Skip to main content

Frásögn af spólu, Vilhjálmur á Gerði, Völvuleiði

Völvuleiði
Fyrir utan Kálfafellsstað er þúfa nokkur á sléttum bakka sem að kölluð er
Völvuleiði. Sú sögn fylgir að þegar fljótlega eftir að kristni var lögtekin á Íslandi þá hafði
verið byggð kirkja á Kálfafelli eystra sem kallað var þá og ákveðið þar prestssetur. En
þar hefði á þeim tíma búið kona margkunnug og hefur hún líklega orðið að rýma þegar
ákveðið var að prestur byggi þarna á Kálfafelli eystra. Henni hefur sjálfsagt líkað það illa
að rýma og lagði það á að það skyldi enginn prestur ílengjast á Kálfafellsstað lengur en
20 ár. Þeir sem að yrðu lengur, það myndi/mundi sækja óhöpp og ófarnaður að þeim. En
ég skal nú geta þess að það virðist nú ekki hafa verið á síðari öldum því að allt frá 1600
hafa prestar á Kálfafellsstað verið mjög spakir og flestir setið þar lengur en 20 ár og
sumir mjög lengi. Það er, eins og ég gat um áðan, þá er svokallað Völvuleiði á bökkunum
fyrir utan Kálfafellsstað og fylgir því sú sögn að ef að staðarprestur lætur hressa upp á
leiðið, s.s. hlaða það upp, þá verði hann fyrir einhverju happi.

Lesa meira

Gos í Öræfajökli

ÖræfajökullNú þegar Öræfajökull hefur hrist sig í tvö ár er ekki úr vegi að kynna sér sögu jökulsins, en þá einkum eldgosasöguna. Það vakti athygli mína þegar ég las Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar hversu staðhæfingasamir þeir eru um tvö atriði sem lúta að eldgosum í Öræfajökli. Þessi tvö atriði ef sönn reynast munu gjörbreyta þekkingu okkar og skilningi á eldstöðinn Öræfajökli og hugsanlega öðrum eldstöðvum honum tengdar.

Ferðabók Eggerts og Bjarna er skipt niður í 914 kafla, en í kafla 782 er fjallað um Öræfajökul, hér segir ,,Öræfajökull er eldjökull sem spúð hefur eldi og vatni. Hann skiptist í tvo hluta, sem báðir hafa gosið. Annar þeirra er Sandfellsjökull. Undir honum stendur prestsetrið og kirkjustaðurinn Sandfell. Austari hlutinn heitir Knappafellsjökull. Kallast hann svo af tveimur kringlóttum jökulþúfum austast á honum, sem líkjast helst kringlóttum hnöppum. Öræfajökull er einn af hæstu jöklum landsins og þeim öllum brattari, því að hann líkt og hangir fram yfir byggðina. Hann er hvítur og bjartur tilsýndar, en er annars eldfjall, sem oft hefir gosið með með miklum eld- og vatnagangi. Næst lýsa þeir tveimur síðustu gosum í jöklinum sem þeir telja þau kunnustu og jafnframt stærst. Þetta eru gosin 1362 og 1727.“

Lesa meira

Leyndardómar Suðursveitar

Það var ennþá svarta myrkur þennan morgun, klukkan var ekki orðin fimm, en samt voru komin ljós í glugga á bæjunum á Hala. Fólk sást hlaupa milli bæja, bera saman bækur sínar, spá í veðrið og veðurspána milli þess sem borðaður var staðgóður og vel útilátinn morgunverður. Tekið var til nesti handa hverjum og einum sem ætla mætti að dygði meðalmanni í tvo daga, fundnir mannbroddar og reynt hvort leðrið í þvengnum dygði nú ekki eina ferðina enn og síðast en ekki síst voru valin bestu og léttustu klettaböndin, þau gerð upp í jafna og fallega hringi, síðan bundið vandlega að hringnum og að lokum bundin tvöföld lykkja um vaðinn svo þægilegt væri að bera hann á öxlinni.

Dagurinn er 20. september 1985, það var ætlun fjögurra manna að freista þess að komast að því hvað hefði orðið um fjárhóp sem vitað var að hafði haldið sig í og við Mávatorfu í Innri-Veðurárdal síðasta vetur og jafnframt að kanna betur fjöllin og jöklana á þessum slóðum.

Þetta var í fimmta sinn sem lagt var upp í sérstakan jökla- og landkönnunarleiðangur af bændum í Suðursveit á 200 hundruð ára tímabili, sérstaklega til að kanna landvæðið vestan Þverártindseggja og Veðurárdalsfjöll. Fyrsti leiðangurinn var farinn 1793, annar 1850, þriðji 1928 og sá fjórði var farinn 1932.

Lesa meira

Ferming í Suðursveit fyrir 50 árum

Torfhildur Hólm Torfadóttir skrifar:

Árið 1959 rann upp með hvítri snjóþekju á jörðinni og tunglskinsbjartri nýársnótt. Þetta herrans ár áttu þrír unglingar í henni Suðursveit að ganga fyrir gafl og staðfesta skírnarheitið. Þetta voru Sigurgeir Jónsson á Skálafelli, Sigríður Jóhanna Sigfúsdóttir á Brunnavöllum og undirrituð Torfhildur Hólm Torfadóttir á Hala. Presturinn, séra Sváfnir Sveinbjarnason á Kálfsfellsstað kallaði okkur til sín fyrir páskana og setti okkur fyrir það sem skyldi læra fyrir ferminguna. Við áttum að læra utanbókar 25 sálma og marga aðra áttum við að lesa yfir og kynna okkur. Við áttum að læra fjallræðuna utanbókar, sæluboðin, trúarjátninguna, faðirvorið og einhverjar fleiri ritningagreinar. Einnig áttum við að lesa biblíusögurnar vel og vandlega. Mér féll nú allur ketill í eld þegar ég sá alla þessa sálma sem þurfti að læra. Þá voru góð ráð dýr.

Lesa meira

Hönnuðir

Arkitekt og hönnuður byggingar eru Sveinn Ívarsson og Jón Þórisson. Hönnuður sýningar er Jón Þórisson. Textahöfundur sýningar er Jón Hjartarson leikari.

Upplýsingar

Í anddyri Þórbergsseturs er upplýsingamiðstöð þar sem starfsmenn Þórbergsseturs fræða gesti um starfsemi setursins, Þórberg Þórðarson og sögu Suðursveitar. 

Gestakomur


Gestir í dag: ... 27
Gestir þennan mánuð: ... 8899
Gestir á þessu ári: ... 16939