Skip to main content

Að loknu sumri 2011

Sumarið 2011 hefur um margt verið sérstakt í Suðursveit. Vorið var snemma á ferðinni en í lok maí hófst gos í Grímsvötnum og ösku rigndi yfir  Halabæina og Breiðamerkursand í um sex klukkustundir aðfaranótt 22. maí. Sérkennileg lífsreynsla sem gleymist aldrei, en minna var um gestakomur í Þórbergssetri í vor vegna þessa. M.a. frestaðist málþing sem átti að vera um bókmenntir og ferðaþjónustu og heimsókn þýskra blaðamanna sem koma áttu vegna bókamessu í Frankfurt féll niður. Veðurfar í júnímánuði var frekar óhagstætt til ferðamennsku um austanvert landið, kalt og sólarlítið, þess vegna var áfram rólegt í Þórbergssetri framan að sumri. Allmargir hópar dvöldu á Hala og nutu menningardagskrár, bæði innlendir leshópar, erlendir hópar og fjallgöngumenn. Þar á meðal var 45 manna danskur hópur sem dvaldi í tvo daga á Hala og einnig íslenskur hópur sem dvaldi í þrjá daga og ferðaðist um Suðursveit, naut dvalar á Hala og las sig inn í verk Þórbergs og umhverfið.Laugardaginn 11. júní var opnuð myndlistarsýning í Þórbergssetri. Gígja Baldursdóttir myndlistarmaður sýndi þar verk sín og var sýningin uppi í allt sumar. Um sýninguna sagði Gígja m.a: ,,Verkin á sýningunni er öll sprottin  upp af náttúrunni hér í Austur-Skaftafellsýslu.  Þau hafa bæði kviknað út frá hinu agnarsmáa eins og litbrigðum í læk eða galdri i grassverði, en einnig frá hinu mikla og stórfenglega, eins og hillingum á svörtum sandi eða fjölbreyttum hvítum litaskala í jökli. Þá var einnig kynnt hönnun Listaháskóla Íslands á sérstökum réttum sem hannaðir höfðu verið með tilliti til sérstöðu Þórbergsseturs og úr hráefni frá Hala.  Verkefnið er samstarfsverkefni Listaháskólans og Bændasamtaka Íslands undir heitinu  Stefnumót hönnuða og bænda. Meðal annars eru þar sérstakir Þórbergssnúðar sem skapa einstaka tilfinningu líkt og að vera með ,,himnaríki í kviðnum"  eins og Þórbergur segir  og einnig  frumlegar rúllutertur skornar niður með sérstöku tæki sem mælir nákvæmlega þykkt hverrar sneiðar. Réttir þessir eru á boðstólum í Þórbergssetri við sérstök tækifæri.

Þann 17. júní  var í Þórbergssetri  dagskrá með erlendum fræðimönnum og sæfarendum, sem sigldu um papaslóðir á N-Atlantshafi á írsku skútunni ,,Ár Seachrán", Ferðalangi. Þeir höfðu látið úr höfn frá Ventrý í Kerryhéraði á Írlandi þann 16. maí .  Írski sagnfræðingurinn og sægarpurinn Paddy Barrý stýrði skútunni, en hann þekkir vel til siglinga á norðurhöfum og heimsskautasvæðum. Hann lýsti för Ferðalangs, en fjallaði líka um fyrri tíma rannsóknarferðir á norðurslóðum. Dr. Jonathan Wooding, sem er kennari við Háskólann í Wales í keltneskri kristni og sagnfræði, fjallaði um Papa og lýsti stöðum í úthafinu þar sem þeir munu hafa komið sér fyrir til helgihalds á fyrri tíð og gerði grein fyrir þeim trúarhugmyndum, er mótuðu hátterni þeirra. Þekktur írskur tónlistarmaður var með í för og lék ,,keltneska" tónlist, og írskur sagnaþulur sagði sögur og flutti ljóð á gelíska tungu
.
Þegar síðan umferð fór að glæðast viku af júlí hófst hlaup í Múlakvísl og Suðurlandsvegur lokaðist þegar brúin skolaðist í burtu í einu vetvangi að morgni 9. júlí. Kom þá annar rólegur kafli og lítill gestagangur var í Þórbergssetri þá daga sem vegurinn var lokaður. Umferð jókst síðan í lok júlímánaðar með tilheyrandi önnum við gestamóttöku og þjónustu við ferðamenn. 
Árlegir tónleikar í Kálfafellsstaðarkirkju voru haldnir miðvikudagskvöldið 27. júlí kl 20:30. Það var Kristján Kristjánsson, hinn eini sanni K.K sem mætti á staðinn og söng sig inn í hjörtu kirkjugesta fyrir fullu húsi. Í lok tónleikanna var leiði völvunnar á Kálfafellsstað undir Hellaklettum heimsótt og rifjuð upp gamla sagan um álög hennar á Staðnum. Tónleikar þessir eru nú árlegur viðburður komnir til að vera sem fastur liður í starfsemi Þórbergsseturs í samstarfi við Kálfafellsstaðarkirkju.

Mikill gestagangur var síðan í ágústmánuði í Þórbergssetri og fram eftir hausti var líflegt í sveitinni. Aðallega voru það erlendir ferðamenn sem komu í heimsókn, heimsóttu safnið en sóttust einnig mjög eftir að borða þann íslenska mat sem á boðstólum er í Þórbergssetri, mismunandi rétti úr heimafengnum afurðum, bleikju frá Jöklableikju á Hala og villtu Halalambi, beint frá býli.

Í haust kom í fyrsta skipti út heilt skáldverk á erlendu tungumáli eftir Þórberg Þórðarson rithöfund. Það er bókin Islands Adel í þýskri  þýðingu Kristof Magnusson og var hún kynnt á bókamessunni í Frankfurt í október. Segja má að hér sé um að ræða einn merkasta áfanga í sögu Þórbergsseturs að hafa nú loks í höndum eina bók eftir Þórberg Þórðarson á erlendu tungumáli til að sýna þeim erlendu ferðamönnum sem hingað koma. Vonandi er þetta aðeins byrjun á því að takist að koma fleiri verkum Þórbergs Þórðarsonar út og kynna þau fyrir erlendum gestum víðs vegar að úr heiminum. Í október komu nemendur í fjarnámi í  ferðamálafræði við Hólaskóla í Þórbergssetur og dvöldu í tvo daga við fræðslu og upplifun hér á staðnum og unnu síðan verkefni tengd dvöl sinni hér.

Haustþing Þórbergsseturs var síðan haldið dagana 22. og 23. október og fjallað var um bókmenntir og ferðaþjónustu. Eins og ævinlega var þingið efnislega afskaplega fróðlegt með mörgum góðum erindum og m.a. heiðraði Ólöf Ýr Atladóttir ferðamálastjóri þingið með nærveru sinni og frábæru upphafserindi. Því miður var ekki mikil þátttaka, eða aðeins um 30 manns sem sóttu þingið, engu að síður er það án efa gagnlegt þeim er það sóttu og ætti að skila af sér umræðu út í samfélagið um gildi fræðandi  ferðaþjónustu og faglegt samstarf fræðasamfélags og ferðaþjónustu til eflingar ferðaþjónustu á Íslandi ekki síst utan háannar.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 6
Gestir þennan mánuð: ... 22
Gestir á þessu ári: ... 104544