Skip to main content

Merkilegt málþing í Þórbergssetri 17. júní

Boðið verður til málþings í Þórbergssetrinu í Suðursveit þjóðhátíðardaginn 17. júní. Málþingið hefst kl 13:00 en að því loknu verður farið inn í Papbýli og skoðaðar fornar rústir sem þar hafa fundist. Málþingið er haldið  með erlendum fræðimönnum og sæfarendum, sem siglt hafa um papaslóðir á N-Atlantshafi á írsku skútunni ,,Ár Seachrán", Ferðalangi. Hún lagði úr höfn frá bænum Ventrý í Kerrý héraði á  degi heilags Breandans, sæfara, 16 maí sl.  Írski sagnfræðingurinn og sægarpurinn Paddy Barrý stýrir skútunni, en hann þekkir vel til siglinga á norðurhöfum og heimsskautasvæðum. Hann mun lýsa för Ferðalangs, en líka fjalla um fyrri tíma rannsóknarferðir á norðurslóðum. Dr. Jonathan Wooding, sem er kennari við Háskólann í Wales í keltneskri kristni og sagnfræði, mun fjalla um Papa og lýsa stöðum í úthafinu þar sem þeir munu hafa komið sér fyrir til helgihalds á fyrri tíð og gera grein fyrir þeim trúarhugmyndum, er mótuðu hátterni þeirra. Þekktur írskur tónlistarmaður er með í för og mun leika ,,keltneska" tónlist. Málþingið er opið öllum sem hug hafa á efni þess.
Dagskrá

 

Sæfarendur og fræðimenn frá Írlandi koma í heimsókn .
13:00 Ferð skútunnar Ferðalangs í máli og myndum og fyrri rannsóknarferðir í norðurhöfum
          Paddy Barry skipstjóri
13:50 Papar, trúarhugmyndir þeirra  og viðkomustaðir þeirra í norðurhöfum
          Dr Jonathan Wooding prófessor í keltneskri kristni og sagnfræð
15:00 Ferð í Papbýli og skoðaðar fornar rústir
Írskur tónlistarmaður er með í för og skemmtir með írskri tónlist

Fyrsti viðkomustaður skútunnar„Ferðalangs" var klettaeyjan „Sceilg Mhichíl/Skellig Michael", sem er skammt undan Kerrýströndum. Eyjan er klettadrangur en var þó byggð munkum á fyrri tíð, svo sem býkúpulaga steinabyrgi, er enn standa, vitna um og voru vistarverur þeirra og helgidómur.

Þaðan lá leiðin á papaslóðir við vesturströnd Írlands og á Suðureyjum. Ein þeirra er „Iona", þar sem heilagur Kolum Killi kom upp klaustri á öndverðri 6. öld, er varð móðurklaustur fjölda annarra klaustra enda barst trúin þaðan með sínum vestrænu/keltnesku einkennum vítt um lönd og höf.  Í ævisögu Kolum Killa, sem Adómnán, 9. ábóti klaustursins, skráði á sjöundu öld, er sagt frá tilraunum til að sigla frá Iona á úthafið í leit að griðarstöðum.

Frá Iona var siglt til eyja norður af Skotlandi, Orkneyja og Shetlands þar sem finnast fjöldi papastaða og ummerkja, en ekki tókst þó að koma þar við á öllum þeim stöðum sem áætlað var vegna veðurofsa og ólaga er fylgdu í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum.

Hingað til lands kemur Ferðlangur frá Færeyjum, en þar er bæði að finna örnefni sem vísa til keltneskra sagna og fornar leifar. Brendansvík er t.d. í Kirkjubæ og á Leirvík á Austurey eru ummerki um bænhús vestrænnar gerðar. Á leiðinni til Íslands verður siglt að Mikinesi þar sem finnast fornar rústir af kirkju, er borið hefur írsk auðkenni.

Ferðlangur er væntanlegur frá Færeyjum 15. júní til Djúpavogs eftir að hafa siglt að Papey. 18. júní siglir hann til Vestmannaeyja og kemur þangað samkvæmt áætlun á kvennadaginn 19. júní. Leiðangursmenn hyggjast gæta þar að hugsanlegum ummerkjum um vestræna menn á fyrri tíð. Þeir ætla sér að vera þar á lengsta degi ársins, sumarsólstöðum 21. júní, en þær höfðu mikla þýðingu í hugarheimi Kelta bæði fyrir og eftir að þeir urðu kristnir. Sólin var þeim táknmynd um elsku Guðs, er skapaði heiminn og opinberaðist í mannmynd sinni Jesú Kristi, sem væri ljós heimsins og úthellti geislum sínum yfir líf og heim. Eftir að hafa kynnt sér manngerðu hellanna við Seljaland, sem eru með krossum og trúartáknum á veggjum og  hafa verið grafnir út töluvert fyrir ,,viðurkennt" landnám Íslands, svo sem nýlegar rannsóknir Vestur- Íslendingsins dr. Kristjáns Ahronsonar sýna fram á, sigla þeir á Jónsmessu til baka á skútu sinni Ferðalangi til Írlandsstranda.

Málþingi frestað

Vegna eldgossins í Grímsvötnum  og óvissuástands hefur verið ákveðið að fresta málþinginu Á slóðum bókanna . Núna eru vegir lokaðir og flug liggur niðri og óvíst hvernig framhaldið verður.

Ekki reyndist mögulegt að finna tíma fyrr en 17. september vegna þess að mikið er bókað strax í byrjun júní á Hala

Málþing um Einar Braga í Þórbergssetri

Málþingið hefst kl. 14:00 á uppstigningardegi 21. maí og lýkur kl. 14:00 á föstudeginum 22. maí. Fluttir verða fyrirlestrar um lífsstarf Einars Braga út frá ýmsum sjónarhornum, sem og um önnur „atómskáld“. Lesið verður úr bókum Einars Braga, en einnig farið í heimsókn að Sléttaleiti. Einar Bragi skrifaði þrjár bækur með fróðleik um Suðursveit undir heitinu, Þá var öldin önnur, þar er m.a. fjallað um búskaparhætti á Sléttaleiti á fjórða áratug síðustu aldar. Þar bjó þá Sveinn Einarsson móðurbróðir Einars, en Einar dvaldi hjá þeim hjónum á Sléttaleiti um tíma. 
 Guðrún Sveinsdóttir frá Sléttaleiti endurbyggði bæjarhúsið í minningu foreldra sinna og ánafnaði síðan Rithöfundasambandi Íslands húsið til minningar um Einar Braga. Þar eru ýmsar minjar sem tengjast skáldinu og verkum hans sem gaman er að skoða. Áður hafði Einar Bragi haft forgöngu um að endurbyggja smiðjuna á Sléttaleiti til að framfylgja heiti Sveins, smiðjan gæti verið að grunni til sú sama og Ingimundur Þorsteinsson forfaðir Kvískerjabræðra byggði þar, en hann flutti bæinn frá Steinum að Sléttaleiti árið 1829 eftir stórflóð og grjóthrun úr fjallinu.

 

Málþing Þórbergsseturs eru nú árlegur viðburður og hefur alltaf verið góð aðsókn. Það er von okkar að sem flestir leggi leið sína í Suðursveit þessa daga til að njóta skemmtunar, fróðleiks og útiveru. Að málþinginu standa að þessu sinni Háskólasetrið á Höfn Hornafirði, Þórbergssetur og Rithöfundasamband Íslands.

Dagskrá:

14:00  Pétur Gunnarsson. Einar Bragi, samtímamaður.
14:30  Eysteinn Þorvaldsson: „Ég sem orðum ann.“ Um ljóð Einars Braga.
15:10  Kaffihlé
15:30  Aðalsteinn Ásberg.„Í mildu frjóregni.“ Um ljóðaþýðingar Einars Braga.
16:00  Jórunn Sigurðardóttir: „... get með sanni sagt að ég elska Sápmi
          og samísku þjóðina.“ Um Einar Braga og samískar bókmenntir.
19:00  Hátíðarkvöldverður með skemmtidagskrá

Föstudagur 22. maí
 
8:30-10 Morgunverður
10:00   Guðbjörn Sigurmundsson: Maðurinn í heiminum. Um tímann, ástina og
           dauðann í ljóðum Stefáns Harðar Grímssonar.
10.30 Soffía Auður Birgisdóttir: Strengurinn sem tengir móður og barn
           Um sjálfsæviskrif Einars Braga.
11:00  Kaffihlé
11:20  Svavar Steinarr Guðmundsson: „Af ímynduðum fundi Heideggers og
          Sigfúsar   Daðasonar við Miollis-torg í Provence.“
11:50   Hádegisverður
13:00  Fjölnir Torfason: Af mönnum ertu kominn. Um ættir og uppruna
          Einars Braga..
13:30  Heimsókn á Sléttaleiti.

Hægt verður að fá gistingu á Hala, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. sími 478 1073, á Gerði This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. sími 478 1905, á Smyrlabjörgum, smyrlabjorg@ smyrlabjorg.is sími 478 1074.og Skálafelli This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Sími 478- 1041
Máltíðir verða seldar á Þórbergssetri. Verð fyrir þá sem taka allar máltíðir kr. 6000
Nánari upplýsingar um málþingið veitir Soffía Auður Birgisdóttir, verkefnastjóri á Háskólasetrinu á Höfn. Sími 4708042 og 8482003. Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Athygli er vakin á að vorsýningar í Þórbergssetri eru opnar. Það eru sýningarnar Sagnalist, fermingarsögur  og málverkasýning Öldu Ármanna, Konan í forgrunni.

Allir velkomnir!

Ráðstefna í Háskóla Íslands og málþing í Þórbergssetri

Þann 12. mars næstkomandi eru liðin 120 ár frá fæðingu Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar frá Hala í Suðursveit. Háskóli Íslands, Þórbergssetur og Háskólasetrið á Hornafirði standa fyrir málþingum  í  tilefni þessara tímamóta.  Helgina 8. - 9. mars verður málþing og samkoma á vegum Háskóla Íslands þar sem fjöldi fyrirlesara og listamanna koma fram. Miðvikudaginn 12. mars verður síðan dagskrá í Þórbergssetri frá klukkan 10 um morguninn  og fram eftir degi. Mikill fjöldi fyrirlesara tekur þátt í afmælisþingunum á báðum stöðum. Þar má nefna m.a. Viðar Hreinsson bókmenntafræðing sem ætlar að fjalla um Suðursveitarbækur Þórbergs.  Bækurnar Bréf til Láru og  Steinarnir tala,-  hin fyrsta í ritröðinni um Suðursveit, -  verða gefnar út að nýju með formála eftir Soffíu Auði Birgisdóttur bókmenntafræðing Á þingunum verður fjallað um hin ýmsu verk Meistara Þórbergs svo sem Ævisögu Árna Þórarinssonar, Sálminn um blómið og ritgerðir Þórbergs.  Án efa kemur fram ný sýn á þessi sígildu verk höfundarins og verður forvitnilegt að kynnast nýjum viðhorfum til verka skáldsins.

Í bland við fræðilega umfjöllun verður flutt skemmtiefni og  farið í stuttar gönguferðir.  Í Reykjavík verður gengið í fylgd Péturs Gunnarssonar á milli gömlu húsanna í miðbænum og vesturbænum þar sem Þórbergur bjó. Á Hala verða bæjarrústir Steins afa skoðaðar,  en einnig  verður gengið upp að Steinum, minnisvarðanum um þá bræðurna frá Hala. Þar verður staldrað við á miðju sögusviðinu og lesið  upp úr bókinni Steinarnir tala. Vonir standa til að hægt verði að fá landsfræga leikara til að lesa upp úr verkum skáldsins og skemmta málþingsgestum.

Háskóli Íslands hyggst síðan gefa út í sérstöku riti alla þá fyrirlestra sem fluttir verða á afmælisþingunum. Dagskrá afmælisþinganna verður auglýst betur þegar nær dregur. Hægt er að sækja hluta dagskrárinnar, það er fólk getur komið og farið og sótt þá fyrirlestra sem hver og einn vill hvort sem er í Reykjavík eða á Þórbergssetri.

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 0
Gestir þennan mánuð: ... 8411
Gestir á þessu ári: ... 86474