Skip to main content

Þórbergsþingið 12. mars

Fjöldi manns sóttu málþing um Þórberg Þórðarson á afmælisdegi hans 12. mars síðastliðinn og var nærri fullsetið í fyrirlestrasal Norræna hússins. Fjölbreytt dagskrá var á málþinginu, sem var samstarfsverkefni Íslenska esperantófélagsins og Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit. Kristján Eiríksson hélt erindi um Esperantó og Þórberg og sagði frá starfsemi esperantista á Íslandi. Færði hann Þórbergssetri að gjöf ritið la Tradukisto, sem er gefið út til heiðurs Þórbergi Þórðarsyni og kemur út þrisvar á ári. Baldur Ragnarsson las upp úr kennslubókum Þórbergs á esperanto og síðan íslenska þýðingu sína á sömu köflum. Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona las úr ritgerð Þórbergs, Þrjú þúsund þrjú hundruð sjötíu og níu dagar úr lífi mínu og einnig síðar úr bréfi til Kristínar Guðmundsdóttur. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur flutti aðalerindi málþingsins sem hann kallaði, Hvað vildi Þórbergur? og Matthías Johannessen skáld sagði frá kynnum sínum við Þórberg og las stuttan kafla úr bókinni, Í kompaníi við allífið. Þórey Kolbeins las lífsreglur Þórbergs eins og hann skráði þær á esperantó og voru þær töluvert breyttar frá því sem þær birtust í Ofvitanum. Jón Hjartarson var kynnir á málþinginu og hann leiklas einnig kafla úr Sálminum um blómið. Að lokum las Karl Guðmundsson leikari upp þýðingu úr esperantó Bréf til Krestanofs. Flutningur þessarra stórleikara á verkum Þórbergs var stórkostlegur og skemmtu allir sér hið besta allan tímann. Erindi Kristjáns Eiríkssonar og Guðmundar Andra verða birt á vefnum eftir nokkra daga.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 5793
Gestir á þessu ári: ... 23817