Skip to main content

Orð á jólaföstu

Skrifað af Zophonías Torfason frá Hala í Suðursveit:

Góðir kirkjugestir og sveitungar!

Þetta verða nokkuð sundurlausar vangaveltur um lífið og tilveruna og upprifjun á löngu liðnum tíma sem ég býð upp á hér í dag. En af tillitsemi við þau ykkar sem minna þekkja til mín og aðstæðna hér í byggðarlaginu þá vil ég forðast að þetta verði eins og kunningjaspjall og nefni fólk með fullu nafni og tengi það heimahögunum eins og þjónar frásögninni.

Ég er kenndur við Hala, þar fæddist ég, en hins vegar ólst ég upp hér á Hrollaugsstöðum nokkurn veginn til jafns við Hala. Hér hljóp ég um stéttir og hlöð, tún og hlíðar og lék mér við börnin hér í Miðþorpi eins og þetta byggðarlag í miðri Suðursveit var ævinlega kallað og er enn. Og hér í Þorpinu ætla ég að dvelja við í minningabrotum mínum í dag.

Faðir minn, Torfi, var skólastjóri og kenndi flestar námsgreinarnar við Hrollaugsstaðaskóla á þessum tíma - og Ingibjörg móðir mín sinnti barnauppeldi og heimilisstörfum og hafði í nógu að snúast enda vorum við orðin 8 systkinin þegar ég hvarfla í huganum ein 50 ár aftur í tímann, segjum á jólaföstunni 1962.Það er komið að enn einum fardögum í lífi þessarar stóru fjölskyldu. 

 Við ætlum sem sagt suður yfir Sand um jólin og dvelja hjá afa Steinþóri og ömmu Steinunni á Hala um jólin. Reyndar eru Torhildur Hólm elsta systir mín og Þorbergur Örn Bjarnason, hann Bíi, heitmaður hennar sest í búið á Hala með afa og ömmu og þau eignuðust fyrsta barn sitt, Björn Borgþór fyrr á þessu ári 1962.

En ég ætla ekki að fara suður yfir sand með ykkur núna. Öllu heldur; ég er kominn aftur upp yfir Sand, eða uppyfir eins og sagt er. Og ég er í minningunni komin hér inn í Kálfafellsstaðarkirkju, gæti einmitt hafa verið jólamessan 1962 því yfirleitt var farið til messu á jólum frá Hala. Það voru kannski Vötnin, Steinavötnin, sem gátu sett strik í reikninginn, en ekki að þessu sinni. Ég man eftir mér hér í kirkjunni, ég sit við hlið föður míns sunnan megin í kirkjunni, hann næst veggnum en svo ég. Það snarkar í ofninum sem stóð hér við norðurvegginn, engum rafmagnsljósum man ég eftir, en lampi og ljósahjálmur minnir mig vera hér á miðju lofti. Kirkjan er ekki kynnt dagsdaglega heldur bara þá daga sem athafnir fara hér fram. Veggirnir eru rakir, þeir slaga upp þegar kalt húsið er snögglega kynnt, það renna örlitlir taumar niður veggina á stöku stað og líklega eykst þetta eftir að kirkjan er orðin þéttsetin af safnarðarfólkinu úr sveitinni. Móðan á rúðunni byrgir alla sýn út, maður verður að sitja rólegur og bíða. Sungnir eru sálmar, við orgelið situr organistinn, Sigfús Jónsson á Brunnavöllum og kórinn stendur þétt upp við orgelið og jólasálmurinn „Í dag er glatt í döprum hjörtum“ hljómar enn fyrir eyrum mér í minningunni. Ég man ekki eftir sjálfri athöfninni né því sem presturinn sagði en pabbi gat átt það til að dotta þegar minnst varði. Skyldi nokkur taka eftir því?

Á þessum jólum fyrir 50 árum var sr. Sváfnir Sveinbjarnarson sóknarpresturinn okkar að halda sína síðustu jólamessu. Hann fór árið á eftir prestur að Breiðabólsstað í Fljótshlíð ásamt konu sinni, frú Önnu Gísladóttur og börnum þeirra sem voru áreiðanlega orðin 6 talsins þegar þetta var þó þau hjón væru enn ung að aldri. Sváfnir var áhugamaður um búskap og hafði byggt hér útihús á Staðnum, á Staðnum sagði ég því Kálfafellsstaður var í daglegu tali ævinlega nefndur Staðurinn. Eins og nærri má geta þá lá leið mín og systkina minna oft og einatt hingað upp að Staðnum í leit að leikfélögum enda við og þau á svipuðu reki, hér áttum við jafnaldra og stutt á milli bæja.

Ég er í minningunni kominn inn í kjallarann á Staðnum, þangað inn hef ég varla farið óboðinn því ég var ekki mjög bægöngull eins og það er orðað í fjölskyldu minni. Ég fór í þær sendiferðir á bæi sem ég var beðinn um en ógjarnan inn í hús nema þar sem ég var kunnugur eða mér sérstaklega boðin innganga. Það hafði verið fengist við smíðar hér inni í kjallaranum - það var smíðalykt í lofti, líklega hafði Sváfnir útbúið eitthvað þar fyrir börnin, mig minnir sleða fyrir einhverja og bíl eða bíla líka. Í annað sinn man ég að þau systkinin á Kálfafellsstað voru komin á skíði, þau voru smíðuð úr tunnustöfum og einföld binding eða ól yfir rist á miðjum tunnustaf og á þessu renndu þau sér og ég fékk líka að prófa. Þetta eru dýrðardagar í minningunni.

Hér í landi Kálfafellsstaðar voru og eru örnefnin gjarnan með ákveðnum greini, þetta er Staðurinn, svo er það Lindin (vatnsbólið), Grundin (túnið hér niður af kirkjunni) og svo Leitin hér austan og ofan við, Leitin í fleirtölu með greini, og þar átti Bjarni Gíslason á Jaðri fjárhúsin sín og hlöðu. En hér vestan við er Leiti án greinis og líklega í eintölu (bærinn Leiti). En svo er líka Drophellir, hér ofan við kirkjuna, neðsta klettabeltið í hlíðinni. Þangað var farið að renna sér á sleða þegar vel hafði snjóað og fokið í skafla í hlíðinni.

Á árinu 1963 urðu ábúendaskipti hér á Staðnum eins og ég hef komið inn á. Sváfnir og fjölskylda flutti í burtu en nýr prestur, sr. Fjalarr Sigurjónsson, var ráðinn og kom hingað síðla árs ásamt konu sinni frú Betu Einarsdóttur og börnum þeirra, Önnu og Mána. Anna var komin á unglingsaldur og dvaldi líklega aldrei vetrarlangt hér í sveitinni eftir að fjölskyldan kom, en var á skóla annars staðar. Máni var tveimur árum eldri en ég og við urðum brátt góðir leikfélagar og líklega hef ég aldrei komið oftar inn á heimili hjá nokkru fólki mér óvandabundnu en til þeirra á Kálfafellsstað eftir að kynni okkar Mána hófust. Hér var maður nánast daglegur gestur um nokkurra vetra skeið. Stundum var ég snemma á ferðinni, líklega þá um helgar eða þegar enginn skóli var. Kom þá fyrir að ég vakti upp á heimilinu en aldrei man ég til að væri fundið að því við mig eða maður kæmi að lokuðum dyrum. Þvert á móti. Oftast var það Beta sem kom til dyra, hún brosti og bauð mér inn með skærri röddu og glaðværum tóni og málrómurinn syngjandi. Fjalarr var snöggur upp á lagið, hann lengdi mál sitt ekki að óþörfu, bauð góðan dag og ef þetta var snemma morguns má vera að hann hafi bætt við einhverri góðlátlegri athugasemd, svo sem að það væri snemma sólarupprásin hjá sumum þennan daginn. Og ekki langt undan stóð þessi stóri og stæðilegi Lassíhundur þeirra, hann Buski, og fylgdist með og tók á móti gestinum af hógværð og stillingu eins og honum hafði verið uppálagt.

Máni átti ógrynni af leikföngum að því er manni fannst. Eitt var það í skríni hans sem freistaði mikið en það var Mekkanóið sem við kölluðum, en úr því mátti búa til margvíslega hluti með því að raða því saman og festa með skrúfum eins og hugurinn girntist, bíla, krana, stiga, kastala, jafnvel skip. Ef ég var snemma á ferðinni, eins og þennan morgun, mátti búast við því að kallað væri á okkur eftir góða leikstund og okkur Mána boðið í morgunmat. Þar man ég að ég gæddi mér í fyrsta sinn á ristuðu brauði með osti og marmelaði. Og þar fékk ég kaffi í fyrsta sinn, sá að Mána þótti þetta gott og Beta var óspör á að bjóða mér líka. En ég var ekki ginnkeyptur fyrir nýjungum og fór mér hægt í sakirnar. En að lokum lét ég til leiðast eftir hvatningu frá Mána. Þetta var dýrðardrykkur. Eiginlega mjólk með örlitlum kaffilit og vel af sykri út í!

Ein af mörgum ógleymanlegum minningum frá Kálfafellsstað er þegar Máni setti plötu á spilarann og við hlustuðum. Svona græjur hafði ég aldrei umgengist og þvílík dýrð! Þetta var stór mubla í stofunni, útvarp og plötuspilari saman fyrir miðjum skáp og stórir hátalarar áfastir til hvorrar hliðar. Þarna heyrði ég í fyrsta sinn lögin með hljómsveit Ingimars Eydals, eins og: Bara að hann hangi þurr – Litla sæta ljúfan góða -  og svo auðvitað -Á sjó. Þetta situr í hlustinni og stofan á Kálfafellsstað og hljómflutningstækin rifjast upp enn í dag þegar ég heyri þessi lög leikin.

Stundum var farið að skyggja þegar ég fór heim niður að Hrollaugsstöðum. Þá var ekki um annað að gera en sýnast borubrattur þó maður þyrfti að fara niður traðirnar og fram hjá kirkjugarðinum til að komast heim. Ekki minnist ég þess að Máni hafi fylgt mér áleiðis né það kæmi yfirleitt til tals. En myrkhræðslan var samt í manni og einhverjar sögur hafði maður heyrt um reimleika nærri kirkjugörðum. En aldrei neina sögu um reimleika á Staðnum, ekki eina einustu, sem betur fer. Og það er þakkarvert í dag þegar maður hugsar til baka að slíkum sögum, ef þær voru þá yfirleitt til, var alveg haldið frá manni og aldrei varð maður var við neitt á sveimi, þó óneitanlega væri stundum hlaupið hratt milli bæja í myrkrinu. En maður lærði líka að þessi óláns sprettur kom blóðinu til að ólga enn meir, smellir í lausum skólsóla eða plampið á blautri götunni gat myndað einhver kynjahljóð sem magnaði upp hræðsluna og þá var engu líkara en einhver væri að koma á eftir manni á sprettinum!  Besta ráðið var því að ganga, fara sér ekki of hratt, hugsa einhverjar góðar hugsanir, láta ekki hasar og spennu ná völdum á sér, ímynda sér að það væru bara góðar vættir á sveimi svo nærri góðum stað og svo góðu fólki eins og svo sannarlega var í Miðþorpi.

Hér framhjá Staðnum átti ég oft leið þegar ég sótti mjólkina upp að Leiti til Skúla og Guðrúnar. Stundum afgreiddi Helgi mig með mjólkina en yfirlitt var það þó Skúli ef hann var á annað borð heima. Pabbi og mamma keyptu mjólk á Leiti, þá var ekki enn farið að dreifa mjólk til almennra kaupenda út um sveitir frá mjólkurstöðinni á Höfn. Lengst af voru þrír brúsar í gangi fyrir mjólkurpóstinn, tveir 1,5 lítra brúsar og einn 3 lítra brúsi, ef ég man þetta rétt. Þegar tveir þeirra höfðu verið tæmdir var mjólkurpósturinn sendur af stað að sækja áfyllingu, með sinn brúsann í hvorri hönd. Leiðin lá hér meðfram garði á Staðnum og yfir Leitislækinn sem gat stundum verið úfinn og vatnsmikill, líka uppblásinn að vetri og þá gat verið heljar svellbólstur yfir að fara.

Inn að Kálfafelli var oft farið í leit að leikfélögum og þá lá leiðin hér um hlað á Staðnum.  Á Kálfafelli voru þeir nafnarnir Bjarni Skarphéðinn og Bjarni Steinþórsson og yfirleitt annar hvor eða báðir tilkippilegir í einhverja leiki, þá yfirleitt alltaf útileiki. Og eftir að ég þekkti spilin var ég heltekinn af spilaástríðu um nokkura ára skeið. Spilaði helst þjóf, rommí, ólsen, kasínu eða rússa ef einhver einn mótspilari fékkst - en ef tveir voru með mér þá var gráupplagt fyrir þrjá að spila manna. Svo var það vist og síðar bridds ef fjórir voru samankomnir. Svo rammur var ég í spilum að ég gekk með spilastokk á mér, hafði hann í rassvasanum, mig minnir í tinbauk undan reyktóbaki þannig að spilin voru allvel varin. Einhverju sinni mun ég hafa boðið Steinþóri Benediktssyni frænda mínum á Kálfafelli í spil niðri í hrútakofa, eða var það í hesthúsinu, ég man það ekki glöggt, en þetta var í einu af útihúsunum sem var niður við götuna sem lá austur að Leiti. Steinþór rifjaði þetta svo upp síðar og þá mundi ég eftir þessu. „Gengurðu enn með spilin á þér?“, spurði hann kankvís mörgum árum síðar og rifjaðist þá upp fyrir mér þessi löngu liðna stund þegar maður gekk með sól í hjarta og spilastokk í vasa milli bæja og bauð bændum upp á taka svosem eins og einn slag í rökkrinu.

Hér í túnfætinum áttu frænkur mínar á Jaðri heima, Þóra Guðrún og Gunnhildur, og þær voru ódeigar við að koma í leiki við okkur Hrollaugsstaðakrakkana, mest voru það útileikir. Ófáar man ég ferðirnar á sleðum eða einhvers lags spjöldum niður brekkuna austan við Jaðarsbæinn og var þá hvergi slegið af á fartinni enda kappið mikið og enginn vildi láta hlut sinn fyrir öðrum í því að komast sem lengst í rennslinu. Þá var sko farið á harðakani og eins gott að vera ekki að álpast fyrir í brautinni þegar búið var að leysa landfestar því litla sem enga stjórn var hægt að hafa á farskjótanum niður brekkuna.

Þannig liðu árin, fram undir fermingu, að ég dvaldi að vetrinum mest á Hrollaugsstöðum meðan skóli stóð yfir, var á Hala um helgar og á hátíðum, því mamma bjó ekki skólanum eftir að ég varð 10 ára, heldur hélt heimili með afa og ömmu á Hala. Á Hala vafstraði maður í sveitastörfum eftir því sem áhugi og kraftar leyfðu, í sveitasælunni klæðir maður sig í fötin sem lykta af útiverkum gærdagsins. Væri maður í fjósinu að kvöldi þá leyndi það sér ekki að morgni þegar klæðst var; - ef heyið var losað eða endað á að troða því í poka þá fylgdi bæði ilmur úr hlöðu og nokkur strá á peysuermi inn í nýjan dag. Á þessu urðu umskipti þegar maður var í skólanum, þar var skólalykt og hún loddi við mann meðan inni var setið yfir bók og blýanti. En ferskt útiloftið tók við að loknum skóladegi og stundum var verið úti langt fram á kvöld þegar viðraði og leikfélagar voru tiltækir.

Það höfðu allir einhver hlutverk eða komu sér upp sínum hlutverkum í lífinu. Frú Beta átti eftir að verða kennari okkar, hún kenndi okkur handavinnu í skólanum og þar lærði maður mörg handtök sem hafa komið sér vel síðar meir þó krosssaum hafi maður ekki beint stundað einan og sér síðan þá. Þóra Sigfúsdóttir á Jaðri var með okkur í söngtímum. Hún lagði með því sín lóð á vogarskálar svo lífga mætti upp á skólabraginn og lyfta andanum og sýndi þolinmæði við að halda okkur að söngnum og var áreiðanlega ekki öfundsverð af því þegar grallaragangurinn í hópnum keyrði úr hófi fram.

Séra Fjalar var prófdómari í skólanum í Hrollaugsstöðum, en sjálfur var hann kennari austur á Mýrum nokkra vetur fyrst eftir að þau komu hingað. Hann fór þá daglega akandi á milli, góðan hálftíma akstur hvora leið á malarvegum þess tíma. En þá var að treysta á Trabantinn og saman voru þeir ferðafélagar, Fjalar og Trabantinn í hvaða veðri og færð sem gafst og skiluðu sér aftur til baka að kvöldi. Með þessu fylgdist maður enda lá leiðin hingað að Kálfafellsstað þá um hlaðið í Hrollaugsstöðum.

Fermingarárið mitt 1970 var ég boðaður til spurninga eins og venja var að kalla fermingarfræðsluna í þá daga. Þá dvöldum við fermingarsystkinin á Staðnum hjá Fjalari og Betu í nokkra daga og nutum dvalarinnar í því sem ég myndi kalla hóflegu spurningaflóði en góðu yfirlæti í veitingum og öðru atlæti. Þarna voru Öræfingar og Mýramenn ásamt okkur Suðursveitungunum tveimur. Þetta mun hafa verið í fyrsta og eina skiptið sem ég gisti á Staðnum og mér er enn minnisstætt hversu iðnir skógarþrestirnir voru við sönginn sem þeir hófu um sólarupprás í þessum blíða maímánuði og héldu vöku fyrir manni drjúga stund uns svefninn sigraði á ný. Svo var maður vakinn þegar dagur var á lofti og áhyggjulaust líf unglingsáranna brosti á móti manni.

Ég lýk þessum minningabrotum mínum á fermingardaginn minn á hvítasunnu í júní 1970, en man þó aldrei mánaðardaginn þann góða dag. Það er farið að síga á seinni hluta athafnarinnar og nú er Þóra Sigfúsdóttir komin að orgelinu og tekin við hlutverkinu sem Sigfús á Brunnavöllum hafði svo lengi haft með höndum. Einn kemur í annars stað, það er lífsins saga og nú hafði það sannast enn einu sinni, því Sigfús hafði fallið frá um veturinn og Þóra var tekin við embætti organista í Kálfafellsstaðarkirkju.   „Áfram kristsmenn krossmenn“ endurómar um kirkjuna og kórinn dregur hvergi af sér svo það megi ljóst vera að „fram í stríðið stefni, sterki æskuher“ eins og segir í sálminum. Í þeim her vorum við Inga Lúcía Þorsteinsdóttir, við vorum tvö fermingarbörnin hans séra Fjalars í kirkjunni þennan dag. Leið mín lá í burtu úr sveitinni norður í Svarfaðardal nokkrum dögum síðar þar sem ég dvaldi í nærri mánuð hjá afa mínum og ömmu á Hóli í fyrsta sinn á ævinni og kynntist góðu frændfólki sem ég hafði fæst nokkru sinni séð áður. Og þetta var jafnframt síðasti veturinn minn í Suðursveit því næsta haust lá leiðin í Nesjaskóla og síðan á vit nýrra ævintýra.     (Zophonías Torfason)

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5423
Gestir á þessu ári: ... 13463