Skip to main content

Afmælisþing í Þórbergssetri -

Þann 12. mars síðastliðinn var afmælisveisla í Þórbergssetri.  Tilefnið var afmælisdagur Þórbergs Þórðarsonar en nú eru liðin 120 ár frá fæðingu hans.Það mun verða árviss viðburður í Þórbergssetri að gera sér dagamun á þessum merkisdegi (eða þar um kring) en þetta er í annað sinn sem haldið er upp á daginn frá því Þórbergssetur var vígt í júlí 2006.Að þessu sinni samanstóð dagskráin af fyrirlestrum, upplestri, gönguferðum, hátíðamat og söng að ógleymdu „góðu strandi".
Kristján Jóhann Jónsson, íslenskufræðingur og dósent við K.H.Í. var fyrstur mælenda með fyrirlestur um „Viðhorf Þórbergs til vísinda, stjórnmála og annarra náttúrulegra og yfirnáttúrulegra efna". Þá talaði Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, bókmenntafræðingur og forstöðumaður Blindrabókasafns Íslands en í umfjöllun hennar kom fram sú skemmtilega kenning að Þórbergur og Margrét birtist sem „afturgöngur" í þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar; Gangvirkið, Seiður og hélog og Drekar og smáfuglar, þar sem nokkrar persónur þar væru byggðar á persónueinkennum þeirra hjóna.Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar fjallaði um Suðursveitarkróníkuna í fyrirlestrinum „Sveitadrengurinn snýr aftur", Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur, aðjúnkt við H.Í. og verkefnastjóri við Háskólasetur á Hornafirði talaði um Þórberg í hlutverki Sobbeggi afa í Sálminum um blómið og Þorbjörg Arnórsdóttir, Framkvæmdastjóri Þórbergsseturs ræddi um Þórberg og alþýðumenninguna.Á þessari upptalningu má glöggt sjá hvernig hægt er að nálgast Þórberg og verk hans  frá ólíkum sjónarhornum enda heimur Þórbergs margslunginn og blæbrigðaríkur. Dagskráin var brotin upp með ýmsum hressandi uppátækjum eins og Mullersæfingum og stuttum gönguferðum.  Á milli fyrirlestra las Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona af mikilli innlifun úr verkum og bréfum Þórbergs og er skemmst frá því að segja að góður upplestur eins og þarna átti sér stað hefur þau áhrif að menn upplifa textann á allt annan og skemmtilegri hátt en við eigin lestur í hljóði.

Fjölnir á Hala annaðist veislustjórn af miklum skörungsskap með ýmiskonar fróðleiksmolum þar sem óspart var vitnað í Grágás sem undirstöðurits hins íslenska bókmenntarfs.  Einnig setti Fjölnir fram þá skemmtilegu kenningu að höfundur Njálu hafi verið kona og var því ákaft fagnað af kvenkyns veislugestum.Gengið var um sýninguna að dagskrá lokinni þar sem áð var á strandstað og málin rædd.Dagskrá lauk síðan með hátíðarkvöldverði, upplestri, sósusöng og síðast en ekki síst fjöldasöng undir stjórn Baldurs Sigurðssonar, íslenkufræðings og dósent við KHÍ sem kenndi veislugestum hinn ágæta skáldskap Þórbergs „Í Möðrudal á Fjöllum" lag og texti Þ.Þ.
Í tilefni dagsins barst Þórbergssetri höfðingleg afmælisgjöf frá Háskólabókasafni. Þar var um að ræða 34 kassa með bókum úr safni Þórbergs og Margrétar sem Margrét gaf Háskólabókasafni að Þórbergi látnum.
Kærar þakkir fyrir okkur
starfsmenn Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar.

Afmælisþing í Þórbergssetri

Miðvikudaginn 12. mars 2008 verður haldið afmælisþing í Þórbergssetri í tilefni af því að 120 ár eru liðin frá fæðingu Þórbergs Þórðarsonar. Dagskrá málþingsins er eftirfarandi:
10:00 Setning.
10:10 Kristján Jóhann Jónsson: „Ritgerðasmiðurinn og röksemdirnar." Um
         viðhorf Þórbergs til vísinda, stjórnmála og annarra náttúrulegra og yfirnáttúrulegra
         efna.
10:40 Upplestur, Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona
11:00 Þóra Sigríður Ingólfsdóttir: „Sveiattan! Ullabjakk!" Þórbergur og Margrét í þríleik
         Ólafs Jóhanns Sigurðs,Gangvirkið, Seiður og hélog og Drekar og smáfuglar.
11:40 Upplestur Ragnheiður Steindórsdóttir. leikkona
12:00 Hádegismatur.
12:45. Gengið upp að Steinum. Upplestur Ragnheiður Steindórs
13:30 Viðar Hreinsson: „Sveitadrengurinn snýr aftur." Um Suðursveitarkróníkuna.
14:10 Soffía Auður Birgisdóttir: „Sálmurinn um gamla manninn." Um Sálminn um blómið.
14:40 Upplestur: Sálmurinn um blómið
15:00 Kaffi.
15:30 Þorbjörg Arnórsdóttir: Þórbergur og alþýðumenningin.
16:10 Farið að rústum á bænum hans Steins afa.
17:00-18:00 Leiðsögn á sýningu. Staldrað við í baðstofunni og hlustað á sögur Steinþórs
                
19:00 Hátíðarkvöldverður.

Þórbergssmiðja 8. og 9. mars 2008

Hugvísindastofnun og Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum, Forlagið og Morgunblaðið boða til Þórbergssmiðju. Samstarfsaðili er Þjóðminjasafn Íslands og styrktaraðilar losa tuginn.Dagskrá laugardags fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands, fyrir utan gönguferð og skrímslastofu sem verður í kennslustofu á 1. hæð.Á sunnudag verður boðið upp á samhliða málstofur. Þær fara annars vegar fram í Hátíðasal og hins vegar stærstu kennslustofu Aðalbyggingar, nr. 225. Að öðru leyti fer dagskrá fram í Hátíðasal, utan skrímslastofu sem verður á sama stað og áður en fer tvær ferðir á Þjóðminjasafnið, kl. 12 og 13.30.

 

Laugardagur

10.00-10.20        Müllersæfingar
                              Stjórnandi: Bryndís Petra Bragadóttir
10.25                    Setning
                              Bergljót S. Kristjánsdóttir
10.30-11.30         Málstofa I
                               Fjölnir Torfason: Að tengja saman fortíð og nútíð:
                               sýslumaðurinn í Hoffelli og Þórbergur

                               Helgi Máni Sigurðsson: Tilefni Bréfs til Láru
                               Helga Jóna Ásbjarnardóttir: Bréf frá Þórberg
                             
 Málstofustjóri: Halldór Guðmundsson, rithöfundur
11.30 -12.30        Málstofa II
                               Pétur Gunnarsson: Að taka veðrið. Dagbókarheimur ÞÞ
                               Soffía Auður Birgisdóttir: Sálmurinn um gamla manninn       
                               Halldór Guðmundsson: Hárreytingar, fingraíkveikjur
                               og skrúðgöngur í sólinni. Þórbergur, Hitler og Stalín
                              
Málstofustjóri: Dagný Kristjánsdóttir, prófessor
12.35-13.00         Kaffi- og matarhlé
                               Boðið verður upp á hádegissnarl
13.00-13.15        Söngur: Örn Arnarson 
13.15-13.45        Upphaf að samtali (Í kompaníi við allífið)
                              Umsjón: María Kristjánsdóttir
                              Leikarar: Jón Hjartarson og Hilmar Guðjónsson
13.45-14.45       Ganga á Þórbergsslóðir
                             með Pétri Gunnarssyni       
13.45-14.45      Skáldastofa: Ungskáld lesa úr verkum sínum
                             Ingunn Snædal
                             Kristín Svava Tómasdóttir
                             Arngrímur Vídalín 
14.45-15.10       Kaffihlé
15.10-16.10       Málstofa III
                            Ástráður Eysteinsson: Landnám Árna Þórarinssonar
                            á Snæfellsnesi
                           
Stefán Máni Sigþórsson: Þórbergur Þórðarson:
                            Hann var einu sinni nörd
                            Viðar Þorsteinsson: Hungurdauður boðberi um
                             jarðneskt réttlæti
  
                            Málstofustjóri: Þorbjörg Arnórsdóttir, framkvæmdastjóri Þórbergsseturs
15.10-16.10      Málstofa IV 
                            Benedikt Hjartarson: Leitin að tungumáli framtíðar:
                            Um esperantisma og framúrstefnu, 1909-1938
                           
Kristján Eiríksson: Þýðingar á esperantóritum Þórbergs 
                            
Málstofustjóri: Soffía Auður Birgisdóttir, aðjunkt
10.30-16.00      Skrímslastofa fyrir börnin
                             Umsjón: Mímisliðar 
Sunnudagur
11.00-11.20        Müllersæfingar
                              Stjórnandi: Bryndís Petra Bragadóttir
11.30-12.30        Málstofa I   -  Hátíðasalur
                              Þorbjörg Arnórsdóttir: Fararefnið var andlegur arfur
                              liðinna feðra og mæðra

                              Guðmundur Andri Thorsson: Ævisaga séra ÁÞ:
                              Undirstöðurit íslenskrar kristni
 
                              Dagný Kristjánsdóttir: Sálmurinn um barnið
                              Málstofustjóri: Ástráður Eysteinsson, prófessor
11.30-12.30        Málstofa II   -   Stofa 225
                              Bragi Ólafsson: Fjórða hæð til hægri, en ekki
                              Gljúfrasteinn eða Gunnarshús

                              Álfdís Þorleifsdóttir: Sannleikurinn er öllum listum æðri 
                              Auður og Sólveig Einarsdætur: Þú hefðir ekki átt að bæta
                              við þig nýjum bátum á meðan þú stóðst í ævisögurituninni
            

                              Málstofustjóri: Jón Karl Helgason, aðjunkt
12.30-13.20        Kaffi- og matarhlé
                              Boðið verður upp á létt hádegissnarl 
13.25-13.45        Baggalútur spilar 
13.45-14.45        Vilborg Dagbjartsdóttir og Matthías Johannessen
                              tala saman
                              Þröstur Helgason stýrir umræðunum
14.45-15.00        Kennslustund í Þórbergi
                              Dr. Gunni og Heiða
15.00-15.30       Steinarnir tala - kaffihlé
                              Þeir sem vilja vera viðstaddir útkomu bóka
                              Steinars Sigurjónssonar geta brugðið sér af bæ
15.30-16.10       Málstofa III   -   Stofa 225
                             Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: Eg skal éta einsog ket ..:
                             Um ÞÞ og kúnstina að koma á óvart
 
                             Pétur Pétursson: Þórbergur, höfundurinn og guðspekin
                             Málstofustjóri: Benedikt Hjartarson, bókmenntafræðingur
 15.30-16.30       Málstofa IV   -   Hátíðasalur
                             Guðrún Kvaran og Gunnlaugur Ingólfsson:
                             Orðasöfnunarævintýri Þórbergs 
                             Sigrún Margrét Guðmundsdóttir: Til hvers er mannfjandinn
                             að skrifa svona sögur? Um hrollvekjur Þórbergs
                             Þorvaldur Friðriksson: Þórbergur og skrímslin 
                             Málstofustjóri: Bergljót S. Kristjánsdóttir, prófessor
11.30-16.30      Skrímslastofa fyrir börnin
                            Farið verður tvær ferðir í ratleik á Þjóðminjasafnið kl. 12 13.30
                            Sjá nánar á vef Þjóðminjasafnsins
                            Umsjón: Mímisliðar 
16.30                 Ráðstefnu slitið
                           
Bergljót S. Kristjánsdóttir
16.35                  Gestum og fyrirlesurum í Þórbergssmiðju
                            boðið upp á veitingar 

Menningarstyrkir til Þórbergssetur

Menningarráð Austurlands úthlutaði styrkjum til menningarverkefna á Austurlandi miðvikudaginn 6. febrúar. Þórbergssetur fékk úthlutað veglegum styrkjum til menningarverkefna í samstarfi við aðra aðila. Verkefnið Söguslóð á Suðausturlandi - Papaslóð á Íslandi sem er samstarfsverkefni fjölmargra aðila á Suðausturlandi allt frá Djúpavogi að Skeiðarársandi, fékk hæsta styrkinn 1 milljón króna. Þórbergssetur hefur tekið að sér að framfylgja verkefninu ásamt Menningarmiðstöð Hornafjarðar og  ferðamálafulltrúa Djúpavogs.

Verkefnið  Sagnalist, samstarfsverkefni Þórbergsseturs og Gunnarsstofnunar fékk líka veglegan styrk. Þar er fyrirhugað að hefja starf með eldri borgurum á Austurlandi, kynna starfsemi stofnananna og verk þeirra Gunnars Gunnarssonar og Þórbergs Þórðarsonar með tilliti til ritunar sjálfsævisagna. Efna á síðan til söguritunar meðal eldri borgara á Austurlandi um ákveðið efni. Verkefnið verður kynnt síðar með auglýsingum um allt Austurland og með heimsóknum til félaga eldri borgara.

Að lokum fékk Þórbergssetur styrk til að halda tónleika í Kálfafellsstaðarkirkju á Ólafsvöku 29. júlí. Kirkjan á Kálfafellsstað er ein af fjórum kirkjum landsins sem helguð var Ólafi helga og í kirkjunni var frá því um 1700 allt til 7. janúar 1886 merkilegt líkneski af Ólafi helga sem fengið var í kirkjuna til að hrinda álögum völvu einnar, systur Ólafs helga, en hún hraktist frá staðnum í frumkristni. Hún lagði þau skelfilegu álög á staðinn að þar skyldi engum presti vera vært nema í 20 ár og  hafa þau álög lifað í  munnmælum allt til vorra daga. Það verður skemmtileg nýbreytni að efna til þessa viðburðar á miðri ferðamannavertíðinni,  kirkjan á Kálfafellsstað er mjög gott tónleikahús og stutt frá Kálfafellstað er leiði völvunnar, enn vel sýnilegt, - og til vitnis um hina gömlu munnmælasögu. Líkneski Ólafs helga er til sýnis meðal kirkjumuna á Þjóðminjasafni Íslands.
Til þessarra tveggja verkefna fékk Þórbergssetur úthlutað 750.000 krónum

Það fjármagn sem veitt hefur verið til menningaviðburða í gegnum menningarráðin hefur sannarleg verið mikil hvatning til nýsköpunar og framsækins menningarstarfs á landsbyggðinni. Þess sjást vel merki á Austurlandi. Þórbergssetur hefur ævinlega fengið góðar undirtektir við styrkumsóknum sínum og  Menningarráð Austurlands er eitt af þeim aflgjöfum sem gerðu uppbyggingu Þórbergsseturs mögulega. Fyrir það ber að þakka. Stjórn Þórbergsseturs og forstöðumaður senda kærar kveðjur til stjórnar Menningarráðs Austurlands og óskar þeim til hamingju með öflugt og óeigingjarnt starf að menningarmálum á Austurlandi.

Ferðalag um lendur Vatnajökulsþjóðgarðs

Í vetur er fyrirhugað að vera með menningardagskrá í Þórbergssetri, fyrirlestraröð þar sem sýslubúum verður boðið í ferðalag um lendur hins víðfeðma og tilvonandi Vatnajökulsþjóðgarðs. Fyrsti fundurinn af fimm verður í Þórbergssetri fimmtudaginn 7. febrúar kl 20:00 Til hagræðis fyrir þá sem ætla að koma langt að verður hægt að fá léttan kvöldverð í Þórbergssetri áður en dagskráin byrjar. Áhugafólk um útivist, náttúrufræði og sögu ætti alls  ekki að láta þessa fræðslufundi fram hjá sér fara.

Auk þess er þetta kjörið tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila í Ríki Vatnajökuls að koma saman, fræðast og efla félagsandann fyrir komandi vertíð. Dagskráin stendur í einn og hálfan klukkutíma hverju sinni, kaffiveitingar eru í fundarhléi og opið inn á sýningar í Þórbergssetri. Ferðalagið hefst í Ásbyrgi undir fyrirsögninni:  SÖGN ER AÐ EITT SINN........

Um er að ræða afar áhugaverða dagskrá í máli og myndum sem Kári Kristjánsson starfsmaður Skaftafellsþjóðgarðs hefur tekið saman og flytur ásamt upplesurum. Tilgangurinn er að veita innsýn í landslag og einstaka furðuheima ofanjarðar sem neðan, skoða landslag og lífríki, allt frá Ásbyrgi við Öxarfjörð í norðri, suður um Hljóðakletta og upp á hásléttuna um vatnasvið Jökulsár á Fjöllum, Herðubreiðarlindir og Öskju í Ódáðahrauni. Þar var Fjalla Bensi við smalamennsku og þar bjó Eyvindur Jónsson frá Hlíð í Hrunamannahreppi, þar voru endalok og upphaf ástar Inu von Grumbkopf. - Og þar gerast líka magnaðar draugasögur!
Skoðað verður yfirborð orkumesta háhitasvæðis landsins upp á Kverkfjöllum, farið í Vonarskarð, um Trölladyngju og Urðarháls. Hvar er fossinn Gjallandi ? Einnig verður litast um í Hvannalindum þar sem neistinn kviknaði að einni fallegustu dýrasögu sem til er, og skoðaður bústaður útilegumanna. Hvar er Hveragil? og hvað er merkilegt við það?, hvers vegna eru nöfn tveggja Skaftfellinga örnefni á einum afskekktasta stað landsins norðan Vatnajökuls? Litast verður um við Hafrahvamma, Eyjabakka, Lónsöræfi og Grímsvötn, og jöklabúskapur og landmótun jökla kannað sérstaklega. Ferðalaginu um nýja þjóðgarðinn lýkur í Skaftárhreppi við Lakagíga og Langasjó.
Efnið er byggt á litskyggnum, sögum og ljóðum fólksins sem lifði og dafnaði í listaverkinu, landslaginu, sem jökullinn skóp. Í bland verður þetta fróðleikur um náttúrufræði samofið við gamlar sagnir og bókmenntir.

Allir eru  velkomnir ,,Það er ekki svo langt að Hala þegar maður er lagður af stað"

Þórbergur í fátæktarlandinu

Bókin ÞÞ Í fátæktarlandi er fyrra bindið af tveimur sem Pétur Gunnarsson hyggst senda frá sér um Þórberg Þórðarson og hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Þeir sem bjuggust við ítarlegri og fræðilegri úttekt á ævi Þórbergs verða kannski fyrir vonbrigðum með bókina því slík er ekki aðferð Péturs heldur nálgast hann viðfangsefni sitt með aðferðum skáldsins og kannski má kalla verk hans „skáldfræðirit". Það er hins vegar engin ástæða til að mæla bók Péturs út frá fyrirfram gefnum mælikvörðum því hér er fyrst og fremst um afar vel skrifaða og skemmtilega bók að ræða. Eins og undirtitillinn, Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar, gefur til kynna beinir Pétur sjónarhorninu einkum að því hvernig Þórbergur komst til manns eða öllu heldur hvernig hann mótaðist sem rithöfundur á fyrstu áratugum 20. aldar. Frásögnin hefst 1906 þegar Þórbergur er á 19. árinu og hefur yfirgefið Suðursveitina og er að reyna að fóta sig í Reykjavík, fyrst sem verkamaður bundinn vistarbandi og síðar sem heldur vonlaus skólanemi en upprennandi ritsnillingur. Þessum árum hefur Þórbergur sjálfur lýst ógleymanlega í Íslenskum aðli og Ofvitanum og byggir Pétur að sjálfsögðu mikið á þeim verkum en auk þess nýtir hann sér bréf, dagbækur og fleiri heimildir sem sumar hafa birst áður en aðrar ekki.
Eins og kunnugir vita er varasamt að treysta eigin æviskrifum Þórbergs ef markmiðið er að mæla þau á algildan „sannleikskvarða" því Þórbergur færir sannleikann „í æðra veldi", eins og hann sjálfur komst að orði, eða „leitar skáldskaparins í sannleikanum" eins og Halldór Guðmundsson orðar það í Skáldalífi. Veldi skáldskaparins er í verkum Þórbergs æðra veldi sannleikans, þ.e.a.s. þess smámunasama staðreyndasannleika á hvers klafa fræðimenn telja sig bundna - ólíkt skáldum. Pétur Gunnarsson virðist leika sér að þessum mörkum. Sem dæmi má nefna að hann fer rangt með aldur Þórbergs í upphafi bókar, segir hann vera „á átjánda árinu" þegar hann yfirgefur Suðursveit en ruglingur með fæðingarár Þórbergs hefur verið viðloðandi alla umfjöllun um hann og er það ennþá skráð 1889 í langsgrunni íslenskra bókasafna þótt óyggjandi hafi verið sýnt fram á að 1888 (eins og skráð er í kirkjubækur) er rétt fæðingarár. Þórbergur varð 18 ára 12. mars 1906. Hann er því á 19. ári í maí sama ár þegar hann yfirgefur heimasveitina. Annað og öllu frægara dæmi er sagan af „framhjágöngunni" í Íslenskum aðli, sem er eitt besta dæmið um hvernig „staðreyndasannleikurinn" þarf að lúta í lægra haldi fyrir kröfu skáldskaparins í skrifum Þórbergs. Á bls. 42 lýsir Pétur framhjágöngunni og minnist hvergi á að Þórbergur hafi í raun hitt „elskuna" en ekki gengið fram hjá, eins og ljóst er af dagbókum hans. En þetta er stílbragð hjá Pétri - að leyfa mýtunni að lifa um sinn - því nokkru síðar, á bls. 106-7. er aftur vikið að þessu ferðalagi og nú rýnt í dagbækur sem segja aðra sögu en þá fyrri. Og Pétur skrifar: „Er verið að grínast með okkur?"

Pétur Gunnarsson er sjálfur skáld og að sjálfsögðu ráða lögmál skáldskaparins hjá honum engu síður en hjá Þórbergi. Og Pétri tekst með aðferð sinni að gera það sem ég tel að sé á fárra fræðimanna valdi: Að skrifa þannig um Þórberg, félaga hans og kærustur að persónurnar birtast ljóslifandi fyrir augum lesandans og auka við þann skilning sem smám saman er að verða til á Þórbergi Þórðarsyni sem lengst af hefur verið herfilega misskilinn sem alvörulaus trúður íslenskra bókmennta. Ég bíð framhaldsins spennt.

Bókamessa í Þórbergssetri, - Ný bók um Þórberg Þórðarson

Sunnudaginn 2. desember, hinn fyrsta í aðventu verður bókamessa í Þórbergssetri á Hala í Suðursveit. Bókamessan hefst klukkan 14:00. Lesið verður upp úr nýjum bókum og fjallað um efni þeirra. Jólahlaðborð fyrir alla fjölskylduna verður að Smyrlabjörgum síðdegis eða frá kl. 16:30 - 20:00 Á bókamessunni mun Pétur Gunnarsson rithöfundur ríða á vaðið og lesa úr bók sinni ÞÞ - Í fátæktarlandinu, Þroskasaga Þórbergs Þórðarsonar, sem kom út á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Í ummælum útgefanda um bókina segir:,,Í bókinni leitast Pétur Gunnarsson við að endurskapa þroskasögu Þórbergs og leitar víða fanga, ekki aðeins í útkomnum verkum heldur ríkulegu óbirtu efni; sendibréfum, dagbókum og óútgefnu ævisöguhandriti. Dregin er upp mynd sem á eftir að koma nýjum aðdáendum Þórbergs á óvart." Í bókinni er einnig fjallað um uppvaxtarár Þórbergs í Suðursveit.

 

Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur mun fjalla um bók fjallavistfræðingsins Dr. Jack D. Ives, Skaftafell í Öræfum - Íslands þúsund ár. Þar er fjallað um náttúru og mannlíf í Öræfum frá landnámsöld fram á okkar daga; aðdragandann að stofnun Skaftafellsþjóðgarðs; leiðangra ensku stúdentanna 1952-1954 og ævintýri þeirra. Árið 1953 týndust tveir leiðangursmanna á leið frá tjaldbúðunum á jöklinum á Hvannadalshnúk og er ekki vitað um afdrif þeirra né hvað gerðist. Sumarið 2006 fundust leifar af búnaði þeirra á Skaftafellsjökli. Í bókinni er áhrifamikil frásögn af þessum atburðum. Fjöldi mynda og korta eru í bókinni sem sýna þau býli sem þraukað hafa í meira en þúsund ár, ásamt mörgum þeirra bæja og kirkna sem jöklagangur og eldvirkni hafa þurrkað út. Einnig sýna kortin jökulsporða, farvegi jökuláa og helstu nytjalönd.

Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur fjallar síðan um gróskuna í ljóðagerð íslenskra kvenna og mun kynna nokkrar nýútkomnar ljóðabækur. Meðal höfunda sem hafa gefið út ljóðabækur að undanförnu eru  Steinunn Sigurðardóttir, Gerður Kristný, Sigurbjörg Þrastardóttir, Kristín Svava Tómasdóttir og  Ólína Þorvarðardóttir.  

Á milli þátta verður tónlistarflutningur. Kaffiveitingar og heitt súkkulaði verður í boði og opið verður inn á sýningarnar í Þórbergssetri. Bækur Torfhildar Þorsteinsdóttur Hólm eru til sýnis síðan á málþinginu í haust og mynd af líkneski Ólafs helga, verndardýrlings Kálfafellsstaðarkirkju minnir á þá merku styttu sem trónaði á altarinu í Kálfafellsstaðarkirkju í nær tvær aldir til verndar staðnum,  en er nú til sýnis á meðal kirkjugripa á Þjóðminjasafni Íslands.

Fjölskyldujólahlaðborð verður á Smyrlabjörgum frá kl 4:30 - 8:00 þennan sama dag og von á óvæntum jólaglaðningi frá jólasveinunum.

Það er  kjörið tækifæri að bregða sér bæjarleið og njóta aðventustemningar og veitinga í Suðursveit á fyrsta sunnudegi í aðventu. Það er ekki svo langt að skreppa í sveitina og Skaftfellingar og aðrir gestir eru hjartanlega velkomnir í Þórbergssetur og að Smyrlabjörgum þennan dag.

Torfhildarþing í Suðursveit

Þann 13. og 14. október verður haldið málþing um skáldkonuna Torfhildi Þorsteinsdóttur Hólm (1845-1918) að Þórbergssetri á Hala í Suðursveit. Málþingið er haldið á vegum Fræðaseturs Háskóla Íslands á Höfn og Þórbergsseturs. Auk fjölbreytilegra fyrirlestra verður boðið upp á göngu- og landkynningarferðir um heimaslóðir Torfhildar en hún var fædd og uppalin að Kálfafellsstað í Suðursveit. Málþingið er öllum opið og skráning fer fram hjá Soffíu Auði Birgisdóttur, starfsmanni Háskólaseturs á Höfn, í síma 4708042 og 8482003 eða í tölvupósti: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Þátttökugjald er 6000 kr. og innifalið í verðinu er kaffi og kvöldverður á laugardag; morgunverður, hádegisverður og kaffi á sunnudag og aðgangur að sýningu á Þórbergssetri. Þeir sem vilja lengja dvölina og njóta útivistar gætu komið strax á föstudeginum, merktar gönguleiðir eru að finna í nágrenni Hala og að Klukkugili í Papbýlisfjalli. Þorbjörg og Fjölnir bjóðast til að vera með leiðsögn í gönguferðum á föstudeginum ef áhugi er fyrir hendi og veður leyfir.
Hægt er að panta gistingu á Hala í síma 8672900,  á Gerði í síma  8460641,  á Smyrlabjörgum í síma 4781074 og á Skálafelli í síma 8945454.
Dagskrá málþings um Torfhildi Þ. Hólm 13. og 14. október 2007

Laugardagur 13. október
14:00 Þorbjörg Arnórsdóttir setur þingið.
14:15 Soffía Auður Birgisdóttir: Frumkvöðull á mörgum sviðum: Kynning á höfundarferli Torfhildar Hólm.
14:45 Gerður Steinþórsdóttir: Brynjólfur biskup Sveinsson. Fyrsta sögulega skáldsagan.
15:15 Kaffihlé.
15:45 Gunnar Karlsson: Endurvinnsla menningararfsins. Um heimildaskáldsöguna Eldingu.
16:15 Silja Aðalsteinsdóttir: „Ráðleggingar, fræðandi greinar, sögur og merkilegar frásagnir, sem bæði geta skemt körlum og konum." Um tímaritaútgáfu Torfhildar.
16:45 Þjóðsögur úr Suðursveit, mannlíf, menning, náttúra. Myndasýning.
19:00 Kvöldverður
20:30 Kvöldvaka: upplestur og fleira.
Sunnudagur 14. október
9-10 Morgunmatur.
10:15 Elín Oddgeirsdóttir: Um dagbók Torfhildar Hólm.
10:45 Dagný Kristjánsdóttir: „Uppskafningur" um Brynjólf biskup Sveinsson.
11:15 Kaffihlé / Müllersæfingar.
11:30 Þórður Ingi Guðjónsson: „Sá er gauð sem grætur slíkt." Skáldsagan Kjartan og Guðrún.
12:00 Fjölnir Torfason Verður bókvitið í askana látið? Völvusagan og norræn menning. 12:30 Hádegisverður.
13:30 Heimsókn að Kálfafellsstað og að völvuleiðinu undir Hellaklettum.
Leiðsögn Fjölnir Torfason.
16:00 Þingslit

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 402
Gestir þennan mánuð: ... 6609
Gestir á þessu ári: ... 51076