Skip to main content

Þórbergssetur - opið alla páskana

prestastoll005Opið verður inn á sýningar í Þórbergssetri alla daga í dymbilviku og yfir páskana frá klukkan 13:00 - 17:00. Helgina 30. mars  til 2. apríl koma 13 íslenskunemar frá Háskóla Íslands og dvelja á Hala. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur mun halda fyrir þá erindi á laugardagskvöld og fyrirhugað er að vappa um söguslóðir og lesa saman verk Þórbergs og umhverfið. Einnig er ferðafólk, Íslendingar sem útlendingar bókað í gistingu  og dvöl á Hala yfir páskana. Tilvalið er fyrir nærsveitunga að skreppa í Suðursveit og taka með sér gesti, skoða sig um úti í náttúrunni og koma við í Þórbergssetri. Þar verður myndasýning úr Suðursveit, vetrarmyndir frá nokkrum eyðibýlum og áhugaverðum stöðum og hægt að heyra sögur frá liðinni tíð ef óskað er.  Einnig verða spilaðar upptökur af viðtölum og sögum Steinþórs á Hala í fjósbaðstofunni.


Síðla vetrar er mjög gaman að staldra við úti í náttúrunni og skoða gamlar búsetuminjar sem sjást best í landslaginu áður en gróður fer að lifna. Yfir páskana er hægt að panta leiðsögn á nokkra slíka staði í nágrenni Hala. Upplýsingar í síma 867 2900
Þórbergur segir á einum stað. ,,Ég fór snemma að finna fyrir því stóra í hinu smáa" Á öðrum stað segir hann ,, Það hvarflaði aldrei annað að mér en allt í náttúrunni væri með lífi og mest lifandi voru steinarnir". Náttúruskynjun og skemmtilegar lýsingar Þórbergs á umhverfi og náttúrufari í Suðursveit  birta aðra sýn á umhverfið, að staldra við tóftarbrot og ,,hlusta á nið aldanna" eða hlusta ,,á margraddaðar óperur hafsins" eða virða fyrir sér stjörnudýrð himingeimsins,, að hlusta á söng stjarnanna" er ef til vill eitthvað sem gott væri fyrir nútímamanninn að rækta með sér á milli þess sem við geysumst um á ógnarhraða í tæknivæddri veröld nútímaþæginda. Einhvers staðar hefur þetta verið kallað afturhvarf til náttúrunnar, en því ekki að njóta hvoru tveggja, tækninnar og framfaranna en einnig þess að eiga góðar stundir úti í náttúrunni og skynja margbreytileika hennar í stóru og smáu.
Allir velkomnir í heimsókn í  Suðursveit  og Þórbergssetur um páskana

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 6081
Gestir á þessu ári: ... 24104