Skip to main content

Sérstaða Þórbergsseturs

Starfsemi Þórbergsseturs er afar sérstök hvað varðar uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu í sveit sem byggir á merkustu menningarminjum þjóðarinnar, bókmenntum og sagnalist. Sérstaða verkefnisins felst m.a. í því að bækur Þórbergs eru skrifaðar inn í raunverulegt umhverfi og um raunverulegt fólk og fjalla m.a.um atvinnuhætti og menningu horfins tíma. Sú þekking og arfleifð sem Þórbergur bjargaði frá glötun gefur möguleika á að skapa sterkar tengingar út í samfélagið til uppbyggingar atvinnu og ferðaþjónustu í dreifbýli Einstakar lýsingar Þórbergs á náttúrufari, sögu og mannlífi höfða einnig til erlendra ferðamanna nú þegar Þórbergssetur er orðið að veruleika og þeir eiga þess kost að lesa saman sögu og umhverfi og setja sig í spor þess fólks er bjó í Suðursveit á liðnum öldum. Á sýningum Þórbergsseturs má greina hvernig mannsandinn naut ögrunarinnar – hvernig átök við óblíð náttúruöfl efldi vitundarþroska og framtak fólksins til að komast af - þrátt fyrir kröpp kjör. ,, Þar rís list Þórbergs hæst, hvernig honum tekst að glæða fróðleik lífi”

,hladan, Gula hlaðan” á Hala hefur fengið nýtt hlutverk sem bókhlaða er hýsir starfsemi Þórbergsseturs og er tímanna tákn um breytta atvinnuhætti til sveita. En Þórbergssetur verður ekki bara rithöfundasetur, verk Þórbergs kalla á miklu víðari skírskotun. Öll Suðursveit er sögusvið bóka hans og honum tókst betur en nokkrum öðrum að kalla fram sérkenni íslenskrar alþýðumenningar með verkum sínum. Áskorun Þórbergsseturs er að svara ákallinu í verkum hans og halda áfram að draga fram sérkenni heimabyggðar, að bjarga menningarverðmætum frá glötun, að færa þekkingu fortíðar inn í framtíðina, að lifa með landinu og reyna,, að hægja á ferðinni um stund og siðla um göturnar undir Steinafjalli, að hlusta á veðrið og blómin og heyra steinana tala á ný”

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 6
Gestir þennan mánuð: ... 22
Gestir á þessu ári: ... 104544