Stórvirki í smíðum
Þórbergssetur og Bókaútgáfan Sæmundur vinna nú að útgáfu á stórvirki Gísla Sverris Árnasonar fræðimanns um Dilksneshjónin Halldóru og Eymund.
Bækurnar spanna tímabilið frá síðustu árum 18. aldar og fram um miðja 20. öld. Þær segja ekki aðeins sögu fjölskyldunnar heldur um leið héraðssögu Hornafjarðar á 19. öld, sögu vesturheimsferða Íslendinga og þjóðarsögu fátækrar bændaþjóðar.
Hér segir frá ungum fátækum Öræfingi Meyvanti Jónssyni frá Hofi. Með hjálp unnustunnar Halldóru Stefánsdóttur frá Árnanesi brýst hann til nokkurra virðinga. Hann er bóndi, læknir, smiður og sveitarskáld í Dilksnesi og saman eignast þau hjónin sextán börn.
Árið 1879 auglýsir Meyvant í Þjóðólfi að hann hafi breytt nafni sínu og heiti hér eftir Eymundur. Halldóra kona hans er ósátt við þessa fyrirtekt manns síns og kallar hann áfram Meyvant.
Þrátt fyrir nokkrar mannvirðingar og að þau hjón tilheyra efra lagi bændasamfélagsins þá eru efnin lítil og lífsbaráttan hörð. Sambland af frelsisþrá og erfiðleikar í bláfátæku landi hrekja því fjölskylduna til Vesturheims árið 1902 en þar hefur nánasta ættfólk Halldóru þegar komið sér fyrir.
Fimm árum síðar koma þau aftur heim í Hornafjörð.
Áskrift að bókum þessum má kaupa hér