Skip to main content

Vorið í Suðursveit 16. - 17. maí.

Ferðaþjónustuaðilar í Suðursveit munu bjóða upp á fjölbreytta dagskrá um næstu helgi, þar sem þjónusta þeirra verður kynnt fyrir heimafólki. Auk opnun sýninga í Þórbergssetri verður boðið upp

á bátasiglingu um Jökulsárlónið fyrir heimamenn eftir kl 17: 00 á sunnudeginum. Verð einungis kr.1000.- fyrir fullorðna en frítt fyrir börn yngri en 12 ára. Útilistaverk og lambaskoðun í Lækjarhúsum í Borgarhöfn. Á Smyrlabjörgum verður glæsilegt hlaðborð á Laugardagskvöldið frá kl: 18 - Allt úr héraði. Báða dagana verður hægt að skoða lömb á Smyrlabjörgum og á sunnudeginum verður kaffihlaðborð frá kl: 14. Skálafell býður gestum upp á gönguferð að jökli kl 14 á laugardag, með leiðsögn, á vægu verði kr. 500.- pr. mann. Hægt er að kíkja á sauðburðinn og kynna sér þjónustuna. Kaffi á könnunni báða dagana frá kl: 10-17.

Bregðum nú undir okkur betri fætinum og njótum þess sem er í boði í heimabyggð.

Allir eru velkomnir í sveitina

Ríki Vatnajökuls og Ferðaþjónustuaðilar í Suðursveit

Saga og list í Þórbergssetri

Helgina 16. og 17. maí verða opnaðar formlega tvær nýjar sýningar í Þórbergssetri . Sýningin Sagnalist   er  samstarfsverkefni Þórbergsseturs og Skriðuklausturs styrkt af Menningarráði Austurlands. Markmið verkefnisins er að kynna rithöfundana Gunnar Gunnarsson og Þórberg Þórðarson, en einnig að safna frásögum eða  minningarbrotum frá liðinni tíð, þar sem óskað var eftir að fólk skráði niður minningar frá fermingu sinni eða fermingarári sem tengdust þá samfélags- og þjóðháttarlýsingum frá þeim tíma er viðkomandi fermdist. Margar skemmtilegar frásögur hafa borist og sjá má sýnishorn af nokkrum þeirra á sýningunni. Auk þess eru nokkrir sýningarmunir úr eigu einstaklinga, aðallega úr Skaftafellssýslum. Skemmtilegar fermingarmyndir frá fimmta og sjötta áratug síðustu aldar birtast á skjá.

Gaman er fyrir eldra fólk að rifja upp liðna tíð, en einnig að segja frá og sýna börnum og unglingum aðstæður fermingarbarna fyrir 50 – 70 árum síðan.
Einnig verður opnuð málverkasýning/ sölusýning í Þórbergssetri laugardaginn 16. maí.  Það er Alda Ármanna frá Barðsnesi við Norðfjörð sem  sýnir verk sín í Þórbergssetri á þessu vori.  Sýningin ber heitið Kona í forgrunni, vegferð í lífi og list. Alda á ættir sínar að rekja að Kálfafelli í Suðursveit, en móðir hennar var Sigríður Þórðardóttir frá Kálfafelli systir Ingunnar Þórðardóttur, eiginkonu Benedikts Þórðarsonar frá Hala, bróður Þórbergs Þórðarsonar. Alda tengir sýninguna uppruna sínum úr Suðursveit. Í sýningarskrá stendur ,, Sögur móður minnar úr Suðursveit sveipuðu fólkið og lífshætti þess ljóma og vakti mér löngun að kynnast þessu fólki og þessari sveit.” Sjálf ólst Alda upp á Barðsnesi við Norðfjörð í hópi 9 systkina. Barðsnes var útvegsjörð sem fór í eyði um miðja síðustu öld.
Kaffihlaðborð er í Þórbergssetri frá kl 14:00 – 17:00 sunnudaginn 17. maí.
Sýningarnar verða opnar til 6. júní en hluti af sýningu Öldu verður í veitingasal Þórbergsseturs í sumar.

Skaftfellingar ættu ekki að láta fram hjá sér fara þessar skemmtilegu en ólíku sýningar sem tvinna saman sögur og list og eiga uppruna sinn í merkri alþýðumenningu sveitasamfélaga  á Íslandi.

Páskar í Þórbergssetri

Opið verður í Þórbergssetri yfir páskana. Sýningar og veitingasala verður opin frá 9 - 21 frá 8. - 14. apríl. Hægt verður að fá kaffi og heimabakað brauð, lummur og ástarpunga á daginn en matseðill með Jöklableikju og lambakjöti frá Hala verður í boði á kvöldin. Þegar hafa margir gestir boðað komu sína á Hala yfir páskana og ljóst að vetrarferðamennska er mikið að aukast á Íslandi um þessar mundir.

Velkomin í vetrardvöl á Hala í Suðursveit

20090117Í vetur stendur einstaklingum eða hópum til boða að koma í heimsókn á Hala og dvelja á eigin vegum í litlum þægilegum húsum á gistiheimilinu á Hala. Þar er mjög góð aðstaða til að búa út af fyrir sig, en einnig er hægt að kaupa allan viðurgjörning í veitingahúsinu í Þórbergssetri.  Hægt er að óska eftir sérstakri dagskrá í Þórbergssetri eða fá aðgang að sal til skemmtanahalds.
Fræðimönnum stendur  til boða að dvelja í íbúð á Hala við fræðastörf í viku í senn Hægt er að hafa samband við Þórbergssetur og panta aðstöðuna.
Allar upplýsingar eru í síma 478 1078 eða 867 2900
Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Bridgemót og hrossakjötsveisla

Hið árlega bridgemót í Þórbergssetri verður haldið helgina 28 og 29 mars næstkomandi. Allir bridgeáhugamenn eru velkomnir að koma og taka þátt og eta hrossakjöt og njóta dvalar í Suðursveit eina helgi

Námskeið um bækur Þórbergs Þórðarsonar

Háskólasetrið á Höfn og Þórbergssetur bjóða öllum Hornfirðingum og íbúum nærsveita að taka þátt í opnu námskeiði þar sem fjallað verður um Þórberg Þórðarson, ævi hans og verk. Námskeiðið verður haldið hálfsmánaðarlega á þriðjudagskvöldum á milli kl. 20 og 22 í Pakkhúsinu á Höfn. Dagskráin er eftirfarandi:

 

10. feb.            Farið yfir ævi- og ritferil Þórbergs í stórum dráttum.
24. feb.            Bréf til Láru, pistlar og ritgerðir Þórbergs.
10. mars          Íslenskur aðall og Ofvitinn.
24. mars          Sálmurinn um blómið.
7. apríl            Suðursveitarbækurnar
Laugardaginn 2. maí verður í boði að þátttakendur fari saman í heimsókn á Þórbergssetur
Öllum er heimil þátttaka og fólki er frjálst að mæta í eitt eða fleiri skipti eftir því sem þeim hentar. Stjórnendur námskeiðsins eru Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur og sérfræðingur á Háskólasetrinu, og Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðumaður Þórbergsseturs.

Mörg verkefni í undirbúningi í byrjun Þorra

Þorri hefur heilsað hér í Suðursveit með miklum hlýindum og vætutíð. Fiflar eru meira að segja blómstrandi undir húsvegg, en reyndar nálægt heita pottinum. Þórbergsetur hlaut 500.000 króna styrk frá Menningarráði Austurlands til ýmis konar starfsemi m.a til að halda tónleika í Kálfafellsstaðarkirkju á Ólafsmessu þann 29. júlí í sumar.  Vonir standa til að

Eyþór Gunnarsson tónlistarmaður og Ellen Kristjánsdóttir söngkona verði með tónlistardagskrá, en Eyþór var sumarstrákur í sveit á Jaðri í Suðursveit og á góðar minningar úr sveitinni. Hann sat við hlið Þórbergs og Margrétar í flugvélinni þegar hann kom í sveitina í fyrsta sinn. Þetta er þó með þeim fyrirvara að Mezzoforte veði ekki farin í tónleikaferð til Þýskalands á þessum tíma svo nú er bara að krossa fingur. Innan Þórbergsseturs er verið að undirbúa fjöldamörg önnur verkefni, má þar nefna sögusýningu um papa og opnun Söguslóðar á Suðausturlandi,  sýningu um fermingar, sem er afrakstur samstarfsverkefnisins Sagnalistar, einnig  námskeið um Þórberg, málþing um Einar Braga á vordögum, svo og þýðendaþing í samstarfi við Háskólasetrið á Hornafirði. Það verður því mikið um að vera á Hala þegar fer að líða á veturinn.    

Á nýju ári

Það var gestkvæmt á Hala og í Þórbergssetri  yfir jól og áramót. Alls voru skráðar um 50 gistinætur á gistiheimilinu á Hala og í Þórbergssetur komu gestir af 12 þjóðernum. Þeir sem lengst áttu að voru fjórir ferðalangar frá Taivan, sem gistu á aðfangadagskvöld., en einnig voru gestir frá Kanada, Bandaríkjum og Evrópulöndum, flestir frá Þýskalandi. Veður var fremur gott, hlýtt og oft bjartir dagar, en eftir áramót hefur rignt mikið og verið dimmt yfir. Í góðu veðri í skammdeginu gægist sólin rétt upp fyrir hafflötinn í suðri og varpar gullinni slikju á umhverfið. Það er því vel þess virði að heimsækja Suðursveitina á þessum tíma þó dagarnir sé stuttir. Selirnir við Jökulsárlón leika listir sínar fyrir gesti, hafið leikur óperur með miklum tilbrigðum, og ekkert jafnast á við tunglskinsbjarta vetrarnótt eða stjörnubjartan himin.
Tveir fræðimenn, þær Soffía Auður Birgisdóttir og Þóra Ingólfsdóttir hafa dvalið á Hala við fræðastörf síðustu daga. Soffía var að undirbúa fyrirlestur sinn um Þórberg sem hún flutti í Reykjarvíkurakademíunni miðvikudaginn 14. janúar. Fyrirlestur hennar bar nafnið ,,Hugsum öðruvísi með Þórbergi. Um bókmenntagervi, veruleika og sannleika."
Á sunnudaginn tóku þær stöllur sér frí frá fræðastörfum og fóru að skoða 14 metra langan búrhval sem rak á Borgarhafnarfjöru 29. desember. Ekið var austur í Hálsa og rifjaðar upp gamlar sagnir af verbúðarlífi Norðlendinga og sjóróðrum þeirra frá Hálsahöfn og sjósókn Suðursveitunga frá Bjarnahraunssandi.
Allt bendir til að starfsemi Þórbergsseturs verði blómleg á nýju ári. Nokkrir hópar hafa þegar bókað heimsóknir í setrið, og einnig er verið að undirbúa nýjar sýningar sem á að opna í vor.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 318
Gestir þennan mánuð: ... 6525
Gestir á þessu ári: ... 50992