Skip to main content

Jólagestur á hornafjordur.is

Eftirfarandi grein var birt inn á hornafjordur.is föstudaginn 15. desember 2006.

Þá voru Fljótin ekki brúuð

Í viðræðum mínum við erlenda ferðamenn, sem heimsóttu Þórbergssetur síðast liðið sumar gætti oft undrunar hversu stutt er síðan að íbúar Skaftafellssýslu bjuggu við einangrun og erfiðleika í samgöngum. Það eru aðeins rúmlega 40 ár síðan að beljandi jökulfljót lokuðu af á báða vegu, og íbúar Öræfa, Suðursveitar og Mýra komust sjaldan akandi á eigin bílum í kaupstað. Samgöngur og búsetuskilyrði hafa breyst með slíkum ógnarhraða að segja má að íbúar svæðisins hafi stigið frá fornöld yfir í tækniveröld nútímans á hálfri öld.Fyrir þá sem ekki þekkja þessa sögu er erfitt að meta hvaða áhrif þessar hraðfara breytingar hafa haft á mannlíf og þróun,  flest lítum við þó með lotningu til horfinna kynslóða sem tókust hér á við daglegt líf af mikilli reisn, þrátt fyrir erfið kjör.

Spyrja má, hvernig í ósköpunum unga fólkið sem nú er að alast upp getur gert sér í hugarlund þessar miklu breytingar, þegar að við sem höfum upplifað þær gleymum jafnharðan fyrri tíð og teljum öll þægindi sjálfsögð um leið og þau koma. Mesta virðingu ber ég fyrir þeim sveitungum mínum sem hafa á einni mannsæfi stigið úr baðstofunum yfir í tæknivædd nútímaheimili. Engin kynslóð Íslandssögunnar býr yfir sambærilegri reynslu og þetta fólk, sem vann hörðum höndum og tókst á við lífið af æðruleysi, en horfði af hugsjón fram á veginn og byggði upp það velferðakerfi sem færir okkur lífsgæðin í dag.  Nú er allur heimurinn opinn og fjarlægðir hafa breyst svo að ,,styttra er til Kína, en áður var að ferðast úr Suðursveit austur á Hérað", svo vitnað sé í ummæli Þórbergs Þórðarsonar, sem Halldór Guðmundsson notar í nýútkominni bók sinni, Skáldalífi.

            Mér finnst ég reyndar ,,ekki gömul", en ég man þó þessa tíma. Þegar ég var að alast upp á Brunnhól á Mýrum í faðmi fjölskyldunnar voru flestar ár sýslunnar enn óbrúaðar. Frá árunum 1944 til 1975 voru byggðar 51 brú hér í sýslu, alls 3,2 kílómetrar af brúm á 32 árum eða nákvæmlega 100 metrar á ári. Fyrstu jólaminningar mínar tengjast mannlífi á Mýrum, eins og það var áður en Hornafjarðarfljótin voru brúuð árið 1961. Stuttu áður eða 1958 var Hólmsá brúuð, þá opnaðist leiðin út á Melatanga, þar sem flugvöllurinn var. Ég kom ekki á Sunnasandabæina eða að Hala fyrr en 12 ára gömul enda voru Steinavötnin ekki brúuð fyrr en 1964. Öræfin voru á þessum tíma í órafjarlægð, þangað var í huga manns aðeins fært fuglinum fljúgandi.

            En jólin voru dýrlegur tími. Það birti því mamma fægði gaslampann í eldhúsinu og hreinsaði sótið úr öllum lampaglösunum, hún bakaði í Sóló olíueldavélinni sem var með logandi eldinum innan í sér, í búrinu fjölgaði niðursuðudósunum og ilmur barst frá eplakassanum. Jóladúkar voru settir á litlu stofuborðin, eitt þeirra smíðaði Kalli bróðir mömmu í barnaskóla, hin komu úr búi Sigurðar afa,  eftirvænting var í lofti. Við fórum í kaupstað fyrir jólin, pabbi átti engan bíl svo sennilega höfum við fengið far með Sigurjóni í Seli. Ef ekki var hald á Fljótunum var farið austur fjörur og við ferjuð yfir á Höfn frá Melatanga. Ég man eftir einhverjum hressilegum en traustvekjandi karli við stýrið á bátnum, það hefur örugglega verið Þorbjörn á fluginu. Verslað var hjá Skafta og síðar Unni í kaupfélaginu. Alltaf var farið í  heimsóknir til ættingjanna,  hjá Gunnu frænku á Þrastarhól fengum við óteljandi kökur og tertur og ég fékk appelsín í glerflösku og æfði mig að drekka gos af stút. Stundum var farið til Diddu frænku í Svanahlíð eða Huldu eða á Móhól til Kalla og Bertu, alltaf var tekið á móti okkur sem höfðingjum langt að komnum,  og mikið skrafað. Í myrkrinu heima á Brunnhól var gaman að fylgjast með hvernig birti á Höfn þegar jólaljósunum fjölgaði, og um áramótin taldi ég alltaf raketturnar sem skotið var upp á miðnætti. Það var allt glæsilegra á Höfn hjá öllum frændunum og frænkunum, aldrei man ég þó eftir að foreldrar mínir töluðu um að það vantaði eitthvað í innbú þeirra eða til daglegra þarfa og mér fannst við lifa góðu lífi. Fyrst þurfti að byggja upp bústofninn, framfarir í landbúnaði gengu fyrir öllu.

            Jólin voru hefðbundin, einu merkin sem ég minnist úr veröld handan sveitarinnar voru barnatíminn og útvarpsmessan. Jólatréð var skreytt vaxkertum, sem við kveiktum reyndar aldrei á, og bókabunkinn úr jólapökkunum var vel þeginn. Við amma lásum þær allar, fyrstu árin Millý, Mondý, Mandy, síðar allar ástarsögur Margritar Ravn, sem amma gaf mér í jólagjöf og fékk strax lánaðar þegar ég hafði lokið lestri þeirra. Jólaballið var í Holti, Jón á Nýpugörðum og Eyfi í Kyljuholti spiluðu fyrir dansi, allir dönsuðu og sungu, við börnin voru þar fullgild í polkum og völsum, þó misjafnlega gengi í fyrstu. Það komu hins vegar engir jólasveinar  í heimsókn, það voru bara þeir sveinkarnir og hún Grýla hans Jóhannesar úr Kötlum sem voru í hugarheimi okkar Mýramanna á þessum árum

            Smátt og smátt ruddi tæknin sér til rúms í tilveru þessarar sveitar og hafði áhrif á munstur mannlífsins. Rafmagnið kom að mig minnir 1963, það voru björt jól og gamla kertajólaserían hans Sigurðar afa í Haga fékk loks hlutverk á ný á jólatrénu okkar. Nú logar hún á jólatrénu mínu hér á Hala hver jól. Pabbi  brunaði á glæsilega rússneska moskvitsnum sínum yfir Fljótabrúna nýju, stundum var þó farið ytra ef Fljótin voru á haldi, rétt til að rifja upp gamla tíð.

            Það ríkti bjartsýni í sveitunum á þessum árum, framundan voru meiri framfarir en um leið stórfelldari breytingar í samfélagsgerð og atvinnulífi,  en nokkurn gat órað fyrir. Það sem mestu máli skiptir nú á tímum alsnægtanna er þó alveg eins og þá að takast að höndla jólagleðina í sjálfum sér og að lifa í sátt við sjálfan sig og lífið. Uppskriftin mín er lítið jólaljóð sem nemendur mínir þekkja frá skólagöngu í Hrollaugsstaðaskóla síðustu þrjá áratugina.

Það hljóðar svo:

Viltu gefa mér jólagjöf?
   Þú þarft ekki gullpappír
   eða glitrandi borða

Fylltu hjarta þitt friði og ást
   og færðu mér

Þá kvikna jólastjörnur
   í augum okkar

Við krjúpum saman við lága jötu
   horfum í augu
   á litlu barni
   og brosum

Gleðileg jól
Þorbjörg Arnórsdóttir Hala

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 105
Gestir þennan mánuð: ... 5528
Gestir á þessu ári: ... 13568