Skip to main content

Samstarfssamningur Gljúfrasteins og Þórbergsseturs

gljufrasteinnSamstarfssamningur Gljúfrasteins og Þórbergsseturs var undirritaður á Gljúfrasteini síðastliðinn sunnudag. Það voru um 30 gestir á stofuspjalli í stofunni á Gljúfrasteini þar sem Halldór Guðmundsson fór á kostum í ræðu sinni um þá rithöfundana þrjá, Halldór Laxnes, Þórberg Þórðarson og Gunnar Gunnarsson. Áður en hann flutti erindi sitt skrifuðu þær Guðný Dóra Gestsdóttir og Þorbjörg Arnórsdóttir formlega undir samstarfssamninginn. Þar er kveðið á um formlegt samstarf þessara tveggja rithöfundasetra um kynningu og markaðssetningu setranna í samvinnu við önnur rithöfundasetur og aðra áhugasama aðila.

Í lok ræðu sinnar sagði Halldór Guðmundsson frá því þegar þeir Gunnar Gunnarsson og Þórbergur Þórðarson voru sæmdir heiðursnafnbót frá Háskóla Íslands, 12. mars 1974 á afmælisdegi.......

Þórbergs, en Halldór Laxnes hafði verið sæmdur heiðursnafnbót áður. Þórbergur var þá mjög lasburða, en var heima á Hringbraut 45. Búið var að segja Margréti, konu Þórbergs að nokkrir prófessorar frá Háskóla Íslands myndu koma í heimsókn þennan dag og heiðra meistara Þórberg. Þegar bankað var upp á í íbúð þeirra um miðjan dag fer Margrét til dyra, stendur þar þá aðeins ein ung kona.  Hún segist vera komin frá Háskóla Íslands, en Margrét, kona Þórbergs grípur stuttaralega fram í fyrir henni og spyr hver hún sé, hvort hún sé ein af prófessorunum. Þessi unga kona segist reyndar aðeins vera lektor við Háskóla Íslands og væri mætt hér til að heiðra Þórberg á afmælisdegi hans. Þótti Margrét nokkuð snögg upp á lagið þegar hún bauð henni til stofu. Litlu seinna var aftur bankað, og einhver fór til dyra, Margrét kallaði hvössum rómi hver sé nú kominn. Þá var svarað,  Halldór Kiljan Laxnes.,,Og hvað er hann nú að vilja hér", sagði Margrét með sinni hvellu röddu eins og henni var einni lagið.  Halldóri var svo boðið til stofu og var hann viðstaddur athöfnina. Halldór óskaði Þórbergi innilega til hamingju og að lokum féllust þessir miklu andans menn og skáldajöfrar 20. aldarinnar í faðma í stofunni á Hringbraut 45.

Þess má geta að fimmtíu og fimm árum áður hafði Þórbergi verið neitað um að taka lokapróf frá Háskóla Íslands eftir fimm ára nám í bókmenntum og heimspeki, en hann hafði ekki lokið stúdentsprófi. Stundaði hann nám sitt í Háskólanum af mikilli kostgæfni og skrifaði meðal annars upp skýringar við Snorra Eddu, í bókarformi. Þær komu reyndar aldrei út og því miður týndust þær er hann lánaði vini sínum þær til yfirlestrar, en uppkast af þeim er til í skjalasafni Þórbergs í Þjóðarbókhlöðu. Ekki erfði Þórbergur það við Háskólann að honum var meinað að taka þar lokapróf, því hann arfleifði hann af stórum hluta eigna sinna eftir sinn dag

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 280
Gestir þennan mánuð: ... 6073
Gestir á þessu ári: ... 24096