Skip to main content

Fréttir af krossferð

kross3Það var mikill dýrðardagur í Staðarfjalli í Suðursveit sunnudaginn 25 júlí síðastliðinn. Sól skein í heiði þegar um 70 manns söfnuðust saman við skógræktargirðinguna og hlýddu á dagskrá tengda stórbrotnu umhverfi og merkilegri sögu Staðarfjalls eða Papbýlisfjalls eins og það hét áður fyrr. Síðan var lagt á fjallið eftir merktri gönguleið upp í Garðhvamm þar sem vígður var kross til minningar um veru Þórbergs Þórðarsonar þar og tekinn til varðveislu birkikross sem hann tálgaði fyrir 100 árum og hafði geymst undir tveimur steinhellum. Snætt var nesti á leiðinni á löggiltum áningarstað smalamanna, þá kom í ljós að 55 höfðu haldið á fjallið frá aldrinum 3ja ára til áttræðs.Í Garðhvammi var stutt dagskrá þar sem Sveinn Ívarsson dóttursonur Þórbergs afhjúpaði krossinn og Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona flutti ljóð. Hönnuður verksins er Jón Þórisson sem vígði krossinn með því að láta drjúpa á hann brennivínstár, en uppskrift af Þorláksdropum Þórbergs er ekki þekkt enn.

Síðan var gengið að Klukkugili, sem er 300 metra djúpt gljúfur og þar las Ragnheiður Steindórsdóttir leikkkona úr bókinni Í Suðursveit eftir Þórberg Þórðarson, um Hvannadal og Myrkrin í Klukkugili. Það var magnþrungin stund þar sem rödd Ragnheiðar hljómaði vel við undirspil árinnar, sem niðar í botni gljúfursins.
kross2Opnun þessarar gönguleiðar markar tímamót hvað varðar það að opna aðgengi að nýjum stöðum með merktum gönguleiðum í Suðursveit. Einnig hefur verið settur upp nýr ratleikur í nágrenni Hala, sem liggur í austurátt meðfram Steinafjalli og endar í Rótargilshelli sem er neðst í klettunum í um 210 m. hæð yfir sjávarmáli. Söguskilti hafa verið sett upp þar sem fróðleikur, bókmenntatextar og gamlar sögur varða leiðirnar þannig að þeir sem rölta af stað verða margs vísari um umhverfi og sögu svæðanna. Gönguferðir með leiðsögn verða um þessa staði á næstunni og verða nánar auglýstar, en einnig er hægt að panta leiðsögn á Hala í síma 478-1073 eða 893-2960. Fólki er einig frjálst að ganga þessar leiðir á eigin vegum, en athuga þarf að aðeins er fært í Staðarfjall á jeppum og aðgæslu þörf í rigningartíð. Verkefni þessi eru styrkt af Ferðamálasjóði og Bændasamtökum Íslands en að  framkvæmdum stóðu  aðstandendur Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit.

Efri mynd: Sveinn Ívarsson tekur leifar af krossinum sem afi hans, Þórbergur Þórðarson, tálgaði fyrir 100 árum.

Neðri mynd: Lilla Hegga og Jón Þórisson leikmyndahönnuður við krossinn í Garðhvammi.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 288
Gestir þennan mánuð: ... 6081
Gestir á þessu ári: ... 24104