Skip to main content

Ferming í Suðursveit fyrir 50 árum

Torfhildur Hólm Torfadóttir skrifar:

Árið 1959 rann upp með hvítri snjóþekju á jörðinni og tunglskinsbjartri nýársnótt. Þetta herrans ár áttu þrír unglingar í henni Suðursveit að ganga fyrir gafl og staðfesta skírnarheitið. Þetta voru Sigurgeir Jónsson á Skálafelli, Sigríður Jóhanna Sigfúsdóttir á Brunnavöllum og undirrituð Torfhildur Hólm Torfadóttir á Hala. Presturinn, séra Sváfnir Sveinbjarnason á Kálfsfellsstað kallaði okkur til sín fyrir páskana og setti okkur fyrir það sem skyldi læra fyrir ferminguna. Við áttum að læra utanbókar 25 sálma og marga aðra áttum við að lesa yfir og kynna okkur. Við áttum að læra fjallræðuna utanbókar, sæluboðin, trúarjátninguna, faðirvorið og einhverjar fleiri ritningagreinar. Einnig áttum við að lesa biblíusögurnar vel og vandlega. Mér féll nú allur ketill í eld þegar ég sá alla þessa sálma sem þurfti að læra. Þá voru góð ráð dýr.

Hún amma mín, Steinunn Guðmundsdóttir kunni alla sálmana í sálmabókinni, og vel það, og öll lögin við sálmana líka. Nú, hún söng með mér alla sálmana þar til þeir festust í kollinum mínum. Lengstan tíma tók að læra sálminn Í fornöld á jörðu var frækorni sáð, erindin eru nefnilega æði mörg. Upp úr páskum var farið að huga að fermingarfötunum, Þóra föðursystir keypti efnið í kjólinn í höfuðborginni, það var blágrænt voða fínt efni, aðeins sjálfmunstrað. Anna Benediktsdóttir frænka mín á Jaðri, saumakona með meiru tók að sér að sauma kjólinn (sjá mynd). Ég fékk gráa popplínkápu og svarta skó með háum hælum. Mamma var búin að láta mig safna hári allan veturinn og það var að verða axlasítt. En þar sem ég var vön að vera alltaf með stutt hár, fannst mér heldur óþægileg þessi hársídd. Á sumardaginn fyrsta var mælirinn fullur. Ég fékk vinkonu mína til að klippa mig, og var það svo verklega gert að aldrei hvorki fyrr né síðar hef ég verið eins stuttklippt. En ekki var nú móðir mín eins ánægð með klippinguna og ég, en það varð ekki aftur snúið og hálfsköllótt skyldi ég ganga fyrir altarið. Stuttu fyrir fermingu vorum við fermingarbörnin kölluð til prestsins til að hlýða okkur yfir fræðin og athuga hvort við hefðum nú lært nógu vel. Einn piltur af Mýrum, Sigurður Örn Hannesson í Hólabrekku bættist þá í hópinn. Allt gekk þetta nú vel og öll vorum við talin geta fermst fræðanna vegna. Svo rann nú upp hinn mikli dagur, 24. maí, 1959 (sem mig minnir að hafi borið upp á trinitatis). Við vorum öll í hvítum kirtlum með sálmabækur í hönd. Ekki er nú hægt að þræta fyrir það að dálítils kvíða gætti nú hjá liðinu, að minnsta kosti hjá mér. Að athöfninni í kirkjunni lokinni var öllum kirkjugestum boðið til fermingarveislu í Hrollaugsstöðum. Mæður okkar fermingarbarnanna höfðu undanfarna daga staðið við bakstur og héldu þær nú sameiginlega veislu í félagsheimilinu.

Ég fékk mörg kort, skeyti og gjafir. Úr fékk ég frá mömmu og pabba og hálsmen frá systkinum mínum. Armband og hálsmen norðan úr Svarfaðardal. „Baby doll” náttföt, lampa, silkiklút og sjálfsagt eitthvað fleira, en ég man ekki lengur hvað það var. Ég fékk líka peninga og keypti ég mér forláta gítar fyrir þá, sá er nú orðinn hálfrar alda gamall og enn í góðu ástandi, en ég er nú búin að gefa nöfnu minni og barnabarni gripinn og vona að hún varðveiti hann næstu 50 árin. Þetta var ákaflega skemmtileg fermingarveisla, afi minn Steinþór Þórðarson hélt ræðu sem hann byrjaði svona: „Nú, nú, kæru fermingarbörn, nú er búið að afdjöfla ykkur og þið komin í fullorðinna manna tölu.”

Í lok veislunnar var spilað á harmonikku og dansað dágóða stund. Þetta var sem sagt ákaflega eftirminnilegur dagur sem ég mun aldrei gleyma og ég held að svo sé reyndar með öll fermingarbörn bæði fyrr og síðar.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 75
Gestir þennan mánuð: ... 5497
Gestir á þessu ári: ... 13537