Það sem fyrir augum blasti var skelfilegt, það virtist sem jarðýtu hefði verið ekið eftir hlíðum Prestfells og þá helst með það fyrir augum að gera þar akfæran veg. Úr margra kílómetra fjarðlægð mátti sjá slóð sem við nánari athugun var í upphafi eftir fjóra menn og einn hund, en með því að ganga eftir skriðunni höfðum við raskað árhundraða náttúrulegri uppröðun hellusteinanna sem þöktu skriðuna. Röskunin varð til þess að ný uppröðun þurfti að verða og tók þessi nýja uppröðun yfir margra metra breitt svæði og var mjög áberandi.

Leynidalur

Við ferðalangarnir höldum nú áfram austur eftir hlíðum Prestfells og komum eftir nokkra göngu á brúnir dalsins sem uppgötvaðist haustið áður. Dalur þessi klippir Prestfell algjörlega úr samhengi við aðra hluta Innri-Veðurárdals. Við vorum sammála um að skýra hann Leynidal. Dalurinn er U laga, 3ja -4ja kílómetra langur, gróinn að nokkru hið neðra en efra eru berar skriður og klettabelti. Eftir dalbotninum rann bergvatnsá, og sjá mátti fagurlitaðar áreyrar þar sem blágrýti var mest áberandi steintegundin. Áin féll síðan í myndarlegum fossi ofan í Veðurárdalslónið. Greiðfært var niður í dalinn þar sem við komum að honum og vorum við aðeins nokkrar mínútur að lækka okkur úr um 900 metra hæð niður í 500 metra hæð, en það áætluðum við að væri hæð dalbotnsins miðað við sjávarmál. Þegar niður í dalbotninn kom urðum við fyrir nokkrum vonbrigðum með gróðurinn, miðað við það sem okkur hafði sýnst að ofan. Niður við ána var allur gróður dauðkalinn, leit út fyrir að vera að koma undan snjó í fyrsta sinn í mörg ár, ekki ólíkt og við höfðum séð í Veðurárdal í fyrstu göngum þetta haust. Þar höfðu bráðnað fannir í fyrsta sinn frá haustinu 1967 og grastorfur sem komu undan snjónum sem legið hafði samfellt í 18 ár voru nánast moldarflag.

Þegar við komum í hlíðina hinu megin í dalnum, sem sneri til suðurs þá gegndi dálítið öðru máli. Gróður var þarna fremur gisinn en mun gróskumeiri en við höfðum séð til fjalla áður. Gulvíðirunnar stóðu þarna 20. september alsettir reklum líkt og var í byggð um miðjan júní. Blómjurtir voru mun hávaxnari hér og gróskumeiri en við höfðum séð áður við bestu aðstæður. Við héldum þegar upp bratta hlíðina og stefndum á stað í hamrabeltinu þar sem við töldum að fært væri að komast upp. Hamrabeltið var samsett úr nokkrum rákum og skriðum á milli, en efst var 15-20 metra hátt klettabelti sem alls ekki var fært nema ef til vill á einum stað. Við sáum að ef við kæmumst ekki þarna upp þyrftum við að ganga fyrir endann á klettinum og myndi það tefja okkur drjúga stund, hálfa til eina klukkustund. Okkur tókt að klifra upp hamrabeltið og létti okkur mikið að þurfa ekki að lengja leiðina með því að fara inn allan dalinn til að komast upp úr honum. Ofar tóku við snarbrattar skriður allt upp í hamrabeltið sem var í egginni sjálfri, þá var komið í meira en 1000 metra hæð.

Við slógum okkur fram skriðurnar meðan við hækkuðum okkur og þegar við áttum eftir um hundrað metra upp í eggina vorum við komnir austur að flugbröttu hamrastáli sem skilur að Mávatorfu og Leynidal. Nokkru ofar sáum við að rák lá austur efst í fluginu og töldum ekki útilokað að við kæmumst hana yfir í hnausana ofan við Mávatorfuna. Ef það tækist myndi það spara okkur mikinn tíma og erfiði, komið var fram yfir hádegi, við vorum tvisvar búnir að brölta í um þúsund metra hæð í lausum skriðum og töldum okkur ekki vera hálfnaða með leiðina sem fara þyrfti þennan dag.

Það var eins og hundurinn skildi hvað við vorum að tala um, hann fór rakleiðis upp að rákinni og skokkaði hana til austurs eins langt og við sáum. Það stóð á endum að þegar við komum upp að rákinni þá er hundurinn að koma til baka og er glaðlegur á svip. Það merkti í mínum huga af fenginni reynslu að rákin væri fær fyrir menn. Ég hafði oft notað hann til að kanna leiðir í klettum og fjöllum og eins hafði ég notað hann til að sýna fólki hvaða leið það átti að fara í klettum ef ég þurfti að fara aðra leið sem ég treysti ekki óvönum að fara. Við fórum eftir rákinni, hundurinn hafði rétt fyrir sér, hér var ágætt að fara, en það var svolítið sérstök tilfinning að brölta örmjóa klettarák í um 1000 metra hæð og horfa niður þverhnípt hengiflugið 600 metra niður, steinn skrapp undan fótum og stuttu síðar skall hann í jökulvatninu, langt langt niður í botni dalsins.

Í Mávatorfu

Við komum eftir skamma göngu í skriðuhnausana ofan við Mávatorfu og fórum þaðan nánast beint niður í Torfuna sjálfa.

Að vera kominn í Mávatorfu var ólýsanleg tilfinning. Hér hafði enginn maður stigið fæti sínum í meira en hálfa öld, þetta var næstum því eins og maður hefði sigrað í stórstyrjöld eða hér um bil eins og maður hefði komist til tunglsins. Munurinn á tunglinu og Mávatorfu var samt nokkur, umhverfið gróðurvana og hrikalegt hefði vel getað verið á tunglinu, en Torfan sjálf gat vel verið af enn öðrum hnetti, svo algjörlega var hún ólík öllu öðru sem ég hafði augum litið.

Mávatorfa er í brattri fjallshlíð, vísar móti suðri, hæð yfir sjávarmáli er u.þ.b. frá 450 metrum og að 600 metrum. Jaðrar torfunnar eru allvel grónir, en um miðbik er torfan gróin betur en bestu tún í byggð. Flatarmál þess hluta torfunnar sem best er gróinn áætluðum við 1,5 hektara, en sjá mátti að gróður hefur teygt sig nokkuð út frá jöðrum torfunnar, einkum til vesturs. Eins hefur gróið nokkuð upp neðan við aðaltorfuna, heildar flatarmál gæti verið 3-4 hektarar. Gróður var ótrúlega fjölbreyttur og gróskumikill, bláberjarunnarnir voru þaktir berjum og tóku þeir athygli okkar í byrjun. Þegar rann af okkur mesta berjaæðið þá fóru menn að dreifa sér um svæðið og kanna betur gróðurfar og eins hvort ekki væri að finna einhverjar vísbendingar um hvað orðið hafði um féð frá vetrinum áður. Við fundum fljótlega svæði miðja vegu í torfunni austur við hamraflugið þar sem greinilegt var að féð hafði haldið sig um veturinn. Áberandi bæli og kindaskítur var á nokkru svæði, en ekki var hægt að sjá að féð hefði barist við hagleysi því landið var ekkert skemmt eins og venja er þegar fé heldur sig á litlum bletti yfir veturinn. Engar vísbendingar fundum við um afdrif kindanna og hundurinn sýndi engin viðbrögð sem gæfu til kynna að lifandi sauðkind væri í nágrenninu. Hann var mjög næmur á slíkt og hafði oft vísað til kinda í eftirgöngum, stöku sinnum úr margra kílómetra fjarlægð. Hann hafði vanist því að vera sendur til að kanna fjöll eða dali, var fljótur að því og vísbending sem hann gaf um hvort kind væri á svæðinu var að hann neitaði að fara heim þegar hann kom úr slíkri leit. Jafnvel þó ég sneri heim á leið, þá fór hann í öfuga átt og varð þrjóskulegur á svipinn, þetta brást aldrei.

Nú var komin lítilsháttar vindkæla. Við fundum okkur því þægilegan stað í dálítilli dæld, komum okkur vel fyrir í háu grasinu og borðuðum nestið okkar. Þegar við höfðum lokið snæðingi þá dró Sigurbergur upp úr vasa sínum skeifu og var eitthvað að velta henni fyrir sér. Okkur datt þá í hug að gaman væri að skilja skeifuna eftir á góðum stað til minningar um ferð okkar. Fundum við þar skammt frá nokkuð stóran og áberandi stein með sléttan flöt að ofan, settum við skeifuna þarna á steininn og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að finna hana aftur næst þegar við yrðum á ferðinni. (Síðan eru liðin 24 ár og enginn okkar hefur komið þarna aftur) Nú var loft orðið alskýjað og nokkuð farið að kólna, klukkan var farin að ganga fjögur síðdegis og þrátt fyrir að veðurstofan hefði spáð bjartviðri og hægviðri þennan dag, þá höfðum við þegar um morguninn séð éljaský austan í Öræfajökli. Slík ský merkja æfinlega úrkomu í vestanverðri Suðursveit síðari hluta dags, einkum ef norðanáttin er hæg eins og þarna var. Við höfðum ákveðið að fara áfram niður úr Mávatorfu, töldum okkur hafa séð það í víðsjánni um veturinn að sú leið væri fær. Við ætluðum að halda áfram til austurs í áttina að Hvítingsdalseggjum og freista þess að komast þar upp úr gilskoru sem við töldum sæmilega færa. Eins og áður hefur verið lýst markast öll austurbrún Mávatorfu af þverhníptu hamrastáli, nokkurra tuga metra háu og engum fært nema fuglinum fljúgandi. Hamrastálið er vesturhlíð á djúpu gili sem fékk nafnið Draugagil í ferðinni 1928 eftir að hundurinn gelti þarna ofan í lengi nætur, nánast eins og hann væri geðbilaður.

Við fórum að fikra okkur niður eftir neðri huta torfunnar, gróðurinn var greinilega að breiðast hér út, gulvíðirinn svignaði undan bústnum reklum og hvarvetna mátti sjá loðvíði vera að skjóta rótum. Gulvíðirinn veitti okkur falskt öryggi í snarbrattri hlíðinni, það virtist ekki eins bratt þar sem hann breiddi úr sér neðan við okkur og morautt jökulvatnið virtist aðeins fjarlægara. Við komum niður á smá snaga þar sem brattinn var minni og þar sjáum við að liggur dauð kind, nokkurt umrót var kringum hræið, líkt og kindin hefði haldið sig þarna í nokkurn tíma. Við skoðuðum kindahræið betur og komumst að því að hér hefði Gamla Flekka á Breiðabólsstað borið bein sín veturinn áður, vitað var að þessi ær var meðal fjárins sem sést hafði í Mávatorfu. Það vissi enginn hvað þessi ær var gömul í raun, þó var talið að hún væri einhvers staðar á milli þess að vera 12 – 20 vetra gömul, hafði slæma sjón á vinstra auga vorið áður en sá ekkert með hægra auga eftir veikindi nokkrum árum fyrr. Gamla Flekka var höfð í girðingu um sumarið, hafði komist þaðan út með hrútana sína tvo, einhverjir vildu meina að hún hefði ekki séð girðinguna, samt hafði hún ratað í sumarhaga sína í Veðurárdalnum. Því kaus hún að leita lengra til fjalla í stað þess að koma heim í öryggi fjárhúsanna ? Hafði hún ef til vill ákveðið að nota síðust krafta sína til að kanna dalinn og fjöllin sem hún hafði séð í fjarlægð langt í norðri síðan hún var lamb í Veðurárdal löngu fyrr ?

Það hafði valdið okkur svolítilli óvissu hver núverandi vatnshæð var í lóninu neðan við okkur miðað við loftmyndirnar sem við höfðum skoðað veturinn áður. Ef vatnshæðin var meiri nú en þegar myndirnar voru teknar var ekki alveg víst að okkur tækist að komast niður í Draugagil þessa leiðina. Við höfðum þá gert ráð fyrir að þurfa að síga í böndum niður í gilið ef vatnið næði upp í hamraflugið sem áður var lýst. Það stóð á endum, allt mættist í sama punktinum, vatnsborð lónsins og skriðan sem lagðist að þverhnípinu þannig að við gátum smeygt okkur með fram vatnsborðinu niður í skriðuna án þess að síga í köðlum.

Í Draugagili

Það var mikill léttir að vera kominn á nánast slétt land í botni Draugagils eftir að hafa brölt um brött fjöllin allan daginn og gafst nú tóm til að líta aðeins í kringum sig án þess að eiga það á hættu að stingast á hausinn ef maður þurfti að snúa sér við eða færa sig eitthvað til að sjá betur. Við höfðum tekið eftir því úr Torfunni að tveir ljósir dílar voru við vatnsborðið sunnan megin jökullónsins. Að okkur hafði þegar sett illan grun um að þessir dílar væru hræ af kindum og höfðum ákveðið að kanna þetta nánar í sjónauka þegar við kæmumst niður að vatnsborðinu í gilinu. Það var eins og okkur hafði grunað, tvær kindur höfðu borið bein sín undir mörg hundruð metra háu klettafluginu þarna á móti. Dálítið bil var á milli hræjanna, fjarlægðin var mikil og því ekki hægt að átta sig á hvort kindurnar höfðu hrapað niður flugin eða lent í sjálfheldu undir þeim.

Draugagil markast að vestanverðu eins og áður segir af hamrastáli sem um margt minnir á misgengi af tröllaukinni stærðargráðu, að austanverðu er klettaveggir mun lægri en að vestanverðu, ekki samfelldir og virðast í fljótu bragði ekki vera gerðir úr sömu bergtegund.

Gilið mældum við ekki, en breidd þess gæti verið 40-50 metrar og lengdin gæti verið 200-300 metrar. Það sem einkum vakti athygli okkar var liturinn á skriðunni í gilinu. Hún var grámóskuleg og samanstóð af steinum sem voru flestir af sömu stærð, tæplega hnefastórir. Engin sérstakur vantsfarvegur var sjáanlegur, en dældir og drýlur í skriðunni bentu til þess að nokkur hreyfing væri á jarðveginum og þá líklegast vegna snjóálags eða snjóflóða. Enginn gróður er í gilinu og stingur það mjög í stúf við gróskuna í torfunni við hliðina. Hér gátum við hæglega verið komnir til tunglsins, ekki vottur af skófum eða mosa á nokkrum steini, eins gróðurvana og maður hafði séð á myndum af eyðimörkum í útlöndum. Þegar við vorum komnir nokkuð áleiðis yfir gilið sáum við skammt ofan við okkur einhverja þúst við hlið einnar grjótöldunnar, við nánari skoðun kom í ljós að hér voru hræ af tveimur kindum. Það var eins og ullin á kindunum hefði tekið lit af skriðunni. Það var ógerningur að greina lit ullarinnar sem nóg var af þarna, báðar kindurnar voru að minnsta kosti í tveimur reifum. Það merkti að þær höfðu lifað af meira en eitt ár þarna í fjöllunum. Kindurnar voru ótrúlega heillegar þó líklegt væri að þær hefðu legið þarna einhver ár, mark mátti sjá á annari þeirra og lambamerki var í vinstra eyra hennar. Kindin var frá Gerði og hafði vantað af fjalli nokkrum árum fyrr. Þrátt fyrir nokkra leit í gilinu fundum við engin merki um að fleira fé hefði dagað þar uppi, en við töldum líklegt að þessar kindur hefðu lokast þarna af í djúpum snjó og drepist úr hungri.

Þetta brölt okkar í gilinu kringum hræin hafði tafið okkur drjúga stund og hröðuðum við okkur austur úr gilinu og upp á dálítinn slakka austan þess. Þar voru jökulsorfnir klettahnausar með grýttri skriðu á milli. Þarna hækkaði landið jafnt og þétt til norðurs og austurs, en niður við jökullónið var hamraflug sem var ófært að komast eftir. Hér vorum við komnir í Sveinatungur, nafn sem þessum stað var gefið í ferðinni 1928. Hér var nokkur gróður, bæði grös af ýmsu tagi, víðir var þarna nokkur, en mest áberandi var ákaflega stórgerð hvönnin sem þarna hafði yfirhöndina yfir annan gróður.

Afdrif fjárhópsins.

Við tókum eftir því að nokkuð upp í slakkanum vestan í Sveinatungum var hellisskúti neðan undir dálitlum klettahnaus. Okkur þótti úr fjarlægð líkt og einhverjar þústir væru við skútann og ákváðum að skoða nánar hvað þarna væri. Við hröðuðum okkur upp að skútanum og sú sjón sem þar blasti við mun okkur seint líða úr minni. Þarna lágu fjórar kindur hlið við hlið, sneru höfði mót suðri, tómar augntóftir voru dimmar mót birtunni, að öðru leiti var eins og féð hefði lagst þarna fyrir þennan sama dag. Könnun okkar leiddi í ljós að enginn kindaskítur var í skútanum eins og þó var í bælum fjárins í Mávatorfu. Við drógum þá ályktun að féð hefði kafnað þarna, að öllum líkindum í sumamálabylnum 25. apríl, þá um vorið. Blessaðar skepnurnar höfðu leitað sér skjóls fyrir hríðinni þarna í skútanum, lagst fyrir og beðið eftir að hríðinni slotaði, ef til vill horft mót birtunni meðan hennar naut við, síðan varð allt svart. Féð sem þarna hafði lagst til að bíða af sér hríðina var, ær með hrút frá Kálfafelli og hrútarnir tveir hennar Gömlu-Flekku á Breiðabólsstað, annar svartur hinn hvítur. Af hornahlaupum hrútanna sem þarna voru orðnir veturgamlir mátti sjá slíkan vöxt að annað eins var ekki að finna heima í fjárhúsum bænda þessi árin. Jafn og samfelldur vöxtur virtist hafa verið í fénu, því drógum við þá ályktun að atlæti þeirra hefði verið gott um veturinn, aðeins hríðin ein skildi hér milli lífs og dauða.

En nú var langt liðið á dag, alskýjað var orðið og þokutoddar farnir að þeytast með fram Prestfellinu, nú var ekki lengur til setunnar boðið. Áfram varð að halda þó flestir væru svolítið farnir að lýjast og einhverjir farnir að finna til eymsla og sárinda á fótum. Hundurinn var farinn að hlífa fótunum til skiptis, þoldi illa skriðugrjótið eftir allar smalamennskurnar þetta haust. Við vissum að leiðin lá upp allar Sveinatungur til þess að komast upp fyrir hamraflugið sem lokaði leið okkar til austurs. Þegar við vorum komnir ofarlega í Tungurnar fór að slíta úr eitt og eitt snjókorn og dimmdi hratt í lofti. Þegar við töldum okkur vera komna upp fyrir flugið stefndum við til austurs og sáum brátt niður á skriðjökulinn sem teygði sig niður að jökullóninu austan við okkur. Nokkuð vantaði á að jökullinn næði út í vatnið og sáum við greiða leið framundan, hlupum niður skriðuna í átt að jöklinum og vorum ákveðnir í að finna rétta leið upp í Hvítingsdalseggjar áður en þyngdi meira að.

Bylur í Hvítingsdalseggjum

Við fórum yfir jökulsporðinn rétt neðst þar sem bratti hans var ekki mikill. Þegar við vorum að komast af jöklinum byrjaði að sjóa allþétt og þokumistur lagðist yfir allt. Við sáum minna en 10 metra frá okkur og eftir því sem snjórinn náði að festa varð skyggnið sífellt minna og minna.Við fikruðum okkur ofar í skriðurnar þegar við komum af jöklinum og ákváðum að finna klettabeltið sem átti að vera þarna einhverns staðar. Allar fjarlægðir verða afstæðar í skyggni sem þessu og afar erfitt að meta vegalegndir þegar paufast er upp snarbratta og lausa skriðu í skyggni sem nú var að verða nánast ekki neitt. Við fundum klettabeltið eftir nokkurn tíma og ákveðið var að halda fyrirfram áætlaðri leið samkvæmt víðsjánni og loftmyndunum. Við áttum að fara upp þriðja gil frá skriðjöklinum, myndirnar höfðu sýnt að upp úr því eina gili væri fært úr Innri-Veðurárdal upp í Hvítingsdalseggjar, en þangað þurftum við að fara til að komast fram í Veðurárdal. Leiðin upp skriðjökulinn og fram í Miðfell í Hólmafjalli eða austur úr Reynivallafjalli var óðs manns æði að reyna við aðstæður sem þessar, mokandi snjókoma og hálka á jöklinum, sprungur við jökuljaðarinn og illmögulegt að greina hvað var jökull eða fast land. Við fikruðum okkur með fram klettabeltinu og töldum gilin sem við fórum framhjá, þegar við komum að þriðja gili fórum við þar áleiðis upp klettana, vitandi að við þurftum að hækka okkur um meira en fjögur hundruð metra til að komast upp í Hvítingsdalseggjarnar.

Reynt var að telja klettabeltin sem gnæfðu á báða vegu, stundum þurfti að klifra upp stöku klett sem lokaði leiðinni. Engir stórir farartálmar urðu þó á leið okkar upp snarbratt gilið og þegar við töldum okkur vera komna í þá hæð sem fært yrði í átt að framfjöllunum tókum við stefnuna í átt heim á leið.

Aðeins nokkrum mínútum eftir að við vorum lagðir af stað fram í fjöllin fór að rofa til og skömmu síðar var að mestu orðið bjart yfir. Við vorum nákvæmlega á þeirri leið sem fyrir fram hafði verið ákveðin, ekki hafði skeikað einu klettabelti í hækkun um meira en fjögur hundruð metra, þökk sé loftmyndunum og víðsjánni. Fram undan voru sléttir stallar hvilftarjöklar fyrri tíma, nokkur snjór var komin í fjöllin, en olli okkur litlum vandræðum.Þegar við komum fram á eggina ofan við Miðfell í Veðurárdal voru síðustu geislar sólarinnar að hverfa. Við settumst þarna niður framan í egginni og nutum þess að tylla okkur smástund, borðuðum vel af nestinu og einhverjir höfðu sokkaskipti.

Þó komið væri fram í Miðfellsegg var löng leið fyrir höndum þar til komið væri að bílnum. Við hlupum við fót niður brattar og lausar skriður niður í Miðfellið sjálft. Þaðan héldum við fram á Hellrafjall og stefndum á Hellrafjallsnöf, markmið okkar var að komast í björtu niður Einstigið við Hellrafjallsnöf. Þessi leið var sú eina færa út á Breiðamerkurjökul á þessum slóðum.

Fyrir þann sem þekkir til í þessum fjöllum er engin fær leið í átt að byggð nema þetta Einstigi, allir aðrir kostir eru slæmir og nær útilokaðir í náttmyrkri. Einn kostur þeirra sem þekkja aðstæður er að fara aftur upp í nærri þúsund metra hæð, yfir eggina í Fellstúnabotni og finna stóra gilið austanvert í botninum, fara nokkuð niður með því að austanverðu og klifra að síðustu austur af dálítilli klettasnös og er þá komið á svokallaða Rák. Rákin er mjó skriðurák innarlega í Fellsklettunum, nærri einn kílómetra að lengd, hundrað metra flug er niður á Bjarnarák þarna neðan við og þar neðan við tekur annað hamraflug mun hærra sem á þessum tíma endaði niður á Breiðamerkurjökli. Féð er venjulega rekið úr Veðurárdal til byggða þegar smalað er á haustin eftir Rákinni, fram í Fellskletta og síðan niður skriðurnar hjá svokölluðum Skógartorfum. Fyrir miðja 20. öld voru gerðar tilraunir til að reka féð úr Veðurárdal yfir egg yfir í austanverða Hvítingsdali og þaðan yfir í Fellsfjall, nokkrar þessara tilrauna enduðu illa og hafa ekki verið reyndar aftur í meira en hálfa öld. Margir smalamenn hafa farið í böndum eftir Rákinni og dæmi eru um að menn fóru ekki í fjöll framar eftir að hafa lent í slæmum aðstæðum á þessari leið. Það kom fyrir að kindur reyndu að troðast fram úr hver annari á þröngri Rákinni eða að snörp vindhviða kom að óvörum, sem gat þá endað með þeim ósköpum að einhver kindin flaug fram af hengifluginu og þá þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Því miður hafði þetta komið fyrir og það tók menn langan tíma að jafna sig eftir slík óhöpp. Þegar ég var unglingur töluðu eldri menn um að þeir hefðu oft átt í erfiðleikum með svefn lengi eftir slíka atburði og jafnvel vaknað upp með martröð um miðjar nætur löngu síðar.

Komnir heim heilu og höldnu

En okkur ferðalöngunum tókst að ná takmarki okkar og komast í björtu niður Einstigið við Hellrafjallsnöf og þaðan út á Breiðamerkurjökul. Aldimmt var orðið löngu áður en við komum að bílnum. Þegar heim var komið beið okkar vel útilátinn kvöldverður og hópur fólks sem vildi fá nákvæma lýsingu á ferðalaginu.

Þegar kvöldverði var lokið fórum við Sigurbergur í fjósverkin, nærri 30 kýr þurfti að mjólka. Mágkona mín, Svava Arnórsdóttir sem fyrir tilviljun var stödd á Hala hafði tekið að sér morgunmjaltirnar, þess vegna gátum við lagt af stað í myrkri snemma morguns. Ekki veit ég hvernig þessi ferð hefði endað hefðum við ekki komist af stað fyrr en eftir morgunmjaltir. Það var kraftaverki líkast hversu vel hafði gengið, þar skipti miklu hversu vel ferðin hafði verið skipulögð áður en lagt var af stað, en einnig hversu hratt okkur miðaði inn jökulinn í morgunsárið.

Aldrei, fyrr eða síðar hef ég verið jafn uppgefinn við að mjólka kýrnar eins og þetta kvöld. Við Sigurbergur þurftum í raun að taka á öllu því sem við áttum eftir af orku til að klára mjaltirnar. Við mundum það alls ekki fyrir víst morguninn eftir hvort við hefðu hleypt kúnum út á beit að loknum mjöltum kvöldið áður.

Þessi dagur ævi minnar líður mér aldrei úr minni.

Allar gömlu sögurnar sem ég ólst upp við leiftruðu fyrir hugskotssjónum á sama tíma og mér auðnaðist sjálfum að fara um þessar fáförnu slóðir og skynja ægivald, fjölbreytileika og undur íslenskrar náttúru. Með þessari ferð var langþráðu takmarki náð, að tengja þekkingu áa minna í Suðursveit við helstu fræðirannsóknir nútímans og síðan við eigin upplifun og rannsóknir að ógleymdu því að takast á við þá miklu ögrun að komast alla leið á okkar eigin hyggjuviti. Þannig verður lífsins skóli gjarnan ígildi æðri menntunar.

 

Heimildarkrá:

Guðmundur Jónsson Hoffell; Skaftfellskar þjóðsögur og sagnir

Þorsteinn M. Jónsson Akureyri MCMXLVI

Sveinn Pálsson: Ferðabók Sveins Pálssonar, dagbækur og ritgerðir 1791 – 1797

Snælandsútgáfan MCMXLV

Þorsteinn Guðmundsson Reynivöllum Ferð í Innri Veðurárdal 10. júní 1928 ;

Sýslunefnd Austur Skaftafellssýslu ; Skaftfellingur 9. árgangur 1993

Skaftafellssýsla, Sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839 – 1873

Sögufélag 1997

Jón Aðalsteinn Jónsson og Svavar Sigmundsson bjuggu til prentunar

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463