Skip to main content

Minnisvarði á Hala

200503122Í dag 12. mars er afmælisdagur Þórbergs Þórðarsonar. Í tilefni af því er flaggað ,,upp við steina" en þar er minnisvarði um bræðurna Þórberg, Steinþór og Benedikt Þórðarsyni frá Hala í Suðursveit

Minnisvarðinn stendur við þjóðveginn ofan við Halabæina og er þar viðkomustaður fjölmargra ferðamanna. Í dag birtum við ljóð sem Torfhildur Hólm Torfadóttir sonardóttir Steinþórs Þórðarsonar orti í tilefni af vígslu minnisvarðans 10. júní 1992.          

                                  

Minnisvarði

Heyrið nú þyt frá löngu liðnum dögum                
leggið við hlustir, hvíslar létt í blænum.
Glæðist þá lífi grein úr gömlum sögum,
glitskýin sigla yfir Halabænum.

Berst oss úr fjarska bergmál fóta smárra,
bræðranna þriggja, hér um götur hlupu.
Fóstraðir voru í faðmi fjalla hárra,
á frísklega stráka perlur himins drupu.

Þeir uxu úr grasi, andans máttinn fengu
umvafðir hlýju styrkrar móðurhandar.
Fótsporin fyrstu með föður sínum gengu,
fundu hve golan létt á vanga andar.

Fegurð og æska full af vonum björtum,
fyllti þá krafti í byrjun nýrrar aldar.
Eldmóður lífsins brann í ungum hjörtum,
arfleifðir menningar voru í sálu faldar.

Með hugsjón í nesti var haldið fram á veginn,
hvar skyldi æja og stóra hluti vinna.
Það bætir hvern mann að trúa á mátt og meginn,
merkin að bera í krafti feðra sinna.

Áfram var haldið ofurhugans verki,
andans flug tekið, hátt á vængjum svifið.
Suðursveit þeirra mun bera sigurmerki,
og sýna hvað vinnst þegar nógu hátt er klifið.

Ekkert mun breytast, tímahjólið tifar,
tignarlegt fjallið ennþá skýlir Hala.
Eilífðin ykkar ævisögur skrifar
á steinana þrjá, steinana sem tala.

Torfhildur Hólm Torfadóttir

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 8411
Gestir á þessu ári: ... 86474