Skip to main content

Leiðsöguskóli Íslands

2013 05 25Leiðsöguskóli Íslands kom í sína árlegu heimsókn í Þórbergssetur þann 12 maí síðastliðinn. Að þessu sinni komu 23 nemendur sem voru að útskrifast sem leiðsögumenn ásamt fararstjóra Elínu Agnarsdóttur og Brandi bílstjóra. Segja má að þeir séu nú árvissir vorboðar í Þórbergssetri koma gjarnan rétt á eftir kríunni ár hvert.

Í lok heimsóknar taka þeir svo alltaf léttar Mullersæfingar við bókavegginn hans Þórbergs eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Merkar gjafir til Þórbergsseturs

handritFyrir nokkru síðan bárust Þórbergssetri merkar gjafir frá Jóni Sigurðssyni fyrrverandi ráðherra. Þar er um að ræða tvö handrit, annað af kvæðinu Nótt og hitt frumhandrit af Eddu Þórbergs. Bæði eru handritin handskrifuð af rithöfundinum sjálfum, en þannig skilaði hann af sér verkum sínum til prentunar. Handritið af kvæðinu Nótt er reyndar einkagjöf til ömmu Jóns Sigurðssonar og um það segir Jón. 

Kvæðið Nótt færði Þórbergi ungum viðurkenningu þegar það birtist í tímariti. Amma mín, Guðrún Jóhannsdóttir frá Stökkum á Rauðasandi, var bekkjarsystir Þórbergs í Kennaraskólanum í Reykjavík og gaf hann henni þetta handrit sitt á námstíma þeirra þar. Hún átti það síðan og gaf mér einhvern tíma á 7. áratugnum. Krot neðan við lok kvæðisins kann ég ekki að skýra, en veit að handritið hafði um tíma legið í skúffu sem ýmsir nemendur ömmu gátu komist í. Einhvern tíma setti ég litla límborða á handritið þar sem það var illa rifið. – Kvæðið er einnig í prentsmiðjuhandriti Eddu Þórbergs ."

Lesa meira

Hrossakjötsveisla og bridgemót

Hið árlega bridgemót í Þórbergssetri var helgina 13- 14 apríl. Mótið var hið fjölmennasta til þessa alls mættu 54 bridgespilarar víðs vegar af að landinu. Var spilað af mikilli áfergju frá föstudagskveldi fram á miðjan dag á sunnudag þegar fólk hélt aftur af stað til síns heima. Sigurvegarar að þessu sinni voru hjónin Sigurður Stefánsson og Guðný Kjartansdóttir á Egilsstöðum og fengu þau með sér hinn veglega farandgrip, hrútshornin ásamt því að vera vel nestuð út af Jöklableiku frá Hala. Allir bridgespilararnir gæddu sér á söltuðu hrossakjöti á laugardagskvöldinu en það var uppáhaldsfæða bridgespilarans Torfa Steinþórssonar á Hala en mótið er haldið í minningu hans. Myndir frá bridgemótinu má sjá inn á fésbókarsíðu Þórbergsseturs.

Dagskrá í Þórbergssetri 17. mars

Sunnudaginn 17. mars næstkomandi verður dagskrá í Þórbergssetri helguð 125. afmælisdegi Þórbergs Þórðarsonar .

Dagskráin hefst klukkan 14:00  og er eftirfarandi:
Söngur,- Stakir Jakar syngja nokkur lög
Ritlistarskólun Þórbergs Þórðarsonar; Soffía Auður Birgisdóttir
Njála,  persónur og leikendur; Bjarni Sigurðsson
Söngur, - Stakir jakar syngja aftur nokkur lög
Afhending gjafa til Þórbergsseturs;  Guðrún Sigurðardóttir
Ferðalög um Suðursveit og Öræfi fyrir 60 árum
Upplestur úr endurminningum Sérs Sváfnis Sveinbjarnarsonar fyrrverandi prests á Kálfafellsstað
Kaffiveitingar

Lesa meira

Þórbergsmaraþon og arfur Þórbergs 12. mars 2013

  Háskólasetrið og Menningarmiðstöð Hornafjarðar standa fyrir maraþonupplestri úr verkum Þórbergs Þórðarsonar í Nýheimum þriðjudaginn 12. mars. Maraþonið er haldið í tilefni 125 ára afmæli Þórbergs og er gestum boðið upp á kaffi og bakkelsi allan daginn. Upplesturinn fer fram í kaffistofunni í Nýheimum og er öllum frjálst að koma og lesa.Lesturinn hefst kl. 9 um morguninn og er það bæjarstjórinn sem hefur leikinn. Von er á nemendum leikskólans og grunnskólans fyrir hádegið, um hádegið taka nemendur FAS við og síðan verða bæjarbúar vonandi duglegir að mæta til að hlusta og/eða lesa.

Lesa meira

Hrossakjöt og bridge

Hin árlega bridgehátíð og hrossakjötsveisla í Þórbergssetri verður helgina 13.- 14. apríl. Byrjað verður að spila klukkan 14:00 á laugardegi, etið hrossakjöt kl. 20:00 og síðan spilað fram eftir kvöldi. Spilin byrja síðan aftur kl 10.00 á sunnudagsmorgni og spilað fram eftir degi.Allir bridgeáhugamenn eru velkomnir að koma og taka þátt, eta hrossakjöt og njóta dvalar í Suðursveit eina helgi. Bridgehátíðin er haldin til minningar um Torfa Steinþórsson á Hala sem var mikill bridgeáhugamaður og stóð fyrir bridgemótum og hrossakjötsáti í Suðursveit á árum áður. Þátttökugjald er kr 15.000 á mann, innifalið er gisting í eina nótt, morgunverður, kaffi,  kvöldverður og hádegisverður á sunnudegi. Þátttökugjald án gistingar er 9000 krónur og ef einhverjir vilja aðeins gæða sér á hrossakjöti kostar það krónur 4000. 
Hægt er að skrá þátttöku og panta gistingu á netfangið  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  eða í síma 867 2900. Allir eru velkomnir

Ólafsmessa árið 2012

Tónleikar með Magnúsi Eiríkssyni og Pálma Gunnarssyni verða í Kálfafellsstaðarkirkju sunnudaginn 29. júlí. Athöfnin hefst með messu í Kálfafellsstaðarkirkju kl. 14:00. Séra Sigurður Kr Sigurðarson predikar. Tónleikarnir hefjast síðan kl 15:00. Samverustundin er tengd gömlum sögnum tengdum Ólafi helga Noregskonungi en hann var verndardýrlingur kirkjunnar á Kálfafellsstað. Hann féll í bardaga á Stiklastöðum í Noregi 29. júlí 1030 og er  Ólafsmessa á sumri helguð þessum atburði.
Rifjuð verður upp gömul þjóðsaga um völvuna á Kálfafellsstað sem var systir Ólafs helga og lesin saga um líkneski af Ólafi helga sem gefið var til kirkjunnar upp úr aldamótunum 1700 til að hnekkja álögum völvunnar á staðnum.  Líkneskið er varðveitt í Þjóðminjasafninu. Lesin er frásaga Kristjáns Eldjárns af líkneskinu, síðan hefjast tónleikarnir og standa í um klukkustund.. Á eftir er farið í heimsókn að Völvuleiðinu við Hellakletta og Fjölnir Torfason á Hala segir frá gömlum sögum er tengjast staðnum Einnig sýnir hann áþreifanlega muni frá Kálfafellsstað sem varðveist hafa og sanna mátt völvunnar og áhrif hennar á lífið í Suðursveit allt fram á okkar daga
Dagskráin er eftirfarandi:
Guðsþjónusta; Séra Sigurður Kr. Sigurðarson
Upplestur; Völvan á Kálfafellsstað; Þorbjörg Arnórsdóttir
Tónleikar; Magnús Eiríksson og Pálmi Gunnarsson
Gönguferð að Völvuleið; Fjölnir Torfason segir frá
Tónleikarnir eru styrktir af Menningarráði Suðurlands
Kálfafellstaðarkirkja og Þórbergssetur standa fyrir viðburði þessum.
Allir eru velkomnir og vinsamlega látið boð ganga til ferðamanna sem eiga leið um Skaftafellssýslur þessa helgi.

Óþrotlegur auður

graeni jakiLjósmyndasýningin ,,Óþrotlegur auður“ er metnaðarfull og nýstárleg sýning þar sem markmiðið er að  tengja bókmenntatexta úr verkum Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar við ljósmyndir og standa þannig fyrir kynningu á stórbrotnu landslagi Skaftafellssýslna með nýstárlegri framsetningu. Sýningunni er ætlað að auka þekkingu ferðamanna á fjölbreytilegri náttúru í Skaftafellssýslum, en um leið að kalla fram hughrif, upplifun og áhuga á að heimsækja aftur og aftur þetta einstaka landsvæði til að njóta náttúrunnar―bæði að sumri til og vetri.

Í verkum Þórbergs Þórðarsonar má víða finna einstakar lýsingar á náttúru og umhverfi. Hann segir á einum stað að hann hafi snemma tekið eftir því stóra í hinu smáa og á öðrum stað segir hann að það hafi aldrei hvarflað annað að honum en að allt í náttúrunni væri með lífi―enda tala steinar, náttúran andar og stynur og veraldarhafið syngur margraddaðar óperur í suðrinu. Textarnir sem birtir eru með ljósmyndunum eru úr eftirtöldum verkum Þórbergs Þórðarsonar: Steinarnir tala, Um Lönd og lýði, Bréfi til Láru og Ofvitanum.

Lesa meira

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 222
Gestir þennan mánuð: ... 6429
Gestir á þessu ári: ... 50896