Skip to main content

Esperantóþing á Hala

Aðalfundur Íslenska esperantosambandsins (IEA) á Þórbergssetri á Hala í Suðursveit 14. til 16. september 2007
Föstudaginn 14. september
1. Lagt af stað úr Reykjavík (BSÍ) klukkan 14.00, frá BSÍ. Leiðsögn á esperanto og íslensku.
2. Komið að Hala um kl. 20.00 og drukkið kvöldkaffi þar
3. Þórbergssafn skoðað 
 Laugardagur 15. september
4. Morgunverður kl. 8.00-9.30
5. Aðalfundur IEA  kl. 10.00-11.00
6. Fyrirlestur heiðursgestsins, Tibor Szabadi frá Ungverjalandi, um esperanto sem millimál við þýðingar kl. 11.00-12.00
7. Hádegisverður kl. 12.00-13.00
8. Ferð um Suðursveit og Hornafjörð kl. 13.00-18.00. Leiðsögn Hallgrímur Sæmundsson
9. Kvöldverður á Þórbergssetri kl. 19.00
10. Kvöldvaka kl. 20.00-22.00
Sunnudagur, 16. september
11. Gengið verður um nánasta umhverfi á Hala fyrir hádegi. Þórbergssafn verður opið.
12. Hádegisverður klukkan 12
13. Haldið heim. Farið frá Hala upp úr hádegi
Heiðursgestur á þinginu verður Tibor Szabadi frá Ungverjalandi. Tibor er félagi í Ungverska rithöfundasambandinu og hefur fengist við þýðingar úr ungversku á esperanto og einnig úr esperanto á ungversku. Hefur hann til dæmis þýtt bæði ljóð eftir Jónas Hallgrímsson (Gunnarshólma) og Vilborgu Dagbjartsdóttur eftir þýðingum á esperanto úr tímaritinu La Tradukisto sem íslenskir esperantistar gefa út. Tibor Szabadi mun á þinginu halda fyrirlestur um þýðingar bókmenntaverka með esperanto sem millimál.
Hornfirðingar eru hjartanlega velkomnir að líta við í Þórbergssetri á laugardagskvöldið og taka þátt í kvöldvöku með esperantistum og kynna sér starfsemi Íslenska esperantosambandsins. Meðal íslenskra gesta er Hallgrímur Sæmundsson frá Stóra Bóli á Mýrum

Sumarið 2007

Það hefur verið viðburðaríkt sumar í Suðursveit og mikil umferð ferðamanna á svæðinu. Í Þórbergssetri hefur verið gestkvæmt og hafa nú um 8500 gestir heimsótt safnið síðan að opnað var 1. júlí á síðasta ári. Sýningarnar hafa vakið mikla athygli en margir fleiri hafa komið við til að njóta veitinga og spjalla við heimamenn. Erlendir ferðamenn hafa mikið komið við í sumar en fara ekki nærri allir inn á sýningarnar. Þeir sem fara inn eru þó ánægðir og textar Þórbergs vekja áhuga þeirra á umhverfi og sögu. Gaman er að rifja upp sögur frá liðinni tíð, segja frá  einangrun Suðursveitar fram yfir 1960 og hversu hratt við síðan tengdumst tækniveröld nútímans þar sem vegalengdir í tíma og rúmi hafa gerbreyst á örfáum árum.

Helgina 15. til 16. september kemur hópur esperantista í heimsókn á Hala og verður með dagskrá á laugardagsmorgninum og kvöldvöku á laugardagskvöldi. Kristján Eiríksson er forsvarsmaður hópsins en leiðsögumaður um Hornafjörð verður Hallgrímur Sæmundsson frá Stóra-Bóli á Mýrum. Nánari dagskrá verður birt á Þórbergsvefnum á næstu dögum.

Gestakomur í Þórbergssetur

Helgina 20 - 22 apríl síðastliðinn kom 50 manna hópur,  félagar í  bókmenntahópi Félagsmiðstöðvarinnar Hæðargarðs 31 og bókamenntaklúbburinn Hana-nú í Kópavogi í heimsókn í Þórbergssetur á Hala, fararstjóri var Ásdís Skúladóttir. Hér er um að ræða áhugafólk um bókmenntir sem æfir upplestur á verkum íslenskra rithöfunda og skálda og ferðast síðan á þær slóðir þar sem viðkomandi listamaður á uppruna sinn . Það er skemmst frá að segja að það var mikið ánægjuefni að fá þennan stóra hóp í heimsókn. Á föstudagskvöldið var hátíðarkvöldverður í Þórbergssetri og stutt dagskrá þar sem komið var við á strandi. Á laugardagsmorgni var farið í gönguferð upp að Steinum og upp á Helghól og lesið úr verkum Þórbergs úti í náttúrunni. Eftir hádegi var farið í ökuferð um Suðursveit , meðal annars staldrað við í fjörunni við Jökulsárlón, en einnig ekið um alla sveit og  skyggnst um í sögunni undir leiðsögn Fjölnis Torfasonar á Hala. Hápunktur helgarinnar var

síðan einstaklega skemmtileg bókmenntadagskrá á laugardagskvöldið þar sem gestirnir lásu úr verkum Þórbergs m.a. um fræga heimsókn anda Gamla Steins til Reykjavíkur þar sem hann ræðir við Þórberg um landsins gagn og nauðsynjar og þótti ,,skítt að vera dauður" þar sem nú væru allir að græða svo mikla peninga. Það er ljóst að persónan Þórbergur og verk hans lifa enn með þjóðinni og tengingarnar við Hala, umhverfi og náttúru eru afar skemmtileg og nýstárleg nálgun við verk hans.

Laugardaginn 5. maí er síðan von á 25 manna hópi frá færeyska Landsbókasafninu í heimsókn í Þórbergssetur. Það verður gaman að taka á móti frændum okkar Færeyingum og kynna þeim lífið í Suðursveit, ljóst er að tengingar við verkefni Þórbergsseturs liggja víða og áhugi á að tengja saman ferðalög , bókmenntir og menningu er til staðar..

Framundan er sumarið og þegar eru ferðamenn af ótal þjóðernum farnir að koma við í Þórbergssetri og spyrjast fyrir um hvaða starfsemi þessi bygging með bókakjölunum hýsi. Þar með gefst tækifæri á að kynna Þórberg og verk hans en um leið þá merku sögu sem hann skráði um líf og störf fólksins sem bjó í Suðursveit um aldamótin 1900. Það setur marga hljóða þegar þeir koma inn í fjósbaðstofuna á Hala og skýrt er frá því að það er ekki fyrr en á árunum 1960 - 1974  að Suðursveit kemst í alfaraleið. Fyrir þann tíma voru sveitirnar vestan Fljóta ,,veröld út af fyrir sig" og gestakomur fátíðar. Það þarf að vera eðlilegur hluti af ferðaþjónustu á Íslandi að miðla af sögu okkar og menningu þannig að ljóst sé hvernig við höfum verið til sem þjóð í þessu landi. Merkasti menningararfur Íslendinga allt frá upphafi byggðar er sagnahefðin og bókmenntirnar. Nú gefst gestum Þórbergsseturs kostur á að fara höndum um tvær gamlar bækur sem lesnar voru í fjósbaðstofunni á Hala, sú eldri rímur með gotnesku letri frá 1847, en hin Hrafnkelssaga prentuð 1893. Á baðstofuloftinu verður síðar í sumar einnig hægt að hlusta á sögur og þulur fluttar af Steinþóri Þórðarsyni á Hala. 

Bókahilla Þórbergsseturs á norðurhlið Þórbergsseturs er því ekki bara minnisvarði um Þórberg Þórðarson og verk hans, hún getur einnig verið tákn um merkasta menningararf  íslensku þjóðarinnar, bókmenntir og sagnahefð.

Kærkomin heimsókn

Helgina 20 - 22 apríl næstkomandi koma í heimsókn í Þórbergssetur félagar í  bókmenntahóp Félagsmiðstöðvarinnar Hæðargarðs 31 og bókamenntaklúbburinn Hana-nú í Kópavogi. Þeir ætla að dvelja á Hala yfir helgina og  flytja bókmenntadagskrá um Þórberg Þórðarson undir stjórn Soffíu Jakobsdóttur leikkonu. Dagskráin hefst klukkan 20:30 á laugardagskvöldið og eru Skaftfellingar velkomnir að koma og njóta dagskrárinnar með Hafnfirðingum. Kaffiveitingar verða á staðnum og opið inn á sýningar í Þórbergssetri. það verður sannarlega gaman að taka á móti þessum hópi sem í vetur hefur verið að lesa bækur Þórbergs og m.a. fengið Halldór Guðmundsson bókmenntafræðing til að fjalla um rithöfundinn. Fyrirhugað er að kynna þeim starfsemi Þórbergsseturs og lesa úr verkum Þórbergs á nokkrum velvöldum stöðum innan eða utandyra eftir því sem aðstæður leyfa.

Fréttir af lífinu í Suðursveit

Helgh030Íslenskunemar úr Háskóla Íslands dvöldu á Hala í lok mars í tvær nætur og fræddust um Þórberg en einnig umhverfi, náttúru og mannlíf í Suðpursveit. Það var mjög skemmtilegt að taka á móti þeim og finna þann áhuga sem virðist vera hjá ungu fólki í dag að kynna sér bókmenntaverk Þórbergs og leita þekkingar í horfnum menningarheimi fyrri kynslóða. Farið var í ratleik og hlustað á sögur um steina, þúfur og læki en einnig drauga og undarlega hluti frá liðinni tíð svo sem útburði, eitthvað sem er fjarlægt nútímamanninum en engu að síður hluti af menningararfi íslensku þjóðarinnar. Gengið var inn á Helghól, Helgaleiði skoðað, einnig Hjörleifsgræfur og staldrað við og talað við Kvennaskálasteininn. Gönguferðin endaði við Háaleitislækinn og þar var fræðst um brunnklukkur og lesin sagan af ferðalagi  Oddnýjar á Gerði og Steinþórs á Hala inn að Reynivöllum laust eftir aldamótin 1900.

Lesa meira

Þórbergssetur - opið alla páskana

prestastoll005Opið verður inn á sýningar í Þórbergssetri alla daga í dymbilviku og yfir páskana frá klukkan 13:00 - 17:00. Helgina 30. mars  til 2. apríl koma 13 íslenskunemar frá Háskóla Íslands og dvelja á Hala. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur mun halda fyrir þá erindi á laugardagskvöld og fyrirhugað er að vappa um söguslóðir og lesa saman verk Þórbergs og umhverfið. Einnig er ferðafólk, Íslendingar sem útlendingar bókað í gistingu  og dvöl á Hala yfir páskana. Tilvalið er fyrir nærsveitunga að skreppa í Suðursveit og taka með sér gesti, skoða sig um úti í náttúrunni og koma við í Þórbergssetri. Þar verður myndasýning úr Suðursveit, vetrarmyndir frá nokkrum eyðibýlum og áhugaverðum stöðum og hægt að heyra sögur frá liðinni tíð ef óskað er.  Einnig verða spilaðar upptökur af viðtölum og sögum Steinþórs á Hala í fjósbaðstofunni.

Lesa meira

Samsöngur og sagnastund í Þórbergssetri

Sunnudaginn 11. mars næstkomandi  kl. 14:00 verður dagskrá í Þórbergssetri í tilefni af afmælisdegi Þórbergs Þórðarsonar 12. mars. Kvennakór Hornafjarðar ætlar að syngja nokkur lög eftir helgardvöl á Hala og söngæfingar í Þórbergssetri. Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur verður með bókmenntaspjall og heimamenn á Hala verða með söguefni úr Suðursveit tengt eyðibýlum, sögu og mannlífi fyrr á öldum. Einnig verður farið í sagnasjóð Steinþórs á Hala og hlustað á nokkrar gamlar upptökur sem varðveist hafa í Árnastofnun. Opið verður inn á sýningar í Þórbergssetri. Í fjósbaðstofunni verða til sýnis gamlar bækur útgefnar á 19. öld, áritaðar af Þórði Steinssyni og Benedikt Þorleifssyni  á Hala. Vonast er eftir að  nærsveitungar og Hafnarmenn sjá sér fært að skreppa dagstund  í Þórbergssetur og njóta dagskrárinnar Aðgangur er ókeypis, en sunnudagskaffi í boði fyrir 800 krónur. 
Sagnastund í Þórbergssetri verður árlegur viðburður í tengslum við afmælisdag Þórbergs 12. mars.

 

Dagskrá

14:00 Bókmenntaspjall Soffía Auður Birgisdóttir
14:20 Kvennakór Hornafjarðar syngur nokkur lög
14:45 Nokkur eyðibýli í Suðursveit; mannlíf og saga, Fjölnir Torfason (myndasýning)
15:15 Sagnahefð; úr sagnasjóði Steinþórs á Hala; upptökur spilaðar
15:30 Kaffiveitingar
15:30 Opið inn á sýningar

Allir velkomnir

Hrossakjötsveisla og bridgehátíð

Halda á bridgemót i Þórbergssetri á Hala dagana 17. og 18. mars næstkomandi. Mótið er haldið til minningar um Torfa Steinþórsson á Hala sem var mikill áhugamaður um bridge og hrossakjötsát. Stóð hann fyrir spilamennsku og hrossakjötsveislum í Suðursveit á árum áður.
Þegar hafa nokkrir skráð sig og vonandi á veður ekki eftir að hamla þátttöku.
Dagskrá er eftirfarandi:

 

Laugardagur.

14:00 Byrjað að spila.

19:00-19:30 kvöldverður.

20:30 Kvöldvaka. Dagskrá kynnt síðar.

22:00-22:30 Aftansöngur eða hliðstætt eitthvað frameftir kvöldi.

Kannske verður stjörnubjart ??

Sunnudagur.

Hefðbundinn morgunverðartími.

12:00 Hádegisverður.

13:00 Spilað einhverja stund eða eins og þarf til að ljúka móti.

17:00 Mótslok.

Á Hala er hægt að fá gistingu, morgunverð, hádegisverð, miðdegiskaffi.Verð fyrir manninn er kr. 8.000.- ef allt er tekið, frá hádegi á laugardegi til sunnudagssíðdegis.
Ath. Gisting aðfaranótt laugardags er ekki innifalin en er í boði. gegn vægu verði.

Frábær aðstaða, heitur pottur, tekur 12 manns í einu. Að sjálfsögðu eru makar velkomnir.

Allar upplýsingar gefa Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason Hala.
Símar 478 1073 eða 893 2960
Þórbergur Torfason
Sími 899 2409

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 355
Gestir þennan mánuð: ... 6562
Gestir á þessu ári: ... 51029