Skip to main content

Ávarp ferðamálastjóra á málþingi í Þórbergssetri 22. október

Ólöf Ýr Atladóttir ferðamálastjóri
Góðir málþingsgestir.
"Það lá opið fyrir mér að þekkja áttir. En það rann snemma upp fyrir mér, að ég vissi engar áttir nema hér um bil. Það gerði mig óánægðan. Það stríddi á mig að fá að vita réttar áttir. Áttir og vegalengdir, það var það fyrsta sem ég man til að mig langaði að vita með vísindalegri nákvæmni. " Þórbergur Þórðarson , Steinarnir tala
Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að taka þátt í þessu málþingi með ykkur.  Ekki minnkar ánægjan við það að fá tækifæri til að dvelja hér á slóðum Þórbergs Þórðarsonar - ég skrifaði BA ritgerð mína í íslensku um leikgerð Kjartans Ragnarssonar á Ofvita Þórbergs og mér er því eðlilega afar hlýtt til hans.
Þórbergur hafði sérstaka sýn á mannlífið og skrásetti lífsreynslu sína og upplifanir af yfirlýstri vísindalegri, sumir segja smásmugulegri, nákvæmni. Sem slíkur var hann afar mikilvægur skrásetjari mannlífs á Íslandi og opnar okkur lesendum Ísland í kringum þarsíðustu aldamót, markað sjónarhorni hans, lífsspeki og kannski hans sérstaka viðhorfi til þess sem við streitumst

við að nefna sannleika. 

Þórbergur hefur í það minnsta haft mikil áhrif á mína mynd af nærumhverfi mínu - á gangi um götur miðborgar Reykjavíkur, þar sem ég bý, verður mér oft hugsað til hans og eins kemur hann iðulega upp í hugann- ásamt Stefáni úr Hvítadal - þegar ég er í innbæ Akureyrar. Að ekki sé minnst á Hrútafjörð. 

Þórbergur hafði sérstaka sýn á lífið og umhverfi sitt og það er kannski fremur þetta sjónarhorn sem hann hefur miðlað til mín heldur en nákvæmlega lýsingarnar sjálfar sem skipta máli.   Þannig er það svo að þrátt fyrir hann hafi lagt ofuráherslu á að læra áttir með vísindalegri nákvæmni - þá gaf hann mér í það minnsta óræða tilfinningu, sem engan veginn verður talin vísindaleg.

Þegar ég bjó í Potsdam rétt utan við Berlín fyrir nokkrum árum ákváðum við fjölskyldan að leigja okkur bíl og fara í ferðalag.  Svosem ekki í frásögur færandi, nema fyrir það að þegar við gengum inn á skrifstofu bílaleigunnar til að sækja lyklana að bílnum, þá var þar fyrir stúlka, svo niðursokkin í bók að við þurftum að ávarpa hana þrisvar til að fá athygli.  Bókin var Grafarþögn eftir Arnald Indriðason.

Ég man að það hríslaðist um mig kannski smáborgaralegt stolt yfir því að sjá þýska afgreiðslustúlku lesa reykvíska glæpasögu - og við fengum óvenju hlýlegar viðtökur þegar hún áttaði sig á því að við værum íslensk; hún var forvitin um landið, borgina og það andrúmsloft sem hún upplifði í texta Arnalds.

Ég fékk því að  vera sendiherra lands og þjóðar um stund fyrir hönd Arnaldar Indriðasonar og var auðvitað afar ánægð með það.  Jafnframt varð ég - og þetta er kannski enn smáborgaralegra - ögn áhyggjufull, mér virðist alltaf rigna í sögunum um Erlend og það er viðvarandi drungi yfir sögunum - var í lagi að bera svona umhverfi á borð fyrir útlendinga?  Þyrfti ég ekki að reyna að mála glaðlegri mynd af landinu mínu en þá sem stúlkan var að upplifa með lestri sínum? Óttalega kjánalegar hugsanir þegar nánar var að gáð, vegna þess að það er auðvitað akkur bókmenntanna að þær birta marglaga sýn - af manneskjum, mannlífi, umhverfi og jafnvel veðri. Vaxandi hróður íslenskra bókmennta, svo fjölbreytileg sem höfundarverkin eru, tryggir þannig að lesendum víða um heim bjóðist að kynnast landi og þjóð á dýpri hátt en unnt er að bjóða upp á í svokölluðum landkynningarherferðum.

Og hvert okkar hefur ekki átt þessu láni að fagna á ferðalögum okkar?  Ég sat í gærkvöld og rifjaði upp tengslin milli ferðalaga minna og bókalesturs -

Hvernig James Joyce gaf mér mótvægi við hina nútímalegu Dyflinarborg og Samuel Beckett jók mér væntingar um hugsunarhátt Íra

Hvernig Astrid Lindgren litaði veru mína í Svíþjóð

Hvernig Andre Brink skapaði fyrir mér Namibíu á tímum þýskra yfirráða

Áhrif Erich Maria Remarque á veru mína í Þýskalandi

Vonirnar sem glæddust við að lesa háðslegar sögur Carl Hiassen á ferðum gegnum Everglades í Florida.

Að ekki sé minnst á Spán með augum Hemingways - sem var auðvitað alls ekki Spánverji - ég gerði mér líka sérstaka ferð til Key West til að sækja hann heim - og leitaði að honum í Havana...

Bara svona til að nefna það sem kom upp í hugann. Ég hef reynt að hafa í heiðri þá reglu að kynna mér bókmenntir og höfundaflóru í þeim löndum sem ég heimsæki - eins og ég hef tök á, og veit að sú regla hefur aukið á upplifun mína, opnað dyr í samtölum við heimamenn, breytt náttstað í spennandi upplifun og gefið mer tækifæri til að setja áfangastaðinn í dýpra samhengi.

Enda er það fyrir mér mikilvægt.  Helst þyrfti ég auðvitað að lesa fjölda bóka fyrir hvert ferðalag - því að rithöfundar birta ævinlega sína sýn á sögusvið sitt eins og vék að hér áðan - og ferðamenn eru áhugasemir um þetta.  Þannig er mikilvægt fyrir svæði að halda í bókmenntaarf sinn, hafa í heiðri, og þetta skilur sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem lætur sig menningarmál varða, Unesco.  Stofnunin útnefnir sérstaar bókmenntaborgir, sem þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá að skreyta sig þessum titli, m.a. með tilliti til

  • - Fjölbreytileika útgáfustarfsemi í borginni
  • - Mikilvægis bókmennta, leiklistar og eða ljóðlistar í mannlífsflóru borgarinnar
  • - Magns og gæða fræðslustarfsemi um bókmenntir á öllum skólastigum
  • - Bókmenntaviðburða sem haldnir eru

Skilyrðin eru fleiri en ég læt nægja að nefna þessi.  Edinborg var fyrsta borgin sem Unesco útnefndi með þessum hætti, Dyflinni veittist þessi heiður í fyrra - og í ár hlotnaðist sem sé höfuðborg okkar, Reykjavík, þennan titil, hin fyrsta sem ekki er í enskumælandi landi.

Bæði Edinborg og Dyflini hafa með góðum árangri gert út á ferðaþjónustu og afþreyingu sem byggir á bókmenntunum og það er ljóst að með þessari tilnefningu opnast mýmörg tækifæri fyrir Reykjavíkurborg til að nema af systurborgum sínum á þessu sviði. Það verður því spennandi að sjá hvernig Reykjavík vinnur með þennan titil - og hvernig landið í heild nær að nýta sér hann.

En hvað er bókmenntaferðaþjónusta?  Hvernig tengjast bókmenntir og ferðaþjónusta á annan hátt en sem liður í að kynnast áfangastaðnum eins og ég hef reifað?

Bókmenntaferðaþjónusta er samkvæmt skilgreiningu einn þáttur menningarferðaþjónustu og beinist að þvi að kynna sögusvið og atburðarás, en líka að því að kynna rithöfunda, uppruna þeirra og áhrifavalda.  Afþreying á þessu sviði getur þannig bæði beinst að því að kynna æviferil rithöfundar, uppeldisstöðvar (svona svo að ég tali um rithöfunda eins og fiskitegundir), eða að rekja söguþráð skáldsagna með ferðalagi um sögusviðið.

Í Dyflini er til dæmis boðið upp á the Dublin literary pub crawl, þar sem tveir leikarar lóðsa gesti um borgina og heimsækja uppáhaldsknæpur þekktra rithöfunda, um lið og þeir leika þekkt atriði úr höfundarverkum þeirra.

Bókmenntaferðaþjónusta hefur mér virst af raunar afar yfirborðskenndri skimun vera einkum og ser í lagi tengd borgarferðum víðast hvar. Kannski liggur ein sérstaða Íslands einmitt þar; hér á landi varð þéttbýlismyndun talsvert seinni en víðast hvar annarsstaðar, en jafnframt er okkar bókmenntaarfur grundvallaður á sögnum sem eru jafnvel eldri en ritlistin sjálf hér á landi  - amk ef miðað er út frá þeim tíma sem sögurnar sjálfar eiga sér stað í. Það er líka serstakt við sagnaarfinn að hann er okkar klassíski menningararfur - og hann er óhlutbundinn, ekki greyptur í styttur eða byggingalist eins og hjá öðrum þjóðum, heldur sprottinn upp úr þeirri þörf að miðla, að segja söguna og leyfa henni að lifa kynslóð fram af kynslóð, eins og Gísli Sigurðsson hefur fjallað um í fræðistörfum sínum. Við erum þannig söguþjóð og búum yfir ríkulegum efnivið sem við getum miðlað gestum okkar með svo margvíslegum hætti.

Íslenska nútímaskáldsagan á uppruna sinn í sveit. Jón Thoroddsen skrifaði Pilt og stúlku, Jon Trausti um Höllu og heiðarbýlið, og Þorgils Gjallandi skrifaði umdeildar sögur sínar í afskekktri Þingeyjarsýslunni. Íslenska dreifbýlið geymir þannig sagnaarf nútímaskáldsögunnar og vísan í þann arf getur orðið uppspretta að aukinni upplifun ferðamanna.

Átök hefðbundinnar sveitartilvistar og hinnar nýju þéttbýlismyndunar á tuttugustu öld birtust sterklega í bókmenntum þess tíma eins og sögur Ólafs Jóhanns Sigurðssonar er m.a. til vitnis um.  Raunar er ég eiginlega enn að jafna mig eftir að hafa sem barn lesið skáldsögu Ingibjargar Sigurðardóttur,, Komin af hafi, þar sem umbreyting og örlög stúlkunnar sem fór í sollinn í Reykjavík er enn greypt í minni mér. Bókmenntirnar geyma þannig einnig uppskriftir að því með hvaða hætti við getum miðlað sögu þjóðarinnar, að ekki sé talað um hvernig höfundarverk rithöfunda á borð við Thor Vilhjálmsson og Halldór Laxness draga upp náttúru landsins og það umhverfi sem þjoðin hefur tekist á við í aldanna rás.

Og í dag segja íslenskir rithöfundar enn sögur sem birta margbreytileika íslensks mannlífs.  Allt frá drungalegum borgarsögum Arnaldar og annarra glæpasagnarithöfunda, yfir í hljómkviður Gyrðis og Jóns Kalmanns um þorpslífið, frá karllægum skáldsögum Einars Kárasonar til kvenpersóna Kristínar Marju Baldursdóttur - lesendum gefast tækifæri til að kynnast íslensku mannlífi á þeim sviðum sem það er sammannlegt - og einnig að því leyti sem við eigum sérstöðu.  Og ég trúi því að glæsileg þátttaka okkar sem heiðursþatttakandi á bókamessunni í Frankfurt nú nýverið komi til með að fylla enn í þær væntingar sem gestir okkar gera til heimsóknarinnar, og skerpa á myndinni af því hver við erum, hvar við búum og hvaðan við komum.

Í dag og á morgun ætlum við að eiga samræður um tækifærin sem samsláttur bókmennta og ferðaþjónustu geta opnað.  Við fáum líka tækifæri til að ganga til fundar við meistara Þórberg, hlusta á steinana tala og kynnast því umhverfi sem mótaði höfundarverk hans.  Ég fyrir mína parta hlakka mikið til; við erum rétt að byrja að skima yfirborð þeirra tækifæra sem við getum átt á þessu sviði.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 257
Gestir þennan mánuð: ... 6189
Gestir á þessu ári: ... 6274