Haustþingi frestað

Málþinginu um Einar Braga rithöfund sem halda  átti í Þórbergssetri 18. og 19. október næstkomandi hefur verið frestað til vorsins. Einar Bragi var vorsins barn, fæddur á Eskifirði  7. apríl 1921. Afar áhugaverð dagskrá  um Einar Braga og atómskáldin var tilbúin en einnig átti að fjalla um ást Einars Braga á Suðursveit. Móðir hans Borghildur Einarsdóttir var fædd í Gamlagarði í Borgarhöfn og var náfrænka Þórbergs Þórðarsonar.  Einar dvaldi sem barn í sveit bæði í Suðurhúsunum í Borgarhöfn og á Sléttaleiti hjá Sveini móðurbróður sínum. Eitt af ljóðum Einars Braga heitir Siggi í Bæ. Í ljóðinu er fjallað um ferðalag hans með Sigurði Ólafssyni þegar hann 10 ára drenghnokki var sendur sjóleiðina til Hornafjarðar og síðan á vélbáti að Bjarnahraunssandi með timbur og nauðþurftir til handa Suðursveitungum.  
Dumbungslegur júnídagur
dauður sjór og rjómalogn  

hægt skríður fleytan suður með söndum
með sykur timbur olíu og mjöl  
í Suðursveit ætla bændurnir að byggja
og búrin eru þegar orðin tóm  

sjávarþjarkurinn Siggi í Bæ er bjargvættur bónda  
í stýrishúsi húkir lítill peyi á hráolíudúnk
og ælir       
         ælir         
             ælir           
oná gólfið  

Hlýir voru sjóvettlingar þínir Siggi í Bæ
hlýr var rómurinn er rumdi
djöfull er að sjá drenginn maður
jahá mahður
og hlýr var straumurinn
er steig frá stýrishússgólfinu þínu
og hríslaðist um hrúgaldið litla á hráolíudúnknum
grannan kropp í gráum frakka  

nú höfum við eignast sorgina saman Siggi í Bæ  

Með hækkandi sól á vordögum er fyrirhugað að hefja sumarstarfið í Þórbergssetri með þessu áhugaverða málþingi um verk Einars Braga og tengsl hans við Suðursveit.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 21
Gestir þennan mánuð: ... 10340
Gestir á þessu ári: ... 40603

Þórbergssetur - Hala, Suðursveit - 781 Höfn í Hornafirði - Sími: 478-1078 - Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Copyright © 2023. All Rights Reserved.

Fara efst