Skip to main content

Um áramót 2010

Veðurfar hefur verið með eindæmum gott yfir jól og áramót hér í Suðursveit. Árið 2009 var gjöfult hér, fjölmargir ferðamenn af ótal þjóðernum komu á Hala og í Þórbergssetur og öflugt menningarstarf var innan Þórbergsseturs með þáttöku fjölmargra gesta, erlendra sem innlendra. Stærsti ávinningur ársins 2009 er þó sá að Þórbergssetur er nú komið inn á föst fjárlög íslenska ríkisins og þar með viðurkennt sem eitt af rithöfundasetrum Íslands. Þar með er margra ára baráttumál í höfn og það verður ánægjulegt að geta nú haldið áfram að byggja upp öflugt menningarstarf í Þórbergssetri. Við lítum því bjartsýn fram á veginn  íbúar í Suðursveit og vonum að þær þrengingar sem íslensk þjóð hefur þurft að ganga í gegnum á síðastliðnu ári efli okkur og styrki í að nýta sjálfsbjargarviðleitnina til stærri átaka í framtíðinni.

Félagsfundur Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu

Félagsfundur Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu verður haldinn í Þórbergssetri dagana 15. og 16 janúar næstkomandi. Samtök um sögutengda ferðaþjónustu eru landssamtök og félagar erum 60 frá öllum landshlutum. Helsta markmið samtakanna er að vera samvinnu- og samráðsvettvangur þeirra er stunda sögutengda ferðaþjónustu á Íslandi. Auk þess er markmiðið að auka samvinnu í kynningarmálum, gæðamálum og stuðla að aukinni fagmennsku. Samtökin leggja áherslu á arfleifð íslenskra miðaldabókmennta, fyrstu aldir Íslandsbyggðar og miðaldamenningu þ.e. tímabilið frá landnámi og fram á 16.öld. Um 30 aðilar samtakanna alls staðar af landinu ætla að sækja þennan félagsfund í Þórbergssetri. Það kemur í hlut okkar Skaftfellinga að vera gestgjafar á árlegum félagsfundi samtakanna að þessu sinni. Er það í framhaldi af því verkefni sem  hefur verið unnið að í klasasamstarfi á síðustu tveimur árum um sögutengda ferðaþjónustu og opnun Söguslóðar á Suðausturlandi síðastliðið vor.Á föstudeginum kl 16:00 verður opið málþing í Þórbergssetri þar sem allir eru velkomnir sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi þessara samtaka  og hvað er verið að gera í ferðaþjónustu á Íslandi sem tengist sögu og menningu miðalda. Á málþinginu eru áhugaverð erindi og m.a. kynning á matarmenningu í ríki Vatnajökuls, kynning á Söguslóð á Suðausturlandi, kynning á fornleifauppgreftri í Hólminum og við Fagurhólsmýri í Öræfum og síðan erindi um möguleika á að markaðssetja og þróa sérstakar söguferðir á Íslandi. Einnig verður fjallað um bókaútgáfu í tengslum við sögutengda ferðaþjónustu.
Það er von okkar sem störfum í þessum samtökum að sem flestir ferðaþjónustuaðilar og áhugamenn um sögu og menningu láti sjá sig í Þórbergssetri á þessu málþingi næstkomandi föstudag. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir

Viðurkenning til Þórbergsseturs á Degi íslenskrar tungu

Þórbergssetur hlaut viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember 2009.  Rökstuðningurinn var eftirfarandi:
„Þórbergssetur á Hala í Suðursveit er menningarsetur reist til minningar um Þórberg Þórðarson rithöfund. Þórbergur var einn af merkustu rithöfundum 20. aldarinnar. Hann fæddist og ólst upp á Hala í Suðursveit sem á þeim tíma var býli í einni afskekktustu byggð á Íslandi. Landfræðileg einangrun Suðursveitar markaðist af kolmórauðum jökulfljótum beggja vegna og að baki byggðar voru risavaxnir fjallgarðar og víðáttumiklar jökulbreiður en brimsandar og hafnleysur við sjávarsíðuna. Nú er Suðurveit í þjóðbraut og Þórbergssetur er þar verðugur minnisvarði um einn af mestu meisturum íslenskrar tungu. Sjálfur sagði Þórbergur fyrir um tilurð safnsins í Sálminum um blómið þar sem hann sagði Lillu Heggu að í framtíðinni myndu kaupmenn reisa ráðstefnuhöll á Hala og að þá myndi fólk koma til að hlusta á sögur úr Suðursveit. Það voru þó heimamenn sem reistu Þórbergssetur með stuðningi frá ríki og sveit. Þeir eru líka ávallt reiðubúnir að ræða við gesti og veita fræðslu og upplýsingar um umhverfi, náttúru og mannlíf."

Safnahelgi á Suðurlandi

Þórbergssetur ákvað að taka þátt í safnahelgi á Suðurlandi. Opið hús verður  í Þórbergssetri laugardaginn 7. nóvember og sunnudaginn 8. nóvember frá kl 13:00 - 17:00.  Kynna á verkefnið Söguslóð á Suðausturlandi sem var samstarfsverkefni menningarstofnana og ferðaþjónustuaðila frá Djúpavogi að Skaftafelli og fjallar um landnám, fyrstu mannaferðir á Suðausturlandi, papasögur og tengsl Íslands við Skotland og skosku eyjarnar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Einnig verða einstaka munir sýndir sérstaklega og sögð saga þeirra. Þar má nefna fjalhöggið úr Hvannadal, gamlar bækur, stytta sem Þórbergur gaf Lillu Heggu, merkilegur mannbroddur, og krossinn hans Þórbergs. Kaffi verður á könnunni og allir eru velkomnir sem vilja renna í sveitina og skoða sig um í Suðursveit nú í byrjun vetrar.

Jöklar og saga, stjörnur og rómantík

Haustþing Þórbergsseturs verður að þessu sinni haldið laugardaginn 17. og sunnudaginn 18. október. Á þinginu verður blandað saman fræðslu, skemmtun og útiveru og komið víða við. Þingið hefst kl 13:00 á fyrirlestri Helga Björnssonar jöklafræðings ,,Frá Breiðumörk til jökulsands, mótun lands í þúsund ár" og síðan verður farið í ferðalag um Breiðamerkursand og inn í Þröng, þar sem glögglega sést hversu hratt Breiðamerkurjökull hefur hopað á síðustu árum og áratugum.  Dætur Einars ríka í Vestmannaeyjum verða síðan með skemmtilega dagskrá í máli og myndum tengda samskiptum Þórbergs og Einars ríka föður þeirra. Og til að ætla vísindunum veglegan sess á þessu málþingi þá mun Snævarr Guðmundsson  fjalla um stjörnur og óravíddir himingeimsins, og hvort sem sjást einhverjar stjörnur á himninum eða ekki á að æfa sig í myrkragöngu og fara upp á Helghól undir miðnætti. Á sunnudeginum ætlar Halldóra Gunnarsdóttir mannfræðingur að vera með erindi um Þórberg og ástina. Einnig verður ungur íslenskunemi með erindi tengt BA ritgerð sinni sem fjallar um Þórberg og rómantíkina. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir er að skrá bréfasafn Þórbergs í Landsbókasafninu og segir skemmtilegar fréttir tengdar því, en síðan verða heimamenn með erindi eftir hádegi. Líkur eru á að meinlaust grín blandast dagskráinni eins og gjarnan þegar fjallað er um Þórberg og verk hans
Allir eru velkomnir að sitja málþingið allt eða hluta þess.

Gistingu er hægt að fá á Hala sími 867 2900 This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Gerði sími 478 1905 eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., á Smyrlabjörgum sími 478 1072 This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og Skálafelli sími 478 1041 This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Dagskrá
Laugardagur 17. október

13:00 Setning
13:10 ,,Frá Breiðumörk til jökulsands, mótun lands í þúsund ár" Helgi Björnsson jöklafræðingur
14:00 Ferð að Breiðamerkurjökli ( Hægt að aka á eigin bíl langleiðina)
16:30 Dagskrá tengd samskiptum Þórbergs Þórðarsonar og Einars ríka ,,Þú hefðir ekki átt að bæta við
þig nýjum bátum á meðan þú stóðst í ævisögurituninni."  dætur Einars ríka,  Auður Einarsdóttir
íslenskufræðingur og Sólveig Einarsdóttir framhaldsskólakennari
19:30 Kvöldverður að hætti Þórbergsseturs, Halaafurðir á borðum
21:00 Stjörnur; Snævarr Guðmundsson
22:00 Stjörnuskoðun á Helghól, myrkraganga

Sunnudagur 18:október
10:00 „Að elska er að yrkja fegursta ljóð í víðri veröld." Þórbergur og ástin. Halldóra Gunnarsdóttir
          mann- og kynjafræðingur
10.40  ,,Þórbergur, ástin og andófið" Um skopstælingu Þórbergs á nýrómantík; Arngrímur Vidalín Stefánsson BA nemi 
11:20 ,,Þjer eruð aumingi - að skrifa mjer aldrei." Úr bréfum til Þórbergs.
          Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir bókmenntafræðingur
12:00 Hádegisverður, kjötsúpa og rúgbrauð með kæfu
13:00  ,,Að afbyggja karlmann:" Um sjálfsmyndir Þórbergs Þórðarsonar.Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur
13:30 Söguslóð á Suðausturlandi, kynning frá Þórbergssetri
14:00 Þingslit

Að loknu sumri 2009

Mikið hefur verið um að vera í Þórbergssetri í allt sumar. Fjölmargir ferðamenn innlendir sem erlendir hafa heimsótt setrið og skoðað sýningar eða notið veitinga, Ljóst er að Þórbergssetur hefur sannað gildi sitt sem menningarsetur í sveit, en á sama tíma  viðkomustaður ferðamanna á Suðausturlandi. Í Þórbergssetri er tekið á móti gestum að sveitasið, boðið upp á heimatilbúnar veitingar og mat beint frá býli, en einnig spjallað við gesti og gangandi og fjallað um umhverfi og atvinnulíf.  Menning er í hugum okkar í Þórbergssetri umfjöllun um líf fólksins í landinu fyrr og nú, því er gaman að fá tækifæri til að ræða við erlenda ferðamenn um aðstæður og búsetu áður fyrr, en einnig búskapinn í dag, efnahagsmálin og hvernig íslensk þjóð hefur komist af í þessu landi þrátt fyrir misjafnt árferði. 
      Þórbergssetur stóð fyrir tónleikum í Kálfafellsstaðarkirkju á Ólafsmessu 29. júlí ásamt sóknarpresti Séra Einari G . Jónssyni og voru þeir vel sóttir. Að þessu sinni voru það þau Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson sem voru með frábæra ljóðatónleika. Um 90 manns sóttu tónleikana en þeir voru styrktir af Menningarráði Austurlands. Í lok dagskrár var farið í heimsókn að völvuleiði í landi Kálfafellsstaðar og gömul saga um Völvuna á Kálfafellsstað og mátt hennar rifjuð upp.
      Ætla má að í sumar hafi komið í heimsókn í Þórbergssetur allt að  20.000 manns og um 7000 manns hafa sótt sýningarnar. Segja má að aðsóknin hafi farið langt fram úr björtustu vonum, en þetta er fjórða sumarið sem tekið er á móti ferðamönnum í Þórbergssetri. Geta má þess að í Þórbergssetur komu ferðamenn af 29 þjóðernum frá því 20. desember 2008 til loka maí 2009. Alþjóðavæðingin hefur því einnig sett mark sitt á lífið í Suðursveit, og spá Þórbergs um gestakomur þar sem ,,útlenda fólkið mun koma að hlusta á sögurnar sem gerðurst í henni Glompu" hefur sannarlega ræst.

Haustþing Þórbergsseturs

Haustþing Þórbergssetur, Jöklar og saga, stjörnur og rómantík tókst með afbrigðum vel. Um 60 manns sóttu þingið víða af á landinu. Börn Einars ríka og fjölskyldur þeirra mættu og fluttu skemmtilega dagskrá um samskipti Þórbergs og Einars föður þeirra, en Þórbergur skráði æviminningar Einars í lok sjöunda áratugs síðustu aldar. Einnig voru fróðleg erindi um jökla og stjörnur flutt af Helga Björnssyni og Snævarri Guðmundssyni. Heimspekilegar vangaveltur um Þórberg og ástina, svo og karlmanninn Þórberg voru síðan á dagskrá seinni daginn og einnig var lesið úr bréfum til Þórbergss sem eru í bréfasafni hans á Landsbókasafninu. Sannarlega stór stund í starfi Þórbergsseturs að fá allt þetta fólk í heimsókn, veðrið hefði mátt vera betra fyrri daginn en sólin skein síðan glatt á sunnudeginum og umhverfið skartaði sínu fegursta.

Söguslóð á Suðausturlandi

Söguslóð á Suðausturlandi verður opnuð formlega helgina 6. og 7. júní næstkomandi. Um er að ræða verkefni sem unnið hefur verið í samvinnu fjölmargra aðila á svæðinu frá Djúpavogi að Skaftafelli.
Ferðafólki gefst nú kostur á að ferðast eftir merktri söguslóð allt frá Berufirði og út á Skeiðarársand. Einnig verða settar upp tvær nýjar sögusýningar í Löngubúð og á Þórbergssetri sem fjalla um mannaferðir og fyrstu búsetu manna á svæðinu, papa, landnámið og tengingar íbúa Suðausturlands við höfðingjaættir á Norðurlöndum á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.

Dagskrá verður á Djúpavogi 6. júní þar sem Marteinn H Sigurðsson norrænufræðingur fjallar um Papa og Papaörnefni í Vestur Evrópu og Þorvaldur Friðriksson fréttamaður um keltnesk áhrif á Íslandi. Siglt verður út í Papey og söguslóðir þar kannaðar. Daginn eftir 7. júní verður sama dagskrá flutt í Þórbergssetri og farið í ferðalag í Papbýli í Steinadal að skoða þar ævafornar fornleifar sem fundust fyrir nokkrum árum og sanna búsetu þar fyrir árið 1000.
Eftir opnunarhátíðina verður hægt að koma við á öllum helstu söfnum og gestastofum á svæðinu og nálgast bækling um söguslóðina.. Síðan er bara að leggja af stað, njóta fræðslu á hverjum stað, ýmist af fræðsluskiltum eða starfsfólki á söfnum , sýningum og í gestastofum.
Allir eru velkomnir á opnunarhátíð í Löngubúð og Þórbergssetri,  en panta þarf sérstaklega í ferðina í Papey kl 14:00 laugardaginn 6. júní.

Söguhelgi á Suðausturlandi – Opnunarhátíð Söguslóðar á Suðausturlandi

DagskráOpnun söguslóðar í Löngubúð og formleg opnun verkefnisins Söguslóðar á SuðausturlandiLaugardagur 6. júní11:00 Opnun söguslóðar í Löngubúð11:30 Heimamaður ávarpar samkomuna 11:50 Papar fyrir vestan haf og sögulegur bakgrunnur þeirra: Marteinn H Sigurðsson 12:20 Léttar veitingar, súpa og brauð12:50 Keltnesk orð og örnefni, Þorvaldur Friðriksson fréttamaður13:20 Sýningar skoðaðar 14:00 Ferð til Papeyjar Opnun söguslóðar í  Þórbergssetri og formleg opnun verkefnisins Söguslóð á SuðausturlandiSunnudagur 7. júní11:00 Opnun söguslóðar í Þórbergssetri11:30 Heimamaður ávarpar samkomuna 11:50 Papar fyrir vestan haf og sögulegur bakgrunnur þeirra: Marteinn H Sigurðsson12:20 Léttar veitingar, kjötsúpa og brauð12:50 Keltnesk áhrif á Íslandi, Þorvaldur Friðriksson13:20 Sýningar skoðaðar14:00 Ferð í Papbýli ALLIR VELKOMNIR

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 318
Gestir þennan mánuð: ... 6525
Gestir á þessu ári: ... 50992