Skip to main content

Upprifjun,- Vatnajökulsþjóðgarður

gardhvammur 014Í fórum mínum fann ég eftirfarandi grein um Vatnajökulsþjóðgarð sem birtist í 15. árgangi Skaftfellings árið 2002. Er hún í fullu gildi enn í dag og er birt hér til að vekja athygli á mikilvægi þess að tengja menningu og sögu genginna kynslóða uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðs. 
,,
Að baki byggð í Austur Skaftafellssýslu liggur Vatnajökull, þriðji stærsti jökull á jörðinni næst á eftir Suðurskautsjökli og Grænlandsjökli. Hann er í senn ógnvaldur og lífgjafi.Nærri lætur að um helmingur af allri umgjörð hans, frá Grænalóni að Geldingafelli, sé innan sýslunnar.” Þannig hefst frásögn Hjörleifs Guttormssonar í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 1993 sem ber heitið Við rætur Vatnajökuls. Síðar í sama kafla segir: “Það eru skriðjöklarnir sem setja mestan svip á óviðjafnanlegt landslag í Austur Skaftafellssýslu. Um það geta þeir vitnað sem staddir eru á brún Almannaskarðs í björtu veðri og horfa í vesturátt þar sem fjöldi skriðjökla teygir hvíta arma sína niður á láglendið. Hvergi annars staðar á Íslandi búa menn í slíku nábýli við jökla.”

Þorsteinn Jóhannsson bóndi og skólastjóri frá Svínafelli í Öræfum bjó lengsta hluta ævi sinnar á því byggða bóli sem næst stendur jökli á Íslandi. Hann kvað svo

Þar sem Ægis ölduföll
ymja þyngst við sanda
Hrein og glæst hin hvítu fjöll
hæst á Fróni standa
Herská fljót á hendur tvær
hart um auðnir streyma
Þar er byggð mér þekk og kær
þar á ég glaður heima.

Það er undir hinum mikla jökulbreða Vatnajökli sem byggðin í Austur Skaftafellssýslu lúrir, og um margt sérstök m.a. vegna bæjarþyrpinganna sem myndast hafa. Mannlíf og menning bera enn á nýrri öld, svip þeirrar náttúru og náttúruhamfara er einkennt hafa sambýlið við jökulinn, sambýlið við ógnaátök elds og ísa, sambúðina við beljandi jökulfljót og trylltari hamfarahlaup í kjölfar eldgosa en þekkjast nokkurs staðar annars staðar í heiminum.
Þessi veröld þar sem Skaftfellingar lifðu sínu lífi við rætur jökulsins og í samspili við ógnaröfl náttúrunnarar – “en fyrir utan umheiminn”, - svo vitnað sé í Daníel Bruun danskan fornleifafræðing sem ferðaðist um Skaftafellssýslur um aldamótin 1900 – þessi veröld, gat af sér menningu og verklag sem hvergi er þekkt um víða veröld, tungutakið bjó yfir orðaforða sem ekki þekktist annars staðar, sérþekking á ferðalögum yfir jökulvötn og jökla varð að vísindagrein. Og þessi veröld gat af sér sagnamenn, listamenn og rithöfunda, sjálfmenntaða vísindamenn á heimsmælikvarða á sviði náttúrufræði, jöklafræði og sagnfræði, og tæknimenn á sviði raffræði og smíða. Mannsandinn naut án efa ögrunarinnar - að takast á við óblíð náttúruöfl efldi vitundarþroska og framtak fólksins til að komast af - þrátt fyrir kröpp kjör.

Hver gæti lýst þannig vatnsflaumi jökulár sem ferðast er yfir, - nema sá sem sprottin er úr þessu stórbrotna umhverfi? Stórbrotið listaverk, eitt af merkari menningarminjum þessa héraðs er frásögnin Vatnadagurinn mikli eftir Þórberg Þórðarson . Þar segir svo –

,,Við erum áður en minnst varir komin framá bakka á vatnsbreiðu sem líkist meira hafi en nokkru vatnsfalli sem ég hafði áður séð. - Mér hefur aldrei brugðið eins í brún. Þessi hafsjór er áreiðanlega engum fær, hugsaði ég ósjálfrátt upp aftur og aftur.- Við hljótum að verða að snúa við. - Allt yfirborð þessarar tröllauknu leirmórauðu hafrastar þaut framhjá okkur á flughraða, hófst hér og þar í háa bunka, féll svo niður í djúpa dali, vafði sig í hendingskasti í risavaxna ströngla sem byltust um í hvítfyssandi boðaföll, hringsnerist í sogandi iðusveipi og skrúfaðist upp í drýli og stróka, - en gnýrinn af hamförum þessarar brimrastar var svo mikill að við áttum fullt í fangið með að heyra hvort til annars. Og þegar ég leit augunum í kringum mig af vatnsfluginu, sýndist allt umhverfið hringsnúast eins og voldug karúsel. “ _
Þannig lýsir Þórbergur Þórðarson rithöfundur hinni miklu jökulmóðu Skeiðará er hann ferðaðist yfir Skeiðarársand í september árið 1933 ásamt Margréti konu sinni og í fylgd þrautþjálfaðra skaftfellskra vatnamanna. ,,Þá var ansi mikið í Skeiðará” , sögðu Öræfingar af sinni alkunnu hógværð, - en skáldið vissi að var sama og andskotans ósköp mikið í málfari Reykvíkinga.
En yfir var farið þó að hestarnir með mennina væru eins og ,,svolitlar strýtur út í þessu breiða flaumósa hafi og straumhafið ylti áfram í einni lotulausri síbreiðu einsog stormúfinn brimsjór, kolmorautt og hamslaust “.. Og lýsingin heldur áfram........... ,,Straumfossinn flýgur áfram í ótal myndum og teiknum, - bungandi hólar,- uppmjóar strýtur og strókar,- hringsveipar er líkjast óðum hundum, sem hlaupa kringum skottið á sér, - veltandi holskeflur, risavaxnar kryppur, sem skjótast upp úr jökulmorinu, - ein svarrandi flaumbreiða trylltra kynjamynda sem geysast uppá yfirborðið og sogast niðurí leirmyrkrið í þrotlausum umskiptum og endurtekningum”. - ,,Ferðin yfir ána tók nákvæmlega tvær klukkustundir”, segir Þórbergur, sem auðvitað var með úrið við höndina.

Það ætti ekki að vera Austur Skaftfellingum né Íslendingum undrunarefni þó ríkisstjórn Íslands hafi tekið ákvörðun um að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Sérstaða þessa svæðis í náttúrufari er slík og lífsbarátta fólksins við rætur jökulsins dregur dám af sambýli við óvægin náttúruöfl, - eins og lýst hefur verið hér að undan með örfáum dæmum Sá ávinningur sem felst í að gera þessa sérstöðu sýnilegri og nýta sér til framdráttar í atvinnusköpun og framþróun - blasir við. Ný viðhorf hafa breytt mati á auðlindum. Stórfljót, eyðisandar og jöklar eru ekki lengur farartálmar heldur virka sem segull er dregur ferðalanga frá fjarlægum löndum til okkar. Náttúrufegurð, hreinleiki og friðsæld laða æ fleiri ferðamenn til Íslands. Byggðin undir Vatnajökli sem áður var einangruð vegna erfiðra samgangna býr nú yfir auðlegð nýrra tækifæra, tækifæra sem áður voru hindrun - en eru nú aflvaki nýrrar þróunar.

Ný viðhorf hafa einnig breytt afstöðu manna til náttúruverndar, umhverfismála og stofnunar þjóðgarða. Erlendis m.a. í Noregi og Skotlandi hafa verið stofnaðir þjóðgarðar þar sem samhliða verndun er lögð áhersla á að hlúa að atvinnustarfsemi, menningu og mannlífi á viðkomandi svæði - .Að ferðast um slíka þjóðgarða hlýtur að vera forvitnilegt. - Samfara því að kynna sér náttúrufar og njóta náttúrufegurðar geta ferðamenn kynnst atvinnulífi, menningu, sögu og lífsbaráttu fólksins í gegnum aldirnar.

Það hlýtur að vera ögrun og aflvaki nýrra tækifæra að eiga þess kost að búa í eða við jaðar þjóðgarðs. Skaftfellingar eru ekki lengur “fyrir utan umheiminn” svo aftur sé vitnað í ummæli Daníels Bruuns. Sívaxandi fjöldi ferðamanna sækir okkur heim á hverju ári og fjarlægðir í tíma og rúmi hafa breyst í einni svipan með betri samgöngum og tækni á öldum ljósgjafans. Ferðalag Þórbergs og Margrétar yfir Skeiðárársand fyrir 67 árum tók heilan dag, nú koma ferðamenn nútímans til okkar í tugþúsundatali ár hvert, - án mikillar fyrirhafnar. Þrátt fyrir breytta tíma reynir því enn á fagmennsku skaftfellskra vatnamanna þó að í annarri merkingu sé.

Ákvörðun um Vatnajökulsþjóðgarð fellur vel að mörgum hugmyndum sem Austur- Skaftfellingar hafa verið að vinna að á undanförnum árum. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein í sýslunni og hefur styrkt stoðir atvinnulífs samfara miklum samdrætti í hinum hefðbundnu greinum landbúnaðar. Spáð er mikilli fjölgun ferðamanna á næstu árum. Árið 2000 komu til landsins í fyrsta skipti yfir 300.000 ferðamenn, árið 1993 voru þeir 148 þús. Spáð hefur verið amk. helmingsaukningu ferðamanna á næstu 10 – 15 árum og þær spár er lengst ganga spá milljón ferðamönnum hér árið 2020. Hugmyndin um Vatnajökulsþjóðgarð ætti að geta styrkt þá ferðaþjónustu og þau fyrirtæki sem nú eru starfandi, - en einnig stuðlað að betra aðgengi að Vatnajökli og frekari uppbyggingu og fjölgun þjónustustaða fyrir ferðamenn í sýslunni.
Mikill áhugi er hjá Skaftfellingum að efla hverskonar rannsókna- og vísindastarf sem tengist jöklinum. Á síðustu áratugum hefur verið svarað mörgum spurningum um Vatnajökul og hvað undir honum býr. Margt er þó enn á huldu og sumt verður seint ráðið. Einnig hefur glæðst áhugi meðal heimamanna að gera sögu og menningu svæðisins sýnilegri með stuðningi við fornleifagröft, með aukinni safnastarfsemi, betri merkingum á sögustöðum og ýmsum menningarviðburðum er tengjast sögu svæðisins. Hugmyndir um aukið rannsóknar og vísindastarf og varðveislu menningarminja tengjast uppbyggingu Nýheima og aðsetri Háskóla Íslands þar og starfsemi fyrirhugaðs jöklaseturs á Höfn. Beintenging mælitækja inn á jöklasafnið, mælitækja, sem t.d mældu framskrið jökla, úrkomumagn á ákveðnum stöðum á jöklinum, jarðhræringar undir Vatnajökli, vatnshæð í Grímsvötnum o.fl. yrði mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Allar þessar hugmyndir heimamanna falla vel að hlutverki og starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs og því hljóta Skaftfellingar að binda vonir við að stofnun þjóðgarðsins styðji við áform um uppbyggingu jöklaseturs og eflingu rannsókna og vísindastarfs innan Nýheima.

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs þarf að hafa ótvíræðan efnahagslegan ávinning fyrir byggðina í Austur Skaftafellssýslu. Það þarf að vera tryggt að nægjanlegt fjármagn komi frá hinu opinbera til uppbyggingar og reksturs hins nýja þjóðgarðs .Orð Ragnars Stefánssonar í Skaftafelli í endurminningum hans eru holl áminning hvað þetta varðar, en þar segir hann orðrétt
“ Ekki datt mér í hug að sú ríkisstofnun, Náttúruverndarráð, sem ég hafði þarna viðskipti við mundi síðar löngum verða í fjárhagslegu svelti, sem hefur valdið því að þjóðgarðurinn í Skaftafelli, - einn af fegurstu stöðum landsins, - hefur ekki fengið það viðhald og umbætur um árabil,- sem stöðugt eða árlega hefði þurft að leggja nokkuð til”.
Beiðni hans verður vonandi að áhrínsorðum þar sem hann segir “ Ég ætla að vona að fjármálayfirvöld þessa lands sjái að sér og bæti úr þessu sem fyrst”.
Við mat á efnahagslegum ávinningi er einnig eðlilegt að horfa til margföldunaráhrifa þess opinbera fjármagns er veitt yrði til uppbyggingar í hinum nýja þjóðgarði. Fjölbreyttari afþreying, uppbygging nýrra þjónustustaða og aukin ferðamannastraumur gæti ýtt undir frekari uppbyggingu einkafyrirtækja í ferðaþjónustu hér á svæðinu á næstu árum. Samfara því þarf ferðaþjónustan sem atvinnugrein að njóta betra starfsumhverfis og hafa meiri aðgang að fjármagni til uppbyggingar, en verið hefur fram að þessu. Mikilvægt er að ný störf sem skapast við stofnun þjóðgarðsins verði heilsársstörf sem tryggi búsetu hér á svæðinu og tryggi það jafnframt að þjónustan byggi á staðbundinni þekkingu á náttúrufari og menningarlífi.
Með stofnun norsks þjóðgarðs við Jostedalsjökulinn árið 1993 urðu til 13 heilsársstörf og 45 sumarstörf í sveitarfélagi sem aðeins telur 450 íbúa og það var fyrir utan störf við jöklasafn og alþjóðlega jöklamiðstöð sem er í nágrenni þjóðgarðsins.


Þó að í upphafi verði mörk þjóðgarðsins miðuð við jökuljaðar má ætla að einhverjir landeigendur hafi síðar meir áhuga á að jarðir þeirra eða hlutar þeirra falli undir Vatnajökulsþjóðgarð. Ljóst er að ef af því yrði má reikna með meiri efnahagslegum ávinningi af þjóðgarðinum fyrir byggðina í heild. Ef mörk þjóðgarðs færu út fyrir jökuljaðar á tilteknum svæðum styður það hugmyndir um fjölgun ferðamannastaða og þjónustusvæða. Lykilatriði er að þar verði um frjálsa samninga á milli landeigenda og Náttúruverndar ríkisins að ræða og eignarréttur að fullu virtur Land sem þannig færi undir þjóðgarðinn eftir samninga við viðkomandi eignaraðila gæti annað hvort verið í ríkiseign eða einkaeign eins og heimilt er samkvæmt lögum. Í því sambandi mætti hugsa sér að bændur eða landeigendur gætu samið um föst störf innan hins nýja þjóðgarðs og fjármagn til að bæta aðgengi fólks að viðkomandi landsvæði. Slík tilhögun gæti skapað ný atvinnutækifæri í dreifbýli og treyst búsetu.


Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og sú umræða sem nú er hafin um framgang málsins er aðeins fyrstu skref á langri braut. Framundan er stefnumótunarvinna og mikilvægt er að hugsanleg þjóðgarðsstofnun fái mikla og málefnalega umræðu þannig að sem best sátt og samstaða verði. Það er mikilvægt að Vatnajökulsþjóðgarður verði að miklum hluta þjóðgarður Skaftfellinga með höfuðstöðvar í sýslunni, þannig að starfsemi tengd honum byggi á staðbundinni þekkingu og þeim menningararfi sem við eigum. Ný tækifæri í tengslum við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs munu ekki koma á silfurfati, þar skiptir miklu að Skaftfellingar leggi sitt af mörkum til að vinna hugmyndinni framgang þannig að til framfara verði fyrir svæðið í heild. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs þarf að líta á sem stuðning og aflvaka nýrra tækifæra fyrir byggðina í heild. Hvernig til tekst mun ekki síst velta á atorku og frumkvæði heimamanna, hvort að þeir komi að hugmyndavinnunni með jákvæðu hugarfari, hvort að tekst að byggja upp þekkingu og framsýni, og - hvort tekst að varða leið menntunar á heimaslóð til að takast á við ný tækifæri sem felast í stofnun þjóðgarðsins. Síðast en ekki síst veltur hún á samstöðu íbúanna um framgang málsins og skilning fólks í dreifbýli á að ferðaþjónusta og hefðbundinn landbúnaður geti þróast hlið við hlið og styrkt byggðina í heild. Í því sambandi má benda á mismunandi landnýtingu og möguleika bænda til afla tekna í gegnum afþreyingu og uppbyggingu í ferðaþjónustu samhliða hefðbundnum búskap.

Glöggt er gestsaugað.
Ummæli Jack D Ives prófessors í landa og jöklafræðum sem hefur stundað rannsóknir í Skaftafelli í 50 ár og heillaðist af einstöku náttúrufari þar eru eftirtektarverð.JACK D. IVES hefur rannsakað fjalllendi víðsvegar í veröldinni síðastliðin 25 ár með tilliti til þróunarstarfs og er tvímælalaust einn virtasti prófessor á þessu sviði í öllum heiminum. Ives er einn aðalhvatamaður þess að Vatnajökull og landsvæði í kringum hann verði gert að þjóðgarði á Ári fjalla árið 2002.
Í viðtali við blaðamann Morgunblaðsins síðast liðið haust sagði hann.
,,Ég mundi segja að Vatnajökulssvæðið sé einstakt, það á engan sinn líka í öllum heiminum, bæði vegna náttúrunnar sjálfrar og einnig með tilliti til þess fólks sem byggt hefur þetta svæði frá landnámi. Þarna er að finna einstaka samsetningu eldvirkni og jökla sem ná hámarki sínu í eldgosi undir jökli og jökulhlaupum. Á heimsmælikvarða er það næsta óþekkt að vísindamaður geti haft aðgang að samhangandi upplýsingum um jafn langt tímabil þar sem helst í hendur saga menningarsamfélags og sambúðar við náttúruöfl “.
Á öðrum stað segir Jack D Ives
,,Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er því “ómetanleg gjöf til mannkyns “og ábyrgð Íslendinga gagvart heiminum afar mikil “.

Þegar Ives var spurður að því hvort hægt væri að sameina starfsemi þjóðgarðsins daglegu brauðstriti fólksins sagði hann:
,,Menn hafa orðið æ sveigjanlegri í skipulagi þjóðgarða í þeim tilgangi að sameina megi markmið verndunar og þarfir þess fólks og þeirrar menningar er fyrirfinnst á viðkomandi svæði. Ég er þess fullviss að íslensk stjórnvöld og íbúar Vatnajökulssvæðisins hafi bæði styrk og svigrúm til þess að móta eigin lausnir á þessu verkefni “.
Skaftfellingar hafa löngum haft orð á sér fyrir samstöðu og samhug þegar að unnið hefur verið að framfaramálum fyrir byggðina í heild. Áður fyrr gegndu bændafundirnir mikilvægu hlutverki og styrktu samstöðu innan héraðsins þegar unnið var að mikilvægum framfaramálum. Það hefur verið sagt um þessa fundi að menn fóru aldrei heim fyrr en samstaða hafði náðst um forgangsröðun merkra áfanga í málefnum sýslunnar, eins og hvaða stórfljót yrði brúað næst eða hvaða vegakafli lagður. Með það veganesti af bændafundunum reið síðan Páll Þorsteinsson til þings og vann að framgangi málsins. Einn þeirra eftirminnilegu manna sem sóttu þessa fundi var Þorsteinn Jóhannsson frá Svínafelli í Öræfum, en hann orti svo:

Löngum unnu lífsins tafl
leikni, dirfð og festa
Samtakanna sigurafl
síst þó mátti bresta
Eins og grösin orka smá
auðn í skrúð að klæða
Félagshugur hollur má
héraðsfarsæld glæða.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5793
Gestir á þessu ári: ... 23817