Skip to main content

Í aðdraganda jóla

Á morgun fyrsta sunnudag í aðventu verður þjóðleg dagskrá í Þórbergssetri þar sem kynntar verða nýútkomnar bækur og fjallað um alþýðumenningu. Dagskráin er fjölbreytt, m.a. er heimafengið efni úr sjóði minninganna þar sem lýst er afreksför Ingimars Bjarnasonar á Jaðri og Bjarna Þórhallssonar á Breiðabólsstað í Hvannadal um hávetur. Einnig  hafa ljóðskáld af Austurlandi boðað komu sína og það verður myndasýning frá fáförnum slóðum norðan Vatnajökuls.


Skaftfellskum hagyrðingum hefur verið boðið á staðinn með eigin ljóð og Pálína Þorsteinsdóttir í Svínafelli les ljóð eftir föður sinn Þorstein Jóhannsson skólastjóra. Veitingar eru í boði. Allir eru velkomnir . Það er gaman að taka sér bíltúr um sveitirnar á vetrardegi og veðurspáin virðist ekki ætla að hamla för að þessu sinni. 


Dagskráin er eftirfarandi:


1.  Alþýðumenning og skaftfellsk alþýðuskáld
Stuttur inngangur Þorbjörg Arnórsdóttir.

 
2. Litir og ljóð
Guðjón Sveinsson frá Breiðdalsvík kynnir nýútkomna ljóðabók sína.
  
3. Gullhyrna og Soffía
Aðventusaga úr Suðursveit frá árinu 1958, höfundur Steinþór Þórðarson Hala.
  
4. Vébönd
Magnús Stefánsson kynnir nýja ljóðabók Þorsteins Bergssonar frá Unaósi.
     
5. Skaftfellsk ljóð
Pálína Þorsteinsdóttir kynnir og les ljóð eftir föður sinn Þorstein Jóhannsson frá Svínafelli   
   
6. Skaftfellsk alþýðuskáld flytja eigin ljóð
Komið og sjáið hverjir mæta á staðinn.   
  
7. Þytur eilífðarinnar
Kári Kristjánsson landvörður flytur efni sem er byggt á litskyggnum, sögum og ljóðum fólks sem hefur   tengst stórbrotnu landslagi norðan Vatnajökuls og  á Öskjusvæðinu. Við fetum að hluta fáfarnar slóðir og skoðum og kynnumst fyrirbærum sem fáir þekkja. 
 
Kaffiveitingar í hléi - Séra Einar G. Jónsson lífgar upp á jólastemninguna og sest við píanóið.

Þakkarorð á afmælisráðstefnu SAF 6. nóvember 2008

Ágæta samkoma. kæru samstarfsmenn, tl hamingju með daginn.
Við erum  afar þakklát og raunar hrærð að vera með ykkur hér í dag og taka á móti nýsköpunarverðlaunum Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir hönd Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit. Það verður gaman að koma heim í Suðursveitina og Hornafjörðinn í kvöld, ég lít á þessi verðlaun sem mikinn heiður fyrir héraðið okkar  og örvun til frekari átaka og fagmennsku í uppbyggingu í ferðaþjónustu á einu vinsælasta ferðamannasvæði landsins,-- sem við markaðsetjum nú undir heitinu Í ríki Vatnajökuls. 
Íslensk þjóð á mikinn auð í stórbrotinni,  hrikalegri og víða lítt snortinni náttúru sem dregur  nú æ fleiri erlenda ferðamenn til landsins. En við megum heldurekki gleyma því að það felst mikil auðlegð í menningu okkar og sögu. Saga sveitasamfélaga á Íslandi er þar engin undantekning, þar felst auðurinn fyrst og fremst í sögunni af lífsbaráttu fólksins er gekk sömu göturnar í  1100 ár,  arfur kynslóðanna sem við ein þjóða höfum varðveitt að hluta í rituðum heimildum frá upphafi Íslandsbyggðar.  Paparnir og Hrollaugur landnámsmaður voru rétt nýfarnir af hlaðinu hjá Steini afa Þórbergs sem bjó á jörðinni þeirra, - Breiðabólsstað -  1000 árum síðar,  - svo rík var sagnahefðin,  svo lifandi var sagan og upphaf okkar sem þjóðar, svo römm var sú taug.  

Markmið með uppbyggingu Þórbergsseturs er varðveita þennan menningararf,  fjalla um alþýðumenninguna eins og hún var, viðhalda staðbundinni þekkingu á umhverfi, örnefnum, sögu og náttúrufari en einnig að halda áfram að segja sögur í Suðursveit. Halda áfram  að  skynja nálægð lifandi náttúru, hlusta á steinana tala, náttúruna anda og veraldarhafið stynja svo ég styðjist við orð Þórbergs sjálfs og hans einstöku og næmu náttúrulýsingar.  

Þórbergssetur er byggt til heiðurs horfnum kynslóðum er byggðu Suðursveit. Það var skylda okkar  að halda verkinu áfram. Og efniviðurinn var nægur, þar bera hæst bókmenntaverk Þórbergs sem þjóðin þekkir,  en  sögur,  þulur,  og ljóð Steinþórs á Hala bróður Þórbergs varða líka leiðina, einnig gömlu passíusálmalögin sem  Steinunn amma raulaði fram í andlátið svo og  dularfull þjóðtrú, trölla- og álasögur,  ættaðar frá Oddnýju á Gerði merkum sagnaþul og alþýðuskáldi á 20 öld en hún var fædd 1821 látin 1917,  saga alþýðumenningar og lífsbaráttu fólksins í landinu, þar sem hver dagur var ögrun og átök við umhverfi og óblíð náttúruöfl. 

Við eigum að vera stolt af sögu okkar sem þjóðar, við eigum að halda  sögunni betur á lofti í íslenskri  ferðaþjónustu en við höfum gert.  Þar vegur þyngst bókmenntaarfurinn allt frá elstu handritum  til okkar daga og tenging hans við alþýðumenninguna. Þegar ég leiði erlenda gesti um sýningar Þórbergsseturs segi ég þeim að bókaveggurinn stóri sem blasir við af þjóðvegi 1 sé tákn um okkar menningararf.  Þegar við setjumst síðan niður í fjósbaðstofunni á Hala,  leyfi ég ferðamönnum gjarnan að handleika gömlu bækurnar sem þar voru lesnar og hafa varðveist,  sumar jafnvel handskrifaðar  - og segi frá því að þrátt fyrir myrkrið, kuldann, eldiviðarleysi og matarskort,  voru allir læsir  og undu við sögur og rímnakveðskap, þulur og  ljóð og lestur Íslendingasagna, voru í raun hámenntaðir í fornbókmenntum eins og virtustu háskólaprófessorar í dag.

Viðbrögð erlendra gesta hafa fært mér sanninn um hversu rík þessi sérstaða okkar er sem þjóðar. Auðlegð okkar felst í þessari sögu, í mætti orðsins og tungunnar, alþýðumenningin var hámenning sveitanna  krýnd af krafti tungumálsins þar sem stokkar og steinar áttu nöfn eins og mannfólkið, kýrnar í fjósinu fengu sálfræðilega greiningu og  skylda bóndans var að leggja síg í lífshættu við að bjarga fé sínu úr svelti. Hvannstóð og Gapi, Glompa og Auðnuhvammur, Virðingarbali og  Kvennaskáli , Flár og Konsakambur ,, allt nöfn í umhverfinu sem sögðu sögur úr náttúrunni og sálarlífi fólksins.” Ég bíð ykkur hér með í Suðursveitina til að kynna ykkur fyrir þessari veröld, hún er þarna enn. 

Við þökkum af heilum hug þá miklu viðurkenningu sem Þórbergssetur hefur fengið með þessum verðlaunum og heitum því að halda áfram að byggja upp það menningarsetur sem við viljum að þar muni starfa næstu áratugina. 

Þórbergssetur hlaut nýsköpunarverðlaun SAF 2008

Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar voru afhent  í fimmta sinn við athöfn á Hilton Reykjavík Nordica  fimmtudaginn 6. nóvember. Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir öfluga uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu.Í rökstuðningi dómnefndar segir að eftirfarandi hafi einkum legið til grundvallar ákvörðun dómnefndar:
Rökstuðningur
Er það álit dómnefndar að Þórbergssetur
sé einstaklega vandað framtak fólks úr héraði við uppbygginu menningartengdrar ferðaþjónustu. Setrið er ekki aðeins safn tileinkað einum af merkari rithöfundum þjóðarinnar. Það er einnig lifandi sögusýning á atvinnuháttum og menningu Suðursveitunga gegnum aldirnar og hvernig þeir hafa hagað sinni búsetu í nábýli við óblíða náttúru. Með því að tvinna saman líf og störf rithöfundarins við menningarsögu sveitarinnar, veitist gestum ný sýn á ritverk hans, en einnig ný sýn á líf og störf Íslendinga um aldir gegnum þau sömu ritverk.

Setrið er einnig ákaflega vel úr garði gert, hönnun þess frumleg og vel vandað til allrar umgjörðar. Gestir fá góðar móttökur og er öll grunnþjónusta fyrir hendi á staðnum.

Þannig er ljóst að Þórbergssetur hefur frá því að vera góð hugmynd, náð því að verða virkt og skapandi afl í Suðursveit sem eflir orðstír og framleiðni ferðaþjónustu og er þannig vel að nýsköpunarverðlaunum komið.

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar. Stjórn sjóðsins skipa: Árni Gunnarsson, formaður SAF, sem er formaður dómnefndar en honum til ráðgjafar voru dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Hörður Erlingsson hjá Erlingsson - Naturreisen.

Í stefnumótun SAF kemur m.a. fram að stefnt skuli að því að nýsköpun og fagmennska innan greinarinnar tryggi arðsemi allt árið enda byggi ferðaþjónustan á ímynd, gæðum, þekkingu og traustum innviðum.  Auk þess segir að landið allt verði kynnt til eflingar ferðaþjónustu og að náttúra, mannlíf og menning landsins gegni lykilhlutverki.  Hvatt er til aukinnar samvinnu innan greinarinnar til að styrkja enn frekar innviði og efla markaðssetningu landsins sem heildar.  Stjórn sjóðsins tekur tillit til þessara þátta við val sitt.

Velkomin í Þórbergssetur í sumar

Þórbergssetur á Hala í Suðursveit er menningarsetur sem hóf starfsemi sína 1. júlí 2006.
Á Hala í Suðursveit er fjölbreytt starfsemi sem miðar að móttöku ferðamanna, og smærri hópa. Þar er hægt að fá margs konar fræðslu um bókmenntir, sögu, menningu og náttúrufar í Skaftafellssýslum, njóta útiveru og fara í gönguferðir með leiðsögn.  
 
Þórbergssetur er opið frá kl. 9:00 - 20:00 alla daga frá 1. maí - 15. september 2009
Vinsamlega hafið samband ef um sérstakar heimsóknir er að ræða.

Kaffi á könnunni. 
Veitingar í boði allan daginn ef óskað er,  einnig kvöldmatur. Panta þarf með fyrirvara í mai og september

Heimaafurðir beint frá býli og skemmtileg sveitastemmning.

 
Nánari upplýsingar og pantanir í síma 4781078 og 8672900        
Forstöðumaður Þorbjörg Arnórsdóttir

Í Þórbergssetri er góð aðstaða fyrir 40 - 60 manna hópa að njóta dagskrár og þar er góður veitingasalur. Einnig er tekið á móti minni hópum allt eftir óskum hvers og eins  Lögð er áhersla á að kynna ,,veröld sem var" fyrir ekki svo löngu síðan, en það eru rúm 40 ár síðan einangrun Suðursveitar var rofin þegar jökulár voru brúaðar hver af annarri á árunum 1958 - 1968 Einangrun sveitarinnar var síðan endanlega rofin með opnun hringvegarins árið 1974.Verkefnið miðar því að því að kynna alþýðumenninguna og hvernig greina má áhrif hennar í verkum eins merkasta rithöfundar þjóðarinnar, lesið er úr verkum Þórbergs og hlustað á frásögur Steinþórs Þórðarsonar á Hala bróður hans
Þórbergssetur er með starfsemi allt árið Á Hala er gisting fyrir alls 42 í tveggja manna herbergjum núna í þremur húsum bæði svefnpokapláss og uppábúin rúm. Ef að um stæri hópa er að ræða er hægt að fá gistingu í næsta nágrenni en nýta sameiginlega veitingaaðstöðu í Þórbergssetri. Hópum býðst að koma í dvöl á Hala og njóta fræðslu og veitinga í Þórbergssetri, fara í gönguferðir í nágrenninu eða ferðir með leiðsögn um Suðursveit. Viðkomandi hópum býðst að koma með eigin dagskrá eða njóta dagskrár á vegum Þórbergsseturs allt eftir óskum hvers og eins.

Hvað er í boði
Hægt að velja saman mismunandi viðfangsefni, útiveru, hlustun, upplifun inn á sýningu, umfjöllun um sögu og mannlíf, kvöldvöku með staðbundnu efni o. fl
1. Gönguferð í nánast umhverfi , ratleikur, fjallað um náttúrulýsingar Þórbergs, örnefni, þjóðsögur, draugasögur, þjóðtrú, ,, talað við steina"
2. Kynning með powerpoint glærum á Þórbergi og umhverfi og umfjöllun um Suðursveit
3. Skoða sýningar í Þórbergssetri Leiðsögn á sýningu
4. Frásögur Steinþórs á Hala, þulur, ljóð, draugasögur, útburðarsögur, fróðleikur o.fl.
5. Setið í myrkri í fjósbaðstofunni og hlustað á lestur eða frásögur líkt og í gamla daga
6. Álar, umfjöllun um ála í verkum Þórbergs, álasögur, skoða ál
7. Möllers æfingar
8. Fjallaferð, náttúruskoðun, að finna fornminjar, búsetuminjar í landslagi, gönguferð að Klukkugili ( 4 - 5 klst gott veður)
9. Sambýli manns og jökuls ( fjallað um ferðalög yfir Breiðamerkursand, gönguferð að jökli um landsvæði sem var undir jökli fram yfir 1990)
10. Upplestur úr verkum Þórbergs

Haustþingi frestað

Málþinginu um Einar Braga rithöfund sem halda  átti í Þórbergssetri 18. og 19. október næstkomandi hefur verið frestað til vorsins. Einar Bragi var vorsins barn, fæddur á Eskifirði  7. apríl 1921. Afar áhugaverð dagskrá  um Einar Braga og atómskáldin var tilbúin en einnig átti að fjalla um ást Einars Braga á Suðursveit. Móðir hans Borghildur Einarsdóttir var fædd í Gamlagarði í Borgarhöfn og var náfrænka Þórbergs Þórðarsonar.  Einar dvaldi sem barn í sveit bæði í Suðurhúsunum í Borgarhöfn og á Sléttaleiti hjá Sveini móðurbróður sínum. Eitt af ljóðum Einars Braga heitir Siggi í Bæ. Í ljóðinu er fjallað um ferðalag hans með Sigurði Ólafssyni þegar hann 10 ára drenghnokki var sendur sjóleiðina til Hornafjarðar og síðan á vélbáti að Bjarnahraunssandi með timbur og nauðþurftir til handa Suðursveitungum.  
Dumbungslegur júnídagur
dauður sjór og rjómalogn  

hægt skríður fleytan suður með söndum
með sykur timbur olíu og mjöl  
í Suðursveit ætla bændurnir að byggja
og búrin eru þegar orðin tóm  

sjávarþjarkurinn Siggi í Bæ er bjargvættur bónda  
í stýrishúsi húkir lítill peyi á hráolíudúnk
og ælir       
         ælir         
             ælir           
oná gólfið  

Hlýir voru sjóvettlingar þínir Siggi í Bæ
hlýr var rómurinn er rumdi
djöfull er að sjá drenginn maður
jahá mahður
og hlýr var straumurinn
er steig frá stýrishússgólfinu þínu
og hríslaðist um hrúgaldið litla á hráolíudúnknum
grannan kropp í gráum frakka  

nú höfum við eignast sorgina saman Siggi í Bæ  

Með hækkandi sól á vordögum er fyrirhugað að hefja sumarstarfið í Þórbergssetri með þessu áhugaverða málþingi um verk Einars Braga og tengsl hans við Suðursveit.

Haustþing í Þórbergssetri

Málþing um Einar Braga rithöfund og verk hans verður haldið í Þórbergssetri 18. - 19. október næstkomandi.
Málþingið hefst kl 14:00 á laugardegi og verða fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar. Lesið verður úr bókum Einars Braga, en einnig farið í heimsókn að Steinum og á Sléttaleiti og skoðaðar búsetuminjar. Einar skrifaði þrjár bækur með fróðleik um Suðursveit undir heitinu, Þá var öldin önnur,  þar er m.a. fjallað um búskaparhætti á Sléttaleiti á fjórða áratug síðustu aldar. Þar bjó þá Sveinn Einarsson móðurbróðir Einars, en Einar dvaldi hjá þeim hjónum á Sléttaleiti um tíma. Guðrún Sveinsdóttir frá Sléttaleiti endurbyggði bæjarhúsin á Sléttaleiti í minningu foreldra sinna og ánafnaði síðan Rithöfundasambandi Íslands  húsið til minningar um Einar Braga. Þar eru ýmsar minjar sem tengjast skáldinu og verkum hans sem gaman er að skoða. Áður hafði Einar Bragi haft forgöngu um að endurbyggja smiðjuna á Sléttaleiti til að framfylgja heiti Sveins, smiðjan gæti verið að grunni til sú sama og Ingimundur Þorsteinsson forfaðir Kvískerjabræðra byggði þar,  en hann flutti bæinn frá Steinum að Sléttaleiti árið 1829 eftir stórflóð og grjóthrun úr fjallinu.Um kvöldið verður hátíðarkvöldverður í Þórbergssetri. Á sunnudeginum heldur dagskrá áfram til kl. 15:00. Haustþing Þórbergsseturs eru nú árlegur viðburður og hefur alltaf verið góð aðsókn. það er von okkar að sem flestir leggi leið sína í Suðursveit þessa helgi til að njóta skemmtunar, fróðleiks og útiveru.
Hægt verður að fá gistingu á Hala,  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. sími 478 1073, á Gerði sími 478 1905 og á Smyrlabjörgum sími 478 1074.
Allir velkomnir

Hrossakjötsveisla í Þórbergssetri

Hin árlega bridgehátíð og hrossakjötsveisla verður haldin í Þórbergssetri 5. og 6. apríl næstkomandi. Áhugafólk um bridge og hrossakjötsát er boðið velkomið. Torfi Steinþórsson á Hala  var mikill  félagsmálafrömuður og áhugamaður um spilamennsku og  gekkst  hann fyrir  bridgekeppni og hrossakjötsveislum í Suðursveit á árum áður. Afkomendur hans hafa tekið að sér að halda merkinu á loftinu og halda við hefðinni. Hér er fyrst og fremst um áhugamannamót að ræða þar sem helgin verður tekin í eina allsherjarskemmtun yfir spilum með áti inn á milli. Byrjað verður að spila og keppa í tvímenningi kl 17:00 á laugardeginum og spilað fram eftir kvöldi með tilheyrandi áthléum, en síðan byrjað klukkan 11 á sunnudeginum í sveitakeppni. Allir áhugamenn um bridge sem kunna að halda á spilum eru velkomnir, og einnig er fólki velkomið að kíkja við á laugardagskvöldið til að smakka hrossakjötið og skoða sig um í Þórbergssetri. Hægt er að fá gistingu og allan viðurgjörning á Halabæjunum á meðan að spilamennskan stendur yfir. Verð fyrir kvöldmat, gistingu, morgunmat, hádegismat og miðdagskaffi er kr. 8000 á mann Upplýsingar og pantanir eru hjá Þorbjörgu í síma 867 2900 eða Þórbergi 899-2409

Höfðinglegar bókagjafir

Þann 12. mars síðastliðinn barst Þórbergssetri höfðingleg gjöf frá Landsbókasafni- Háskólabókasafni. Það voru 34 bókakassar úr dánarbúi Þórbergs Þórðarsonar sem Margrét Jónsdóttir eiginkona hans gafði gefið safninu árið 1975. Kennir þar margra grasa, margir kassar af erlendum ritum og bókum m.a. á esperantó, tímarit og blöð.

Það er gaman að fletta þessum gömlu bókum, áberandi eru íslenskar bækur með  þjóðlegum fróðleik, en einnig margar áritaðar bækur sem hafa verið gjafir til Þórbergs frá höfundum þeirra. Þar má nefna t.d. bókina Íslenska menningu eftir Sigurð Norðdal. Á henni er eftirfarandi áritun:
,,Til Þórbergs Þórðarsonar með þakklæti fyrir skemmtilega samferð um auðnir og grasbletti íslenskrar menningar síðasta aldarfjórðunginn.  Sigurður Norðdal

Tvær bækur frá Jóhannesi Kjarval komu upp úr kössunum, bókin Grjót, gefin út árið 1930.og Enn grjót, gefin út 1938.  Önnur þeirra  er árituð af meistara Kjarval á þennan hátt:,,Til herra stórskáldsins vinar míns Þórbergur Þórðarson frá Höfundinum Jóhannesi Sveinssyni Kjarval"
Þórbergur gefur Margréti eiginkonu sinni bókina Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddssen 3. desember 1948. Hún er árituð með þessum orðum. ,, Til minnar einu og sönnu Margrétar Jónsdóttur 3/12 1948   Þ.Þ."
Aðeins er  búið að skoða lítinn hluta þessarar miklu bókagjafar og það verður forvitnilegt að fara höndum um innihald allra þessarra kassa sem fylltu heilt bretti í flutningabíl.

Atli Gíslason alþingismaður sendi  einnig kærar kveðjur til Þórbergsseturs og gaf tvær fallega innbundnar bækur sem hann hafði í fórum sínum. Önnur er Bylting og íhald úr Bréfi til Láru, gefin út 1924  af  Bókmenntafélagi Jafnaðarmanna, frumútgáfa. Hin er bók Stefáns Einarssonar um Þórberg sem var gefin út á fimmtugsafmæli hans þar sem m.a. er fjallað um endurfæðingar Þórbergs.

Aðstandendur Þórbergsseturs þakka kærlega fyrir þessar höfðinglegu gjafir.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 355
Gestir þennan mánuð: ... 6562
Gestir á þessu ári: ... 51029