Skip to main content

Bókin, Skáldalíf komin út.

Bókin Skáldalíf eftir Halldór Guðmundsson bókmenntafræðing er til sölu í Þórbergssetri á Hala í Suðursveit. Bókin var gefin út þann 15. nóvember síðastliðinn og hefur undirtitilinn Ofvitinn úr Suðursveit og Skáldið á Skriðuklaustri. Og það má spyrja, eiga þeir nokkuð sameiginlegt, heimsmaðurinn Gunnar Gunnarsson og heimalningurinn Þórbergur Þórðarson? Annar skrifaði bækur á dönsku sem þýddar voru á fjölmörg tungumál;

bækur hins voru vel varðveitt leyndarmál á fátalaðri tungu landsmanna. Annar spurði stórra spurninga um tilvist mannsins; hinn var annálaður húmoristi og ólíkindatól. En þeir voru báðir íslenskir bændasynir, nánast jafnaldra, og þá dreymdi stóra drauma um eigin framtíð og þjóðarinnar. Þeir tóku trú á erlenda stríðsherra, hvorn af sinni stjórnmálastefnu og fór sú trú illa með þá. En báðir höfðu afgerandi áhrif á þróun íslenskra bókmennta. Halldór Guðmundsson dregur upp einstæða mynd af þessum tveim rithöfundum í samhliða ævisögum þeirra. Hér segir frá æsku og uppvexti, erfiðum sveltiárum og örlagaríkum ástarsamböndum, þrá eftir sveitinni, heimsreisum og endurkomu. Með því að láta þá varpa sterku ljósi hvor á annan fæst mynd af hvorum um sig sem aldrei hefur áður sést.
Halldór Guðmundsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína Halldór Laxness - ævisaga.

Jarðhiti á Hala

Borarar012Loksins tókst að mæla hitann í borholunni við Helghól sem lokið var við að bora í janúar 2006. Það er úr þessari holu sem nú er verið að dæla 63 gráðu heitu vatni til upphitunar í Þórbergssetri. Borholan er 633 metra djúp og á því dýpi mældist botnhiti 93,1 gráða. Þetta kom reyndar ekki á óvart þar sem efnahiti holunnar benti til að þarna væri að finna um 100 gráðu heitt vatn. Til samanburðar má geta þess að Gerðistindur fyrir ofan Hala er samkvæmt landakorti Landmælinga Íslands árið 1975  um 729 metra hár. og gefur það vísbendingu um hversu langt ofan í jörðina holan nær.

Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur sem hefur haft umsjón með jarðhitaleit á Hala segir að þarna sé heitasta hola sem boruð hefur verið á Austurlandi eða jafnvel á þeim svæðum sem skilgreind hafa verið sem köld svæði. Ljóst er að ekki er þó búið að hitta á aðalvatnsæðina því aðeins eru að koma um 3 sekúndulítrar úr þessari holu. Allt bendir til að þarna sé um töluvert magn af  vatni að ræða þar sem vísbendingar um heita vatnið höfðu áður fundist á stóru svæði.

Það er mikill áfangi að hafa náð upp svo heitu vatni og fá þar með staðfest að öll sú vinna og fjármunir er farið hafa í rannsóknir á svæðinu muni skila árangri. Vatnið úr þessari holu dugir fyrir alla bæi á Breiðabólsstaðartorfunni, en ef að yrði farið í frekari lagnir um sveitina yrði að bora aðra vinnsluholu. Hátt hitastig vatnsins gefur möguleika á að leiða vatnið í næstu byggðalög og til frekari nýtingar jarðhitans við atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Það veltur þó fyrst og fremst á áhuga og atorku íbúanna. Suðursveit er nú að verða eitt af fjölsóttustu ferðamannasvæðum á landinu með  Jökulsárlón og ferðir á Vatnajökul sem aðalaðdráttaraflið, en einnig  fjölbreytta gistimöguleika og afþreyingu eins og Þórbergssetur og merktar gönguleiðir um stórbrotna náttúru, þar sem sagan bíður við hvert fótmál. Mikilvægt er að nýta jarðhitann til frekari styrkingar atvinnulífs og eflingu byggðar og freista þess að byggja upp störf sem styrkt gætu heilsársbúsetu á svæðinu. 

Dvöl á Hala

gisting myndir1Á Hala er nú hægt að panta gistingu í sérhúsnæði. Um er að ræða tvö einbýlishús með góðri eldunaraðstöðu og setustofu. Yfir sumartímann er mikið um að vera og panta þarf gistingu með góðum fyrirvara.


Fyrir utan háannatímann þ.e. frá 1. september til 1. júní  er hægt að koma og dvelja á Hala yfir helgi eða í lengri tíma. Á það við um hópa, fjölskyldur, fræðimenn, ýmis námskeið eða skólahópa. Á vegum Þórbergsseturs er hægt að panta sérstaka dagskrá sem hentar hverjum og einum. Sem dæmi má nefna gönguferð að kvöldlagi og stjörnuskoðun ef veður leyfir, upplestur úr verkum Þórbergs eða efni úr Suðursveit, gönguferðir úti í náttúrunni, ratleiki, að skoða fiskeldi og ála, hátíðarkvöldverð í Þórbergssetri o.fl. Jarðhiti hefur fundist við Hala og hægt er að baða sig í heitum potti (fiskikari) og stunda Möllersæfingar á síðkvöldum. Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Þorbjörgu Arnórsdóttur í síma 867 2900 

Þórbergssetur, dagskrá á sunnudögum

20090117Þórbergssetur er búið að vera opið alla daga í haust nema mánudaga. Töluvert hefur verið um að ferðafólk líti við til að fá sér kaffisopa eða skoða safnið. Margt var um manninn síðustu helgina í október en þá komu um 130 manns í heimsókn, Vestur Skaftfellingar í skoðunarferð og Skaftfellingakórinn sem söng fyrir gesti og heimamenn við góðar undirtektir. Húsið vekur mikla athygli frá þjóðveginum og margur forvitinn vegfarandi hægir á ferðinni eða staldrar við um stund og virðir fyrir sér bókakilina hans Þórbergs sem skreyta norðurhlið hússins.
Þórbergssetur verður opið í allan vetur. Oftast er setrið opið frá 12 - 17 alla daga nema mánudaga. Tekið er á móti tímapöntunum fyrir hópa sem vilja heimsækja safnið í síma 867 2900.Stutt er heim á Hala og velkomið að banka upp á ef komið er að lokuðum dyrum.
Sunnudaginn 12. nóvember verður Þórbergssetur opið frá klukkan 12 - 17:00 . Þá verður upplestur úr bókum Þórbergs í fjósbaðstofunni klukkan 14:00 og 15:00 og upplestur úr bók Einars Braga, Þá var öldin önnur kl. 16:00. Hægt verður að njóta veitinga af kaffihlaðborði. 
Allir eru velkomnir

Þórbergssetur, - opið allt árið

Þórbergssetur var opnað 1. júlí síðastliðinn. Segja má að þar hafi verið margt um manninn í sumar. Gestir safnsins eru nú um 4000 talsins en auk þess hafa margir litið við í kaffi. Húsið vekur mikla athygli frá þjóðveginum og margur forvitinn vegfarandi hægir á ferðinni eða staldrar við um stund og virðir fyrir sér bókakilina hans Þórbergs sem skreyta norðurhlið hússins. Þórbergssetur verður opið í allan vetur. Opnunartími í september er þannig að opið er alla daga frá 10 - 17. Frá og með 1. október er opið frá 12 - 17 alla daga nema mánudaga. Tekið er á móti tímapöntunum fyrir hópa sem vilja heimsækja safnið utan þess tíma í síma 867 2900. Stutt er heim á Hala og velkomið að banka upp á ef komið er að lokuðum dyrum. Framundan er málþing í Þórbergssetri dagana 13. og 14. ágúst og verður það auglýst nánar næstu daga. 

Opnunarhátíð Þórbergsseturs 30. júní

Föstudaginn 30. júní 2006, verður Þórbergssetur á Hala í Suðursveit opnað við hátíðlega athöfn. Fjölmörgum er boðið að taka þátt í opnunardagskránni, þar á meðal ráðherrum, þingmönnum kjördæmisins, samstarfsaðilum og fjölmörgum velunnurum verkefnisins. Meðal annars mætir hópur nemenda Háskóla Íslands sem sat málstofu um Þórberg síðastliðinn vetur ásamt Bergljótu S. Kristjánsdóttur lektor við Háskóla Íslands sem stjórnaði málstofunni . Einnig er fjölmörgum Skaftfellingum boðið til dagskrár þar á meðal öllum ferðaþjónustuaðilum á svæðinu. Dagskráin verður með hefðbundnu sniði, ávörp gesta og heimamanna, karlakórinn Jökull syngur lög við ljóð Þórbergs, Jón Hjartarson og Ragnheiður Steindórsdóttir leikarar lesa úr verkum skáldsins og síðan verða opnaðar tvær sýningar í sýningarsölum setursins. Óhætt er að fullyrða að ýmislegt óvænt mun mæta gestum við opnun sýningar í vestri sal en það hefur verið haldið mikilli leynd yfir þeirri sýningu allt til opnunardags.
Laugardaginn 1. júlí verður Þórbergsetur síðan opnað almenningi og verður eftir það opið allt árið um kring sem viðkomustaður ferðalanga sem eiga leið framhjá.
Sunnudaginn 2. júlí er öllum Austur Skaftfellingum boðið að koma í heimsókn og njóta þess að skoða setrið og sýningarnar þar endurgjaldslaust.
Það er von þeirra sem staðið hafa að uppbyggingu Þórbergsseturs að það megi auðga atvinnulíf og menningarlíf í Austur Skaftafellssýslu og auka á fjölbreytni í afþreyingu fyrir ferðafólk á svæðinu. Framundan eru spennandi tímar í mótun starfsemi setursins og  að þróa samstarf við rithöfundasetrin á Gljúfrasteini og Skriðuklaustri.

Stjórn Þórbergsseturs vonar að sem flestir Skaftfellingar leggi leið sína að Hala í Suðursveit um helgina og njóti opnunarhelgarinnar með okkur jafnframt því að skemmta sér konunglega á humarhátíð á Höfn.
Gleðilega hátíð.
 

Þórbergssetur opnar 1. júlí

Þórbergssetur á Hala í Suðursveit verður opnað fyrir almenning laugardaginn 1. júlí 2006. Opnunarhátíð er ákveðin 30. júní kl 14:00. Húsið er nú nær tilbúið en verið er að vinna við að mála utan og keyra í lóðina, allt eftir því hvernig viðrar hverju sinni. Mikil leynd hvílir yfir sýningunni sem á að verða í svokölluðum vestri sal, en hún er að mestu leyti unnin í Reykjavík og verður flutt á staðinn og sett upp í lok júní. Spennandi verður að fylgjast með hvernig hugmyndir síðustu ára verða að veruleika. Þórbergssetur verður eitt af þremur rithöfundasetrum á Íslandi og mun vonandi starfa í nánu samstarfi við þau á næstu árum. 

Smiðir komnir til vinnu......

Það er mikið að gera í Þórbergssetri þessa dagana. Keppst er við að þilja innan veitingasal og aðrar vistarverur og er nú allur eystri hluti byggingarinnar tilbúin undir málningu.Ákveðið hefur verið að opna Þórbergssetur með pompi og pragt um mánaðarmót júní og júlí. Framundan er því vinna við uppsetningu sýningar og verður spennandi að sjá hvað verður innandyra í bókhlöðunni á Hala. Það eru tveir duglegir smiðir úr Reykjavík sem stýra verkefninu, en með þeim vinna laghentir Skaftfellingar, allir komnir af hagleiksmönnum og skipasmiðum frá Reynivöllum í Suðursveit í framættir. Keppst er við, unnið frá 8 - 8 og síðan svamlað í heita pottinum á kvöldin til að hvíla lúin bein eftir átök dagsins. Fiskikörin á Hala eru því vel nýtt þessa dagana, ekki undir fiska heldur svamlandi smiði. Vel hlýtt er innan dyra í Þórbergssetri, en þar rennur heita vatnið um lagnir í gólfunum. Hver hefði trúað þessu fyrir 10 árum síðan? Þau eru mörg ævintýri lífsins bara ef við leitum að þeim og erum tilbúin að vera þátttakendur í atburðarásinni.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 487
Gestir þennan mánuð: ... 6694
Gestir á þessu ári: ... 51161